Hoppa yfir valmynd
Enduruppt%C3%B6kunefnd

Mál nr. 7/2018

Hinn 28. janúar 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 7/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-153/2017:

Ákæruvaldið

gegn

Þorvaldi Árna Þorvaldssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dagsettu 23. ágúst 2018, fór Þorvaldur Árni Þorvaldsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-153/2017, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 11. desember 2017, yrði endurupptekið.
    2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Þórdís Ingadóttir.
  2. Málsatvik
    1. Með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra 21. júlí 2017 var ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti ævilangt og undir áhrifum áfengis. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra 24. október sama árs þar sem það fékk númerið S-20/2017. Endurupptökubeiðandi sótti ekki þing er málið var þingfest. Með dómi héraðsdóms 27. sama mánaðar var endurupptökubeiðanda gert að greiða 280.000 kr. sekt í ríkissjóð en sæta 20 daga fangelsi yrði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
    2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar Íslands með áfrýjunarstefnu 18. desember 2017. Endurupptökubeiðanda var birt áfrýjunarstefna 23. febrúar 2018. Með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, var málið rekið fyrir Landsrétti þar sem það fékk númerið 303/2018. Með dómi Landsréttar 12. október 2018 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur.
    3. Samhliða málinu nr. S-20/2017 var rekið mál gegn endurupptökubeiðanda fyrir Héraðsdómi Suðurlands sem fengið hafði númerið S-153/2017. Endurupptökubeiðandi kom ekki fyrir dóm er málið var þingfest og var það dæmt að honum fjarstöddum. Með dómi héraðsdóms 11. desember 2017 var endurupptökubeiðandi dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi og ævilöng svipting ökuréttinda hans áréttuð. Í dómnum er sakarferill endurupptökubeiðanda rakinn, meðal annars dómur í máli S-20/2017. Þá er honum dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Endurupptökubeiðanda var birtur dómurinn 23. febrúar 2018 og við móttöku hans lýsti hann því yfir að hann undi honum.
  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli S-153/2017 sé efnislega rangur. Máli sínu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til þess að dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli S-153/2017 sé hegningarauki við dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli S-20/2017. Síðarnefnda dóminum hafi verið áfrýjað og sé ljóst að verði dóminum breytt hafi það áhrif á niðurstöðu í fyrrnefnda málinu.
    2. Áfrýjunaryfirlýsingu ríkissaksóknara í máli Héraðsdóms Norðurlands vestra nr. S-20/2017 megi bersýnilega telja til nýrra gagna sem breytt hefði miklu hefði hún komið fram áður en dómur gekk. Telur endurupptökubeiðandi skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt. Endurupptökubeiðandi telur einnig að verulegur galli hafi verið á meðferð málsins, sbr. d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna.
    3. Með bréfi dagsettu 15. október 2018 barst endurupptökunefnd frekari rökstuðningur frá endurupptökubeiðanda. Með bréfinu fylgdi endurrit af dómi Landsréttar í máli nr. 303/2018, uppkveðnum þann 12. október 2018, en þar ómerkti rétturinn sem áður segir dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra í málinu nr. S-20/2017 og vísaði því heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Ástæða ómerkingarinnar var sú að birting ákæru hefði ekki farið fram í samræmi við 156. gr. laga um meðferð sakamála.
    4. Endurupptökubeiðandi byggir á því að við dómsmeðferð Héraðsdóms Suðurlands í máli S-153/2017 hafði dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli S-20/2017 verið beitt til refisþyngingar, en að mati endurupptökubeiðanda átti hann rétt á að málin væru dæmd saman.
  4. Viðhorf gagnaðila
    1. Í erindi ríkissaksóknara 9. nóvember 2018 er bent á að af sakarvottorði endurupptökubeiðanda, sem var meðal gagna í máli S-153/2017 fyrir Héraðsdómi Suðurlands, hafi ekki verið ráðið en að dómur í máli S-20/2017 frá 27. október 2017 stæði óhaggaður. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands hafi refsing endurupptökubeiðanda verið ákveðin sem hegningarauki við dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli nr. S-20/2017. Síðarnefndi dómurinn hafi hins vegar verið ómerktur með dómi Landsréttar 12. október 2018. Samkvæmt því telji ríkissaksóknari að telja megi að uppfyllt séu skilyrði til endurupptöku samkvæmt a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

       

  5. Niðurstaða
  1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 228. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.
  2. Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  3. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  4. Fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-153/2017, sem upp var kveðinn 11. desember 2017, var endurupptökubeiðanda dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 með vísan til dóms Héraðsdóms Norðurlands vestra í málinu nr. S-20/2017, sem kveðinn var upp þann 27. október sama ár.
  5. Forsendur Héraðsdóms Suðurlands í máli S-153/2017, sem nú er krafist endurupptöku á, um að dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli nr. S-20/2017 stæði óhaggaður, voru rangar. Óskað hafði verið eftir áfrýjunarleyfi vegna dóms Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 21. nóvember 2017. Með dómi Landsréttar uppkveðnum 12. október 2018 var dómur héraðsdóms ómerktur og var málinu vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
  6. Af framansögðu leiðir að hegningaraukinn, sem endurupptökubeiðanda var dæmdur í málinu nr. S-153/2017, er reistur á röngum forsendum og hefur ríkissaksóknari fallist á það fyrir sitt leyti að skilyrði til endurupptöku samkvæmt a-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt.
  7. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða endurupptökunefndar að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála um endurupptöku málsins. Samkvæmt því er beiðni endurupptökubeiðanda samþykkt.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Þorvaldar Árna Þorvaldssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-153/2017, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 11. desember 2017, er samþykkt.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum