Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 80/2016 og 182/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 80/2016 og 182/2016

Föstudaginn 23.september 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd Reykjavíkur


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfum 22. febrúar 2016 og 20. maí 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurðum barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. janúar 2016 og 20. apríl 2016 vegna umgengni við son hans, C. Málin voru sameinuð við meðferð þeirra hjá úrskurðarnefndinni.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er fæddur árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hans, sem fór ein með forsjána, samþykkti varanlegt fóstur drengsins hjá móðurömmu hans og fósturafa árið X. Drengurinn hefur því dvalið hjá fósturforeldrum sínum frá X aldri. Samskipti drengsins við kæranda hafa verið lítil og engin regluföst umgengni verið. Frá því að drengurinn var X ára og til X ára aldurs var engin umgengni við kæranda. Í X hafði kærandi, sem afplánar X ára refsidóm á Litla Hrauni, samband við drenginn í gegnum samskiptasíðuna Facebook. Í framhaldi af samskipum þeirra óskaði kærandi eftir umgengni við drenginn. Frá X og þar til í X var umgengni kæranda við drenginn þrisvar sinnum á fósturheimili hans. Umgengni gekk vel auk þess sem þeir áttu vikuleg samskipti í síma. Ekki náðist samkomulag um umgengni.

Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 23. júní 2015 úrskurðaði nefndin að kærandi hefði umgengni við drenginn fjórum sinnum á ári í tvo tíma í senn og að símtöl í heimasíma fósturforeldra færu fram einu sinni í mánuði. Samskipti í gegnum aðra miðla voru ekki heimiluð samkvæmt úrskurðinum. Kærunefnd barnverndarmála felldi þann úrskurð úr gildi og vísaði málinu til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju vegna ágalla á málsmeðferð nefndarinnar.

Frá því að úrskurðað var í málinu í júní 2015 breyttust aðstæður drengsins og kæranda til hins verra. Frá X hefur drengurinn glímt við bæði hegðunar- og vímuefnavanda. Drengurinn kveðst hafa notað kannabisefni reglulega, auk þess sem hann hafi sniffað, neytt ritalíns og tekið inn sveppi í þeim tilgangi að komast í vímu. Skólaganga drengsins hefur gengið erfiðlega og mætti hann nánast ekkert í skóla á X. Drengurinn hefur verið greindur með ADHD og kvíða og hefur hann undirgengist mat hjá geðlækni og sálfræðingi. Hann hefur hvorki viljað hitta geðlækni né sálfræðing frá því X. Fósturforeldrar drengsins hafa þegið Fjölkerfameðferð (MST) á vegum Barnaverndarstofu frá því í X.

Drengurinn átti umgengni við kæranda X. Kærandi var þá í meðferð á D og til stóð að hann afplánaði dóm á Vernd að lokinni meðferð. Umgengnin var undir eftirliti og fór fram í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Umgengnin gekk vel og ræddi kærandi meðal annars við drenginn um þær afleiðingar sem vímuefnaneysla hefði haft á líf hans. Vildi kærandi að eigin sögn stuðla að því að drengurinn hætti neyslu vímuefna. Kærandi lauk vímuefnameðferð í X og var í kjölfar hennar fluttur á Vernd þar sem til stóð að hann myndi ljúka afplánun. X síðar féll hann á vímuefnabindindi og afplánar nú dóm sinn á Litla Hrauni.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir á fundi nefndarinnar 25. janúar 2016 og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður auk þess sem bent var á kæruheimild:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Símtöl eru heimiluð fyrsta mánudag í mánuði í heimasíma fósturforeldra. Samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla eru ekki heimiluð nema í undantekningartilfellum þegar ekki er hægt að koma á umgengni með öðrum hætti á þeim tíma sem umgengni á að fara fram, þá verði hlutast til um að umgengni geti farið fram með aðstoð tölvu í gegnum Skype forritið.“

Kærandi kærði úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndar velferðarmála en niðurstaða nefndarinnar í málinu lá ekki fyrir þegar barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði aftur um umgengi drengsins við kæranda. Í gögnum þess máls kemur fram að drengurinn sé í vímuefnaneyslu og að staða hans hafi versnað mikið undanfarið. Drengurinn og kærandi hafi verið í samskiptum á Facebook og bendi margt til þess að kærandi hafi útvegað drengnum vímuefni.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir á fundi nefndarinnar 20. apríl 2016 og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður auk þess sem bent var á kæruheimild:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi ekki umgengni við föður sinn, A. Símtöl og samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla eru ekki heimiluð.“

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru vegna úrskurðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. janúar 2016, þar sem ákveðin var takmörkuð umgengni kærandi við drenginn, er þess krafist að úrskurður barnverndarnefndarinnar verði felldur úr gildi og úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um réttmæta umgengni þar sem gagnkvæmur réttur barns og kynforeldris sé virtur. Auk þess sé þess krafist að kæranda sé heimilt að hringja í drenginn einu sinni í viku eða eins og drengurinn vilji sjálfur hafa það.

Í kæru er rakinn aðdragandi málsins og greint frá samskiptum kæranda við son hans. Fram kemur að þeir hafi átt í samskiptum frá X þrátt fyrir að þeim hafi verið gert erfitt fyrir með ýmis konar takmörkunum. Á þessum tíma hafi þeir feðgar náð að tengjast betur og ljóst að drengurinn telji samskiptin hafa góð áhrif á sig. Það hafi því vakið mikla furðu að barnaverndarnefnd hafi með áætlunum og úrskurðum sínum dregið enn frekar úr samskipum þeirra. Kærandi telji það skaðlegt drengnum. Þá telji kærandi að þegar þeir feðgar hafi verið í sambandi og náð að tengjast hafi fósturforeldrar unnið gegn því með því að takmarka samskipti þeirra. Þá telji kærandi að í þau skipti sem skorið hafi verið á samskipti þeirra hafi fósturforeldrar viljað láta líta svo út sem kærandi hafi ekki haft áhuga á sambandi við drenginn. Kærandi vísar til þess að drengurinn eigi rétt á því að umgangast föður sinn og kærandi eigi rétt á því að njóta umgengni við barn sitt, sbr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Auk þess sem drengurinn eigi X hálfsystkini sem hann hafi áhuga á að kynnast. Kærandi vilji styrkja þau tengsl og vísar til handbókar Barnaverndarstofu þar sem greint sé frá því að hafa beri í huga að almennt sé það börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra.

Drengurinn sé núna á X. aldursári og hafi aðspurður viljað hitta kæranda meira og hafi upphaflega sjálfur lagt til að þeir feðgar myndu hittast annan hvern mánuð eða sex sinnum á ári. Drengurinn hafi ávallt talið umgengnina ganga vel og hafi verið ánægður með vikuleg símtöl þeirra á sínum tíma, enda hafi hann ítrekað þá ósk sína að tala oftar við kæranda. Kærandi bendir á að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi átt viðtal við drenginn X og eftir þann fund lagt til að umgengnin yrði eins og drengurinn óskaði, sem var þá sex sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn á fósturheimilinu og að símtölin yrðu einu sinni í viku. Þetta hafi verið lagt til þar sem samskiptin hefðu jákvæð áhrif á drenginn. Kærandi kveðst hafa verið skýr í kröfum sínum um það að rödd drengsins fengi að heyrast og að farið væri eftir vilja hans, enda sé það ekki andstætt hagsmunum hans og gangi ekki of langt. Kærandi krefst þess að rödd drengsins fái að heyrast sem aðili málsins og að tekið verið tillit til skýrslu lögmanns sem skipaður hafi verið talsmaður drengsins.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga (bvl.) sé barn, sem náð hafi 15 ára aldri, aðili máls, sbr. 74. gr. sömu laga. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi þótt ástæða til að leggja á það sérstaka áherslu á fundi 26. maí 2015 að ekki væru forsendur til þess að ganga gegn óskum drengsins sem hafði lýst yfir vilja til að efla og styrkja tengsl við kæranda. Einnig hafi komið þar fram að nefndin teldi það þjóna hagsmunum drengsins best að umgengni við kæranda yrði í samræmi við vilja drengsins.

Kærandi telur að engin málefnanleg rök séu að baki úrskurði barnaverndarnefndarinnar og engan veginn rökstutt með fullnægjandi hætti sú ákvörðun að fara gegn vilja drengsins.

Ljóst sé að drengurinn hafi rétt á umgengni samkvæmt 81. gr. bvl. Að mati kæranda séu þær takmarkanir á símtölum feðganna brot á réttindum drengsins. Ekkert bendi til þess að frekari símtöl þeirra feðga geti haft skaðleg áhrif á drenginn. Þá gerir kærandi athugasemd við að barnaverndarnefnd telji að aukin símtöl við kæranda „þjóni ekki markmiði fósturs“. Að mati kæranda sé þetta mál ekki sambærilegt og þegar um sé að ræða fósturráðstöfun á byrjunarstigi og barn ungt.

Kærandi vísar til álits umboðsmanns barna þar sem lagðar voru spurningar fyrir embættið og hafi þau svör fylgt kærunni. Þar komi fram að umboðsmaður telji ekki rétt að takmarka umgengni af þeirri ástæðu einni að barni hafi verið ráðstafað í varanlegt fóstur. Sömu sjónarmið eigi vissulega að liggja til grundvallar þegar umgengni sé ákveðin, sama hvort um sé að ræða umgengni eftir barnalögum eða barnaverndarlögum. Staðan sé væntanlega sú hjá drengnum að hann sé búinn að aðlagast fósturfjölskyldunni, en í frumvarpi með barnaverndarlögum komi fram að hagsmunir barnsins geti krafist þess að umgengni sé takmörkuð á meðan barnið aðlagist nýrri fjölskyldu. Slíkt eigi ekki við í umræddu máli og eigi því að skoða málið út frá hagsmunum barnsins og aðstæðum þess í dag.

Kærandi telur þá umgengni, sem úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. janúar 2016 kveði á um, vera byggða á ómálefnanlegum rökum. Barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem þeim eru nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindarákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Réttur barns til að þekkja foreldra sína sé lögfestur í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og í 1. mgr. 7. gr. samninga Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Réttur þessi sé mjög mikilvægur þar sem börn eigi rétt á að þekkja uppruna sinn og njóta umönnunar foreldra sinna, sbr. 1. mgr. 7. gr. barnasáttmálans.

Enn fremur byggi kærandi á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi telur að með engu móti hafi verið sýnt fram á að slíkt eigi við í máli þessu.

Með vísan til framangreinds telji kærandi að barnaverndarnefndin hafi brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti drengsins með úrskurði sínum með því að fara gegn hóflegum óskum hans um vikuleg símtöl við kæranda, en þann rétt hljóti stjórnvöld að eiga að vernda.

Í kæru vegna úrskurðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016, þar sem ákveðið var að kærandi hefði enga umgengni við drenginn, er þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um réttmæta umgengni þar sem gagnkvæmur  réttur barns og kynforeldris sé virtur. Kærandi krefst þess að þeir feðgar fái að njóta umgengni fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, á meðan kærandi afplánar dóm sinn. Auk þess krefst kærandi þess að honum sé heimilt að hringja í drenginn einu sinni í viku eða eins og drengurinn vilji sjálfur hafa það.

Í kærunni er farið yfir aðdraganda málsins og málavexti. Greint er frá því að málið hafi aftur komið til úrskurðar barnaverndanefndarinnar vegna túlkunar nefndarinnar og fósturforeldra á samkiptum þeirra feðga og samskiptum drengsins og vinar hans, allt í gegnum Facebook.

Kærandi krefst þess að þeir feðgar fái að njóta þeirrar umgengni sem þegar hafi verið búið að úrskurða um, auk vikulegra símtala. Kærandi kveðst sýna því skilning að aðstæður leyfi ekki rúma umgengni á meðan hann afpláni dóm sinn á Litla Hrauni og hafi hann því verið þakklátur fyrir þá umgengni sem þó hafi átt að fara fram, þrátt fyrir að hann myndi vilja hafa hana rýmri. Sú umgengni sem hafi verið í gildi áður en barnaverndarnefnd ákvað enga umgengni hafi verið undir eftirliti. Kærandi greinir frá því að hann geti ekki fallist á að sú umgengni hafi verið bersýnilega andstæð hagsmunum drengsins. Þá verði ekki komist hjá því að benda á að það að heimila ekki umgengni og byggja það á eins veikum grunni og gert hafi verið í þessu máli, brjóti gegn rétti þeirra feðga til samvista.

Varðandi þau samskipti sem kærandi og drengurinn hafi átt á Facebook og voru til þess fallin að vekja grunsemdir hjá fósturforeldrum og barnavernd um að kærandi hefði verið að útvega drengnum fíkniefni, greinir kærandi frá því að útskýring hans hafi komið fram í greinargerð hans 12. apríl 2016 til barnaverndarnefndar. Nefndin hafi ákveðið að taka ekki mark á þeim skýringum, jafnvel þótt drengurinn sjálfur hefði sagt að „túlkun“ fósturforeldranna og barnaverndar hafi ekki átt við nein rök að styðjast. Því hafi aldrei verið tilefni til þess að hafna umgengni alfarið.

Kærandi ítrekar að ekki sé að sjá hvers vegna umgengni geti ekki haldið áfram þar sem hún sé undir eftirliti. Sé ekki vilji til þess að láta kæranda njóta vafans um það hvað umrædd Facebook samskipti hafi borið með sér, þá ætti umgengni undir eftirliti samt sem áður ekki að skaða einn né neinn, heldur frekar verða til þess fallin að koma aðilum að sáttarborðinu og vonandi hjálpa drengnum á rétta braut. Að mati kæranda séu alger boð og bönn erfið í svona tilfellum.

Kærandi telur ósanngjarnt að segja að kærandi hafi brotið gildandi umgengnisúrskurð með því að vera í samskiptum við drenginn á Facebook. Drengurinn hafi sett sig í samband við kæranda vegna þess að hann vilji eiga samskipti til hann. Stjórnvöld og fósturforeldrar hafi bannað honum umrædd samskipti sem sé mjög erfitt þegar um sé að ræða dreng á X. aldursári sem sæki fast að tengjast föður sínum og jafnvel sé rétt að skoða hvort það sé í raun heimilt. Kærandi kveður það vera erfitt að vera alfarið á hliðarlínunni og vita til þess að drengurinn sé að taka feilspor í lífinu og jafnvel sömu feilspor og kærandi sjálfur en mega ekkert gera. Kærandi kveðst vilja drengum allt það besta og hugsi aðeins um hans hagsmuni. Þá verði ekki séð hvers vegna drengurinn megi ekki setja sig í samband við sambýliskonu kæranda. Drengurinn hafi áhuga á því að tengjast og kynnast föðurfjölskyldu sinni. Ekki megi gleyma því að hann eigi X systkini sem búi hjá sambýliskonu kæranda og ekkert óeðlilegt við það að hann vilji kynnast þeim, enda sé það réttur hans. Hafa beri í huga að það sé almennt börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra. Gæti því jafnvel verið um að ræða sjálfstæðan umgengnisrétt standi stjórnvöld og fósturforeldrar í vegi fyrir tengslum þarna á milli.

Kærandi telur það með ólíkindum miðað við gögn málsins að honum sé kennt um nánast allt sem rangt fari og að nú eigi að loka á alla umgengni milli þeirra feðga vegna óljósra samskipta. Kærandi kveðst ekki sjá hvernig allt eigi þá að lagast og ganga upp ef stanslaust sé farið gegn vilja drengsins.

Kærandi vísar til þess að barnaverndarnefnd hafi ekki sýnt fram á það að áframhaldandi umgengni, þ.e. umgengni undir eftirliti, sé andstæð hagsmunum drengsins. Í málinu sé ekkert sem réttlæti þá takmörkun. Afstaða drengsins hafi verið mjög skýr og hana beri að virða, nema það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum drengsins og ósamrýmanlegt þeim markmiðum sem stefnt sé að með fósturráðstöfun. Umgengni undir eftirliti geti ekki talist ganga bersýnilega gegn hagsmunum eða þörfum drengsins. Gögn málsins beri frekar með sér að drengurinn hafi þörf fyrir að eiga einhvers konar samskipti við kæranda. Þá sé drengurinn að verða 16 ára og fósturráðstöfun að fara að ljúka. Það sé því eðlilegt að miða ekki við hvað sé markmið fósturs, sem kannski eigi við í öðrum tilfellum eða þegar um sé að ræða mun yngra barn.

Ljóst sé að drengurinn eigi rétt á umgengni samkvæmt 81. gr. bvl. Kærandi telur að í raun hafi verið um tálmun að ræða þegar hin íþyngjandi ákvörðun var tekin. Umræddar takmarkanir brjóti gegn réttindum drengsins sem sé aðili að málinu og hafið látið skoðun sína í ljós. Ástæða umræddar tálmunar sé túlkun á samskiptum í gegnum Facebook en aðilar máls hafi útskýrt hvað þar fór fram. Kærandi þvertekur fyrir það að hafa útvegað drengnum fíkniefni og kveðst staðfesta að það muni hann aldrei geta.

III. Sjónarmið C

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir upplýsingum frá talsmanni drengsins um stöðu hans sem og afstöðu hans til kæra kæranda. Í bréfi talsmanns, sem barst nefndinni 14. september 2016, kemur fram að drengnum hafi verið kynntar framkomnar kærur og efni þeirra. Fram kemur að drengurinn hafi hætt neyslu ávana- og fíkniefna og ekki verið í neyslu af neinu tagi í meira en þrjá mánuði. Drengurinn hafi sjálfur sagst hafa verið kominn í alvarlegan vanda vegna neyslunnar vorið C og þegið ráðgjöf til þess að vinna bug á vandanum. Í tengslum við ráðgjöfina hafi hann dvalið ásamt ráðgjafa á E sumarið X sem hafi gert honum gott. Talsmaður kveður mikla breytingu hafa orðið á drengnum hvað varðar viðhorf hans til fíkniefna frá því að hún ræddi síðast við hann og sé hann ákveðinn í að hætta neyslu þeirra alfarið. Drengurinn sé núna í fastri vinnu á sama stað og fósturfaðir og líði að eigin sögn mjög vel þar. Aðspurður óskar drengurinn eftir því að umgengni við kæranda verði svipuð eins og upphaflega hafi verið ákveðið, í fjögur skipti á ári. Drengurinn kveðst ekki nota tölvupóst eða Facebook nema að litlu leyti, en hann myndi vilja heyra í kæranda símleiðis einu sinni í viku.

Afstaða drengsins var könnuð vegna tillögu, sem lögð var fyrir barnaverndarnefndina 19. janúar 2016, þess efnis að umgengni við kæranda yrði fjórum sinnum á ári og símtöl einu sinni í mánuði. Í skýrslu talsmanns drengsins kom fram sú afstaða drengsins að hann samþykki umgengni fjórum sinnum á ári og með því fyrirkomulagi sem lagt hafi verið til. Drengurinn hafi hins vegar farið fram á að eiga vikuleg símöl við kæranda og jafnframt að hann mætti eiga samskipti til hann á samskiptamiðlum með sambærilegum hætti. Að mati drengsins gildi það einu hvort hann eigi samskipti til kæranda í síma eða noti til þess annan samskiptamiðil. Drengurinn telji sig eiga rétt til þess að eiga samskipti við kæranda fyrir utan þá umgengni sem sé fyrirfram ákveðin og vilji hann eiga þann möguleika að geta rætt við kæranda einu sinni í viku, óháð samskiptamiðli.

Talsmaðurinn leitaði einnig afstöðu drengsins vegna tillögu, sem lögð var fyrir barnverndarnefndina 12. apríl 2016, þess efnis að úrskurður um umgengni hans við kæranda yrði endurskoðaður samkvæmt fyrirliggjandi tillögu frá 31. mars 2016 um enga umgengni við kæranda. Í skýrslu talsmannsins er greint frá því að drengurinn mótmæli tillögunni eindregið og geri kröfu um að eiga samskipti við kæranda, óháð afskiptum barnaverndarnefndar. Drengurinn telji ásakanir þess efnis að kærandi útvegi honum fíkniefni ekki eiga við rök að styðjast og byggðar á misskilningi. Sömuleiðis sé það á misskilningi byggt að kærandi telji það vera í lagi að reykja kannabis. Hið rétta sé að kærandi telji kannabisneyslu ekki eins alvarlega og aðra margvíslega neyslu á sterkari efnum. Drengurinn vilji umfram annað fá að kynnast föður sínum sem hann hafi ekki haft tækifæri til fyrr en nú. Fósturforeldrar og barnaverndaryfirvöld hafi komið í veg fyrir að hann hafi getað myndað tengsl við kæranda og fjölskyldu hans. Kærandi hafi sagt honum að hann hafi sem ungabarn unað sér vel á heimili föðurfjölskyldu sinnar, en barnaverndaryfirvöld hafi numið hann á brott þaðan að ástæðulausu. Drengurinn krefst þess að tekið verði tillit til sjónarmiða hans við ákvörðun samkvæmt meginreglu 2. mgr. 4. gr. bvl., sbr. 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

IV.  Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykavíkur 4. apríl 2016 varðandi hinn kærða úrskurð um takmarkaða umgengni kemur fram að þess sé krafist að úrskurðurinn verði staðfestur og tekið verði tillit til stöðu drengsins.

Fram komi í gögnum málsins að um sé að ræða dreng á X. aldursári sem sé í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni og stjúpafa. Hann hafi dvalið á heimili þeirra frá X aldri. Drengurinn hafi verið í óreglulegri umgengni við kæranda frá fæðingu. Kærandi, sem afpláni dóm á Litla Hrauni, hafi glímt við neysluvanda og fallið síðast á vímuefnabindindi í X. Kærandi hafi í X óskað eftir reglulegri umgengni og að hún tæki mið af vilja drengsins þar um.

Feðgarnir hafi hist alls fjórum sinnum frá því í X. Umgengni þeirra hafi farið fram á fósturheimili drengsins og í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Kærandi hafi verið í samskiptum við drenginn í síma einu sinni til tvisvar sinnum í viku frá því í X til X en þá hafi kærandi hætt að hringja í drenginn, án þess að gefa honum nokkra ástæðu fyrir því. Kærandi hafi ekki haft aftur samband við drenginn fyrr en í X þrátt fyrir heimild til þess.

Drengurinn hafi sjálfur greint frá því að hann vildi ræða við kæranda í síma tvisvar sinnum í mánuði og hitta hann fjórum sinnum á ári. Að mati fósturforeldra væri hæfilegra að símtöl væru einu sinni í mánuði þar sem þau gætu verið álag fyrir drenginn.

Miklir erfiðleikar hafa verið með drenginn á fósturheimilinu og mikið álag á fósturforeldrum. Mat starfsmanna hafi verið það að mikil samskipti gætu aukið enn á erfiðleikana sem gætu jafnvel leitt til fósturrofs. Þá hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur talið að tíð símtöl kæranda og drengsins, í samræmi við óskir þeirra, yrðu til þess að stuðla að tengslum þeirra á milli en slíkt sé ekki markmið með varanlegu fóstri. Á grundvelli þess mats hafi það verið niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur að umgengni yrði fjórum sinnum á ári undir eftirliti í húsnæði á vegnum Barnaverndar og símtöl einu sinni í mánuði. Samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla væru ekki heimiluð, en þó með þeim undantekningum þegar fyrirséð væri að ekki væri hægt að koma á umgengni með öðrum hætti vegna persónulegra aðstæðna aðila.

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 4. apríl 2016 kemur fram að staða drengsins sé mjög viðkvæm. Drengurinn hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna undanfarna mánuði og hafi í tvígang frá því í X dvalið á neyðarvistun Stuðla. Tilgangur vistunar hans þar hafi verið að stöðva hann í neyslu. Drengurinn hafi hvorki viljað hitta geðlækni né sálfræðing frá því X.

Í mars 2016 hafi fósturforeldrar komist yfir samskipti drengsins við kæranda í gegnum Facebook. Í ljós hafi komið að drengurinn hafði verið í miklum samskiptum við kæranda sem var í afplánun á Litla Hrauni. Í þessum samskiptum virtist sem kærandi hafi verið að útvega drengnum fíkniefni. Kærandi segi m.a. „eg þarf að lata þig fá simanumer hja gaur“. Svo segir hann „hann græjar þig“. Í sama samtali segi hann „eiddu skilo“. Drengurinn hafi einnig verið í samskiptum við F, sambýliskonu kæranda. Þar segi „Geturðu sagt pabba að hringja í mig? Pabbi ætlar að láta G senda mer 1-2 stk. fyrir kvöldið skoo.“. F hafi svarað því að hún muni skila því til kæranda að hringja. Í samskiptum drengsins við H, X ára gamlan vin hans, segi drengurinn „missti af mikilvægu símatali“ H spyr: „frá“ og drengurinn svarar „pabba“ og segir svo „þetta er mikilvægt ef hann hringir ekki þá er ekkert weed“.

Í kjölfarið hafi mál drengsins verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 16. mars 2016 þar sem bókað hafi verið að það væri andstætt hagsmunum drengsins að vera í umgengni og samskiptum við kæranda og jafnvel skaðlegt. Þá væru samskipti við kæranda mjög truflandi. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi tekið undir framangreint mat og talið ljóst að það væri andstætt hagsmunum drengsins að vera í umgengni og samskiptum við kæranda að svo stöddu. Mikilvægt væri að drengurinn og fósturforeldrarnir hefðu frið til að vinna á þeim vanda sem fyrir dyrum stæði. Það væri því mat nefndarinnar að samskipti þeirra feðga hefðu truflandi áhrif á drenginn og væru til þess fallin að skaða drenginn frekar en verða honum til hagsbóta. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur vísar til ákvæða 74. gr. bvl. þar sem kveðið sé á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri, nema sú umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið ákvörðun nefndarinnar að engin umgengni væri milli feðganna.

V. Sjónarmið fósturforeldra

Í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. janúar 2016 er greint frá afstöðu fósturforeldra til takmarkaðrar umgengni kæranda við drenginn. Fram kemur að fósturforeldrar hafi verið sammála tillögunni en þau vildu ekki símtöl oftar en lagt hafi verið til. Slíkt ylli miklu umróti og usla í huga drengsins. Því væri hafnað að samskipti feðganna hefðu engin áhrif á drenginn og að mikið hefði breyst síðan málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd síðast. Nú væri drengurinn í neyslu, þyrfti að skipta um skóla og MST meðferð væri kominn inn á heimilið. Þá væri það mat fósturforeldra að nauðsynlegt væri að fylgjast með símtölum á milli feðganna því að kærandi hefði verið staðinn að því að segja hluti við drenginn sem hefðu áhrif á hann. Umgengni í varanlegu fóstri væri til að viðhalda tengslum en ekki til að skapa tengsl. Þá hafi kærandi verið staðinn að því að hringja í farsíma drengsins þrátt fyrir að hafa ekki heimildir til þess. Einnig hafi kærandi hvatt drenginn til þess að halda samskiptum þeirra leyndum. Kærandi hafi lofað að fara ekki á bak við þau í samskiptum við drenginn en það hafi hann ekki staðið við. Þrátt fyrir að kærandi hafi sagst vilja hjálpa þá hafi það komið upp að menn sem tengdust honum hafi látið drenginn fá vímuefni og hafi fósturfaðir tvívegis farið í hús þar sem frændi kæranda hafi látið drenginn fá gras.

Í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016 er greint frá afstöðu fósturforeldra um tillögu þess efnis að drengurinn hefði enga umgengni við kæranda. Fram kemur að fósturforeldrar væru sammála tillögunni. Þau telji að gögn málsins sýni með óyggjandi hætti að samskipti geti ekki verið drengnum til hagsbóta. Þá virði kærandi ekki fyrirliggjandi úrskurð um takmarkaða umgengni. Kærandi eigi í samskiptum við drenginn á internetinu þar sem hann meðal annars hvetji drenginn til að fara á bak við fósturforeldra sína. Þá hafi það verið mat lögmanns fósturforeldra að kærandi hafi haft milligöngu um það að útvega drengnum fíkniefni. Einnig hafi lögmaður fósturforeldra bent á að það væri augljóslega ekki til hagsbóta fyrir drenginn að vera í umgengni við kæranda auk þess sem hann gerði allt til að grafa undan fósturforeldrum. 

Þá væri drengurinn hræddur við kæranda og þyrði ekki að andmæla honum. Fósturforeldrar vilji ná drengnum úr neyslu og þurfi þau frið til þess. Þá sé mikilvægt að drengurinn fái frið til að styrkja sig til þess að geta sett kæranda mörk í samskiptum þeirra.

Kærunefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til kæra með tölvupósti 15. september 2016 og barst svar þeirra með tölvupósti 18. september 2016. Í svari þeirra kemur fram að þau styðji þá ákvörðun að stöðva alla umgengni drengsins við kæranda.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er fæddur árið X. Drengurinn lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur samkvæmt barnaverndarlögum en móðir hans, sem fór ein með forsjá hans, samþykkti varanlegt fóstur drengsins hjá móðurömmu hans og fósturafa X. Kærandi er faðir drengsins en samskipti þeirra hafa verið stopul frá fæðingu hans. Engin umgengni var á milli feðganna frá því að drengurinn var X til X ára.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2016 var umgengni drengsins við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári, í tvo tíma í senn, undir eftirliti. Símtöl voru heimiluð einu sinni í mánuði. Kærandi krafðist þess að símtöl væru heimiluð einu sinni í viku.

Vegna nýrra upplýsinga í málinu um rafræn samskipti drengsins var málið aftur tekið til afgreiðslu barnaverndarnefndarinnar. Með hinum kærða úrskurði 20. apríl 2016 var ákveðið að engin umgengni yrði á milli feðganna. Kærandi krafðist þess að umgengni yrði fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, á meðan hann afplánar dóm sinn. Einnig krafðist kærandi þess að honum yrði heimilað að hringja í drenginn eitt símtal í viku eða eins og drengurinn vildi hafa það.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 4. gr. sömu laga skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum drengsins og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Hagsmunir drengsins eru þeir að öryggi hans verði sem best tryggt og að hann njóti verndar.

Fyrir úrskurðarnefndinni liggja tvær ákvarðanir í máli drengsins sem voru báðar teknar með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Með úrskurði 25. janúar 2016 ákvað barnaverndarnefndin að umgengni drengsins við kæranda væri takmörkuð, en í ljósi nýrra upplýsinga ákvað barnaverndarnefndin með úrskurði 20. apríl 2016 að drengurinn hefði enga umgengni við kæranda. Kærandi kærði báða úrskurði barnaverndarnefndarinnar.

Varðandi ákvörðun barnaverndarnefndarinnar frá 25. janúar 2016 telur úrskurðarnefndin að með því að takmarka umgengni drengsins við kæranda, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, hafi verið stefnt að því að markmið varanlegs fósturs næði fram að ganga. Markmiðið hafi verið að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika.

Hér er um að ræða dreng sem átti á þessum tíma í umtalsverðum vanda og þurfti sérstaka vernd og stöðugleika í fóstrinu. Hann þurfti sérstaklega á að halda samfelldum ótrufluðum tíma til þess að hægt væri að ná tökum á vanda hans. Vegna þessa var staða hans þannig að brýnt var að koma í veg fyrir þá truflun sem gæti hlotist af umgengni við kæranda, væri hún ekki takmörkuð verulega. Afstaða drengsins breytir ekki þessu mati úrskurðarnefndarinnar. Einnig ber að líta til þess að fósturforeldarnir, sem hafa það erfiða verkefni að hjálpa drengnum í vanda hans, hafa talið að það þjóni ekki hagsmunum drengsins að hafa umgengni.

Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að umgengni kæranda við drenginn hafi þurft að takmarka eins og gert var með hinum kærða úrskurði og nauðsynlegt að hún væri undir eftirliti eins og kveðið er á um í úrskurðinum. Verður því að hafna kröfum kæranda um frekari samskipti í síma en metin var hæfileg í hinum kærða úrskurði. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með vísan til þess sem að framan greinir að á þessum tíma hafi umgengni kæranda við C verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði 25. janúar 2016 og að þar hafi einnig verið réttilega mælt fyrir um framkvæmd umgengninnar. Samkvæmt því ber að hafna þeirri kröfu kæranda að ákveðin verði rýmri umgengni hans við drenginn en kveðið var á um með framangreindum úrskurði.

Varðandi ákvörðun barnaverndarnefndarinnar frá 20. apríl 2016 þar sem ákveðið var að drengurinn hefði enga umgengni við kæranda, telur úrskurðarnefndin að staða drengsins sé að nokkru leyti breytt frá því að barnaverndarnefndin úrskurðaði í málinu í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem talsmaður drengsins hefur veitt úrskurðarnefndinni, hefur drengurinn ekki notað fíkniefni í þrjá mánuði og leitað sér aðstoðar vegna fíknisjúkdóms. Forsenda hins kærða úrskurðar um enga umgengni var að drengurinn væri í neyslu fíkniefna og að hann vildi ekki leita sér aðstoðar. Úrskurðarnefndin telur að sá tími sem liðið hefur frá því að drengurinn hefur hætt neyslu fíkniefna sé alltof stuttur til þess að hægt sé að segja til um það hvort hann geti náð tökum á þessum vanda sínum. Eins og staða drengsins er í dag er nauðsynlegt að ákveðinn tími líði þar til unnt verður að taka ákvörðun um hvort það þjóni hagsmunum drengsins að haga umgengninni eins og drengurinn og kærandi óska eftir. Úrskurðarnefndin telur að öllu þessu virtu að tímabært sé að endurmeta stöðu drengsins og umgengni við kæranda að ári liðnu frá uppkvaðningu úrskurðarins.

Með vísan til þessa ber að staðfesta úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. apríl 2016 með þeirri breytingu sem að framan greinir.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurðir barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2016 og 20. apríl 2016 varðandi umgengni A við son hans, C, eru staðfestir, að öðru leyti en því að endurmeta skal stöðu drengsins svo og inntak og framkvæmd umgengni hans við kæranda að ári liðnu frá uppkvaðningu úrskurðarins.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum