Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2011

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Íbúðalánasjóður auglýsti í október 2010 laust starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum þar sem hún taldi sig vera hæfari eða jafn hæfa þeim karli sem ráðinn var, á grundvelli menntunar sinnar, hæfni og reynslu. Íbúðalánasjóður taldi hins vegar að karlinn hefði verið hæfasti umsækjandinn um starfið, meðal annars á grundvelli menntunar og starfsreynslu. Kærunefnd jafnréttismála taldi að Íbúðalánasjóður hefði sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið því til grundvallar hver ráðinn var í starfið. Taldist Íbúðalánasjóður því ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf framkvæmdastjóra sjóðsins.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. ágúst 2011 er tekið fyrir mál nr. 4/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru dagsettri 11. apríl 2011, móttekinni sama dag, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort kærði, Íbúðalánasjóður, hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þegar stjórnin réð B í starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs þann 1. nóvember 2010.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 2. maí 2011. Íbúðalánasjóður óskaði eftir fresti til að svara efni kærunnar. Hinn 30. maí 2011 barst umsögn kærða með bréfi. Kærandi fékk umsögn Íbúðalánasjóðs til kynningar þann 31. maí 2011.
  4. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dagsettu 14. júní 2011 og var kærða gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við greinargerðina á framfæri með bréfi, dagsettu 15. júní 2011. Hinn 29. júní 2011 bárust athugasemdir Íbúðalánasjóðs, dagsettar 27. júní 2011. Kærandi fékk afrit af athugasemdum Íbúðalánasjóðs til kynningar með bréfi, dagsettu 30. júní 2011.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Íbúðalánasjóður auglýsti starf framkvæmdastjóra sjóðsins laust til umsóknar í tvígang árið 2010, fyrst í apríl og síðan í október. Það var ráðgjafarfyrirtækið Capacent sem auglýsti í apríl og átti að ráða í starfið frá 1. júlí 2010. Umsækjendur voru 27 og að beiðni Íbúðalánasjóðs mat Capacent hæfni umsækjenda. Niðurstaðan varð sú að fjórir umsækjendur voru taldir hæfastir og var kærandi einn þeirra. Matið var meðal annars byggt á ferilskrá, persónuleikaprófi, tveimur viðtölum og umsögnum umsagnaraðila. Stjórn Íbúðalánasjóðs kom sér ekki saman um hvern ætti að velja í starfið.
  7. Ráðherra lagði til að stjórn Íbúðalánasjóðs skipaði valnefnd til að velja hæfasta umsækjandann og varð það úr. Niðurstaða valnefndarinnar var að leggja til að starfið yrði auglýst á ný. Það var gert af hálfu ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs, með auglýsingu í byrjun október 2010. Umsækjendur voru samtals 26. Hagvangur mat það svo að 14 umsækjendur uppfylltu þær lágmarkskröfur sem gerðar voru í auglýsingu og tóku ráðgjafar Hagvangs viðtöl við þá alla. Hluti þeirra umsækjenda sem metnir voru hæfastir gekkst undir persónuleikapróf og að því loknu voru fjórir umsækjendur metnir hæfastir. Var kærandi einn þeirra. Stjórn Íbúðalánasjóðs boðaði þessa umsækjendur í viðtal 29. október 2010.
  8. Á fundi sjóðsins sama dag var einum þessara umsækjanda boðið starfið en hann tilkynnti þann 1. nóvember 2010 að hann myndi ekki þiggja það. Sama dag hélt stjórnin fund þar sem tveir umsækjendur til viðbótar úr 14 manna hópnum voru teknir í viðtal þar á meðal sá er starfið hlaut. Að því loknu var borin upp tillaga um að bjóða honum starfið. Sú tillaga hlaut fjögur atkvæði. Einnig var borin upp tillaga um að bjóða kæranda starfið, sú tillaga fékk eitt atkvæði. Í kjölfarið var fyrrgreindi umsækjandinn, karlmaður, ráðinn framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs frá 1. nóvember 2010.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  9. Kærandi bendir á að sá er ráðinn var í starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi sótt um í bæði skiptin er starfið var auglýst, en í hvorugt skiptið hafi hann verið talinn meðal fjögurra hæfustu umsækjenda að mati Capacent og Hagvangs. Í bréfi Íbúðalánasjóðs frá 30. nóvember 2010, þar sem ráðningin sé rökstudd, komi ekki fram af hverju stjórn sjóðsins hafi virt ráðgjöf Hagvangs að vettugi og ráðið til starfans einstakling sem ekki hafi verið metinn meðal hæfustu umsækjenda.
  10. Kærandi rekur þau verkefni framkvæmdastjóra sem nefnd voru í auglýsingu um starfið sem birt var í október 2010. Hún kveðst í umsókn sinni og ferilskrá hafa gert ítarlega grein fyrir því með hvaða hætti hún uppfyllti reynslu-, menntunar- og hæfniskröfur. Upplýsingunum hafi kærandi fylgt eftir með viðtölum við ráðgjafa Hagvangs og Íbúðalánasjóð. Kærandi telur sig uppfylla mjög vel öll skilyrðin sem fram voru sett. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til umsóknar og ferilskrár og mats Capacent og Hagvangs þess efnis að kærandi hafði verið einn fjögurra umsækjenda sem var metinn hæfastur í starfið.
  11. Af hálfu kæranda er bent á að í rökstuðningi stjórnar sjóðsins komi fram að ráðgjafar Hagvangs hafi tekið viðtöl við 14 umsækjendur og leitað eftir meðmælum með þeim. Þetta hafi verið rangt þar sem ekki hafi verið leitað til þeirra fjögurra umsagnaraðila sem tilgreindir hafi verið með umsókn kæranda. Í bréfi Íbúðalánasjóðs frá 4. apríl 2011 hafi þessi rangfærsla verið leiðrétt. Þannig muni ekki hafa verið óskað eftir því af hálfu stjórnar Íbúðalánasjóðs að leitað væri umsagnar um kæranda.
  12. Kærandi bendir á að í auglýsingu um starfið hafi þess verið óskað að umsóknir yrðu fylltar út á vefsíðu Hagvangs. Þar sé gert ráð fyrir að umsækjendur tilgreini tvo umsagnaraðila. Sá sem ráðinn var hafi ekki tilgreint umsagnaraðila. Hann hafi hins vegar greint frá því í umsókn sinni að hann kysi einungis að leggja fram lista yfir umsagnaraðila þegar þess yrði óskað. Þess í stað hafi hann lagt fram skriflega umsögn á ensku. Kæranda hafi ekki verið bent á þá leið og hún hafi einnig talið að slík umsögn hefði lítið vægi. Kærandi gerir athugasemdir við það vinnulag sem hér hafi verið viðhaft og krefst þess að umsögn um þann sem ráðinn var verði ekki lögð til grundvallar mati á hæfni. Ekki sé jafnræði með kæranda og þeim sem ráðinn var varðandi þennan þátt.
  13. Kærandi fjallar um þann þátt í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs að haldgóð háskólamenntun þess sem ráðinn var á sviði fjármála og viðskipta falli vel að starfssviði sjóðsins og skipti miklu máli. Hún bendir á að ekki hafi verið áskilin menntun á sviði fjármála né viðskipta heldur háskólapróf sem nýttist í starfi. Kærandi búi að slíku námi. Hún hafi sex ára háskólanám að baki, eitt ár í viðskipta- og félagsvísindadeild og hafi lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands með 1. einkunn. Auk þess hafi hún réttindi sem héraðsdómslögmaður. Nám kæranda myndi nýtast vel í starfinu, hún hafi góða þekkingu á fjármálum, samningagerð, reglum um fjárhagslega ábyrgð og reglum kröfuréttar almennt. Þá þekki hún mjög vel löggjöf um nauðasamninga, greiðsluaðlögun, reglur uppboðsréttar auk regluverks Íbúðalánasjóðs.
  14. Þá hafi Íbúðalánasjóður tiltekið að sá sem ráðinn var búi yfir víðtækastri þekkingu og reynslu allra umsækjenda sem höfðu starfað á sviði fjármálaþjónustu. Kærandi telur þetta mat rangt, kærandi sé 11 árum eldri en sá sem ráðinn var og hafi umtalsvert lengri starfsreynslu. Hún hafi 25 ára starfsreynslu en hann 15 ára. Öll starfsreynsla kæranda varði verkefni Íbúðalánasjóðs. Kærandi hafi unnið við sölu fasteigna, við útlán til einstaklinga, að mati á veðhæfni fasteigna og innheimt vanskilaskuldir, aðstoðað skuldsett heimili og unnið að löggjöf á sviði húsnæðismála. Síðasta áratuginn hafi vinna kæranda verið stjórnsýsla, rekstur og stjórnun opinberrar stofnunar. Þá hafi kærandi umtalsverða þekkingu á stjórnun og rekstri hjá hinu opinbera. Þekking og reynsla þess sem ráðinn var virðist a.m.k. að mestu takmarkast við fjármálafyrirtæki á einkamarkaði.
  15. Í þessu sambandi vekur kærandi athygli á að ekki verði séð að sá sem ráðinn var hafi komið að einstaklingsútlánum eða greiðsluvanda heimilanna sem sé eitt stærsta verkefni Íbúðalánasjóðs um þessar mundir en á því sviði hafi kærandi víðtæka reynslu sem hún telji að nýtist stofnuninni vel, ekki hvað síst þeim sem til hennar leiti í greiðsluvanda og með ósk um ráðgjöf. Í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs sé hins vegar lögð mikil áhersla á reynslu þess sem ráðinn var af alþjóðlegum viðskiptum og tveggja vikna námskeiði fyrir stjórnendur í alþjóðlegu bankaumhverfi. Hér telur kærandi að þekking hennar og reynsla liggi nær starfsemi Íbúðalánasjóðs en þess sem ráðinn var.
  16. Varðandi þekkingu á íbúðalánum, sem í auglýsingu var talin æskileg, hafi það verið mat Íbúðalánasjóðs að sá sem ráðinn var stæði fremst af umsækjendum á þessu sviði þar sem hann hefði stýrt sérhæfðri vinnu á sviði einstaklingsviðskipta við ítarlega úttekt á fasteignalánasöfnum Landsbanka Íslands hf. og dótturfélagsins Heritable Bank.
  17. Um þetta tekur kærandi fram að hún hafi verið deildarstjóri húsnæðislánadeildar félagsmálaráðuneytis 1993–1996. Á þeim tíma hafi hún öðlast yfirgripsmikla reynslu og innsýn í málefni Húsnæðisstofnunar ríkisins og norræna húsnæðislöggjöf. Veigamikill þáttur starfa hennar í ráðuneytinu hafi verið að skrifa og vinna við lagafrumvörp og reglugerðir á sviði húsnæðismála, svo sem um húsaleigubætur og lög um Húsnæðisstofnun ríkisins ásamt frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun. Einnig hafi kærandi verið fulltrúi ráðuneytisins í samskiptum við Húsnæðisstofnun ríkisins. Þá hafi kærandi starfað í náinni samvinnu við stofnunina 1996–2000 á þeim árum sem hún hafi verið forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Auk þess hafi hún starfað í fjölmörgum nefndum á sviði húsnæðis- og greiðsluerfiðleikamála sem fulltrúi félags- og dómsmálaráðherra, samtals í tólf ár. Reynsla kæranda hafi orðið til og þekking aukist vegna starfa á þessum vettvangi í meira en áratug en þekking þess sem ráðinn var virðist tilkomin vegna tveggja úttekta á árinu 2008, sem séu bundnar við fjármálafyrirtæki á einkamarkaði.
  18. Kærandi telur því ljóst að hún hafi meiri þekkingu og reynslu á íbúðalánum og sú þekking og reynsla liggi nær verkefnum Íbúðalánasjóðs en þekking og reynsla þess sem ráðinn var. Í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs sé mikið gert úr reynslu þess sem ráðinn var af stjórnun og rekstri. Kærandi vekur athygli á 15 ára reynslu sinni á sviði stjórnunar og reksturs opinberrar stofnunar. Hún hafi unnið að stofnun, uppbyggingu og stjórnun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs hafi hún meðal annars annast starfsmannamál, gerð rekstraráætlunar og fjárlagagerð héraðsdómstólanna, annast daglegan rekstur í umboði dómstólaráðs, stýrt stefnumótun og áætlanagerð, unnið að ársskýrslum og upplýsingagjöf til ráðsins og átt umtalsverð samskipti við ráðuneyti, Alþingi og aðrar opinberar stofnanir. Helstu verkefni hennar fyrir dómstólaráð séu því um margt lík þeim verkefnum sem lýst hafi verið í auglýsingu um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Kærandi telur því að reynsla sín af stjórnun og rekstri sé meiri og sé nær verkefnum Íbúðalánasjóðs en þekking og reynsla þess sem ráðinn var.
  19. Íbúðalánasjóður hafi metið leiðtogahæfileika og lipurð þess sem ráðinn var í mannlegum samskiptum þá bestu sem fram hafi komið í umsóknarferlinu. Hvernig það mat hafi farið fram sé ekki skilgreint en þar sem ekki hafi verið leitað umsagnar um þessa þætti í fari kæranda, dragi kærandi matið í efa og krefst þess að þeir þættir verði ekki lagðir til grundvallar mati. Sama verði að segja um mat stjórnarinnar á frumkvæði og metnaði til að ná árangri í starfi. Hér sé um að ræða huglægt og órökstutt mat og með öllu óeðlilegt að tillit sé tekið til ummæla umsagnaraðila. Þessir þættir geti því ekki haft vægi við ráðninguna.
  20. Varðandi hæfni til að tjá sig leggur kærandi áherslu á að hún eigi auðvelt með að tjá sig í ræðu og riti, þá hæfni hafi hún öðlast síðastliðna áratugi, fyrst í lögmennsku, síðar í kennslu og sem fyrirlesari til margra ára. Auk þess hafi kærandi starfað sem pistlahöfundur hjá Morgunblaðinu um skeið og skrifað um fjármál heimilanna. Kærandi getur þess að hún hafi leiðtogahæfileika, frumkvæði, metnað og hæfni í mannlegum samskiptum. Um það geti samstarfsfólk hennar síðastliðna áratugi vitnað um, sé vilji til að leiða þá þætti fram.
  21. Þá vísar kærandi til þess að hún hafi tekið samtals þrjú persónuleikapróf hjá Capacent og Hagvangi vegna þess að hún hafi verið í úrvali um starf framkvæmdastjóra í bæði umsóknarskiptin. Vert sé að vísa í niðurstöður þessara prófa. Kærandi hafi sérstaklega skoðað prófin hjá Hagvangi sem sýni styrk hennar á öllum þeim sviðum sem prófuð hafi verið og eftirsóknarverð þyki í fari stjórnenda. Skor hennar hafi verið um 90 af 100 mögulegum, sem sé framúrskarandi og sýni sterka heildarniðurstöðu. Umsækjandinn sem valinn hafi verið hafi aldrei farið í þessi próf einfaldlega vegna þess að hann hafi ekki verið í úrvali og því Íbúðalánasjóður ekki með efnisgögn prófa til að bera þau saman.
  22. Með vísan til framangreinds telur kærandi ljóst að menntun hennar, hæfni og reynsla séu sérhæfðari og liggi nær þeim viðfangsefnum sem framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs sé ætlað að sinna en menntun og reynsla þess sem var ráðinn.
  23. Loks hafi Íbúðalánasjóður vikið að því að sá sem ráðinn var hafi á fundi með stjórn sýnt mjög næman og ríkan skilning á þjónustuhlutverki stofnunarinnar. Kærandi hafi gert ítarlega grein fyrir sýn sinni á mikilvægi þjónustu stofnunarinnar og þekkingu sinni á því sviði í samtölum við ráðgjafa og við stjórn sjóðsins. Þá sé það athyglisvert varðandi hæfniskröfurnar að Íbúðalánasjóður hafi vísað til þess að mat á hæfni byggðist á því sem fram hafi komið á fundi stjórnarinnar með þeim sem ráðinn var. Í því ljósi sé rétt að hafa í huga að sá sem ráðinn var virðist ekki hafa komið til greina sem framkvæmdastjóri stofnunarinnar fyrr en sama dag og hann hafi verið ráðinn, þrátt fyrir að umsókn hans hafi legið fyrir í tæpa sex mánuði. Rétt sé í því sambandi að vísa til tölvupósts frá Íbúðalánasjóði, dags. 10. janúar 2011, þar sem fram komi að sá sem ráðinn var hafi ekki verið í samanburðarhópnum. Þá komi fram í tölvupóstum sjóðsins frá 6. apríl 2011 að hann hafi hvorki verið í hópi hæfustu umsækjenda í fyrri umferð né í A-hópi Hagvangs.
  24. Fallist kærunefnd ekki á að mat Capacent og Hagvangs sé rétt og kærandi sé hæfari en sá sem ráðinn var, krefst kærandi þess að hún verði metin jafn hæf og hann. Að þeirri niðurstöðu fenginni og í þeirri stöðu hefði einnig borið að ráða kæranda.
  25. Með vísan til ítrekaðra fordæma Hæstaréttar beri að skýra ákvæði jafnréttislaga þannig, að ef kona og karl sækja um stöðu sé skylt að ráða konuna ef hún sé að minnsta kosti jafnt að stöðunni komin að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir, enda séu fáar konur á viðkomandi starfssviði. Samkvæmt tölulegum upplýsingum Jafnréttisstofu, Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytis hafi konur aðeins verið 30% forstöðumanna ríkisstofnana í janúar 2011. Sé litið til tölulegra upplýsinga um framkvæmdastjóra fyrirtækja komi í ljós að konur séu innan við 20% þeirra. Húsnæðisstofnun ríkisins og síðar Íbúðalánasjóði hafi verið stjórnað af körlum frá stofnun eða í 55 ár.
  26. Kærandi bendir á að skv. 18. gr. jafnréttislaga beri atvinnurekendum að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og sérstök áhersla skuli lögð á það að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Með því að ganga framhjá kæranda við ráðningu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi jafnréttislög verið virt að vettugi.
  27. Íbúðalánasjóður hafi haft tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að leiðrétta kynjahlutföll samfélagsins, í fyrra skiptið er starfið var auglýst hafi konur verið þrjár af fjórum hæfustu umsækjendunum og í síðara skiptið hafi verið ein kona af fjórum hæfustu umsækjendunum. Þrátt fyrir þá kosti sem í boði voru hafi engu verið skeytt um mat tveggja ráðgjafarfyrirtækja og í starfið ráðinn karl, sem í hvorugt skiptið hafði verið metinn meðal hæfustu umsækjenda. 

    SJÓNARMIÐ ÍBÚÐALÁNASJÓÐS
  28. Íbúðalánasjóður bendir á að í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sé meðal annars kveðið á um verkefni sjóðsins. Ákvæði laganna varpi skýru ljósi á inntak og umfang þess starfs sem framkvæmdastjóra sjóðsins sé ætlað að leysa af hendi. Við mat á þeim menntunar- og hæfniskröfum sem gerðar hafi verið í auglýsingu um stöðuna sé því nauðsynlegt að líta til þessara lagaákvæða og hvernig starfsemi sjóðsins sé háttað innan þeirra marka sem lög setji.
  29. Íbúðalánasjóður bendir á að skv. 8. gr. laganna ráði fimm manna stjórn Íbúðalánasjóðs framkvæmdastjóra en framkvæmdastjóri ráði annað starfsfólk sjóðsins, annist daglegan rekstur á skrifstofu sjóðsins, fjárreiður og reikningsskil. Þá bendir sjóðurinn á að í 9. gr. laganna séu listuð upp verkefni Íbúðalánasjóðs og það hafi verið þau lögbundnu verkefni sem höfð hafi verið til hliðsjónar þegar sjóðurinn mat umsækjendur. Í 9. og 10. gr. laganna komi fram að verkefni sjóðsins séu að stórum hluta viðskipta- og fjármálalegs eðlis.
  30. Á grundvelli 10. gr. laganna hafi verið sett reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, nr. 504/2004, sbr. reglugerð nr. 896/2005. Þá sé gert ráð fyrir því í 26. gr. laganna að íbúðabréf Íbúðalánasjóðs séu skráð í kauphöll. Íbúðalánasjóður nefnir að lokum að skv. 27. gr. laga nr. 44/1998 hafi Fjármálaeftirlitið eftirlit með því að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim.
  31. Þá gerir Íbúðalánasjóður ítarlega grein fyrir starfsemi sinni og hvernig hann hafi reynt að bregðast við efnahagskreppunni sem skollið hafi á haustið 2008, en ekki þykir ástæða til að reifa þá útlistun frekar.
  32. Eins og kunnugt sé hafi Íbúðalánasjóður orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna mikilla afskrifta útlána. Ljóst hafi orðið á síðasta ári að nauðsynlegar afskriftir myndu ganga nærri eiginfjárstöðu sjóðsins. Við slíkar aðstæður þurfi að tryggja mjög góða upplýsingagjöf til fjárfesta, lánshæfismatsfyrirtækja og hagsmunaaðila auk þess að draga upp trúverðuga mynd af því hvernig vandi sjóðsins verði leystur. Þekking og reynsla af fjárhagslegri endurskipulagningu sé því sjóðnum afar mikilvæg.
  33. Alla starfsemi sjóðsins beri að hafa í huga þegar metið sé hvað felist í efni auglýsingar um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, bæði að því er varðar verkefni framkvæmdastjórans og þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar séu til hans.
  34. Íbúðalánasjóður hafi fengið Hagvang til að hafa umsjón með ráðningu í starf framkvæmdastjóra sjóðsins. Umsækjendur um starfið hafi upphaflega verið 26, þar af hafi fimm umsækjendur dregið umsóknir sínar til baka. Hinn 19. og 20. október 2010 hafi farið fram forviðtöl hjá Hagvangi við 14 umsækjendur af þeim 26 sem upphaflega hafi sótt um. Það hafi verið mat Hagvangs að þessir 14 hafi allir uppfyllt lágmarkskröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu um stöðuna. Í forviðtölunum hjá Hagvangi hafi þessir umsækjendur setið við sama borð og verið gætt jafnræðis meðal þeirra. Þeir hafi allir fengið sömu spurningar og sama tíma í viðtölunum. Í kjölfarið hafi Hagvangur sent Íbúðalánasjóði samanburðarskýrslu um fjóra umsækjendur.
  35. Þeir umsækjendur er tilteknir hafi verið í samanburðarskýrslunni hafi allir tekið persónuleikapróf, en sá sem ráðinn var hafi tekið nákvæmlega sams konar próf hjá Hagvangi stuttu áður vegna umsóknar um annað starf. Hann hafi veitt Hagvangi leyfi til að nota það próf í tengslum við umsókn sína um stöðuna. Íbúðalánasjóður hafi niðurstöður persónuleikaprófa ekki undir höndum en samkvæmt tölvubréfi Hagvangs til Íbúðalánasjóðs hafi niðurstöður prófanna ekki gefið tilefni til frekari skoðunar innbyrðis hjá þeim umsækjendum sem tóku þau.
  36. Ákveðið hafi verið að taka fyrst viðtöl við þá fjóra umsækjendur sem fjallað var um í samanburðarskýrslunni. Stjórnarmenn hafi jafnframt haft undir höndum umsóknir hinna tíu sem Hagvangur hafði talið uppfylla lágmarkskröfur auglýsingar. Samanburðarskýrsla Hagvangs hafi einungis verið tillaga fyrirtækisins til Íbúðalánasjóðs um fjóra aðila en aðrir umsækjendur sem uppfyllt höfðu lágmarkskröfur hafi áfram verið inni í ráðningarferlinu.
  37. Hinn 29. október 2010 hafi stjórn Íbúðalánasjóðs tekið viðtöl við umsækjendur eins og áður sé getið, ásamt tveimur fulltrúum Hagvangs. Að viðtölunum loknum hafi stjórn sjóðsins haldið fund. Ákveðið hafi verið með atkvæðum fjögurra stjórnarmanna gegn einu að bjóða stöðuna umsækjanda sem sé hagfræðingur að mennt og hafi starfað innan Seðlabankans þar sem hann stýrði gjaldeyrisáhættu bankans. Hann hafi einnig starfað hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) auk tveggja annarra fyrirtækja. Eitt atkvæði hafi hlotið umsækjandi sem sé hagfræðingur að mennt og hafi einnig starfað innan Seðlabankans en síðar hjá tveimur stóru viðskiptabankanna.
  38. Eftir nokkurra daga umhugsun hafi sá er boðið var starfið ákveðið að afþakka það. Í ljósi þess að hinn umsækjandinn hafði einungis fengið atkvæði eins stjórnarmanns og aðrir í fjögurra manna úrtakinu, þar á meðal kærandi, hafi ekkert atkvæði fengið hafi verið ákveðið að kalla tvo umsækjendur til viðbótar í viðtöl. Að mati stjórnarformannsins hafi kostir stjórnarinnar verið að fresta ráðningu í starfið enn frekar, skoða alla umsækjendur aftur eða taka viðtöl við nokkra aðra umsækjendur sem þættu vænlegir á grundvelli umsókna sinna. Var síðasti kosturinn valinn og ákveðið að óska eftir að tveir umsækjendur kæmu í viðtal, karl og kona. Stjórnin ásamt fulltrúum Hagvangs hafi tekið viðtöl við þau. Sá sem ráðinn var hafi komið sérstaklega vel út í viðtalinu og ljóst hafi verið að þar hafi verið sterkur umsækjandi á ferð. Tillaga um þann sem ráðinn var sem næsta framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi fengið atkvæði fjögurra stjórnarmanna en tillaga um kæranda atkvæði eins stjórnarmanns. Því hafi sá er ráðinn var verið boðið starfið og hann þegið það.
  39. Í umsókn og ferilskrá þess sem ráðinn var sé ítarlega fjallað um menntun hans. Þar komi meðal annars fram að hann hafi lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, M.Sc.-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands og BBA-gráðu í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Andrews University í Michigan fylki í Bandaríkjunum. Þá hafi hann lokið prófi í verðbréfamiðlun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
  40. Starfsferill þess sem ráðinn var sé rakinn ítarlega í umsókninni en hann hafi frá árinu 2000 starfað innan Landsbankans sem forstöðumaður á alþjóðasviði bankans frá 2001 og sem verkefnastjóri og sérfræðingur hjá NBI hf. frá hausti 2008. Áður hafi hann starfað hjá Skífunni ehf., Póstgíróstofunni og Íslandspósti hf. Þá hafi hann starfað sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík og Stjórnendaskóla sama skóla.
  41. Sérþekking sem leitað hafi verið eftir komi fram í menntunar- og hæfniskröfum auglýsingar um starf framkvæmdastjóra. Þar séu raunar tilgreind átta atriði en ljóst megi vera að sérstök áhersla sé lögð á víðtæka þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi en auk þess segi að þekking á íbúðalánum sé æskileg. Jafnframt sé lögð áhersla á reynslu af stjórnun og rekstri. Fái Íbúðalánasjóður ekki betur séð en að þekking og starfsreynsla þess sem ráðinn var hafi fallið best að þessum kröfum miðað við sömu atriði hjá öðrum umsækjendum sem þá hafi verið eftir í ráðningarferlinu.
  42. Sérstakir hæfileikar hafi síðan verið tilgreindir sem leiðtogahæfileikar og lipurð í mannlegum samskiptum, frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti og loks skilningur á þjónustuhlutverki Íbúðalánasjóðs og gildi þess í öllu starfi sjóðsins. Það hafi einnig verið mat stjórnarinnar að hæfni þess sem ráðinn var hafi að þessu leyti gert hann best fallinn úr hópi umsækjenda til að veita Íbúðalánasjóði daglega forystu.
  43. Hagvangur hafi haft með höndum umsagnargerð um umsækjendur en endanlegt mat á hæfni umsækjenda hafi verið í höndum stjórnar Íbúðalánasjóðs. Stjórnin hafi talið að samanburðarskýrsla Hagvangs gæfi ekki að öllu leyti rétta mynd af umsækjendum og því hafi niðurstaðan orðið sú að ráða núverandi framkvæmdastjóra í stöðuna. Stjórnin hafi rökstutt þá niðurstöðu ítarlega í bréfi til kæranda, dagsettu 30. nóvember 2010.
  44. Kröfu kæranda þess efnis að umsögn á ensku um núverandi framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs verði við mat kærunefndar jafnréttismála ekki lögð til grundvallar hæfni er mótmælt. Raunar hafi kærandi sagt sjálf að hún telji slíka umsögn hafa lítið vægi. Kærandi, sem sé löglærð, hljóti að hafa áttað sig á að hún hefði haft möguleika á að láta umsagnir fylgja með umsókn.
  45. Vegna umfjöllunar kæranda um þær kröfur sem gerðar eru til menntunar í auglýsingu er áréttað af hálfu Íbúðalánasjóðs að áður hafi verið gerð grein fyrir menntun þess sem ráðinn var, en hann sé með þrjár háskólagráður á sviði fjármála og viðskipta. Sé litið til þeirra verkefna sem sjóðurinn hafi með höndum og stærðar efnahags sjóðsins, sem hafi numið um 837 milljörðum króna um síðustu áramót, verði að telja að menntun þess sem ráðinn var falli mun betur að þörfum sjóðsins en menntun kæranda. Er vert að vekja athygli á því að í auglýsingu Hagvangs um framkvæmdastjórastöðuna, sem birtist í október 2010, hafi nýjum verkþætti verið bætt við lýsingu á verkefnum framkvæmdastjóra, þ.e. ábyrgð á fjármálum, fjármögnun og ávöxtun eigna.
  46. Að mati Íbúðalánasjóðs verði ekki betur séð en kærandi misfari með staðreyndir, þegar hún staðhæfi að öll sín starfsreynsla varði verkefni Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt ferilskrá hafi hún starfað sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs frá árinu 2000 og verði ekki séð að frá þeim tíma hafi hún komið að verkefnum Íbúðalánasjóðs. Á sama tíma hafi sá sem ráðinn var starfað innan Landsbankans og síðar hjá NBI hf.
  47. Þegar hæfniskrafan um ábyrgð á fjármálum, fjármögnun og ávöxtun eigna sé lesin fari ekki á milli mála að leitað hafi verið eftir umsækjanda með þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi og verði að lesa þessa kröfu í samhengi við þau verkefni sem framkvæmdastjóranum sé ætlað að sinna samkvæmt auglýsingunni, þ. á m. að hann skuli bera ábyrgð á fjármálum Íbúðalánasjóðs, fjármögnun sjóðsins og ávöxtun eigna hans. Þá sé það hlutverk framkvæmdastjóra að eiga samskipti við Fjármálaeftirlitið, lánshæfismatsfyrirtæki, lífeyrissjóði og aðra fagfjárfesta og í nokkrum mæli samskipti við Seðlabanka og ráðuneyti.
  48. Að mati Íbúðalánasjóðs sé það ekki nokkrum vafa undirorpið að sá sem ráðinn var uppfylli umrædda hæfniskröfu betur en kærandi og hafi mun meiri reynslu en hún á öllum umræddum sviðum nema mögulega varðandi samskipti við ráðuneyti.
  49. Þá verði að hafa í huga að kærandi hafi ekki unnið á sviði fjármálaviðskipta síðustu tíu árin. Ekki verði heldur með nokkru móti séð að forstöðumannsstarf hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, sem kærandi sinnti á árunum 1996–2000, skipti hér verulegu máli enda um stofnun að ræða sem hafi sinnt mjög afmörkuðu verkefni og taldi einungis sex starfsmenn auk forstöðumanns. Sama máli gegni um starf kæranda sem deildarstjóra við húsnæðisdeild félagsmálaráðuneytisins. Þar sé um að ræða starf innan stjórnsýslunnar sem kærandi hafi sagt sjálf að hafi einkum verið fólgið í frumvarpssmíð og samningu reglugerða á sviði húsnæðismála. Reynsla og þekking kæranda af fjármálastarfsemi sé því augljóslega ekki jafnmikil og hjá þeim sem ráðinn var, sem hafi að auki sérmenntað sig á háskólastigi í fjármálum og viðskiptum.
  50. Eins og áður hafi komið fram sé hæfniskrafa um þekkingu á íbúðalánum talin æskileg í auglýsingu um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Slík þekking sé hluti þekkingar á fjármálastarfsemi þótt íbúðalán hafi sín sérkenni. Að mati Íbúðalánasjóðs sé þekking þess sem ráðinn var á málaflokknum víðfeðmari en kæranda auk þess sem kærandi hafi ekki verið viðloðandi málaflokkinn síðustu tíu árin. Má í þessu efni vísa til menntunar hans á sviði fjármála og starfa hjá Landsbankanum og NBI hf. Með umsókn hans hafi fylgt ítarlegur viðauki þar sem hann hafi gert sérstaka grein fyrir reynslu sinni á sviði fasteignalána sem að mati sjóðsins muni nýtast mjög vel. Verði ekki betur séð en þekking þess sem ráðinn var sé yfirgripsmeiri en kæranda á þessu sviði og falli betur að starfi framkvæmdastjóra en sú reynsla og þekking sem kærandi á að baki.
  51. Í hæfniskröfum auglýsingar um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun og rekstri. Sá sem ráðinn var búi að fjölbreyttri reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar, einkum innan Landsbankans, síðar NBI hf., en einnig hjá Skífunni ehf., Íslandspósti og Póstgíróstofunni. Hann hafi stýrt rekstrareiningum innan Landsbankans og mest haft 40 starfsmenn undir sinni stjórn og sem verkefnastjóri hafi hann leitt vinnu um 100 starfsmanna bankans og annarra aðila. Lúti þessi reynsla hans að margvíslegum fjármálatengdum verkefnum, meðal annars að sértryggðum skuldabréfum og við mat á fasteignalánastarfsemi Landsbankans og erlends dótturfélags hans.
  52. Íbúðalánasjóður telur að reynsla þess sem ráðinn var af stjórnun og rekstri sé umfangsmeiri en kæranda sé litið til umsókna þeirra beggja. Þá sé það mat sjóðsins að þau verkefni sem framkvæmdastjórinn hafi sinnt með tilliti til þessarar hæfniskröfu falli mun betur að þörfum Íbúðalánasjóðs en þau verkefni sem kærandi hafi nefnt. Þá telur Íbúðalánasjóður ekki rétt hjá kæranda að helstu verkefni hennar fyrir dómstólaráð séu um margt lík þeim verkefnum sem lýst sé í auglýsingu um umrædda stöðu.
  53. Þótt sjóðurinn sé opinber stofnun sé ljóst að hann líkist meira fjármálafyrirtæki á borð við banka en hefðbundinni stjórnsýslustofnun og um þessa staðreynd votti lög nr. 44/1998. Telur Íbúðalánasjóður reynslu þess sem ráðinn var af stjórnun og rekstri mun nátengdari og eðlislíkari því sem gerist hjá Íbúðalánasjóði en þá reynslu sem kærandi búi yfir á þessum sviðum, þ. á m. við úrlausn þess rekstrarvanda sem sjóðurinn hafi átt við að glíma. Í því sambandi megi sérstaklega nefna störf hans hjá NBI hf. að fjárhagslegri endurskipulagningu nokkurra af stærri fyrirtækjum landsins sem muni að mati Íbúðalánasjóðs koma að góðum notum við lausn þess fjárhagsvanda sem leigufélög, lántakar hjá sjóðnum, glími við.
  54. Íbúðalánasjóður mótmælir kröfu kæranda er lýtur að leiðtogahæfileikum og lipurð í mannlegum samskiptum og telur sig í fullum rétti til að meta hvort og að hve miklu leyti umsækjandi um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi til að bera slíka eiginleika. Verði það mat, sem er frjálst mat í skilningi stjórnsýsluréttar, ekki frá stjórn sjóðsins tekið. Í rökstuðningi stjórnar til kæranda 30. nóvember 2010 hafi nákvæmlega verið tilgreint mat stjórnarinnar á þessum þætti í fari þess sem ráðinn var. Það hafi verið mat Íbúðalánasjóðs að hann hefði þessa eiginleika til að bera í ríkari mæli en kærandi. Hann hafi haft augljóslega skýra sýn á stöðu og framtíð Íbúðalánasjóðs og sett fram sjónarmið sín gagnvart stjórn með skipulegum og skilmerkilegum hætti. Að mati sjóðsins hafi komið fram að sá sem ráðinn var ætti auðvelt með að taka ákvarðanir og fá annað fólk til samstarfs, jafnvel þótt um afar erfið verkefni væri að ræða. Hann hafi verið talinn standa öðrum umsækjendum framar að þessu leyti.
  55. Í áðurnefndri auglýsingu hafi verið gerð sú krafa krafa til umsækjenda að þeir hafi frumkvæði og metnað til að ná árangri í starfi. Kærandi krefst þess að þessi hæfniskrafa verði ekki lögð til grundvallar mati kærunefndar. Íbúðalánasjóður mótmælir þessari kröfu og vísar til þess sem að framan greinir.
  56. Mat stjórnarinnar á frumkvæði og metnaði þess sem ráðinn var til að ná árangri í starfi hafi verið mjög jákvætt. Skipti þar mestu raunhæft mat hans á stöðu mála hjá sjóðnum og því umhverfi sem sjóðnum er búið. Þá hafi hann að mati stjórnarinnar haft skýrari mynd af framtíðarhorfum og stefnu sjóðsins, bæði til lengri og skemmri tíma, en aðrir umsækjendur sem rætt hafi verið við.
  57. Í hæfniskröfum auglýsingar hafi einnig verið gerð krafa um að umsækjendur eigi auðvelt með að tjá sig í mæltu og rituðu máli. Það hafi verið mat Íbúðalánasjóðs að sá sem ráðinn var stæði fyllilega undir þessum hæfniskröfum enda vanur framsögumaður eftir kennslustörf á háskólastigi á árunum 2001–2010 ásamt því að hafa flutt fjárfestakynningar í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan á tímabilinu 2001–2008 fyrir hönd Landsbanka Íslands. Hann hafi jafnframt sinnt kennslu á háskólastigi á sviði fjármála frá árinu 2001, fyrst sem stundakennari við Opna Háskólann og frá 2005 einnig sem stundakennari við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þá hafi hann kennt í verðbréfamiðlunarnámi frá 2001 með hléum og verið reglulega með námskeið á sviði fjármála í fræðsludeild Landsbankans. Þá hafi hann búið til og borið ábyrgð á valnámskeiði á þriðja ári í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og tvívegis verið ráðgjafi prófnefndar um endurskoðun námsefnislýsingar. Hann hafi verið leiðbeinandi og prófdómari í B.Sc.-ritgerðum í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þá hafi hann haft umsjón með útgáfu ársskýrslu Landsbankans um árabil og auk þess með öllum útboðslýsingum vegna útgáfu skuldabréfa utan Íslands fyrir bankann. Það hafi verið mat stjórnarinnar að sá sem ráðinn var stæði kæranda framar að þessu leyti.
  58. Síðasta hæfniskrafan í auglýsingu um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs hafi verið skilningur á þjónustuhlutverki stofnunarinnar og gildi þess í öllu starfi hennar. Eins og fram komi í rökstuðningi stjórnar frá 30. nóvember 2010 hafi það verið mat stjórnarinnar að núverandi framkvæmdastjóri hefði í starfsviðtölum sýnt mjög ríkan og næman skilning á þjónustuhlutverki stofnunarinnar og gildi þess í öllu starfi hennar.
  59. Að lokum tekur Íbúðalánasjóður fram að hann sé afdráttarlaust þeirrar skoðunar að umrædd ráðning hafi verið rétt og málefnaleg ákvörðun. Sjóðurinn telur menntun og fyrri störf þess sem ráðinn var henta sjóðnum mun betur en menntun og starfsreynsla kæranda. Skiptir þar mestu máli annars vegar víðtæk þekking hans og reynsla af fjármálastarfsemi sem sé nauðsynleg við daglega stjórn sjóðsins og hins vegar viðamikil háskólamenntun sem hann hafi aflað sér á sviði fjármála og viðskipta og sé ígildi átta ára fulls háskólanáms.
  60. Starfsreynsla þess sem ráðinn sé með þeim hætti að stjórnin hafi metið það svo að hann hefði betri heildarsýn á starfsemi Íbúðalánasjóðs en kærandi, þ. á m. viðamikla reynslu af fjármögnun fjármálafyrirtækis, samskiptum við lánshæfismatsfyrirtæki og lífeyrissjóði auk raunhæfrar reynslu af fjárhagslegri endurskipulagningu.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  61. Kærandi bendir á að ráðningarferlið hafi staðið yfir í rúma sex mánuði. Í fyrstu hafi virst sem að vanda ætti til ráðningarinnar en Íbúðalánasjóði hafi fipast í miðju verki og ráðningarferlinu verið breytt. Bersýnilegt sé að uppnám hafi orðið á lokasprettinum og leitt til þess að ráðgjöf og aðferðafræði tveggja helstu ráðningarfyrirtækja landsins hafi verið virt að vettugi. Íbúðalánasjóður hafi tekið ráðninguna í sínar hendur og dregið fram umsókn sem legið hafði fyrir í sex mánuði án þess að unnið hefði verið með hana. Þau rök Íbúðalánasjóðs, að aðrir aðilar en þeir sem ráðningarstofur völdu hafi verið inni í myndinni, séu ekki trúverðug.
  62. Þá telur kærandi það athyglisvert að stjórnin hafi ekki kynnt sér niðurstöður persónuleikaprófa þeirra einstaklinga sem hún hafi hafnað, þar sem persónuleikapróf séu almennt talin hafa gott forspárgildi um frammistöðu í starfi. Ekki sé skýrt af hverju og með hvaða rökum horfið hafi verið frá því sem sé góð fagmennska og góð stjórnsýsla.
  63. Jafnframt sé það athyglisvert að Íbúðalánasjóður hafi viðurkennt að sá sem ráðinn var hafi ekki gengist undir persónuleikapróf eins og þeir umsækjendur sem til greina komu heldur hafi verið látið duga eldra próf sem hann er sagður hafa undirgengist vegna annarrar starfsumsóknar. Í því sambandi vekur kærandi athygli á að í maí 2010 hafi hún gengist undir persónuleikapróf á vegum Capacent en samt sem áður hafi stjórnin talið ástæðu til að kosta tvö ný próf fyrir sig hjá Hagvangi.
  64. Það teljist vart til viðurkenndra ráðningaraðferða að leggja til grundvallar hæfni eins umsækjanda skriflega, fyrirfram pantaða umsögn, þegar hunsað hafi verið eða hafnað að leita umsagnar tilgreindra umsagnaraðila kæranda. Ráðningarfræðin geri þá skýlausu kröfu að alltaf sé gætt að því að spyrja umsagnaraðila sömu eða líkra spurninga um hæfni umsækjenda. Það hafi a.m.k. verið viðhorf og vinnuregla hjá flestum ráðningaraðilum og ástæðan sé einfaldlega virðing fyrir jafnræðiskröfunni. Skrifleg meðmæli séu ekki talin spá vel fyrir um framtíðarframmistöðu starfsmanna því umsækjandi hafi tilhneigingu til að velja sér meðmælendur sem hann telur að muni gefa sér góða umsögn.
  65. Kærandi hafi verið þess fullviss að leitað yrði til umsagnaraðila sinna og talið að fyrirfram pantað meðmælabréf hefði ekki þýðingu við vandað val. Ráðningarfyrirtækið hafi fengið fyrirmæli um að leita ekki til umsagnaraðila kæranda. Í fyrri greinargerð Íbúðalánasjóðs hafi því verið haldið fram að umsagna hefði verið leitað um alla umsækjendur, en stjórn sjóðsins hafi orðið að draga þá fullyrðingu til baka þar sem hún hafi reynst ósönn. Kærandi telur að slík vinnubrögð séu ámælisverð.
  66. Hvað rök Íbúðalánasjóðs varðar um mat sjóðsins á hæfni og hæfileikum þess sem ráðinn var telur kærandi að um sé að ræða huglægt og órökstutt mat og því mótmælt á ný að það verði lagt til grundvallar mati kærunefndar þar sem jafnræðis hafi ekki verið gætt.
  67. Loks bendir kærandi á að rauður þráður í röksemdum stjórnar Íbúðalánasjóðs sé réttlæting fyrir vali þar sem upphafin sé reynsla og þekking þess sem ráðinn var, á sama tíma og lítið sé gert úr gildi menntunar og starfsreynslu kæranda fyrir Íbúðalánasjóð. Þar birtist hið dæmigerða viðhorf sem hafi verið einkennandi fyrir íslenskt atvinnulíf fyrir efnahagshrun, þar sem mikið hafi verið gert úr reynslu ungra karlmanna með bankareynslu á kostnað kvenna sem hafi haft umtalsvert meiri starfsreynslu af störfum fyrir og með fólki. Vegna þjónustu sinnar við einstaklinga og stofnanir í kreppuaðstæðum sé kærandi þess fullviss að eigindir hennar, áhugi, menntun, reynsla og mótun hefðu hentað starfi í þágu Íbúðalánasjóðs.

    ATHUGASEMDIR ÍBÚÐALÁNASJÓÐS
  68. Í athugasemdum sínum ítrekar Íbúðalánasjóður fyrri sjónarmið sín sem fram hafa komið í greinargerð.

    NIÐURSTAÐA
  69. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  70. Í kæru sinni fer kærandi, sem er kona, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er karl var ráðinn í starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs en kærandi telur sig hafa verið hæfari eða jafn hæfa og sá sem ráðinn var.
  71. Íbúðalánasjóður auglýsti starf framkvæmdastjóra sjóðsins laust til umsóknar með auglýsingu sem birtist í dagblöðum 2. og 9. október 2010. Í auglýsingu kom fram að helstu verkefni framkvæmdastjóra væru daglegur rekstur sjóðsins í umboði stjórnar, ábyrgð á fjármálum, fjármögnun og ávöxtun eigna, stefnumótun og markmiðasetning, áætlanagerð, gerð ársreikninga og ársskýrslna, upplýsingagjöf til stjórnar og samskipti við ráðuneyti og aðrar stofnanir.
  72. Í auglýsingunni kom einnig fram að menntunar- og hæfniskröfur væru háskólamenntun sem nýtist í starfinu, víðtæk þekking og reynsla af fjármálastarfsemi, reynsla af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileikar og lipurð í mannlegum samskiptum, frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, skilningur á þjónustuhlutverki stofnunarinnar og gildi þess í öllu starfi hennar auk þess sem tekið var fram að þekking á íbúðalánum væri æskileg.
  73. Umsækjendur um starfið voru 46 en fimm þeirra drógu síðar umsóknir sínar til baka. Ráðningarskrifstofa tók forviðtöl við 14 umsækjendur. Taldi ráðningarskrifstofan þessa umsækjendur alla uppfylla lágmarkskröfur er gerðar voru í auglýsingu um starfið og sendi síðan samanburðarskýrslu um fjóra umsækjendur til stjórnar kærða. Var kærandi ein þeirra. Umræddir fjórir umsækjendur tóku persónuleikapróf. Stjórnin tók viðtöl við þessa umsækjendur og bauð einum þeirra starfið. Sá afþakkaði boðið og ákvað þá stjórnin að taka viðtöl við tvo af þeim tíu umsækjendum er ráðningarstofan hafði einnig tekið forviðtöl við. Varð úr að annar þeirra umsækjenda var ráðinn í starf framkvæmdastjóra sjóðsins en hann hafði tekið sömu persónuleikapróf skömmu áður.
  74. Í auglýsingu um starfið var ekki áskilin tiltekin menntun en krafist háskólamenntunar er nýttist í starfi. Einnig var krafist víðtækrar þekkingar og reynslu af fjármálastarfsemi. Í rökstuðningi sem kæranda var látinn í té með bréfi stjórnar Íbúðalánasjóðs dags. 30. nóvember 2010 kom fram að stjórn sjóðsins hafi talið haldgóða menntun þess er ráðinn var á sviði fjármála og viðskipta hafa fallið vel að starfssviði framkvæmdastjóra og hafi það skipt miklu máli. Þetta sjónarmið virðist hafa vegið þungt þar sem sá umsækjandi sem fyrst var boðið starfið í samræmi við ákvörðun stjórnarinnar frá 29. október 2010 uppfyllti þessar kröfur en eins og áður greinir afþakkaði sá umsækjandi starfið.
  75. Kærandi hefur lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands auk eins árs í viðskipta- og félagsvísindadeild en sá er ráðinn var hefur M.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, BBA gráðu í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá bandarískum háskóla og hefur lokið MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
  76. Eins og að framan greinir var áskilið í auglýsingu að umsækjendur skyldu hafa víðtæka þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi. Kærandi hefur aflað sér fjölbreyttrar starfsreynslu sem tengist viðskiptalífinu. Bein starfsreynsla hennar af sviði fjármála felst helst í framkvæmdastjórn dómstólaráðs um tíu ára skeið en samkvæmt 14. gr. laga nr. 25/1998 um dómstóla er hlutverki ráðsins lýst þannig að þessu leyti að það skuli „fara með á sína ábyrgð fjárreiður héraðsdómstóla, gera tillögur til ráðherra um sameiginlega fjárveitingu til þeirra og skipta á milli þeirra fé sem skal veitt þeim í einu lagi með fjárlögum.“ Sá er ráðinn var hefur hins vegar beina starfsreynslu af starfi hjá fjármálafyrirtæki í ámóta langan tíma. Sem forstöðumaður á alþjóðasviði hafði hann meðal annars með höndum umsjón með lántökum banka, samskipti við erlenda banka vegna viðskipta við þá og vann að öðru leyti að alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði. Áður hafði hann aflað sér starfsreynslu hjá öðrum fyrirtækjum sem forstöðumaður fjárstýringar og aðalbókari, samtals í fjögur ár. Er því starfsreynsla þess er ráðinn var meiri hvað varðar fjármálastarfsemi en kæranda. Starf það er kærandi hafði áður gegnt sem forstöðumaður ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefur að þessu leyti ekki það vægi að mati nefndarinnar að það haggi þessari niðurstöðu.
  77. Með hliðsjón af ofanrituðu og miðað við þá lýsingu á verkefnum framkvæmdastjóra og menntunar- og hæfniskröfur er fram komu í auglýsingu um starfið virðist menntun og reynsla þess er ráðinn var falla betur að starfinu. Verður því að fallast á það með Íbúðalánasjóði að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið ráðningu í starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs umrætt sinn.
  78. Að mati kærunefndar sýnist niðurstaða Íbúðalánasjóðs um ráðningu framkvæmdastjóra byggjast á mati á því hvernig menntun og starfsreynsla þess sem ráðinn var féll að þeim kostum sem áskildir voru í auglýsingu um starfið. Er því ekki tilefni til að gera athugasemd við að ekki hafi verið leitað umsagnar um kæranda eða tekið hafi verið við skriflegri umsögn um þann sem ráðinn var enda hefur Íbúðalánasjóður gert grein fyrir því að hlutlægir þættir er þegar lágu fyrir í umsóknargögnum hafi ráðið niðurstöðu um ráðningu.
  79. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu í starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Er því ekki fallist á að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 hafi verið brotin þegar ákvörðun var tekin um að ráða karlmann í starfið.
  80. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna sumarleyfa.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Íbúðalánasjóður braut ekki gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 við ráðningu í starf framkvæmdastjóra sjóðsins.

 

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum