Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 154/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 154/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010006

Kæra […]og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. janúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. janúar 2018 um að synja kæranda og börnum hennar, […], um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginmanni sínum.

Kærandi krefst þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kæranda og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun, hvað varðar brottvísun og endurkomubann, verði felld úr gildi, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara kefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til rannsóknar að nýju þar sem rannsóknarskylda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt í málinu.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd fyrir sig og börn sín hér á landi þann 25. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 22. nóvember 2017, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum dags. 2. janúar 2018 synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og henni ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðunum Útlendingastofnunar með bréfum stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2018. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 5. janúar sl. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. febrúar 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd upplýsingar frá Útlendingastofnun og talsmanni kæranda með tölvubréfum dags. 5. og 7. mars 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi byggt umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að henni og fjölskyldu hennar sé mismunað í heimaríki vegna […] uppruna auk þess sem hún og fjölskylda hennar séu í hættu vegna hótana frá lánadrottni eiginmanns hennar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda, kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.

Kæranda og börnum hennar var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda og börnum hennar jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi flúið hingað til lands ásamt fjölskyldu sinni vegna […] sem eiginmaður hennar hafi […] í heimaríki. Þá hafi kærandi orðið fyrir […] af hálfu manns sem var ábyrgðarmaður fyrir láni eiginmanns hennar. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi aldrei sagt frá ofbeldinu áður og [...]. Kærandi óttist mjög [...], m.a. þar sem mikil skömm fylgi […] í heimaríki hennar. Kærandi hafi greint frá því að […]. Kæranda standi ekki til boða viðeigandi aðstoð og stuðningur sem hún þurfi á að halda í heimaríki. Þá byggir kærandi einnig á því að hún verði fyrir mismunun vegna […] uppruna síns og eigi t.a.m. ekki greitt aðgengi að læknisþjónustu.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um stöðu mannréttinda í […]. Í því sambandi vísar kærandi til ýmissa skýrslna og gagna. Þar komi m.a. fram aðstaða kvenna sé bág í […] og þá sérstaklega kvenna sem tilheyri minnihlutahópum líkt og kærandi sem sé […] að uppruna. Heimilisofbeldi sé samfélagsmein sem erfitt hafi reynst að uppræta. Þrátt fyrir að lög kveði á um bann við kynbundnu ofbeldi sé framkvæmdin önnur og lögum ekki framfylgt. Konur forðist að tilkynna og kæra ofbeldi gegn þeim þar sem þær óttist að slíkt kunni að kalla skömm og fordóma yfir fjölskylduna. Þá sé sjaldan eða aldrei sakfellt í slíkum málum. Hjálparsímar og athvörf séu starfrækt fyrir konur en samkvæmt skýrslu samtaka kvenna gegn ofbeldi í Evrópu frá árinu 2014 þurfi […] pláss til viðbótar í athvörfum til þess að ríkið uppfylli viðmið Evrópuráðsins varðandi kvennaathvörf. Konum sé mismunað í […] og þá sérstaklega konum sem tilheyri minnihlutahópum, þ. á m. konum af […] uppruna.

Kærandi krefst þess til þrautaþrautavara að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda og barna hennar til rannsóknar að nýju þar sem rannsóknarskylda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt í málinu. Kærandi gerir athugasemd við þá málsmeðferð sem hún og fjölskylda hennar hafi fengið hjá Útlendingastofnun en hún telji að málin hafi ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti áður en ákvarðanir hafi verið teknar. Þá geri kærandi alvarlegar athugasemdir við að kæranda og fjölskyldu hennar hafi verið brottvísað til heimaríkis áður en rökstuðningur hafi legið fyrir í málum þeirra, sérstaklega í ljósi dvalartíma þeirra hér á landi og að viðtal hafi farið fram við þau einum og hálfum mánuði fyrir birtingu ákvarðana í málum þeirra. Kærandi hafi óskað eftir því að flutningi hennar og fjölskyldu hennar yrði frestað þar sem að enginn rökstuðningur hafi legið fyrir í málum þeirra auk þess sem ekki hafi verið minnst á þá [...] sem eiginmaður kæranda eigi í vændum í heimaríki né […] sem kærandi hafi orðið fyrir í ákvörðunum Útlendingastofnunar dags. 2. janúar 2018. Kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna þess ofbeldis sem hún hafi orðið fyrir og hefði því átt að fresta flutningi þar til mál hennar yrði rannsakað nánar. Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að fresta brottflutningi en áframsent erindi kæranda til kærunefndar útlendingamála sem hafi tekið það fyrir en ekki hafi verið unnt að úrskurða í málinu áður en kærandi og fjölskylda hennar hafi verið send úr landi. Kærandi bendir á að auk þeirrar rannsóknarskyldu sem felist í 10. gr. stjórnsýslulaga sé lögð sérstök rannsóknarskylda á Útlendingastofnun í 2. mgr. 23. gr. útlendingalaga. Þá bendir kærandi á að þrátt fyrir ákvæði 29. gr. laga um útlendinga um að heimilt sé að notast við lista um örugg upprunaríki gildi framangreindar rannsóknarreglur í máli einstaklinga frá slíkum ríkjum. Kærandi telur að í ljósi málsmeðferðartíma máls kæranda hjá Útlendingastofnun, þeirra gagna sem eiginmaður kæranda hafi lagt fram og þess ofbeldis sem kærandi hafi greint frá hafi ekki verið tækt að taka ákvarðanir í málinu og uppfylla rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga án þess að fyllileg rannsókn færi fram fyrir töku ákvörðunarinnar og birtingu hennar. Í ákvörðun dags. 2. janúar 2018 sé ekki að finna rökstuðning í máli kæranda en í ákvörðun eiginmanns kæranda séu talin upp þau gögn sem hann hafi lagt fram og grundvelli umsóknar hans lýst í einni setningu. Utan þessarar setningar hafi texti ákvörðunarinnar verið almennur og ekki rökstuddur með neinum hætti.

Í greinargerð kemur jafnframt fram að eiginmaður kæranda […]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 2. janúar 2018 sé ekki fjallað um […] að öðru leyti en því að skjal um […] kæranda hafi verið sent til þýðingar. Af hálfu kæranda hafi verið óskað eftir upplýsingum dags. 15. janúar 2018 um hvort framangreint skjal hafi borist úr þýðingu en í svari stofnunarinnar hafi því atriði ekki verið svarað en m.a. vísað til þess að heimilt sé að taka ákvarðanir í forgangsmálum án samhliða rökstuðnings. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka til hlítar ástæður […] eiginmanns kæranda og að nauðsynlegt hefði verið að þýðingar á framlögðum gögnum lægju fyrir við töku ákvörðunarinnar. Í nánari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni komi fram að stofnuninni hafi ekki verið fært að meta lögmæti […] út frá framlögðum gögnum. Er það mat kæranda að Útlendingastofnun hefði borið að rannsaka […] og að kalla eftir nánari gögnum að lokinni þýðingu framlagðra gagna þegar fyrir hafi legið að gögnin sem stofnunin hafi haft undir höndum hafi ekki verið fullnægjandi. Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á að stofnunin hafi uppfyllt skyldu sína til að komast í raun að staðreyndum málsins og meta þær og erfitt sé og jafnvel ómögulegt að bæta úr þessum ágalla á málsmeðferðinni þar sem kæranda og eiginmanni hennar hafi verið brottvísað frá landinu og eiginmaður hennar hafi að öllum líkindum hafið afplánun.

Kærandi bendir á að hún hafi greint frá því í upphafi við Útlendingastofnun að hún hafi orðið fyrir […] ofbeldi í heimaríki sem [...]. Þá hafi hún verið í sálfræðimeðferð hér á landi vegna afleiðinga ofbeldisins. Í ákvörðun stofnunarinnar dags. 2. janúar 2018 sé ekki minnst á ofbeldið en í nánari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni dags. 18. janúar sama ár sé fjallað um ofbeldið og kærandi metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna þess, sbr. 6. mgr. 3. gr. laga um útlendinga og tekið fram að sérstakt tillit verði tekið til stöðu hennar. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar sé hins vegar ekki að sjá að tekið hafi verið tillit til aðstæðna kæranda og ef svo hafi verið með hvaða hætti það hafi verið gert. Kærandi hafi ekki fengið færi á að skila gögnum við meðferð málsins og hafi stofnunin því ekki haft gögn undir höndum um andlega heilsu kæranda. Slík gögn bárust stofnuninni síðan frá kæranda þann 17. janúar sl. Það sé mat kæranda að ekkert raunverulegt mat hafi farið fram á andlegri heilsu hennar áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Í nánari rökstuðningi stofnunarinnar komi fram að staða […] í heimaríki kæranda sé bágborin auk þess sem ofbeldi og mismunun í garð kvenna sé vandamál í ríkinu. Hins vegar sé það mat Útlendingastofnunar að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda vegna ofbeldisins. Því er mótmælt af hálfu kæranda að henni standi viðeigandi aðstoð og stuðningur til boða í heimaríki með vísan til umfjöllunar í greinargerð um stöðu mannréttinda í […].

Í ljósi framangreinds er það mat kæranda að misvísandi sé að tekið sé fram í ákvörðun Útlendingastofnunnar frá 2. janúar 2018 að ástæður flótta kæranda og fjölskyldu hennar sé […] uppruni þeirra og þær hótanir sem þau hafi orðið fyrir en ekki sé fjallað um […] sem bíði eiginmanns kæranda né ofbeldið sem kærandi hafi orðið fyrir í heimaríki. Athygli hafi verið vakin á þessu af hálfu kæranda við birtingu ákvarðananna þann 5 janúar sl., áður en nánari rökstuðningur hafi legið fyrir, og er því velt upp af hálfu kæranda hvort framangreind atriði hafi ekki verið tekin inn í mat stofnunarinnar fyrr en við ritun nánari rökstuðnings, eftir að ákvörðun hafi verið tekin í málum kæranda og barna hennar.

Kærandi telur, í ljósi rýrs rökstuðnings í málum kæranda og fjölskyldu hennar, að einstaklingsbundið mat hafi ekki farið fram í málum þeirra og að heimaríki þeirra hafi ráðið mestu um niðurstöðu málsins. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að einstaklingsbundið mat á aðstæðum hverju sinni sé kjarni flóttamannahugtaksins og 3. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem leggi bann við því að mismuna flóttamönnum eftir ættlandi. Þá sé það mat kæranda að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt skyldubundið mat við ákvörðun um hvort umsókn kæranda skyldi metin bersýnilega tilhæfulaus og henni ákveðin brottvísun og endurkomubann. Jafnframt bendir kærandi á að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að beita 45. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum og vísar til túlkunar kærunefndar útlendingamála máli sínu til stuðnings. Þá áréttar kærandi sérstaklega mikilvægi þess að málsmeðferð Útlendingastofnunar sé vönduð og í samræmi við stjórnsýslulög og lög um útlendinga í ljósi þess að ákvörðunin kveður á um að kæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun á fyrsta stjórnsýslustigi geti þannig haft í för með sé óafturkræfar afleiðingar í tilfellum á borð við mál kæranda.

Útlendingastofnun hafi getað frestað réttaráhrifum í máli kæranda þar sem ljóst hafi verið að rannsaka þyrfti málið betur og umsókn kæranda hafi þ.a.l. ekki verið bersýnilega tilhæfulaus. Að mati kæranda hefði átt, í ljósi málsatvika, að birta rökstudda niðurstöðu við birtingu í máli kæranda og sýna fram á að fullnægjandi rannsókn hafi átt sér stað. Sú staðreynd að kæranda og fjölskyldu hafi verið vísað af landi brott án þess að rökstuðningur hafi legið fyrir sé að mati kæranda óásættanlegt og til marks um að mál kæranda hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 5. apríl 2018, nr. 155/2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar í máli eiginmanns kæranda felld úr gildi. Með vísan til meginreglunar um einingu fjölskyldunnar verða ákvarðanir stofnunarinnar í málum kæranda og barna hennar einnig felldar úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their applications for international protection.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                          Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum