Hoppa yfir valmynd

602/2015. Úrskurður frá 30. nóvember 2015

Úrskurður

Hinn 30. nóvember 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 602/2015 í máli ÚNU 15030001.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

 Með erindi dags. 2. mars 2015 sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál 3. mars. 2015 kærði A afstöðu Landsbankans til gagnabeiðni sinnar til bankans dags. 20. febrúar 2015. Í beiðninni krefst kærandi þess að fá aðgang að gögnum sem vitnað var til í tölvupósti bankans til kæranda þann 24. mars 2010, lánaákvörðun bankans tengda umsókn kæranda um hækkun heimildar á kreditkorti sínu og lánaákvörðun vegna framlengingar yfirdráttarláns.

Í kæru sinni krefst kærandi þess að fá fullt og ótakmarkað aðgengi að tölvupóstum starfsmanna bankans, samskipti starfsmanna bankans í samskiptaforriti á veraldarvefnum eða innri vef bankans, fundargerðum lánanefndar og skráningum í verkbókhald útlána að því leyti er það varðar beiðni kæranda um framlengingu yfirdráttarheimildar á bankareikning sinn og beiðni kæranda um tímabundna hækkun á kreditkorti sínu. Jafnframt óskar kærandi eftir sömu gögnum varðandi beiðni B eignarhaldsfélags um lán. Kærandi krefst einnig aðgangs að  tölvupóstum starfsmanna, samskiptum starfsmanna, fundargerðum og minnisblöðum er varða fund kæranda í bankanum 19. mars 2010. Þá krefst kærandi að lokum yfirlits yfir það hvernig aðgangsheimildum tiltekinna starfsmanna sé háttað að upplýsingum er varða kæranda ásamt yfirliti yfir nýtingu allra starfsmanna á þeim heimildum frá árinu 2009.

Í umsögn Landsbankans dags. 12. mars 2015, sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 19. mars 2015, er fjallað um gildissvið upplýsingalaga gagnvart bankanum. Er þar byggt á því að bankinn sé undanþeginn ákvæðum upplýsingalaga.

Kæranda var kynnt efni umsagnarinnar og gefið tækifæri til að koma að frekari athugasemdum með bréfi dags. 19. mars 2015. Það gerði kærandi með bréfi dags. 3. apríl 2015. Þar tók kærandi meðal annars fram að undanþágan sem Landsbankinn nyti frá upplýsingalögum væri byggð á samkeppnissjónarmiðum. Gæti sú undanþága því að teknu tilliti til vilja löggjafans ekki átt við um gögn sem væru til hjá bankanum og beindust í engu að samkeppnishagsmunum. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. gr. taka lögin til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Það á við um Landsbankann hf.

Í 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir:

„Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.“

Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra birt auglýsingu um undanþágur lögaðila frá upplýsingalögum, sbr. auglýsingu  nr. 600/2013. Landsbankinn hf. er meðal þeirra lögaðila sem þar eru nefndir. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka því ekki til bankans. Undanþága 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er skýr og óskilyrt. Afstöðu Landsbankans til gagnabeiðni kæranda verður því ekki skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A á hendur Landsbankanum hf. er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum