Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Matvælastofnunar fyrir að hafna greiðslu fyrir greiðslumark mjólkur kærð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 19. júní 2017 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Með stjórnsýslukæru dags. 8. mars 2017 kærðu [A] og [B], hér eftir nefnd kærendur, ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), dags. 23. febrúar 2017, um að hafna greiðslu fyrir greiðslumark mjólkur.

I. Kröfur og kæruheimild

Kærendur krefjast þess að afgreiðsla málsins verði endurskoðuð og að kærendur fái afhent það greiðslumark í mjólk sem þeim var úthlutað skriflega og átti að koma til nota frá og með innlaunsardeginum 1. mars.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran barst fyrir lok kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.

Kærendur sóttu um greiðslumark í mjólk til MAST fyrir 4. febrúar. Þann 15. febrúar var kærendum tilkynnt um úthlutun og jafnframt var þeim send tilkynning dags. 16. febrúar með bréfpósti. Kærendur tilkynntu Búnaðarstofu MAST þann 15. febrúar að Byggðastofnun teldi þetta of skamman tíma til að ganga frá pappírum og þinglýsingum og jafnvel yfirdrætti til að fjármagna kaupin. Þann sama dag óskuðu kærendur eftir greiðslufresti en fengu þau svör að þar sem beingreiðslur yrðu reiknaðar 21. febrúar og greitt út á 3/12 hluta greiðslumarksins 1. mars sé ólíklegt að reiknað verði greiðslumark sem ekki sé búið að greiða fyrir. Þann 23. febrúar fóru kærendur fram á að fá að greiða fyrir þann mjólkurkvóta er þau fengu úthlutað en MAST hafnar greiðslunni sökum þess að engin heimild væri til að veita greiðslufrest skv. reglugerð nr. 1150/2016 um stuðning í nautgriparækt og því væri ekki hægt að skrá kaupin á kærendur.

Með bréfi dags. 8. mars 2017 kærðu kærendur ákvörðun MAST, dags. 23. febrúar 2017, um að hafna greiðslu vegna kaupa á mjólkurkvóta til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í kæru var þess óskað að afgreiðsla málsins verði endurskoðuð og kærendur fái afhent gegn greiðslu það greiðslumark í mjólk sem þeim var úthlutað. Með bréfi dags. 21. mars 2017 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna framangreindrar kæru. Umsögn MAST barst ráðuneytinu með bréfi dags. 3. apríl 2017. Með bréfi dags. 7. apríl 2017 var kærendum veittur frestur til að koma á framfæri athugasemdum við framangreinda umsögn Matvælastofnunar. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi dags. 19. apríl 2017.

III. Málsástæður og röksemdir kærenda

Kærendur krefjast þess að fá afhent gegn greiðslu það greiðslumark í mjólk sem þeim var úthlutað.

Kærendur lýsa því í kæru að þau hafi sótt um lán hjá banka til kaupa á greiðslumarki á innlausnardegi 1. mars, en til að ná þeim markaði hafi þurft að senda inn umsókn um greiðslumark þann 4. febrúar. Bankinn hafi gert kröfu um að vera framar í veðröð en mögulegt var og þar hafi málinu verið vísað frá. Hefðu kærendur þá haft samband við Byggðastofnun til að athuga hvort bankinn kæmist framar í veðröð. Kveða kærendur að tilgreindur lánasérfræðingur Byggðastofnunar hafi þá mælt með því að kærendur sæktu um lán til Byggðastofnunar þar sem þeir gætu boðið betri vexti og almennt betri kjör en viðskiptabanki þeirra. Auk þess hafi meginhluti veðlána kærenda verið hjá Byggðastofnun. Kærendur hafi í kjölfarið sótt um lán frá Byggðastofnun og sent inn beiðni um greiðslumark til Búnaðarstofu MAST fyrir 4. febrúar. Þann 15. febrúar hafi kærendum verið tilkynnt um úthlutun og jafnframt send tilkynning þess efnis dags. 16. febrúar með bréfpósti. Kærendur hafi tilkynnt Búnaðarstofu MAST þann 15. febrúar að Byggðastofnun teldi þetta of skamman tíma til að ganga frá pappírum og þinglýsingum og jafnvel yfirdrætti til að fjármagna kaupin. Þann sama dag hafi kærendur óskað eftir greiðslufresti en fengið þau svör að þar sem beingreiðslur yrðu reiknaðar 21. febrúar og greitt út á 3/12 hluta greiðslumarksins þann 1. mars væri ólíklegt að reiknað yrði greiðslumark sem ekki væri búið að greiða fyrir. Við hafi tekið bréfaskrif á milli kærenda og forstöðumanns MAST. Lánasérfræðingar Byggðastofnunar hafi sent þau „út um allan bæ“ til að fá yfirdráttarheimild til bráðabirgða en gat ekki sent formlegt lánsloforð þar sem ekki var búið að taka mál þeirra fyrir lánanefnd, en óformlegt lánsloforð hafi legið fyrir. Starfsmaður Byggðastofnunar hafi jafnframt rætt við Búnaðarstofu MAST um greiðslufrest fyrir hönd kærenda en orðið lítið ágengt. Síðla föstudagsins 17. febrúar, eftir lokun opinberra stofnana, hafi forstöðumaður MAST svo sent þeim tölvupóst þar sem hann spyr hvenær bankinn telji að gengið verði frá láninu. Á mánudeginum 20. febrúar hafi kærendur svarað því að þau hafi sótt um lán hjá Byggðastofnun og ættu að fá svar í síðasta lagi á fimmtudaginn.

Kærendur kveða rök Búnaðarstofu MAST fyrir því að ekki sé hægt að veita greiðslufrest séu m.a. að þann 21. febrúar reikni Búnaðarstofa út beingreiðslur til bænda með greiðsludagsetningunni 1. mars en síðar hafi rökin breyst á þann veg að gildandi reglugerð heimili ekki greiðslufresti. Telja kærendur að Búnaðarstofa MAST hafi verið undir of miklu álagi þessa fyrstu tvo mánuði ársins 2017 vegna útreikninga á nýjum búvörusamningum en til marks um það þá hafi þeir verið búnir að vera of seinir með útborgun gripagreiðslna í janúar og gæðastýringargreiðslur úr nautgriparækt í febrúar. Kærendur hafi ekki enn fengið greidda gæðastýringu í sauðfjárrækt og hafi starfsmaður Búnaðarstofu sagt þennan seinagang skýrast af því að þau væru ný í kerfinu í gæðastýringu og því tæki tíma að koma þeim inn í kerfið, en þeir sem áður hafi fengið gæðastýringu hafi þegar fengið greitt. Þetta telja kærendur vera ótrúleg rök og verið sé að fara fram á að kærendur sýni greiðslufrestum opinberra stofnana þolinmæði þar sem þetta séu nýjir samningar.

Kærendur telja Búnaðarstofu MAST ekki ekki hafa gætt meðalhófs í þessu máli þar sem verið var að vinna eftir nýrri reglugerð í fyrsta skipti. Sá skammi tími sem kærendur höfðu til að klára lánamál hjá annarri ríkisstofnun hafi m.a. komið til vegna þess hversu langan tíma Búnaðarstofa MAST tók sér til að reikna úthlutun, eða 8 virka daga.

Kærendur benda á að þann 13. mars hafi svo komið frétt frá MAST um innlausnarmarkaðinn að tveir kaupendur hefðu dregið tilboð sín til baka en samkvæmt reglugerð nr. 1150/2016 þá eru kauptilboð bindandi. Það sé því eðlilegt að kærendur spyrji hvers vegna þessi ósveigjanleiki sé gagnvart þeim sem lenda á milli tveggja ríkisstofnana og ná ekki að greiða á réttum tíma en aðrir megi draga tilboð sín til baka sem eru bindandi samkvæmt reglugerðinni.

Kærendur telja að það að veita þeim greiðslufrest hefði hvorki skaðað nokkurn seljanda greiðslumarks né tafið úthlutun þrátt fyrir að svo hefði farið að kærendur fengju ekki lán. Jafnframt telja kærendur vanta í reglugerð nr. 1150/2016 stóran lið sem segi til um hvenær MAST eigi að tilkynna um úthlutun eða hvað þeir megi taka sér langan tíma til að leggja fram niðurstöðu innlausnardaga. Í fyrrnefndri reglugerð sé kveðið á um greiðslufresti Matvælastofnunar fyrir innleyst greiðslumark til seljenda en sá greiðslufrestur sé 15. mars í þessu tilfelli. Kærendur fá ekki séð af hverju ekki sé hægt að veita undanþágu í þeirra tilfelli. Hér sé um að ræða verulegt misræmi í skilyrðum.

Í lok dags. 22 febrúar hafi kærendur fengið afgreitt lán frá Byggðastofnun. Að morgni 23. febrúar hafi þau haft samband við Búnaðarstofu MAST og hafi verið tilbúin til að greiða fyrir mjólkurkvótann sem þeim var úthlutað en MAST hafi þá tjáð þeim að þeir hafi engar heimildir til að veita greiðslufrest samkvæmt reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 1150/2016 og því sé ekki hægt að skrá kaupin hjá þeim. Þarna hafi verið liðin ein vika frá því að kærendur hafi fengið tölvupóst varðandi það hvað þeim var úthlutað sem geti ekki talist langur tími.

Kærendur hafa ákveðið að kæra þessa ákvörðun Búnaðarstofu Matvælastofnunar og fara fram á að fá að greiða hið fyrsta fyrir úthlutað greiðslumark sem þeim var úthlutað þann 15. febrúar sl.

IV. Málsástæður og röksemdir Matvælastofnunar

Í umsögn Matvælastofnunar dags. 3. apríl 2017 kemur fram að Matvælastofnun hafi boðið til sölu innleyst greiðslumark í ársbyrjun 2017 eins og henni beri að gera lögum samkvæmt. Fyrir hafi legið að skilafrestur umsóknar um kaup á greiðslumarki væri til 4. febrúar og greiðslufrestur vegna kaupanna til 20. febrúar. Kærendur hafi lagt inn umsókn þann 3. febrúar um kaup á greiðslumarki, 100.000 lítrum og fengið úthlutað þann 15. febrúar 42.133 lítrum á 138. kr. lítrann. Heildarupphæðin hafi því verið rúmar 5,8 milljónir kr. sem kaupendur þurftu að standa skil á eigi síðar en 20. febrúar 2017. Það hafi þeir ekki gert en þess í stað óskað eftir nokkurra daga greiðslufresti. Hann hafi ekki verið veittur og hafi kaupendum þá verið tilkynnt um að ekki væri hægt að skrá kaupin á þá.

Matvælastofnun vísar til þess að samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 1150/2016 liggi fyrir dagsetningar um 1) hvenær innlausnarvirði skuli í síðasta lagi auglýst, 2) hvenær skilafrestur umsóknar um kaup á greiðslumarki rennur út og 3) hvenær greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki rennur út. Frestir séu því ekki ákveðnir einhliða af Matvælastofnun. Fyrrgreind reglugerð hafi verið gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 15. desember 2016 og birt í Stjórnartíðindum 23. desember sama ár. Fram komi í 2. mgr. 30. gr. reglugerðarinnar að hún öðlist gildi frá og með 1. janúar 2017. Birt fyrirmæli í reglugerðinni bindi því alla, líka kærendur, frá og með 1. janúar 2017, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað.

Matvælastofnun telur því að kærendum hafi mátt vera ljósar allar umræddar dagsetningar. Ekki verði séð að það skipti máli hvort Matvælastofnun hefði verið átta daga eða hugsanlega einhverja færri daga í febrúarmánuði að reikna út hvort kærendum yrði úthlutað greiðslumarki mjólkur. Kærendum hefði því staðið næst að sjá til þess að vera tilbúnir með fjármögnun á þessum kaupum, ef þeim yrði úthlutað greiðslumarki.

Vill Matvælastofnun árétta að innlausnarvirðið (138 kr./ltr.) væri þekkt og því hafi andvirði þess sem kaupandi óskaði eftir að kaupa jafnframt þekkt, þótt endanlegt magn hefi ekki legið fyrir fyrr en unnið hafi verið úr tilboðum. Jafnframt þykir Matvælastofnun rétt að komi fram að skilyrði með núgildandi fyrirkomulagi, þ.e.a.s. með nýjum samningum um innlausn um kaup á greiðslumarki, séu ekki eins ströng og giltu áður um kvótamarkaði þar sem kaupendur urðu að leggja fram bankatryggingu fyrir kaupum.

Við þetta bætist að fyrirmælin í reglugerðinni séu mjög skýr og sé ekki að sjá að Matvælastofnun sé veitt heimild til að veita undanþágur frá umræddum dagsetningum.

Matvælastofnun telur því að þessi kæra eigi ekki við rök að styðjast og fer fram á að synjun stofnunarinnar verði staðfest.

Hvað varðar þá málsástæðu að tveir kaupendur hafi fengið að draga tilboð sín til baka vill Matvælastofnun benda á að fréttin sem birtist á vefsíðu Matvælastofnunar mast.is vegna þessa hafi ekki verið nægilega vel orðuð, en í lok fréttarinnar sagði:

„Við afgreiðslu tilboða lækkaði tilboðsmagn um 305.000 lítra þar sem tveir framleiðendur drógu kauptilboð til baka og einn framleiðandi uppfyllti ekki öll skilyrði fyrir kaupunum“.

Þessi tilvik sem vísað var til hafi ekki verið eins þar sem annar þessara aðila hafi ekki staðið skil á kaupverði fyrir 20. febrúar og því hafi ekki verið hægt að skrá kaupin líkt og hafi gerst í tilviki kærenda. Hinn aðilinn sem vísað var til upplýsti að hann myndi ekki geta staðið við greiðslu fyrir 20. febrúar og því hafi verið fallist á að fella niður kauptilboðið.

Ofangreind tilvik séu því í raun og veru sambærileg og hjá kærendum og efnismeðferð stofnunarinnar á málunum þau sömu hjá öllum þremur aðilum. Í öllum þremur tilvikunum hafi kaupendur ekki staðið skil á greiðslum á réttum tíma og stofnunin hafi því ekki haft önnur úrræði, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar, en að hafna kauptilboðunum í tveimur tilvikum og að fallast á að viðkomandi drægi tilboð sitt til baka í einu tilviki. Eini munur á kærendum og hinum tveimur kauptilboðshöfum sé að kærendur hafi óskað eftir greiðslufresti, en slíkt sé skv. reglugerðinni ekki heimilt að veita.

Matvælastofnun hafni af þessum sökum að í framangreindri afgreiðslu þessara þriggja aðila hafi falist ójafnræði gagnvart kærendum.

V. Afstaða kærenda til umsagnar Matvælastofnunar

Kærendur telja að í umsögn Matvælastofnunar sé talað niður til bænda þar sem ítrekað sé vísað til gildandi reglugerðar nr. 1150/2016 og þess að þeim eigi að vera ljósir greiðslufrestir, þegar stofnunin á sama tíma taki sér í sjálftöku sína eigin greiðslufresti sem ekki sé unnt að sjá að heimildir séu fyrir.

Telja kærendur einnig virðist gæta þess misskilnings að þau hafi ekki verið búin að fjármagna kaup á greiðslumarki sem sé rangt. Þau hafi sótt um lán og fengið jákvætt munnlegt svar frá Byggðastofnun um fjármögnun á kaupum á 100 þúsund lítra mjólkurkvóta. Það sem hafi hamlað kaupunum hafi verið að mál kærenda hafi ekki farið í gegnum formlegt ferli innan Byggðastofnunar þar sem lánanefndarfundir séu einungis haldnir vikulega og fundartími lánanefndar Byggðastofnunar og greiðslufrestur kaupanna hafi skarast í þessu tilviki. Þykir kærendum of skammur tími líða frá því að þau fengu niðurstöðu um úthlutun og þar til greiðslufrestur rann út en í þessi tilviki hafi það verið fjórir virkir dagar. Staðreyndin sé sú að þau myndu aldrei senda inn bindandi kauptilboð án vilyrðis um fjármögnun.

Kærendur óska eftir því að ráðuneytið skoði og skýri niðurlag bréfisins frá lögfræðingi Matvælastofnunar þar sem fram komi að þrír aðilar hafi skilað inn bindandi kauptilboði sem ekki hafi síðan gengið frá kaupunum. Einn hafi upplýst um að hann gæti ekki greitt andvirði kaupanna, en hinn ekki greitt á tilsettum tíma. Kærendur benda á að þau sem þriðji aðili í þessu máli hafi sótt stíft að fá greiðslufrest vegna skorts á undirbúningi hjá annarri ríkisstofnun og hafi ekki fengið að greiða fyrir úthlutaðan kvóta.

Benda kærendur á að eftir þennan útboðsmarkað hafi Matvælastofnun lýst því yfir á opinberum vettvangi að álagið á Búnaðarstofu hafi verið mjög mikið vegna nýrra búvörusamninga. Þann 2. janúar hafi kærendum farið að berast greiðslur samkvæmt nýjum búvörusamningi en þá hafi engar gripagreiðslur borist. Í símtali hafi Búnaðarstofa útskýrt sína hlið og beðið kærendur um greiðslufrest sem þau hafi veitt fúslega. Greiðsla hafi borist daginn eftir og kærendur tekið á sig vextina.

Einnig vilja kærendur benda á að tveimur vikum eftir að greiðslufrestur rann út hafi Búnaðarstofa beðið þau um að sýna þolinmæði og skilning vegna þess að greiðslur fyrir gæðastýringu í sauðfjárrækt töfðust. Kærendur kveða að þau hafi fengið þær greiðslur seinna en aðrir sauðfjárbændur vegna þess að þau eru nýliðar og það hafi tekið tíma að setja þau inn í kerfið. Enn og aftur hafi þau sýnt skilning og tekið á sig vextina. Kærendur hafi því tvisvar veitt Búnaðarstofu greiðslufrest á þessu ári. Búnaðarstofa hafi jafnframt sent út tilkynningu til sauðfjárbænda þann 22. mars um að sýna skilning og þolinmæði. Búnaðarstofa hafði þá sent inn beiðni um reglugerðarbreytingu til ráðuneytisins svo hægt væri að fá meiri tíma til að reikna út opinberar greiðslur til bænda.

Hér þykja kærendum að Matvælastofnun hafi ekki gætt meðalhófs þar sem þau hafi veitt greiðslufresti en samtímis sé Búnaðarstofa ósveigjanleg þegar komi að því að veita þeim greiðslufrest. Því ítreka kærendur ósk sína um endurskoðun á þessari afgreiðslu innlausnardags 1. mars og að þau fái keyptan þann framleiðslurétt sem þeim beri í samræmi við úthlutun.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta lýtur að skilyrðum búvörulaga nr. 99/1993 og reglugerðum settum samkvæmt þeim lögum ásamt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Greiðslufrestur

Ákvörðun Matvælastofnunar sneri að því að kærendum var synjað um að greiða fyrir úthlutað greiðslumark mjólkur þremur dögum eftir að greiðslufrestur samkvæmt reglugerð nr. 1150/2016 rann út.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 1150/2016 er varðar sölu á innleystu greiðslumarki, er greiðslufrestur vegna kaupa á því greiðslumarki sem hér um ræðir til 20. febrúar. Að mati ráðuneytisins er ekki um matskennda ákvörðun Matvælastofnunar að ræða þar sem um lögbundinn gjalddaga er að ræða. Þá telur ráðuneytið, að með því að vera ekki búin að fjármagna kaupin fyrir 20. febrúar, hafi kærendur þar af leiðandi ekki uppfyllt þau skilyrði sem reglugerðin sem sett er með stoð í búvörulögum nr. 99/1993 kveður á um að skuli uppfyllt vegna kaupanna.

Er það mat ráðuneytisins að samkvæmt ofangreindu hafi kærendur því ekki uppfyllt lögbundin skilyrði fyrir kaupum á innleystu greiðslumarki á því tímabili sem um ræðir.

Meðalhófsreglan

Kærendur vísa til þess að meðalhófs hafi ekki verið gætt við meðferð málsins þar sem skammur tími gafst hjá kærendum til að klára lánamál vegna kaupanna.

Í meðalhófsreglunni samkvæmt íslenskum stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti felst í fyrsta lagi, að þegar er um val úrræða að ræða beri að velja vægasta úrræðið sem kemur að gagni. Í öðru lagi felst í henni að hóf verður að vera í beitingu úrræðisins, miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru hverju sinni. Því tilfinnanlegri sem skerðingin sé sem leiðir af ákvörðun stjórnvalda, þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn ákvörðunar eða athafnar. Í meðalhófsreglunni felst því takmörkun á „frjálsu mati“ stjórnvalda.

Í gögnum málsins er vísað til þess að kærendur lögðu inn umsókn þann 3. febrúar um kaup á greiðslumarki, þ.e. 100.000 lítrum. Þann 15. febrúar fengu þau úthlutað 42.133 lítrum á 138 kr,- lítrann. Verður að telja að kærendum hefði mátt vera ljóst að fyrir 20. febrúar þyrftu þau að vera til reiðu með fjármagn fyrir allt að umsóttum 100.000 lítrum þar sem reglugerð nr. 1150/2016 var birt í Stjórnartíðindum þann 23. desember 2016 og tók gildi frá og með 1. janúar 2017. Í reglugerðinni er skýrt kveðið á um hver greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki er og auk þess er hvergi kveðið á um undanþágu hvað varðar greiðslufresti. Er það mat ráðuneytisins, með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, að Matvælastofnun hafi ekki haft svigrúm til mats hvað varðar greiðslufrest þar sem ekki er kveðið á um slíkt, hvorki í lögum né reglugerð, en greiðslufrestur þvert á móti skýrt tiltekinn. Þar af leiðandi verður heldur ekki séð að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi þýðingu fyrir úrlausn máls þessa eins og málatilbúnaður kærenda er úr garði gerður. Í ákvæðinu segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Ákvæðið tekur því til þeirra aðstæðna þegar stjórnvaldi er falið mat á því hvort það taki íþyngjandi ákvörðun og hvers efnis sú ákvörðun eigi að vera. Að mati ráðuneytisins er vandséð að 12. gr. stjórnsýslulaga hafi þau áhrif á túlkun 10. gr. reglugerðar nr. 1150/2016 að skýra beri ákvæðið svo að veita eigi kærendum greiðslufrest.

Hvað varðar þá málsástæðu að tveir aðilar hafi fengið að falla frá tilboði sínu, þá segir í umsögn Matvælastofnunar að sú frétt sem framangreint byggi á hafi verið orðuð á þann hátt sem mátti misskilja. Í raun hafi verið um álíka tilvik hjá kærendum og þeim tveimur aðilum sem uppfylltu ekki skilyrði fyrir kaupunum, þ.e. að í öllum tilvikum hafi kaupendur ekki getað staðið skil á greiðslum á réttum tíma. Ráðuneytið telur því, með vísan til ofangreinds, að við meðferð máls kærenda hafi Matvælastofnun unnið að því að gæta jafnræðis, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið að staðfesta beri ákvörðun Matvælastofnunar dags. dags. 23. febrúar 2017, um að hafna greiðslu kærenda fyrir greiðslumark mjólkur þar sem greiðslufrestur vegna kaupanna var liðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 23. febrúar 2017, um að hafna greiðslu [A] og [B] fyrir greiðslumark mjólkur er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum