Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20mennta-%20og%20menningarm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Synjun á viðbótargreiðslu vegna skólasóknar utan lögheimilissveitarfélags

Ár 2014, mánudaginn 27. janúar, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefni

Með bréfi, dags. 5. desember 2013, kærði X hdl., fyrir hönd A og B vegna sonar þeirra, Y, ákvörðun sveitarfélagsins C um synjun viðbótargreiðslu vegna skólasóknar utan lögheimilissveitarfélags. Gera kærendur þá kröfu að ákvörðun C, um að skilyrða greiðslu viðbótarkostnaðar við það að drengurinn sæki nám í skóla D verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að sinna skyldu sinni sem lögheimilissveitarfélag drengsins og greiða umræddan viðbótarkostnað.

Ekki ótti ástæða til að veita C færi á að gera athugasemdir við kæruna.

Málsatvik og málsástæður

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærendur töldu son sinn, sem greindur er með mótþróaþrjóskuröskun og hvatvísi, ekki fá þann stuðning sem hann þarfnaðist í skóla E, auk þess sem þau töldu ákveðið viðmót hafa myndast í garð drengsins, bæði af hálfu nemenda og starfsfólks, sem gerðu honum ókleift að njóta sanngirni. Töldu þau því honum fyrir bestu að hann sækti skóla á G-bæ og sóttu því um námsvist fyrir hann utan lögheimilissveitarfélags skólaárið 2013-2014. Þann 7. ágúst sl. var sú beiðni samþykkt að því leyti að C samþykkti að greiða grunnkostnað samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna yfirstandandi skólaárs og sóttu kærendur því um skólavist fyrir Y í skóla F á G-bæ. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru var beiðni um greiðslu á nauðsynlegum kostnaði vegna viðbótarþjónustu við hann hins vegar synjað með tölvupósti sveitarstjóra C, dags. 22. ágúst sl., nema með því skilyrði að drengurinn færi í skóla D. Fram kemur í kæru að Y hafi ekki enn fengið þann aukna stuðning í skóla F, sem hann þarf á að halda. Jafnframt segir þar að þann 12. nóvember sl. hafi föður hans loks borist rökstuðningur sveitarstjóra C, að undangengnum ítrekunum, vegna framangreindrar synjunar.

Í framangreindum rökstuðningi sveitarstjóra kemur m.a. fram að skoðun skóla E hafi verið sú að skóla F væri besta úrræðið fyrir drenginn þar sem meginhlutverk skólans sé m.a. að vinna úr vanda nemenda vegna hegðunar- og aðlögunarvanda og samskiptaröskunar, í samvinnu við foreldra, heimaskóla og önnur úrræði, sem og að veita foreldrum markvissa uppeldis- og foreldraráðgjöf. Ekki hafi verið talið að sambærileg sérfræðiþjónusta fengist í venjulegum grunnskóla og því lögð áhersla á skóla D. Fyrir hafi legið órökstudd afstaða kærenda um að skóla D kæmi ekki til greina og skóli E tekið undir þá afstöðu þeirra að hugsanlega væri nóg að skipta um skóla án annarra úrræða. Þess vegna hafi verið samþykkt að greiða venjulegan grunnkostnað en ekki aukakostnað vegna flutnings í almennan grunnskóla en tilboðið um skóla D stæði óbreytt.

Í kæru kemur fram að kærendur telji málsmeðferð C hafa brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skyldum sveitarfélagsins samkvæmt lögum um grunnskóla. Í kæru segir að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi margar hverjar verið brotnar við meðferð málsins og vísa kærendur í því sambandi til 15. gr., 3. mgr. 21. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er gerð athugasemd við það að barnið hafi ekki fengið tækifæri til að láta skoðun sína í ljós og vísað til 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í því sambandi. Hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á því sem barninu væri fyrir bestu, og vísa kærendur þar til 5. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla og 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þannig hafi sveitarfélagið brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð nr. 585/2010, um nemendur með sérþarfir í grunnskóla. Jafnframt gera kærendur athugasemd við framgöngu skólastjórnenda í málinu, sem nánar er rakin í framkominni kæru.

Niðurstaða

Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að framkomin kæra sé reist á heimild í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla. Í því ákvæði er mælt fyrir um að í þeim tilvikum er ágreiningur verður um fyrirkomulag skólavistar barns skuli við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laganna hefur verið sett reglugerð nr. 585/2010, um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, til nánari útfærslu á framkvæmd þessarar greinar og málsmeðferð.

Í kæru kemur fram að Y hafi ekki fengið aukinn stuðning vegna skólagöngu sinnar í viðtökusveitarfélaginu, þrátt fyrir að fram komi í tölvupósti starfsmanns skóladeildar G-bæ, dags. 22. ágúst 2013, að synjun C um greiðslu viðbótarkostnaðar vegna skólagöngu drengsins muni ekki hafa áhrif á innritun hans í skóla F eða þjónustu við hann. Þá kemur fram í tölvupósti sveitarstjóra C til föður drengsins, dags. 23. ágúst s.á., að hann muni fá nauðsynlega viðbótarþjónustu, eins og fram komi í fyrrnefndum tölvupósti starfsmanns skóladeildar í viðtökusveitarfélaginu. Eigi foreldrar ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hverjir greiði kostnað vegna stuðnings við drenginn og það sé mál sem C og G-bæ leysi sín á milli. Í kæru kemur fram að þrátt fyrir framangreint hafi Y þó ekki fengið þann aukna stuðning í skóla F, sem hann þarf þó á að halda. Í tilefni af því og með hliðsjón af leiðbeiningarreglu 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þykir ráðuneytinu rétt að taka það fram að þegar um er að ræða nemendur með sérþarfir, skv. 17. gr. laga um grunnskóla, eiga þeir rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis, sbr. 1. mgr. 17. gr. Nemendur með metnar sérþarfir, eins og hér um ræðir, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við það. Sá lögbundni réttur nemenda er óháður því hvort ágreiningur kunni að vera milli lögheimilissveitarfélags og viðtökusveitarfélags um það hvort þeirra skuli bera þann viðbótarkostnað. Þá kemur ekki fram að skóla F hafi útbúið sérstaka móttökuáætlun vegna skólagöngu Y þar, sbr. 16. gr. laga um grunnskóla. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 585/2010 hefur skólastjóri forgöngu um að skipuleggja stuðning í námi fyrir nemendur sem hefja nám og hafa sérþarfir samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar skulu grunnskólar, auk almennrar móttökuáætlunar skv. 16. gr. laga um grunnskóla, útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í 9. gr. er nánar mælt fyrir um það hvað skuli gera grein fyrir í slíkri móttökuáætlun. Í 10. og 11. gr. er nánar fjallað um áætlun um stuðning í námi vegna nemenda með sérþarfir, sérstakan stuðning við þá og einstaklingsnámskrá. Í tilefni af þeim ágreiningi sem hér um ræðir þykir jafnframt rétt að vekja athygli á ákvæði 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar, þar sem mælt er fyrir um að sveitarfélögum beri í fjárhagsáætlunum sínum að gera ráð fyrir því að það standi straum af viðbótarkostnaði við skólagöngu barns með sérþarfir sem stundar nám í öðru sveitarfélagi.

Eins og mál þetta liggur fyrir telur ráðuneytið ekki unnt að líta svo á að ágreiningur málsaðila lúti að fyrirkomulagi skólavistar barns, heldur sé hér deilt um það hvort lögheimilissveitarfélag kærenda eða viðtökusveitarfélagið, þar sem Y sækir nú skóla, eigi að standa straum af viðbótarkostnaði við skólagöngu drengsins. Slíkur ágreiningur er ekki kæranlegur til ráðuneytisins á grundvelli 47. gr. laga um grunnskóla. Í 4. gr. viðmiðunarreglna vegna grunnskólanáms utan lögheimilissveitarfélags, sem samþykktar voru af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 25. janúar 2013, er mælt fyrir um að þegar heimild er veitt til náms í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags skuli samhliða samið um greiðslur, en Samband íslenskra sveitarfélaga ákveður sérstakt viðmiðunargjald. Þarfnist nemandi sérstakrar aðstoðar eða aukins stuðnings skal samið sérstaklega um viðbótargreiðslur um leið og gengið er frá samkomulagi um skólagöngu nemanda milli lögheimilissveitarfélags og viðtökusveitarfélags. Samkvæmt því sem fram kemur í fyrirliggjandi gögnum var misbrestur á því að svo væri gert í máli þessu. Komi upp ágreiningur um greiðslur eða annað tengt skólavist og sveitarfélögin geta ekki leyst þann ágreining sín á milli er, samkvæmt 7. gr. viðmiðunarreglnanna, hægt að vísa honum til sérstakrar þriggja manna nefndar til umsagnar. Skilyrði þess að nefndin taki mál til umfjöllunar er að báðir deiluaðilar verði sammála um að vísa því til hennar og að ágreiningur heyri ekki undir annan úrskurðaraðila.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telst mál þetta ekki kæranlegt til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og ber því að vísa málinu frá ráðuneytinu.

 ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru A og B vegna sonar þeirra, Y, á hendur C er vísað frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.


Fyrir hönd ráðherra 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum