Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 180/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 180/2016

Miðvikudaginn 2. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 13. maí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. apríl 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Kærandi lagði fram rökstuðning með kæru 22. júní 2016.

Með bréfi 27. júní 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. júlí 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. júlí 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 4. ágúst 2016. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 5. ágúst 2016 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Embættið taldi ekki efni til að aðhafast frekar í málinu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1971. Hún býr í eigin fasteign að B sem er 74,6 fermetrar að stærð.

Kærandi hefur verið í námi og er nú í virkri atvinnuleit. Hún fær greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.

Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara 11. apríl 2016 eru heildarskuldir kæranda 35.905.907 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. september 2015 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. mars 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.

Umsjónarmaður vísaði í bréfinu til þess að kærandi ætti íbúð að B. Verðmat eignarinnar sé 21.000.000 króna og sé þar miðað við ásett söluverð svipaðra eigna. Þær kröfur, sem tryggðar séu með veði í fasteigninni og rúmist innan matsverðs hennar, séu samtals eftirfarandi í krónum:

Kröfuhafi Fjárhæð Mánaðarleg
greiðslubyrði
Íbúðalánasjóður 8.879.601 34.560
Íbúðalánasjóður 1.251.109 10.912
Íbúðalánasjóður 178.118 5.164
Lífeyrissjóður 8.136.373 34.671
Arion banki (hluti kröfu) 2.553.881 27.688
Samtals: 112.995

Að auki hvíli lögveðskröfur vegna fasteignagjalda, vatns- og fráveitugjalda og brunatrygginga á eigninni alls að fjárhæð 842.142 krónur.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærandi eigi 27.688 krónur á mánuði aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, en miðað sé við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir marsmánuð 2016 og meðaltal útborgaðra tekna kæranda á tímabilinu janúar til mars 2016. Því liggi fyrir að kærandi geti ekki greitt af þeim veðkröfum sem falli innan matsverðs fasteignarinnar, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði lge. til að halda fasteigninni eftir í greiðsluaðlögun. Í ljósi þess hafi umsjónarmaður ákveðið að selja skyldi eignina, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge., en samkvæmt því lagaákvæði geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá komi fram í 5. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmaður skuli óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns um að selja eignina eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eignar.

Kærandi hafi fengið fresti frá nóvember 2015 fram í mars 2016 til að útvega sér starf og/eða leggja fram gögn er sýndu fram á að fjárhagur hennar færi batnandi. Hún hafi ekki getað sýnt fram á að úr þessu hefði ræst. Þá hafi kærandi ekki heldur samþykkt að selja íbúð sína.

Með vísan til þessa var umboðsmanni skuldara tilkynnt að umsjónarmaður teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil samkvæmt 15. gr., sbr. [5.] mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda tölvupóst 11. apríl 2016 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Efnislegar athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Með bréfi til kæranda 28. apríl 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að fá að haldast í greiðsluskjóli umboðsmanns skuldara í 18 mánuði frá 22. september 2015 að telja eða til 22. mars 2017. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Þann 22. ágúst 2016 séu ellefu mánuðir frá því að kærandi komst í greiðsluskjól. Eftir fimm mánuði í greiðsluskjóli hafi embættið krafist þess að annað hvort lyki greiðsluskjóli eða kærandi seldi íbúð sína. Kærandi telur Embætti umboðsmanns skuldara ekki sýna aðstæðum hennar nægan skilning og tímamörk sem henni séu gefin séu ekki sanngjörn.

Helstu rök fyrir kröfu sinni kveður kærandi þau að hún hafi verið í virkri atvinnuleit og sé í endurhæfingaferli hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Þá sé hún að ljúka [námi] og atvinnuhorfur séu góðar.

Kærandi hafi sótt um skattaívilnun til Ríkisskattstjóra. Það erindi hafi dregist en kærandi sæki um ívilnun nokkur ár aftur í tímann. Kærandi telur sig uppfylla þau skilyrði sem sett séu, enda hafi hún haft ágæt laun áður og mögulegt að hún fái endurgreiðslu.

Íbúð kæranda sé að hennar mati ekki yfirveðsett en hún hafi aukið verðmæti íbúðarinnar með því að útbúa þar nýtt herbergi. Kæranda sé full alvara með að halda íbúð sinni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Kærandi sé eigandi íbúðar að B. Fasteignamat eignarinnar sé 18.750.000 krónur en áætlað markaðsvirði samkvæmt athugunum umsjónarmanns sé um 21.000.000 króna. Á eigninni hvíli veðskuldir að fjárhæð 23.862.863 krónur, auk þess sem vanskil lögveðskrafna nemi 842.143 krónum. Mánaðarleg afborgun krafna sem falli innan matsverðs eignarinnar nemi 112.995 krónum.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé greiðslugeta kæranda 27.819 krónur á mánuði og dugi ekki til greiðslu afborgana af veðkröfum, en mánaðarlega vanti kæranda 85.176 krónur til þess að standa undir greiðslu þeirra. Þó að kærandi hafi greint frá því að hún stefni út á vinnumarkaðinn þegar greiðslu endurhæfingarlífeyris ljúki sé óljóst hvenær hún fái launatekjur eða hver greiðslugeta hennar verði. Af skattframtölum megi ráða að kærandi hafi síðast verið með launatekjur árið 2010. Kærandi hafi framvísað staðfestingu þess efnis að hún hafi lagt fram beiðni til Ríkisskattstjóra um lækkun á tekjuskattstofni. Verði umsóknin samþykkt kveðst kærandi meðal annars geta nýtt þá fjármuni sem hún fái endurgreidda til að standa undir greiðslum af veðkröfum. Óljóst sé hvort hún eigi rétt á endurgreiðslu eða hvenær niðurstaða í málinu liggi fyrir. Með vísan til þessa liggi ekkert fyrir um hvort eða hvenær kærandi verði fær um að greiða afborganir af fasteignaveðlánum sínum.

Kærandi hafi samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að tekjur hennar muni hækka þannig að hún geti greitt af veðkröfum innan matsverðs fasteignar hennar. Því sé fallist á það mat umsjónarmanns að nauðsynlegt sé fyrir kæranda að selja fasteign sína eigi að koma á samningi um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi ekki veitt heimild til sölu eignarinnar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi óskar eftir því að fá að haldast í greiðsluskjóli umboðsmanns skuldara í 18 mánuði frá 22. september 2015 að telja eða til 22. mars 2017. Úrskurðarnefndin vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 11. gr. lge. Þar kemur fram að þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól. Samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II við lge. fellur greiðsluskjólið niður að loknum kærufresti ef umboðsmaður skuldara fellir niður heimild til greiðsluaðlögunar. Kæri skuldari niðurfellingu umboðsmanns skuldara framlengist greiðsluskjól þar til niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála liggur fyrir. Staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur greiðsluskjólið þá þegar niður. Samkvæmt framansögðu skortir lagaskilyrði til að úrskurðarnefndin geti hlutast til um greiðsluskjól kæranda að öðru leyti en því að verði fallist á kröfu kæranda í málinu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir af því að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda halda áfram.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Kærandi hefur verið án atvinnu um nokkuð langt skeið. Á þeim tíma hafa tekjur hennar verið frá Tryggingastofnun ríkisins og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda á tímabilinu janúar til apríl 2016 voru að meðaltali 207.008 krónur. Mánaðarleg útgjöld kæranda miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á sama tíma voru 179.154 krónur. Greiðslugeta hennar var því 27.854 krónur á mánuði áður en greitt var af fasteignaveðlánum.

Kærandi er eigandi íbúðar að B. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíla 23.679.466 krónur á eignini. Fasteignamat fyrir árið 2016 er 18.750.000 krónur. Umsjónarmaður telur að matsverð íbúðarinnar sé 21.000.000 króna miðað við ásett söluverð svipaðra eigna. Kærandi álítur íbúðina verðmeiri án þess þó að hafa látið verðmeta hana. Samkvæmt þessu er ekki unnt að miða við annað matsverð en umsjónarmaður gerir. Samkvæmt gögnum málsins nemur greiðsla af áhvílandi lánum innan fyrrgreinds matsverðs fasteignarinnar rúmum 112.000 krónum á mánuði. Sem áður segir hefur kærandi aðeins 27.854 krónur aflögu á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum og vantar því rúmlega 84.000 krónur á mánuði til að geta greitt af veðlánum innan matsverðs. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., og gerði umboðsmaður skuldara það með ákvörðun 28. apríl 2016.

Af málatilbúnaði kæranda verður ekki annað ráðið en að hún hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um að selja fasteign sína. Kærandi telur líkur á að tekjur hennar muni aukast til framtíðar litið og því muni hún geta greitt afborganir af fasteigninni. Kærandi rökstyður það þannig að annars vegar eigi hún möguleika á að fá vinnu þegar hún ljúki námi og hins vegar telji hún líklegt að hún fái endurgreiðslu opinberra gjalda vegna lækkunar á tekjuskattstofni, en kærandi lagði fram umsókn þar að lútandi til Ríkisskattstjóra 23. júní 2016.

Úrskurðarnefndin getur ekki byggt niðurstöðu sína á öðru en þeim staðreyndum og gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu. Ekkert í gögnum málsins styður sjónarmið kæranda um að tekjur hennar muni aukast í framtíðinni vegna atvinnu og/eða endurgreiðslu opinberra gjalda. Kærandi vísar þannig til óvissra og ókominna atvika sem óljóst er hvort og þá hvenær verði. Af þeim sökum er ekki unnt að byggja úrlausn málsins á þessum sjónarmiðum kæranda.

Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara, um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum