Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 151/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 151/2016

Miðvikudaginn 31. ágúst 2016

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B, lögfræðingi

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 20. apríl 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 6. apríl 2016, þar sem umsjónarmaður mælti gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ákvörðun umsjónarmanns barst kæranda 12. apríl 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. apríl 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þann 4. maí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar. Umsjónarmaður sendi málið til umboðsmanns skuldara í niðurfellingarferli 13. desember 2012 og í kjölfarið felldi umboðsmaður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Með úrskurði 1. október 2015 var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi. Núverandi umsjónarmaður var skipaður í máli kæranda 28. október 2015.

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið sent kröfuhöfum 28. janúar 2016. Andmæli hafi borist frá Arion banka en bankinn hafi ákveðið að hafna frumvarpinu vegna „óráðsíu í skuldasöfnun“. Einnig hafi Landsbankinn hafnað frumvarpinu á þeim forsendum að kærandi hefði aldrei getað staðið undir þeim skuldum sem hún hafi stofnað til. Kærandi sé án atvinnu, hún eigi hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né framfærslustyrk frá sveitarfélagi og þiggi framfærsluaðstoð frá föður sínum. Heildarskuldir hennar séu 91.825.414 krónur og greiðslugeta neikvæð. Engar skýringar aðrar en fasteignakaup og lágar tekjur hafi verið gefnar á skuldasöfnun. Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um mótmælin og að samningar samkvæmt IV. kafla lge. myndu ekki takast. Kærandi hafi þá greint umsjónarmanni frá því að hún vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í kjölfar skoðunar málsins taldi umsjónarmaður sig ekki geta mælt með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmist á. Með bréfi 6. apríl 2016 tilkynnti umsjónarmaður kæranda um þá ákvörðun sína að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mæla skuli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignakrafa komist á skuli meðal annars litið til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafi látið málið til sín taka.

Kærandi sé þinglýstur eigandi fasteignarinnar að C, og er fasteignamat eignarinnar 31.800.000 krónur vegna ársins 2016. Kærandi sé einnig þinglýstur eigandi fasteignar að D, en fasteignamat þeirrar eignar sé 26.350.000 krónur. Umsjónarmaður hafi kannað verðmæti sambærilegra eigna á sama svæði og telji fasteignamat eignanna endurspegla raunvirði þeirra.

Heildarkröfur á hendur kæranda séu 103.307.301 króna. Þær skiptist þannig að 1.365.292 krónur séu utan greiðsluaðlögunar, 90.974.814 krónur séu veðkröfur á fasteignum kæranda og 10.927.433 krónur séu samningskröfur. Kærandi sé X árs einstæð móðir með X ára barn. Hún búi í fasteign sinni að C. Hún sé atvinnulaus og kveðist hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá föður sínum. Kærandi hafi hvorki getað staðfest þetta með gögnum né veitt upplýsingar um fjárhæð aðstoðarinnar.

Greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 86.000 krónur á mánuði miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara en þá hafi ekki verið tekið tillit til húsnæðiskostnaðar. Við útreikning á greiðslugetu sé miðað við að kærandi fái mánaðarlegan framfærslustyrk að fjárhæð 150.000 krónur frá sveitarfélagi, en það séu töluvert hærri tekjur en kærandi hafi fengið á tímabili greiðsluskjóls.

Um greiðsluaðlögun fasteignakrafna fari eftir lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignakrafna nr. 50/2009. Í 3. málslið 1. mgr. 4. gr. laganna komi fram að héraðsdómari hafni beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna sé fjárhagur skuldara slíkur að annað hvort verði honum mögulegt að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar, meðal annars með því að nýta sér önnur greiðsluerfiðleikaúrræði, eða ljóst verði að telja að honum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna. Í þeirri lagagrein segi að fastar mánaðarlegar greiðslur af fasteign megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu.

Þar sem greiðslugeta kæranda sé neikvæð sé ljóst að hún uppfylli ekki skilyrði laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna til að leggja fram beiðni þar að lútandi. Umsjónarmaður geti því ekki mælt með því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á.

Samningskröfur og kröfur utan greiðsluaðlögunar nemi alls 12.292.725 krónum. Jafnvel þó að mælt væri með því að samningskröfur væru gefnar eftir að öllu leyti með frumvarpi að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar liggi fyrir að kærandi myndi þrátt fyrir það standa eftir með þær kröfur sem væru umfram söluverð fasteignar, en þær kröfur verði samningskröfur við nauðasamning. Þessar kröfur séu um 30.000.000 króna hærri en söluverð eignarinnar. Ávinningur kæranda af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar væri því afar takmarkaður sé litið til markmiða 1. mgr. 1. gr. lge. Færi kærandi á leigumarkað mætti gera ráð fyrir að greiðslugeta kæranda yrði áfram verulega neikvæð. Því sé ljóst að kærandi muni ekki geta greitt þær kröfur sem eftir kunni að standa þótt eignir hennar yrðu seldar.

Þegar ákvörðun er tekin um hvort mæla eigi með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar beri einnig að líta til þess hvort skilyrði 12. gr. lge. hafi verið uppfyllt. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Á þeim tæplega fimm árum sem kærandi hafi notið greiðsluskjóls hafi hún stofnað til nýrra skulda að fjárhæð 1.365.292 krónur. Umsjónarmaður telji skuldasöfnun þessa brjóta gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvort heimilt sé að mæla með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, beri umsjónarmanni að líta til framkominna andmæla kröfuhafa. Umsjónarmaður geti ekki litið fram hjá þeim andmælum sem kröfuhafar kæranda hafi fært fram.

Með vísan til framangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að henni verði heimilað að koma á nauðasamningum, sbr. 18. gr. lge.

Fram kemur í kæru að einu skuldirnar sem kærandi hafi safnað á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, séu fasteignagjöld. Því sé hvorki um að ræða óráðsíu né nýjar skuldbindingar heldur viðbótarkröfur vegna eigna sem kærandi eigi nú þegar.

Að því er varði leigutekjur af fasteigninni við D hafi faðir kæranda greitt henni 120.000 til 150.000 krónur á mánuði fyrir afnot af eigninni. Kærandi hafi margoft upplýst umboðsmann skuldara um það.

Um þessar mundir sé mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði í sveitarfélagi kæranda. Því væri það kæranda ekki til bóta að selja báðar fasteignir sínar og fara á leigumarkað. Það kynni þó að hafa góð áhrif á greiðslugetu kæranda ef fasteignin að C yrði seld á almennum markaði og kærandi fengi að hlutast til um það hverjir myndu kaupa D svo að kærandi gæti búið þar án þess að greiða leigu eða greiða lága leigu. Yrðu skuldir hennar umfram söluverð fasteignanna felldar niður væru meiri líkur á því að kærandi gæti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umsjónarmanns er byggð á mati á þeim atriðum sem skylt er að horfa til samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. þegar taka þarf ákvörðun í tilefni af því að kærandi hefur óskað eftir að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í fyrsta lagi mælir umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur komist á þar sem ljóst sé að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. með því að hafa stofnað til nýrra skulda að fjárhæð 1.365.292 á tímabili greiðsluaðlögunar. Hún hafi því brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en þar segir að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynlegt til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki hægt að slá því föstu að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þrátt fyrir skuldasöfnun á tímabili greiðsluskjóls eða frá árinu 2012. Samkvæmt gögnum málsins eru þær skuldir einkum vegna fasteignagjalda, lækniskostnaðar og lögbundinna trygginga. Úrskurðarnefndin horfir aðallega til þess að greiðslugeta kæranda hefur verið neikvæð á tímabilinu. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þær skuldir sem kærandi stofnaði til í greiðsluskjóli hafi verið nauðsynlegar til að sjá kæranda og fjölskyldu hennar farborða. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á sjónarmið umsjónarmanns að hún hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umsjónarmanns á því að kærandi geti ekki staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 86.000 krónur á mánuði og því muni hún ekki geta staðið í skilum með lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu af fasteign samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna nr. 50/2009. Af þeim sökum beri að mæla gegn því að nauðasamningur komist á. Þá séu áhvílandi skuldir á fasteign kæranda að Þóristúni 7 hærri en verðmæti eignar. Við sölu eignarinnar yrði áhvílandi veðkröfum, sem væru umfram söluverðmæti fasteignarinnar, breytt í samningskröfur sem kærandi þyrfti að greiða af. Það myndi því ekki leysa vanda kæranda að fella alfarið niður núverandi samningskröfur. Loks beri umsjónarmanni að líta til andmæla kröfuhafa.

Í 3. málslið 1. mgr. 4. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009 kemur fram að héraðsdómari hafni beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna sé fjárhagur skuldara slíkur að annað hvort megi honum vera kleift að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar, meðal annars með því að nýta sér önnur greiðsluerfiðleikaúrræði, eða ljóst verði að telja að honum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna. Í síðastnefnda ákvæðinu segir meðal annars að fastar mánaðarlegar greiðslur þeirra krafna sem greiðsluaðlögun taki til megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir þá eign sem greiðsluaðlögun taki til. Samkvæmt gögnum málsins eru báðar fasteignir kæranda yfirveðsettar. Þá er bæði greiðslugeta kæranda og nettó eignastaða verulega neikvæð. Þar af leiðandi hefur hún ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða mánaðarlegar greiðslur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009. Því er ljóst, samkvæmt framangreindu, að kærandi uppfyllir ekki skilyrði tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Í ljósi þess, sem og viðhorfa lánardrottna, verður að telja óraunhæft að kærandi muni geta staðið við skuldbindingar sínar að lokinni greiðsluaðlögun og er því að þessu leyti fallist á sjónarmið umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur fyrir kæranda komist á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns um að mæla ekki með nauðasamningi kæranda samkvæmt 18. gr. lge. staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, lögfræðings, um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna A, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum