Hoppa yfir valmynd

Nr. 144/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 144/2019

Miðvikudaginn 14. ágúst 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 5. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. janúar 2019 á umsókn hans um ellilífeyri frá X 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 29. nóvember 2018, sótti kærandi um ellilífeyri frá X 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að samkvæmt innsendum gögnum muni kærandi ekki fá greiðslur frá B fyrr en í X 2019. Því sé skilyrðum um að allir skyldubundnir lífeyrissjóðir samþykki töku lífeyris fyrir 67 ára aldur ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2019. Með bréfi, dags. 8. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 17. apríl 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að fá greiddan ellilífeyri frá X 2019.

Í kæru segir að kærandi hafi sótt um X mánaða snemmtöku ellilífeyris, miðað við 67 ára aldur, í samræmi við auglýsingu frá Tryggingastofnun ríkisins sem sé svohljóðandi:

„Taka lífeyris frá 67 ára aldri

Frá janúar 2017 verður hægt að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyris. Lækkunin mun byggjast á tryggingafræðilegum grunni á árinu 2017 mun hún þó nema 0,5% fyrir hvern mánuð.

Skilyrði: Að samanlagður réttur frá TR og hjá lífeyrissjóðum sé að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri“

Kærandi telji sig uppfylla þessi skilyrði en Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað umsókninni á þeirri forsendu að réttur til töku lífeyris hjá B hefjist ekki fyrr en umsækjandi nái 67 ára aldri.

Á árunum X til X hafi kærandi starfað hjá C í um X ár og á þeim tíma greitt í D. Eftir að hafa skoðað reglugerð sjóðsins hafi komið í ljós að kærandi öðlaðist ekki rétt hjá sjóðnum þar sem hann hafi greitt í sjóðinn skemur en X ár en ætti rétt á að fá iðgjöldin, þ.e. iðgjöld launþega, endurgreidd þegar hann hætti störfum hjá C. Af einhverjum ástæðum hafi kærandi ekki sinnt þessu og því sé það líklega fyrnt. Árið X, eftir sameiningu C og E, hafi D verið lokað og stofnaður nýr sjóður með nýjum samþykktum, B. Þá hafi verið búin til einhver smánar réttindi til málamynda handa þeim sem höfðu greitt skemur en X ár í D og höfðu af einhverjum ástæðum ekki sinnt því að fá iðgjöld sín endurgreidd þegar þeir hættu störfum hjá C á sínum tíma og voru því ekki gildir sjóðsfélagar. Framangreindir einstaklingar geti hafið töku lífeyris við 67 ára aldurs en aðrir sjóðsfélagar frá X ára aldri. Kæranda hafi aldrei verið tilkynnt um að B væri að gefa honum þessi réttindi og hann hafi aldrei verið skyldubundinn þessum lífeyrissjóði. Kærandi hafi ekki haft hugmynd um þetta fyrr en hann hafi farið að huga að ellilífeyrismálum sínum.

Í kæru segir að miðað við þær forsendur sem Tryggingastofnun ríkisins hafi byggt synjun sína á, mætti álykta að afgreiðsla á umsóknum sem byggi á eftirfarandi forsendum yrðu afgreiddar samkvæmt þeim. Ef tveir jafn gamlir menn sæki um snemmtöku ellilífeyris um heila X mánuði og starfsævi þeirra hafi verið nánast alveg eins. Þeir hefðu greitt í sömu lífeyrissjóði að því undanskildu að annar þeirra hefði farið X ára gamall í heimsreisu í X ár en hinn hefði unnið á meðan hjá [...] og greitt í lífeyrissjóð [...] í X ár. Þá hefði skapast hjá báðum réttur hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun sem næði að lágmarki fullum ellilífeyri almannatrygginga. Tryggingastofnun ríkisins myndi þá afgreiða umsóknir þeirra á þann hátt að annar þeirra fengi samþykki en hinn synjun. Sá sem hafi farið í heimsreisu X ára fengi samþykki en hinn sem hafi unnið hjá [...] í X ár á meðan fengi synjun.

Í kæru segir að kærð sé synjun á umsókn kæranda á þeirri forsendu að það sé útilokað að Tryggingastofnun ríkisins geti mismunað þegnum þessa lands með þessum hætti. Kærandi hafi óskað eftir afriti af lögum, samþykktum og/eða greinargerð sem þessi synjun hafi byggt á, en eina svarið sem hann hafi fengið hafi reyndar verið í tveimur útgáfum. Annars vegar 18. janúar 2019 þar sem hafi komið fram að umsækjandi þyrfti að hafa fengið greiðslur hjá öllum þeim lífeyrissjóðum sem umsækjandi hafi áunnið sér rétt úr áður en hægt væri að sækja um réttindi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hins vegar 25. febrúar 2019 þar sem fram hafi komið að skilyrðin væru að staðfest væri að greiðslur muni hefjast hjá öllum skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem umsækjandi hafi áunnið sér réttindi.

Frekari útskýringar frá Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki borist en þetta ferli hafi tekið yfir þrjá mánuði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á töku ellilífeyris frá X 2019.

Með bréfi, dags. 18. janúar 2019, hafi umsókn kæranda um töku ellilífeyris frá X 2019 verið synjað þar sem lífeyrissjóðsgreiðslur frá B hefjist ekki fyrr en í X 2019 þegar kærandi verði 67 ára.

 

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafa 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Í 3. mgr. 17. gr. segi að heimilt sé að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. Þá segi í 5. mgr. 17. gr. að heimildir skv. 3. og 4. mgr. séu bundnar því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum, sbr. einnig 2. mgr. 52. gr., að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar skv. 3. mgr. 23. gr., verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri skv. 1. mgr. 23. gr. Í reglugerð nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar sé í 2. gr. fjallað um flýtingu töku ellilífeyris. Þar segi í 3. mgr. að heimildin sé bundin því skilyrði að staðfest sé að greiðslur hefjist hjá öllum skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem umsækjandi hafi áunnið sér réttindi. Þá skuli samanlagður áunninn ellilífeyrir frá lífeyrissjóðum, sbr. 9. gr., og almannatryggingum við töku lífeyris, að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar samkvæmt 3. gr., vera að lágmarki jafnhár fullum mánaðarlegum ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar, þ.e. 1/12 af fjárhæð ellilífeyris skv. 1. mgr. 23. gr. laganna.

 

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með rafrænni umsókn, dags. 29. nóvember 2018. Kærandi hafi óskað eftir að hefja töku lífeyris frá X 2019 eða fyrir 67 ára aldur. Þá hafi kærandi sent inn staðfestingar frá F og G um lífeyrisgreiðslur frá þeim sjóðum. Þá hafi  kærandi upplýst í tölvupósti 11. desember 2018 að hann fengi ekki greitt frá B fyrr en í X 2019. Samkvæmt lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 1195/2017 sé heimilt að hefja töku lífeyris fyrir 67 ára aldur, eða allt frá 65 ára aldri, með varanlegri lækkun lífeyrisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrði greiðslna sé að einstaklingur hafi fengið samþykki allra þeirra lífeyrissjóða sem viðkomandi hafði greitt iðgjöld í til að hefja töku lífeyris hjá þeim fyrir 67 ára aldur og að samanlagður lækkaður ellilífeyrir frá Tryggingastofnun og lækkaður lífeyrir frá lífeyrissjóðum nemi að lágmarki fjárhæð fulls ellilífeyris frá Tryggingastofnun.

 

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hefji hann ekki töku ellilífeyris frá B fyrr en í X 2019. Þar sem kærandi hafi ekki fengið samþykkt töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur frá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem hann hafi greitt í, þ.e. frá sama tíma og hann hafi óskað eftir að snemmtaka ellilífeyris hjá Tryggingastofnun miðaðist við, hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að samþykkja umsókn hans um töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur, þ.e. frá X 2019.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2019, þar sem kæranda var synjað um greiðslu ellilífeyris frá X 2019. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir snemmtöku ellilífeyris, þ.e. hvort kærandi hafi átt rétt á greiðslu ellilífeyris frá X 2019 áður en hann varð 67 ára.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla laganna, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Í 3. mgr. 17. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins. Þá segir í 5. mgr. 17. gr. laganna:

„Heimildir skv. 3. og 4. mgr. eru bundnar því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum, sbr. einnig 2. mgr. 52. gr., að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar skv. 3. mgr. 23. gr., verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri skv. 1. mgr. 23. gr.“ 

Samkvæmt 7. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar skal ráðherra setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessarar greinar, meðal annars um sveigjanlega töku ellilífeyris. Á grundvelli þess hefur ráðherra sett reglugerð nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar sem öðlaðist gildi 1. janúar 2018. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um flýtingu töku ellilífeyris en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er heimilt að hefja töku ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins. Í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir svo:

„Heimild samkvæmt 1. mgr. er bundin því skilyrði að staðfest sé að greiðslur hefjist hjá öllum skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem umsækjandi hefur áunnið sér réttindi. Þá skal samanlagður áunninn ellilífeyrir frá lífeyrissjóðum, sbr. 9. gr., og almannatryggingum við töku lífeyris, að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar samkvæmt 3. gr., vera að lágmarki jafnhár fullum mán­aðar­legum ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar, þ.e. 1/12 af fjárhæð ellilífeyris skv. 1. mgr. 23. gr. laganna.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af ákvæði 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar að greiðsla ellilífeyris fyrir 67 ára aldur sé bundin því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Framangreint ákvæði er skýrt nánar í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 þar sem fram kemur að heimildin til snemmtöku ellilífeyris sé bundin því skilyrði að staðfest sé að greiðslur hefjist hjá öllum skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem umsækjandi hafi áunnið sér réttindi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að það sé skilyrði greiðslna ellilífeyris fyrir 67 ára aldur að umsækjandi hafi fengið samþykki allra þeirra lífeyrissjóða sem viðkomandi hafi greitt iðgjöld í til að hefja töku lífeyris hjá þeim fyrir 67 ára aldur. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda í tölvupósti til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2018, fékk kærandi ekki greitt frá B fyrr en í X 2019. Kærandi uppfyllti því ekki það skilyrði 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Kærandi byggir á því að mismunun felist í afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hans. Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um snemmtöku ellilífeyris hafi verið í samræmi við 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1195/2017. Allir umsækjendur um snemmtöku ellilífeyris þurfa að uppfylla það skilyrði framangreinds laga- og reglugerðarákvæðis að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Úrskurðarnefndin telur því að ekkert bendi til annars en að greiðslur ellilífeyris fyrir 67 ára aldur séu veittar á jafnræðisgrundvelli. Því er ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að mismunun felist í afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn hans.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu ellilífeyris fyrir 67 ára aldur frá X 2019, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um ellilífeyri frá X 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira