Hoppa yfir valmynd

Synjun um undanþágu fyrir kennara

Ár 2014, föstudagurinn 7. febrúar, var kveðinn upp í mennta– og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

I.

Með bréfi, sem barst mennta– og menningarmálaráðuneytinu þann 10. september 2013, kærði framhaldsskóli X þá ákvörðun undanþágunefndar framhaldsskóla að synja umsókn skólans um undanþágu fyrir Y til ráðningar í grískukennslu við skólann. Krefst kærandi þess að ráðherra veiti umbeðna undanþáguheimild eða vísi málinu til undanþágunefndar að nýju.

II.

Stjórnsýslukæra var móttekin í ráðuneytinu þann 10. september 2013. Með bréfi, dags. 16. desember 2013, leitaði ráðuneytið umsagnar og afstöðu undanþágunefndar framhaldsskóla. Umsögn og afstaða undanþágunefndarinnar barst ráðuneytinu 22. janúar sl. Í umsögn undanþágunefndarinnar kom ekkert nýtt fram í málinu og því talið augljóslega óþarft að kynna kæranda umsögnina skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málavextir eru þeir að 9. ágúst 2013 barst undanþágunefnd framhaldsskóla bréf frá rektor X við Reykjavík þar sem óskað var eftir því að Y fengi undanþágu til að kenna grísku í skólanum skólaárið 2013-2014. Í bréfi rektors var greint frá ástæðum þess að skólinn óskaði eftir undanþáguheimild til að ráða inn leiðbeinanda til kennslu þó svo að fyrir lægi starfsumsókn frá framhaldsskólakennara. Með bréfi undanþágunefndar til A, umsækjanda með framhaldsskólakennararleyfi, dags. 15. ágúst 2013, var honum gefinn kostur á að tjá sig um þau atriði sem fram komu í gögnum skólans til undanþágunefndarinnar, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga og 9. gr. reglugerðar nr. 669/2010 um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla. Undanþágunefndinni barst bréf frá A, dags. 28. ágúst 2013, þar sem hann andmælir rökum skólans fyrir því að hafna umsókn hans. A rekur menntun sína, kennslureynslu svo og að hann hafi meðmæli frá tveimur skólastjórnendum á framhaldsskólastigi. Með bréfi hans fylgdu framangreind meðmæli.

Með bréfi undanþágunefndar, dags. 6. september 2013, var kæranda tilkynnt að umsókn hans, dags. 9. ágúst 2013, hefði verið tekin fyrir svo og rök skólameistara fyrir því að hafna starfsumsókn A og ákveðið hafi verið að synja umsókn kæranda um undanþágu fyrir Y til kennslu í grísku við X skólaárið 2013-2014.

IV.

Um X gilda lög um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt 1. mgr. 8 gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 skal skólameistari ráða stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd. Í 3. mgr. 8.gr. sömu laga kemur fram að um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari, kennari eða náms – og starfsráðgjafi við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnendar við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og laga um náms- og starfsráðgjafa.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefur sá einn rétt til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa við framhaldsskóla sem hefur leyfi ráðherra. Í 19. gr. laganna er fjallað um undanþágunefnd framhaldsskóla en þar kemur fram að óheimilt sé að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði þessara laga til kennslu við framhaldsskóla. Í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur meðal annars fram að ef enginn sem fullnægir ákvæðum þessara laga sækir um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu geti skólameistari þá sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laganna geta málsaðilar skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar. Í 5. mgr. kemur fram að ef að hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 669/2010 um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla, koma fram skilyrði fyrir því að undanþágunefnd geti fjallað um umsóknir. Í b- og c-lið greinarinnar kemur fram að heimilt sé að fjalla um umsóknina ef að enginn framhaldsskólakennari í viðkomandi kennslugrein hafi sótt um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu en þrátt fyrir að framhaldsskólakennari hafi sótt um starfið geti hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mælt með ráðningu hans og skriflegur rökstuðningur þessara aðila fylgi með umsókninni. Sé umsókn skólameistara byggð á framangreindu ákvæði er gert ráð fyrir því í 9. gr. reglugerðarinnar að undanþágunefndinni sé skylt að gefa framhaldsskólakennaranum kost á að tjá sig um framkomin gögn í málinu áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn.

Af umsögn Averður ráðið að hann telji að sú ákvörðun skólameistara að ráða hann ekki til starfsins hafi verið byggða á ómálefnalegum sjónarmiðum. Í bréfi til undanþágunefndar rekur hann menntun sína, kennslureynslu og vísar til meðmæla frá tveimur skólastjórnendum á framhaldsskólastigi sem hann lagði fram með umsókn sinni til starfsins. Ákvörðun skólameistara um að ráða annan til starfsins þrátt fyrir umsókn A byggði á þeim ástæðum sem tilgreindar voru í umsókn hans til undanþágunefndar dags. 9. ágúst 2013, þar sem helst er greint frá að Y hafi meiri menntun en A. Undanþágunefnd kynnti A efni þess bréfs og gaf honum kost á að tjá sig um það áður en hún tók ákvörðun um að synja umsókn menntaskólans um undanþáguheimild.

V.

Þegar litið er til þeirra lagaheimilda sem hér hefur verið vísað til verður ekki séð að þar sé gert ráð fyrir því að undanþágunefnd framhaldsskóla skuli endurskoða ákvörðun skólameistara um að ráða ekki framhaldsskólakennara sem sótt hefur um laust starf í framhaldsskóla. Í því tilliti er nefndin bundin af ákvæðum laga um framhaldsskóla og þeim ákvæðum reglugerðar nr. 669/2010 um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla, sem skýrð verða til samræmis við þau. Þannig er ljóst að undanþágunefndin kannar ekki frekar en að framan er rakið þær forsendur er kunna að liggja að baki þeirri ákvörðun skólameistara að synja A um ráðningu til kennslu í grísku skólaárið 2013-2014.

Þegar málavextir í máli þessu eru virtir verður ekki annað ráðið en að undanþágunefndin hafi kynnt A kæruna og gefið honum tækifæri á að tjá sig um þær áður en undanþágunefnd framhaldsskóla synjaði beiðni X um umrædda undanþágu. Undanþágunefnd taldi að með kæru kæranda hafi ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar og að hún standi við framangreinda synjun. Ráðuneytið telur engan annmarka á málsmeðferð undanþágunefndarinnar. Það athugast í samræmi við framangreint að ráðuneytið tekur í úrskurði þessum enga afstöðu til lögmætis þeirrar ákvörðunar skólameistara X að hafna A um umrætt starf.

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum, sbr. ákvæði laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, framhaldsskólalaga nr. 92/2008 og reglugerðar nr. 669/2010 um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla og því ber að staðfesta hann eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun undanþágunefndar framhaldsskóla, dags. 6. september 2013 um að synja umsókn X um undanþágu fyrir Y til að kenna grísku við menntaskólann skólaárið 2013-2014, er staðfest.

 

 

Fyrir hönd ráðherra


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum