Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2008

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2008:

D

gegn

Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 14. nóvember 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 4. apríl 2008 óskaði kærandi, D, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefði með ráðningu í starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka brotið gegnum ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. ný lög, nr. 10/2008, um sama efni.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Þróunarsamvinnustofnun Íslands með bréfi dagsettu 13. maí 2008 og var óskað eftir því að umsögn stofnunarinnar um kæruna bærist kærunefndinni fyrir 27. maí 2008. Með tölvubréfi dagsettu 23. maí 2008 óskaði stofnunin eftir viðbótarfresti til 9. júní 2008 til þess að skila inn umsögninni og var sá frestur veittur. Umsögn stofnunarinnar barst með bréfi dagsettu 9. júní 2008 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 11. júní 2008. Var þess farið á leit að athugasemdirnar bærust fyrir 25. júní 2008. Með tölvubréfi dagsettu 24. júní 2008 óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til
2. júlí 2008 til þess að skila inn athugasemdunum og var sá frestur veittur.

Athugasemdir kæranda við umsögn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands bárust með bréfi dagsettu 26. júní 2008 og voru þær sendar stofnuninni til kynningar með bréfi dagsettu 3. júlí 2008. Var stofnuninni veittur frestur til 17. júlí 2008 til þess að koma athugasemdum að. Með tölvubréfi dagsettu 16. júlí 2008 óskaði stofnunin eftir viðbótarfresti til 24. júlí 2008 og var sá frestur veittur.

Athugasemdir Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 18. júlí 2008 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 29. júlí 2008 þar sem kæranda var veittur frestur til 12. ágúst 2008 til þess að koma athugasemdum á framfæri. Með tölvubréfi dagsettu 22. ágúst 2008 óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til 29. ágúst 2008 og var sá frestur veittur. Hinn 1. september 2008 bárust athugasemdir kæranda með bréfi dagsettu 29. ágúst 2008 og var það sent kærða til kynningar með bréfi kærunefndar dagsettu 2. september 2008.

Með bréfi kærunefndar jafnréttismála dagsettu 1. september 2008, var óskað eftir nánari gögnum kærða sem lágu til grundvallar því að upphaflega hafi verið ákveðið að ráða annan umsækjanda, B, en þann sem endanlega var ráðinn í umrætt starf, auk þess var óskað eftir nánari útlistun á þeim verkefnum sem starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka tekur til.

Kærði veitti viðbótarupplýsingar með bréfi dagsettu 11. september 2008 ásamt fylgiskjölum en afrit af bréfinu var sent kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar dagsettu 25. september 2008.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að í mars 2007 auglýsti Þróunarsamvinnustofnun Íslands laust til umsóknar starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka. Var umsóknarfrestur til 2. apríl 2007. Í auglýsingunni kom fram að í starfinu fælist að vinna að og undirbúa þau verkefni sem væru í vinnslu á sviði gæðamála, söfnunar og úrvinnslu gagna vegna fiskveiðistjórnunar og stefnumótunar, uppbyggingu sjómannafræðslu, mannvirkjagerðar, uppbyggingu fiskvinnslu í litlum löndunarstöðvum sem og vegna námskeiðshalds og þjálfunar á ýmsum sviðum fiski- og sjávarútvegsmála. Verkefnisstjórinn hefði með höndum undirbúning og yfirumsjón þessara verkefna sem og verkstjórn þegar að framkvæmdum kæmi. Starfsstöð verkefnisstjóra væri á skrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Colombo þar sem hann myndi starfa undir daglegri stjórn umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í landinu. Starfið krefðist auk þess talsverðra ferðalaga innanlands á vegum stofnunarinnar. Varðandi kröfur um menntun og reynslu var tekið fram að háskólamenntun væri skilyrði, til dæmis í sjávarútvegsfræði eða tengdum greinum. Starfsreynsla á sviði sjávarútvegs- og fiskimála væri nauðsynleg og reynsla af verkefnastjórnun væri æskileg sem og reynsla af sjálfstæðum verkefnum. Gerð var krafa um reynslu og þekkingu af bókhaldi og fjármálastjórnun og þekkingu á aðferðafræði við undirbúning verkefna, til dæmis Logframe. Tekið var fram að þekking á þróunarmálum væri kostur. Aðrar hæfniskröfur voru sveigjanleiki og aðlögunarhæfni, góð enskukunnátta, góð tækniþekking og góð tölvukunnátta.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands fékk ráðgjafarfyrirtækið Hagvang til þess að sinna tilteknum þáttum í ráðningarferlinu, svo sem móttöku umsókna, ráðgjöf og skimun. Alls bárust tíu umsóknir um starfið og þar af voru sex umsækjendur boðaðir í viðtöl í húsakynnum Hagvangs þann 10. apríl 2007. Vinnusálfræðingur og verkefnisstjóri hjá Hagvangi stýrðu viðtölunum ásamt verkefnisstjóra fiskimála hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Í framhaldinu var sú ákvörðun tekin að ráða karlmanninn B í starfið en horfið var frá því þegar í ljós kom að B uppfyllti ekki þær lágmarkskröfur til menntunar sem tilteknar voru í auglýsingu um starfið. Var þá tekin sú ákvörðun að ráða karlmanninn A.

Kærandi telur að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. ný lög, nr. 10/2008, um sama efni, við ráðningu í starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka. Telur kærandi sig uppfylla þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið betur en sá sem ráðinn var.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafnar því að brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starfið þar sem hæfasti umsækjandinn hafi orðið fyrir valinu og kynferði umsækjenda hafi hvergi komið til skoðunar fyrir í ráðningarferlinu.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. ný lög, nr. 10/2008, um sama efni, við ráðningu í starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka. Kærandi vísar í auglýsinguna um starfið og tekur fram að hún telji sig uppfylla skilyrðin sem þar voru sett fram mjög vel þar sem bæði menntun hennar og reynsla hæfi starfinu. Kærandi telur sig uppfylla þær menntunarkröfur sem settar voru fram í auglýsingunni betur en karlmaðurinn A sem ráðinn var í starfið.

Kærandi tekur fram að tveir umsækjendur hafi í raun verið ráðnir í starfið. Fyrst hafi verið ákveðið að ráða B en hætt hafi verið við ráðninguna þegar í ljós kom að hann hafði ekki lokið námi í sjávarútvegsfræðum og A ráðinn í staðinn. Kærandi telur sig jafnhæfa eða hæfari en báðir þeir umsækjendur sem ráðnir voru. Telur kærandi augljóst að gengið hafi verið fram hjá henni vegna kynferðis enda hafi fyrst verið ráðinn karlmaður sem talinn var vera með nákvæmlega sömu menntun og kærandi en þegar hann svo reyndist ekki hafa lokið námi var ráðinn annar karlmaður með menntun sem ekki sé á sviði sjávarútvegsfræði. Í ljósi þess að B hafi í upphafi verið talinn hæfari en A vegna meintrar gráðu í sjávarútvegsfræðum veltir kærandi upp þeirri spurningu hvers vegna hún hafi ekki einnig verið talin hæfari en A.

Kærandi hafi lokið 120 eininga B.Sc. námi í sjávarútvegsfræðum árið 2004. Samkvæmt námslýsingu Háskólans á Akureyri veiti námið nemendum góðan þekkingargrunn sem nýtist vel til stjórnunarstarfa í sjávarútvegi eða fiskeldi. Auk námskeiða á sérsviði sjávarútvegs og fiskeldis feli námið í sér námskeið á viðskiptasviði. Kærandi hafi verið virk í að sækja sér símenntun og hafi meðal annars sótt námskeið í sjávarútvegsfræðum í Danmörku og setið ráðstefnu um fagið.

Um starfsreynslu sína tiltekur kærandi að hún hafi starfað sem framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvar með góðum árangri í sex ár. Kærandi hafi séð um uppbyggingu fyrirtækisins frá grunni og séð um leyfisveitingar fyrir stækkun húsnæðis, allar lánsumsóknir, verktaka- og starfsmannaráðningar, starfsmannamál, bókhald, þjálfun og svo framvegis. Framkvæmdastjórastarfið hafi veitt henni mikilvæga reynslu í fjármálum, stjórnun og áætlanagerð. Jafnframt hafi hún öðlast mikilvæga reynslu í markaðs- og starfsmannamálum enda hafi starfað allt að 35 starfsmenn hjá fyrirtækinu þegar mest hafi verið.

Kærandi hafi fjölbreytta reynslu af störfum í sjávarútvegi og fiskimálum og hafi meðal annars unnið að rannsóknarverkefnum og öðrum verkefnum þeim tengdum. Þá hafi kærandi unnið sem kokkur á sjó í tvær vertíðir og við frystihús, í saltfiskverkun og rækju með skóla um átta ára skeið. Kærandi hafi unnið sjálfstætt við verkefni frá árinu 2004 og hafi því mikla reynslu af verkefnastjórnun og sjálfstæðum verkefnum. Sem dæmi um verkefni sem kærandi hafi lokið megi nefna verkefni um stofnun og uppbyggingu ferskfisksfyrirtækis. Í því verkefni hafi kærandi þurft að finna lóð, áætla byggingarkostnað og gera áætlun um hráefnisöflun, starfsmannafjölda og kaup á áhöldum og tækjum. Einnig hafi kærandi þurft að gera fýsileikakönnun og rekstraráætlun. Jafnframt hafi kærandi starfað í banka sem gjaldkeri, við villuleit í Reiknistofu bankanna og við ýmis störf. Kærandi hafi góða tölvukunnáttu og gott vald á ensku auk þess að eiga að baki nám í iðnskóla og verkmenntaskóla.

Sá sem endanlega hafi verið ráðinn í umrætt starf hafi lokið B.Sc. gráðu í rekstrarfræði og námi fyrir stjórnendur í sjávarútvegsfræði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Ráðgert hafði verið að hann lyki meistaranámi í stjórnun frá Háskólanum á Bifröst sumarið 2007. Hann hafi 200 tonna skipstjórnarréttindi og 30 ára reynslu af sjávarútvegi, meðal annars sem framleiðslustjóri, framkvæmdastjóri og ráðgjafi. Hann hafi auk þess margra ára reynslu af fjölbreyttum ráðgjafastörfum og verkefnastjórnun erlendis tengdum sjávarútvegi, til dæmis í Mexíkó, Kanada og Rússlandi. Jafnframt hafi hann starfað við sjómennsku til margra ára sem háseti og stýrimaður.

Í þessu sambandi tekur kærandi fram að A hafi ekki lokið námi í sjávarútvegsfræðum, öðru en námi fyrir stjórnendur í sjávarútvegsfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands en samkvæmt upplýsingum frá Endurmenntun sé það 12,5 eininga nám á grunnháskólastigi sem ekki sé metið beint inn í nám við Háskóla Íslands. Námi hans við Bifröst hafi verið ólokið þegar hann var ráðinn í starf verkefnisstjóra og samkvæmt upplýsingum frá Bifröst hafi hann ekki enn lokið námi. Kærandi og A hafi því bæði lokið B.Sc. námi frá Háskólanum á Akureyri en kærandi hafi það fram yfir A að hafa lokið lengra námi auk þess sem nám hennar hafi verið í sjávarútvegsfræðum sem nýtist mun betur í starfi verkefnisstjóra sjávarútvegsmála en almennt rekstrarfræðinám enda hafi nám í sjávarútvegsfræðum sérstaklega verið nefnt í auglýsingunni. Kærandi telur sig því vera hæfari en A hvað nám varðar.

Kærandi telur að upplýsingar sem fengust frá ráðningarskrifstofunni um starfsferil A hafa verið mjög takmarkaðar en að hennar mati hafi sá starfsferill ekki staðist samanburð við hennar gagnvart starfi sem verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Í umsögn kærða sé síðan mikið gert úr fjölbreyttri reynslu A af störfum við sjávarútveg. Horft sé fram hjá því að samkvæmt starfsferilskrá hans sé yfirleitt um skammvinn verkefni að ræða. A virðist hafa verið eitt til tvö ár í Kanada, eitt ár á Íslandi, eitt ár í Rússlandi og eitt til tvö ár í Mexíkó. Lengsta stjórnunarstarf hans virðist hafa verið um tveggja til þriggja ára starf hjá Héraðssambandi Vestfirðinga, sem var að hluta til með námi, en starfið hafi ekki verið á sviði sjávarútvegs. Telur kærandi sig því standa þeim sem ráðinn var að minnsta kosti jafnfætis hvað reynslu varðar.

Í stefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í jafnréttismálum sem samþykkt hafi verið árið 2004 segi að stofnunin muni á næstu árum leitast við að þróa leiðir til að tryggja á markvissan hátt jafna stöðu kynjanna innan stofnunarinnar sjálfrar. Jafnframt segi að þetta muni meðal annars fela í sér leiðir til að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla til að starfa og öðlast starfsframa innan stofnunarinnar.

Í athugasemdum kærða sé bent á að jafnmargar konur og karlar hafi gegnt starfi verkefnisstjóra hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands þegar kærandi sótti um starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka. Eftir því sem kærandi viti best hafi engin kona starfað sem verkefnisstjóri sjávarútvegsmála hjá stofnuninni frá upphafi. Allir starfandi verkefnisstjórar fiski- og sjávarútvegsmála hjá stofnuninni séu karlar. Ein kona sé starfandi sem verkefnisstjóri fiskimála á Íslandi, en hún hafi ekki verið verkefnisstjóri fiskimála þegar ráðið var í umrætt starf á Srí Lanka í maí 2007. Sú staðreynd breyti ekki því að konur séu í miklum minnihluta í þessu starfi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Í 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. 18. gr. nýrra laga nr. 10/2008, segi að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Loks hafi dómaframkvæmd Hæstaréttar verið á þann veg að sé annað kynið í minnihluta á því starfssviði sem ráðning standi um, og umsækjandi af því kyni sé að minnsta kosti jafnhæfur og aðrir umsækjendur til að sinna því starfi sem um ræði, þá beri að veita þeim umsækjanda starfið. Þetta megi meðal annars lesa úr hæstaréttardómum frá 1993 á bls. 2230 í dómasafni og frá 1996 á bls. 3760 í dómasafni réttarins.

Konur séu í miklum minnihluta í störfum við sjávarútveg hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Samkvæmt skýrslu nefndar um störf kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum á Íslandi, sem gefin hafi verið út árið 2007, sé hlutfall karla í íslenskum sjávarútvegi 70,25% en hlutfall kvenna innan við 30%. Konur séu um 40% starfsmanna í fiskvinnslunni en karlar um 60%. Karlar séu yfir 80% þeirra sem starfi við fiskveiðar. Í rannsókn sem nefndin hafi látið gera og birt sé í skýrslunni komi fram að konur séu innan við 14% af stjórnarmönnum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna og þær séu einnig í minnihluta stjórnenda í greininni.

Háskólinn á Akureyri sé eini skólinn á Íslandi sem útskrifi sjávarútvegsfræðinga með B.Sc. í sjávarútvegsfræðum. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum séu konur um 10% þeirra sem útskrifast hafi með gráðu í sjávarútvegsfræðum frá skólanum frá upphafi. Í Hinu íslenska sjávarútvegsfélagi, sem sé fagfélag háskólamenntaðra einstaklinga á sviði sjávarútvegsfræða á Íslandi, séu konur rúm 12% félagsmanna.

Í umsögn kærða sé minnst á að vegna fjölskyldutengsla búi A yfir góðri þekkingu á Srí Lanka auk þess sem hann hafi skilning á störfum í ólíkum menningarheimum. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að í auglýsingunni hafi ekki verið óskað eftir þekkingu á Srí Lanka eða skilningi á störfum í ólíkum menningarheimum. Því hafi ekki verið málefnalegt að líta til þessara atriða við ráðninguna.

Ekki sé útskýrt í umsögninni hvernig A hafi aflað sér þekkingar í þróunarmálum að öðru leyti en því að bent er á störf hans erlendis. Hvorki Kanada né Rússland teljist til þróunarlanda og Mexíkó flokkist sem þróað nývaxtarland samkvæmt skilgreiningu FTSE. Því sé ekki hægt að sjá að A hafi reynslu af starfi í þróunarlöndum eða sérstaka þekkingu á því sviði.

Í umsögninni sé ekkert rætt um þekkingu og reynslu A af bókhaldi og fjármálastjórnun en það hafi verið ein af kröfunum í auglýsingunni um starfið. Ekki sé hægt að ráða af ferilskrá A að hann hafi mikla reynslu af bókhaldi eða fjármálastjórnun og bendi það til þess að hann uppfylli illa eða ekki skilyrði auglýsingarinnar hvað þetta varðar.

Fullyrt sé í umsögn kærða að víðtæk starfsreynsla og frammistaða A í viðtali hafi gert hann hæfastan allra umsækjenda um starfið. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að þrátt fyrir þetta hafi annar umsækjandi verið ráðinn í starfið fyrst, umsækjandi sem talinn var hafa sömu menntun og kærandi hafi.

A standi kæranda að baki hvað varðar menntun tengda sjávarútvegi og reynslu af bókhaldi og fjármálastjórnun. Hann uppfylli því skilyrði auglýsingarinnar um starfið mun síður en kærandi. Kærandi hafi jafnframt sýnt fram á að reynsla hennar af stjórnun og sjávarútvegi sé ekki síður fjölbreytt og viðamikil en hans. Því telur kærandi sýnt að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í viðbótarathugasemdum kæranda bendir hún á að kærði hafi talið að allt ferli við ráðningu í umrætt starf verkefnisstjóra á Srí Lanka „hafi verið vandað og uppfyllt þær kröfur sem lög og reglur gera, m.a. þær reglur sem fyrirfinnast í stjórnsýslulögum nr. 37/1993“ en það sé ekki rétt. Í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli það tilkynna ákvörðunina til aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við frumvarpið komi fram að skyldan til að tilkynna ákvörðun hvíli á því stjórnvaldi sem hana hafi tekið. Þróunarsamvinnustofnunin hafi ekki tilkynnt kæranda að B hefði verið ráðinn í starf verkefnisstjóra á Srí Lanka heldur hafi kærandi fengið bréf frá Hagvangi 4. maí 2007 þar sem þessi ákvörðun var tilkynnt. Jafnframt hafi kærandi aldrei fengið formlegt bréf, hvorki frá Hagvangi né Þróunarsamvinnustofnun, um að A hefði verið ráðinn í starfið heldur hafi kærandi frétt það símleiðis frá Hagvangi 18. maí 2007. Bendir kærandi á að umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvaldi sé ekki heimilt að fela ráðningarfyrirtæki að tilkynna umsækjendum um þá ákvörðun að ráða tiltekinn einstakling í starf. Það komi meðal annars fram í áliti hans í máli nr. 3680/2002.

Af öllu framangreindu leiðir að í þessu máli eigi augljóslega við sú meginregla að sé annað kynið í minnihluta á því starfssviði sem ráðning standi um, og umsækjandi af því kyni sé að minnsta kosti jafnhæfur og aðrir umsækjendur til að sinna starfinu sem um ræði, þá beri að veita þeim umsækjanda starfið.

Samkvæmt framangreindu telur kærandi sýnt að Þróunarsamvinnustofnun hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og fer fram á það að kærunefndin komist að niðurstöðu í samræmi við það.

 

IV.

Sjónarmið Þróunarsamvinnustofnunar Íslands

Í umsögn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er auglýsingin um starfið rakin og greint frá því að stofnunin hafi fengið ráðgjafarfyrirtækið Hagvang til að sinna tilteknum þáttum í ráðningarferlinu, svo sem móttöku umsókna, ráðgjöf og skimun í samræmi við kröfur stofnunarinnar. Umsækjendur um stöðuna hafi verið tíu talsins og þar af hafi sex umsækjendur verið boðaðir í viðtöl sem fram hafi farið í húsakynnum Hagvangs þann 10. apríl 2007. Vinnusálfræðingur og verkefnisstjóri hjá Hagvangi hafi stýrt viðtölunum ásamt verkefnisstjóra fiskimála hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Öll viðtöl hafi farið fram á sama hátt þar sem umsækjendur hafi meðal annars verið spurðir um starfsreynslu sína, þekkingu á sjávarútvegsmálum, þekkingu á þróunarmálum, verkefnastjórnun og bókhaldi. Með hliðsjón af eðli viðkomandi starfs hafi einnig verið mikilvægt að afla vitneskju um félags-, samskipta- og aðlögunarhæfni umsækjenda. Í því sambandi hafi skipt máli þekking á viðkomandi landi auk skilnings á störfum í ólíkum menningarheimum og þekking á þróunarmálum og þróunarsamstarfi almennt. Að auki hafi umsækjendur verið spurðir út í heilsufarstengda þætti sem mögulega gætu komið í veg fyrir að þeir gætu sinnt starfinu með hliðsjón af erfiðum aðstæðum í viðkomandi þróunarlandi. Umsækjendum hafi verið tjáð að áður en ráðningarsamningur yrði undirritaður þyrfti að standast læknisskoðun trúnaðarlæknis Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Allir umsækjendur sem boðaðir hafi verið í viðtal hafi fengið sömu upplýsingar um aðstæður á Srí Lanka, svo sem um stjórnmálaástand, almennt öryggi, heilbrigðisþjónustu og búsetuaðstæður.

Ákvörðun um ráðningu hafi síðan verið í höndum framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem hafi tekið mið af fyrirliggjandi gögnum um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna viðkomandi starfi. Fyrst hafi verið ákveðið að ráða B í starfið en horfið hafi verið frá því þegar í ljós kom að hann uppfyllti ekki þær lágmarkskröfur til menntunar sem tilteknar voru í auglýsingu um starfið. Hafi þá verið lagt mat á þá umsækjendur sem eftir stóðu og höfðu talist meðal þeirra hæfustu. Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hafi þá tekið þá ákvörðun að ráða rekstrarfræðinginn A í starfið.

A hafi B.Sc. gráðu í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri og 200 tonna skipstjórnarréttindi frá Iðnskólanum á Ísafirði. A hafi einnig lokið námi fyrir stjórnendur í sjávarútvegsfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Samkvæmt gögnum frá Háskólanum á Bifröst hafði A lokið öllum áföngum í meistaranámi í viðskiptafræði á stjórnunarbraut og hafið skrif á lokaritgerð á þeim tíma er ráðning átti sér stað.

A hafi um 30 ára fjölbreytta reynslu af störfum við sjávarútveg, meðal annars sem framleiðslustjóri, framkvæmdastjóri, ráðgjafi, stýrimaður, háseti og nú síðast sem deildarstjóri Fiskistofu. Hann hafi auk þess reynslu af ráðgjafastörfum og verkefnastjórnun erlendis tengdum sjávarútvegi, svo sem í Mexíkó, Kanada og Rússlandi. Meðal þeirra starfa og verkefna sem A hafi sinnt á þessu tímabili séu framkvæmdastjóri eigin reksturs í rækjuvinnslu og fyrir rækjuvinnslufyrirtæki á Nýfundnalandi í Kanada, framleiðslustjóri hjá Básafelli hf. á Ísafirði og hjá Íslenskum sjávarafurðum á Kamchatka í Rússlandi og síðar markaðsstjóri sama fyrirtækis á Kamchatka. Hann hafi starfað sem framleiðslustjóri hjá S.A. Nautico í Guyamas, Sonora í Mexíkó og framkvæmdastjóri Sindrabergs hf. á Ísafirði.

Í ráðningarviðtali hafi einnig komið í ljós hversu mikla þekkingu A hafi aflað sér af verkefnum sem tengist uppbyggingu fiskveiða og sjávarútvegs bæði á innlendum og erlendum vettvangi ásamt því að hafa þekkingu á þróunarmálum. Að auki hafi komið fram að vegna fjölskyldutengsla búi A yfir góðri þekkingu á Srí Lanka. A hafi auk þess sýnt að hann hafi mikla þekkingu á þeim þáttum sem skipti máli þegar ná á árangri í fjölþjóðlegum verkefnum og við störf í ólíkri menningu.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi við mat á ákvörðun sinni við ráðningu A sérstaklega horft í sjónarmið er varði þekkingu og fjölbreytta starfsreynslu A á vettvangi sjávarútvegsmála og þá einkum og sér í lagi reynslu hans á erlendum vettvangi. Telja verði að slík reynsla sé einstaklega dýrmæt þegar komi að því að stýra verkefnum í þróunarlöndum líkt og í Srí Lanka.

Öll framangreind sjónarmið hafi verið nefnd í auglýsingu um starf verkefnisstjóra á Srí Lanka á sínum tíma og þar sem ekki sé um að ræða lögbundnar hæfiskröfur, umfram þær sem starfsmannalög nr. 70/1996 tilgreini, þá hafi Þróunarsamvinnustofnun Íslands ákveðið svigrúm til mats á því hvaða sjónarmið ráði för. Í því sambandi hafi stofnunin í umrætt sinn tekið tillit til þess hvernig þarfir hennar yrðu best uppfylltar við ráðningu í framangreint starf.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur að þau sjónarmið sem rakin hafa verið fyrir ráðningu A séu málefnaleg og uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til opinberra stofnana við ráðningu starfsmanna. A hafi, að því er varðar þau sjónarmið sem nefnd hafa verið, staðið öllum umsækjendum framar, þar á meðal kæranda í þessu máli. Hvergi í ráðningarferlinu hafi kynferði umsækjenda komið til skoðunar heldur hafi verið staðið að ráðningunni í samræmi við viðteknar venjur stofnunarinnar og því svigrúmi sem henni sé játað í þessum efnum. Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur þannig að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, sbr. nú lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við umrædda ákvörðun.

Í tilefni af umfjöllun kæranda um jafnréttisstefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ákvæði 13. gr. laga nr. 96/2000, sbr. nú 18. gr. laga nr. 10/2008, um að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf, tekur stofnunin fram að jafnréttisstefna hennar hafi verið samþykkt af stjórn stofnunarinnar í ágúst árið 2005 og markmið hennar sé að stuðla að kynjajafnrétti í samstarfslöndum með því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í verkefni stofnunarinnar. Það sé einnig markmið jafnréttisstefnunnar að stuðla að jöfnum rétti kvenna og karla innan stofnunarinnar sjálfrar þannig að tryggt verði að mannauður hennar nýtist sem best.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi framangreind atriði að leiðarljósi, meðal annars við ráðningu starfsfólks hjá stofnuninni. Fastráðnir starfsmenn á skrifstofu stofnunarinnar séu í dag alls ellefu, þar af sjö konur og fjórir karlar. Þegar kærandi hafi sótt um starf verkefnisstjóra hafi jafnmargir karlar og konur gegnt starfi verkefnisstjóra, fjórar konur og fjórir karlar. Til nánari skýringa megi geta þess að í þeim samstarfslöndum stofnunarinnar þar sem erfiðast sé að starfa samkvæmt erfiðleikastuðli Sameinuðu þjóðanna, þá hafi fleiri konur verið verkefnisstjórar í þeim löndum sem flokkuð séu erfiðust samkvæmt stuðlinum. Öll gögn beri það með sér að stofnunin mismuni ekki eftir kyni í störf verkefnisstjóra og vinni ekki eftir þeim viðmiðum að konur séu verr til þess fallnar að takast á við erfiðar aðstæður sem skapast geti í þróunarlöndunum.

Vegna athugasemda kæranda við umsögn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands tekur stofnunin fram að hún telji að þekking A á Srí Lanka og skilningur hans á störfum í ólíkum menningarheimum séu á meðal þeirra málefnalegu sjónarmiða sem stofnuninni hafi verið heimilt að taka mið af í heildstæðu mati á umsækjendum um starf verkefnisstjóra á Srí Lanka. Þessi atriði megi leiða af auglýsingunni um starfið og eðli þess en ógerlegt sé fyrir stofnunina að telja upp í auglýsingu öll þau málefnalegu sjónarmið sem kunni að hafa áhrif á ákvörðun hennar. Í auglýsingunni hafi komið fram þau meginsjónarmið sem ráðningin hafi byggst á.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands bendir á að í auglýsingunni hafi verið tekið fram að þekking umsækjenda á þróunarmálum væri kostur. Einnig að Mexíkó teljist vera þróunarland samkvæmt flokkun UNDP (United Nations Development Programme) þótt það teljist ekki í hópi þeirra fátækustu. Starfsaðstæður á Kamchatka í Rússlandi séu einnig taldar vera með þeim erfiðustu sem íslenskir ráðgjafar og stjórnendur í sjávarútvegsmálum hafi unnið við. Sú staðreynd að A hafi reynslu af störfum í Mexíkó og Kamchatka í Rússlandi sé sjónarmið sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur að sér hafi verið heimilt að taka mið af við heildrænt mat á hæfni A til að takast á við starf verkefnisstjóra á Srí Lanka.

Enn fremur tekur Þróunarsamvinnustofnun Íslands fram að skömmu áður en starf verkefnisstjóra á Srí Lanka var auglýst laust til umsóknar hafi konan C, sem sé matvælafræðingur, lokið störfum sem verkefnisstjóri fiskimála í Mósambík og tekið við starfi umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunar í Úganda, þ.e. starfi yfirmanns allra verkefna stofnunarinnar í því landi, þar á meðal verkefna á sviði fiskimála. C starfi nú sem verkefnisstjóri fiskimála á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík. Það starf felist í því að vera yfirumsjónaraðili allra fiskimálaverkefna stofnunarinnar í sex samstarfslöndum hennar. Auk C hafi þrjár aðrar konur starfað sem umdæmisstjórar stofnunarinnar á síðastliðnum sex árum og því gegnt starfi yfirmanna allra verkefna í samstarfslöndum stofnunarinnar, þar á meðal fiskimálaverkefna.

Þróunarsamvinnustofnunar Íslands tekur fram að allar upplýsingar og gögn sem B hafi lagt fyrir Hagvang og kærða í umsóknarferlinu hafi borið það með sér að B hefði lokið B.Sc. prófi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Miðað við þær upplýsingar um menntun, upplýsingar um starfsreynslu og frammistöðu í viðtali hafi það verið mat kærða að B stæði öllum öðrum umsækjendum framar. Þau mistök hafi hins vegar verið gerð að taka slíka ákvörðun og tilkynna öðrum umsækjendum um hana áður en staðfesting um menntun hans hafi borist Þróunarsamvinnustofnuninni. Þegar óskað hafi verið eftir þessum staðfestingargögnum við B símleiðis hafi hann tjáð að slík gögn yrðu send frá Háskólanum á Akureyri og hann myndi koma þeim til skila. Þegar eftir því var gengið hafi komið í ljós að B hafði aldrei klárað lokaverkefni sitt í sjávarútvegsfræðum og grundvöllur fyrir ráðningu hans því brostinn vegna þess að hann uppfyllti ekki lágmarkskröfur um menntun sem komu fram í auglýsingu um starfið. Í framhaldinu hafi verið lagt mat á þá umsækjendur sem eftir stóðu. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur nú þegar breytt verklagi sínu við ráðningar til að koma í veg fyrir að slík mistök hendi aftur. Meðal annars óskar stofnunin nú ávallt eftir því að afrit af prófskírteini fylgi öllum umsóknum um störf.

Að lokum tekur Þróunarsamvinnustofnun Íslands fram að með þeirri ákvörðun að ráða A í starf verkefnisstjóra á Srí Lanka hafi hæfasti umsækjandinn verið valinn og þar hafi sjónarmið er lúti að kynferði hans eða annarra umsækjenda hvergi komið nærri þannig að brotið hafi verið í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. nú lög nr. 10/2008. Fullyrðingar kæranda um annað séu í hróplegu ósamræmi við öll atvik málsins, jafnréttisstefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þá stöðu sem konur innan stofnunarinnar hafi og hafi haft í hópi stjórnenda.

 

V.

Niðurstaða

Hinn 17. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III gilti umboð kærunefndar jafnréttismála samkvæmt áður gildandi lögum, nr. 96/2000, fram til þess tíma er ráðherra skipaði nýja kærunefnd jafnréttismála. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu 16. apríl 2008 og tók skipunin gildi 1. maí síðastliðinn. Erindi kæranda var móttekið hjá kærunefnd jafnréttismála hinn 7. apríl síðastliðinn og tók nýskipuð nefnd mál þetta til meðferðar.

Ekki er í lögum nr. 10/2008 kveðið á um lagaskil vegna mála sem til meðferðar voru hjá kærunefnd jafnréttismála fyrir gildistöku nýju laganna eða þar sem öll atvik sem urðu tilefni kæru gerast í tíð eldri laga. Af hálfu nefndarinnar er litið svo á að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Álit þetta er því byggt á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar Þróunarsamvinnustofnun Íslands réði í starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka en ráðningarferlinu lauk í maí 2007.

Erindi kæranda til kærunefndar var móttekið þann 7. apríl 2008 en kærufrestur var eitt ár samkvæmt ákvæði í 2. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í ákvæðinu er tekið fram að ef leitað er rökstuðnings á ákvörðun um ráðningu byrji fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærandi mun fyrst hafa fengið upplýsingar um endanlega ráðningu í starfið þann 18. maí 2007 og óskaði, með tölvupósti sama dag, eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni. Kæra barst því nefndinni vel innan lögbundins kærufrests.

Þess skal getið að samkvæmt lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal hlutverk kærunefndarinnar vera að gefa álit á því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin í viðkomandi tilviki. Athugasemdir kæranda er lúta að stjórnsýslulegri meðferð málsins, svo sem um tilkynningu um ráðningu og óformlegan rökstuðning, falla ekki undir verksvið nefndarinnar.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Starf verkefnisstjóra sjávarútvegsmála á Srí Lanka var auglýst laust til umsóknar í mars 2007. Í auglýsingunni var tekið fram varðandi kröfur um menntun og reynslu að háskólamenntun væri skilyrði, til dæmis í sjávarútvegsfræði eða tengdum greinum. Starfsreynsla á sviði sjávarútvegs- og fiskimála væri nauðsynleg og reynsla af verkefnastjórnun væri æskileg sem og reynsla af sjálfstæðum verkefnum. Jafnframt var gerð krafa um reynslu og þekkingu af bókhaldi og fjármálastjórnun og þekkingu á aðferðafræði við undirbúning verkefna. Tekið var fram að þekking á þróunarmálum væri kostur. Aðrar hæfniskröfur voru sveigjanleiki og aðlögunarhæfni, góð enskukunnátta og góð tækniþekking og tölvukunnátta.

Tíu umsóknir bárust um starfið og voru sex umsækjendur teknir í viðtal af vinnusálfræðingi og verkefnisstjóra hjá Hagvangi sem stýrði viðtölunum ásamt verkefnisstjóra fiskimála hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Öll viðtölin munu hafa farið fram á sama hátt þar sem umsækjendur voru meðal annars spurðir um starfsreynslu sína, þekkingu á sjávarútvegsmálum, þekkingu á þróunarmálum, verkefnastjórnun, bókhaldi og fleira. Ákvörðun um ráðningu var í höndum framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og var tekið mið af fyrirliggjandi gögnum um hæfi og hæfni umsækjenda. Upphaflega var umsækjandinn B ráðinn í stöðuna en þegar í ljós kom að hann uppfyllti ekki það skilyrði sem getið var í auglýsingu um að hafa háskólamenntun, var horfið frá ráðningunni og karlmaðurinn A ráðinn þess í stað.

Kærandi byggir á því að hún hafi verið hæfari, eða að minnsta kosti jafnhæf, til að gegna starfinu og sá sem ráðinn var. Telur kærandi að samanburður á þeim atriðum, sem máli voru talin skipta í auglýsingunni um starfið, leiði í ljós að gengið hafi verið framhjá henni við ráðningu í starfið og að kynferði hennar hafi skipt þar máli.

Í rökstuðningi kæranda fyrir kæru til nefndarinnar kemur meðal annars fram að kærandi telur að menntun sín hafi fallið betur að þeim menntunarkröfum sem settar voru fram í auglýsingunni. Kærandi hafi lokið 120 eininga B.Sc. námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri en því námi sé ætlað að veita góðan þekkingargrunn sem nýtist til stjórnunarstarfa í sjávarútvegi eða fiskeldi auk þess sem námið sé jafnframt á viðskiptasviði. Þá hafi kærandi einnig sótt námskeið í sjávarútvegsfræðum í Hirtshals í Danmörku og setið ráðstefnu um fagið hjá Alþjóðamatvælastofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm. Starfsreynsla kæranda sem nýtast myndi í starfinu fólst í að hún hafi unnið sjálfstætt eftir útskrift á því sviði en áður starfað sem framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvar í sex ár og haft þar yfir umtalsverðum starfsmannafjölda að segja auk þess sem hún hafi séð um uppbyggingu fyrirtækisins og fleira. Kærandi hafi einnig verið stundakennari hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þar sem hún hafi flutt fyrirlestra um mikilvægi heilsuræktar og unnið við rannsóknarverkefni með styrk frá Nýsköpunarsjóði. Jafnframt hafi kærandi unnið við hin ýmsu störf en hún tiltekur meðal annars; fjölbreytt bankastörf, afgreiðslustörf, fiskvinnslustörf, vinnu sem kokkur á sjó, vinnu sem þjónn auk starfa við slátrun í sláturhúsi.

Kærandi telur sig jafnhæfa eða hæfari en bæði sá sem starfið hlaut og sá sem upphaflega var ráðinn en eins og fram hefur komið gekk ráðning hans til baka þar sem síðar kom í ljós að hann uppfyllti ekki menntunarskilyrði. Telur kærandi að gengið hafi verið fram hjá henni vegna kynferðis þar sem fyrst hafi verið ráðinn karlmaður sem gengið var út frá að hefði B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri sem er sama menntun og kærandi hefur. Þegar sá reyndist ekki hafa lokið námi var ráðinn annar karlmaður með menntun sem ekki sé á sviði sjávarútvegsfræði. Af þessu dregur kærandi þá ályktun að gengið hafi verið fram hjá henni vegna kynferðis.

Um atriði þetta tekur Þróunarsamvinnustofnun Íslands fram að allar upplýsingar og gögn sem B lagði fram í umsóknarferlinu hafi borið það með sér að hann hefði lokið B.Sc. prófi í sjávarútvegsfræðum. Miðað við þær upplýsingar um menntun, upplýsingar um starfsreynslu og frammistöðu í viðtali hafi það verið mat stofnunarinnar að hann stæði öllum öðrum umsækjendum framar. Þau mistök hafi hins vegar verið gerð að taka slíka ákvörðun og tilkynna öðrum umsækjendum um hana áður en staðfesting um menntun hans höfðu borist Þróunarsamvinnustofnuninni. Í kjölfarið hafi umsækjendur verið metnir að nýju. Í bréfi Hagvangs til kæranda dagsettu 2. maí 2007 þar sem greint var frá ráðningu B var hann sagður sjávarútvegsfræðingur en jafnframt vísað til þess að hann hafi starfað sem framleiðslustjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri í sjávariðnaði um árabil.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir því við Þróunarsamvinnustofnun að nefndinni bærist umsókn ásamt gögnum þess sem upphaflega var ráðinn. Að lokinni yfirferð taldi kærunefndin ekki ástæðu til að ætla annað en að B hafi upphaflega verið metinn hæfasti umsækjandinn eins og málum var háttað og þar með hæfari en sá sem síðar var ráðinn til starfsins.

Fram kemur í náms- og starfsferilskrá þess sem starfið hlaut að hann hafi B.Sc. gráðu í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri og 200 tonna skipstjórnarréttindi frá Iðnskólanum á Ísafirði. Hann hafi einnig próf í sjávarútvegsfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Samkvæmt gögnum frá Háskólanum á Bifröst hafði hann lokið öllum áföngum í meistaranámi í viðskiptafræði á stjórnunarbraut og hafið skrif á lokaritgerð á þeim tíma er ráðning átti sér stað. Varðandi starfsreynslu kemur fram að hann hafi langa eða um 30 ára fjölbreytta reynslu af störfum við sjávarútveg, meðal annars sem framleiðslustjóri, framkvæmdastjóri, ráðgjafi, skipstjóri, stýrimaður, háseti og nú síðast sem deildarstjóri Fiskistofu. Hann hafi reynslu af ráðgjafastörfum og verkefnastjórnun tengdum sjávarútvegi erlendis, svo sem í Mexíkó, Kanada og Rússlandi. Meðal þeirra starfa og verkefna sem hann hafi sinnt á þessu tímabili séu framkvæmdastjóri eigin reksturs í rækjuvinnslu og fyrir rækjuvinnslufyrirtæki á Nýfundnalandi, framleiðslustjóri hjá Básafelli hf. á Ísafirði og hjá Íslenskum sjávarafurðum á Kamchatka í Rússlandi og síðar markaðsstjóri sama fyrirtækis á Kamchatka. Hann hafi starfað sem framleiðslustjóri hjá S.A. Nautico í Guyamas, Sonora í Mexíkó og framkvæmdastjóri Sindrabergs hf. á Ísafirði. Einnig mun hafa komið fram í ráðningarviðtali að hann hafi góða þekkingu á Srí Lanka.

Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem ræður í starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð og ráði úrslitum. Kærunefnd hefur litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans.

Fallast má á það með kæranda að B.Sc. nám hennar í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri hafi fallið vel að því starfi sem um ræðir. Menntun hans er þó ekki minni en menntun kæranda. Hins vegar vegur þyngra í þessum efnum að sá sem ráðinn var hafði mun lengri starfsreynslu, þar með talda áratugalanga reynslu af fjölbreyttum störfum tengdum sjávarútvegi. Þá bjó hann að starfsreynslu í sjávarútvegi erlendis, þar með talið í löndum þar sem aðstæður verða að teljast erfiðar og frumstæðar, hvort sem umrædd lönd hafi verið eða séu flokkuð sem þróunarlönd. Þannig hafði hann reynslu af ráðgjafarstörfum og verkefnastjórnun tengdum sjávarútvegi í Mexíkó, Nýfundnalandi í Kanada og Kamchatka í Rússlandi. Þessi víðtæka og fjölbreytta starfsreynsla þess sem ráðinn var, þar á meðal í ólíkum menningarheimum, mun hafa ráðið úrslitum um að hann var talinn hæfastur til starfsins.

Þegar litið er til þess sem að framan greinir verður ekki talið að umdeild ákvörðun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um ráðningu karls í starf verkefnisstjóra á Srí Lanka í maí 2007 hafi verið ómálefnaleg þannig að leiddar hafi verið líkur að því að ákvörðunin hafi tengst kynferði kæranda.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

 

Björn L. Bergsson

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum