Hoppa yfir valmynd

Nr. 51/2018 - Úrskurður

Sjúklingatrygging

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 51/2018

Miðvikudaginn 13. júní 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. nóvember 2017 á bótum til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 3. október 2016, vegna meintra afleiðinga bólusetningar. Fram kemur í umsókn að árið X hafi kærandi fengið [...] og verið í viðeigandi lyfja- og geislameðferð næstu tvö árin. Í X hafi kærandi farið í bólusetningu við flensu sem olli miklum flensueinkennum. Í X fékk kærandi lyfjameðferð við krabbameininu og varð í kjölfarið mjög veik. Í X var kærandi í síðustu lyfjameðferðinni vegna krabbameinsins og í X hafi hún tekið eftir versnandi heyrn á vinstra eyra. Þann X var hún lögð inn á Landspítala og lá þar inni til loka X. Heyrn hennar versnaði eftir stutta legu á spítalanum og var hún í lífshættu. Kærandi var greind með heilavírus sem einnig lagðist á taugakerfið. Kærandi missti heyrn á báðum eyrum. Þann X fór kærandi í aðgerð á höfði og í lok X var hún læknuð af heilavírusnum en var þó enn með verulega skerta heyrn.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 10. nóvember 2017, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatrygginga samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratryggingar Íslands barst með bréfi, dags. 6. mars 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2018, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 21. mars 2018, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 22. mars 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði réttur kæranda til bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 vegna líkamstjóns í kjölfar bólusetningar við inflúensu á árinu X.

Kærandi kveður atvik málsins í stuttu máli vera þau að hún hafi greinst með [...] á árinu X og hafið í kjölfarið lyfjameðferð vegna þessa. Lyfjameðferðinni hafi lokið um mitt ár X og eftir hana hafi tekið við viðhaldsmeðferð sem hafi lokið í X.

Á árunum X og X hafi kærandi fengið bólusetningar með bóluefninu Vaxigrip á heilsugæslustöðinni á C. Hún hafi strax fegið mikil flensueinkenni, beinverki, háan hita og bjúg. Fljótlega eftir bólusetninguna hafi farið að bera á heyrnartapi hjá kæranda. Heyrnartap kæranda hafi orðið svo mikið að hún sé nú alveg heyrnarlaus á báðum eyrum.

Kærandi telji að heyrnartap sitt sé að rekja til bólusetningarinnar á árinu X, enda hafi ónæmiskerfi hennar verið sérstaklega veikt og brothætt á þessum tíma vegna krabbameinsmeðferðar og það því ekki tilbúið að takast á við bóluefnið. Hjúkrunarstarfsmaður hafi því sýnt af sér saknæma háttsemi með því að bólusetja hana með umræddu bóluefni. Með tilkynningu, dags. 3. október 2016, hafi Sjúkratryggingum Íslands verið tilkynnt um atvikið og jafnframt sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Með ákvörðun, dagsettri 10. nóvember 2017, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað beiðni kæranda um greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu. Að mati stofnunarinnar hafi skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatrygginu ekki verið uppfyllt. Þessa niðurstöðu geti kærandi ekki sætt sig við og sé því knúin til þess að kæra mál þetta til úrskurðarnefndarinnar. Krefjist kærandi þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði réttur hennar til bóta vegna tjóns í kjölfar bólusetningarinnar fyrir inflúensu á árinu X.

Í hinni kærðu ákvörðun sé komist að því að 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu eigi ekki við í málinu, enda hafi ekki verið orsakatengsl á milli tjóns kæranda og meðferðarinnar sem hún fékk umrætt sinn. Þá hafi ekki verið saknæmt eða ófaglegt að gefa kæranda inflúensubólusetningu á umræddum tíma.

Kærandi sé ekki sammála þessum staðhæfingum, og telji fullljóst að heilsutjón hennar sé að rekja til bólusetningarinnar er hún fékk á árinu X. Þannig hafi ónæmiskerfi hennar verið svo veikt að hjúkrunarstarfsmaður sá er sinnti bólusetningu umrætt sinn hefði mátt vita að kærandi myndi hljóta heilsutjón af bólusetningunni. Sé þannig ljóst að mati kæranda að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem uppi voru í þessu máli hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið í samræmi við þekkingu og reynslu, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kærandi bendi jafnframt á að réttur þeirra sem tryggðir séu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingar yrði að engu hafður ef fyrir fram yrði gengið út frá þeirri forsendu að saga um heilsubrest útiloki orsakasamband milli læknamistaka og líkamlegra einkenna. Í það minnsta verði að telja aðferðarfræði Sjúkratrygginga Íslands, þar sem fyrri heilsufarsvandamál girði fyrir rétt sjúklinga til bóta vegna mistaka við læknismeðferð, sé í hróplegu ósamræmi við það markmið laga um sjúklingatryggingar að tryggja tjónþola víðtækari bótarétt en hann ætti samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

Samkvæmt framansögðu telji kærandi skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 uppfyllt og að tjón hennar sé því bótaskylt á grundvelli laganna.

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. mars 2018, kemur fram að hin kærða ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands virðist byggja á því að bóluefni það sem kærandi fékk í umrætt sinn, Vaxigrip, hafi ekki innihaldið lifandi eða veiklaða veiru.

Í bólusetningarskírteini (e. product monograph) vegna bóluefnisins Vaxigrip, sem framleiðandinn Sanofi Pasteur Ltd. birti, komi fram að bóluefnið innihaldi veiklaða veiru. Á bls. 4 sé bóluefninu lýst:

„DESCRIPTION

VAXIGRIP® [Inactivated Influenza Vaccine Trivalent Types A and B (Split Virion)] for

intramuscular use, is a sterile suspension containing 3 strains of influenza virus cultivated on embryonated eggs, concentrated, purified by zonal centrifugation in a sucrose gradient, split by Triton® X-100, inactivated by formaldehyde and then diluted in phosphate buffered saline solution.

The type and amount of viral antigens contained in VAXIGRIP® conform to the current requirements of the World Health Organization (WHO).“

Ljóst sé að umrætt bólusetningarskírteini eigi við, enda sé bóluefnisnúmerið J07BB02 tilgreint þar sem og í sjúkraskrá kæranda, sbr. færslu í sjúkraskrá 16. október 2012.

Í hinni kærðu ákvörðun og greinargerð sé byggt á tillögum IDSA (Infectious Diseases Society of America) um forvarnir gegn bóluefni og afleiðingar þeirra. Þetta sé almennt upplýsingayfirlit yfir ráðlagðar tilvitnanir. Þar segi að áður en bólusetning fari fram til krabbameinssjúklinga verði læknir að meta ástand og áhættu sjúklingsins. Líkt og áður hafi komið fram hafi læknar ekki gert það í tilviki kæranda.

Framleiðandi lyfsins, Sanofi Pasteur Ltd., kveði hugsanlegar aukaverkanir sem geti komið eftir bólusetningargjöf með efninu m.a. höfuðverk, verki í vöðvum, almenna vanlíðan, óvenjulega þreytu eða máttleysi, skjálfta, hita, syfju, ógleði, niðurgang, taugaeinkenni (t.d. stífleika í hálsi, stirðleika, verki og máttleysi í útlimum og ójafnvægi, encephalomyelitis, Guillain-Barre syndrome).

Kærandi hafi fundið fyrir þessum aukaverkunum og verið greind með encephalomyelitis.

Kærandi vísar einnig til upplýsinga frá MediResource Inc. þar sem fram komi m.a. á bls. 4 að bóluefnið sé ekki jafn áhrifaríkt fyrir þá sem séu með veikt ónæmiskerfi, t.d. þá sem séu á lyfjameðferð. Þá segi að bóluefnið geti haft víxlverkun með m.a. eftirfarandi lyfjum:

  • Ónæmisbælandi meðferð (e. immonusuppresive therapy)
  • Krabbameinslyfjum (t.d. carboplatin, cyclophosphamide, doxorubicin, ifosfamide, vincristine)
  • Rituximab

Þau lyf sem séu undirstrikuð hafi verið notuð við krabbameinsmeðferð kæranda X-X. Þá hafi lyfið rituximab verið notað í viðhaldsmeðferð X-X.

Kærandi vísar til skjals Aþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization, WHO) þar sem fjallað sé um samsetningu bóluefnisins árið 2012-2013. Þar komi fram að bóluefnið sem framleitt hafi verið á árunum 2012-2013 hafi verið með þremur mismunandi veirum.

Kærandi bendir á að þessi skjöl sem vísað hafi verið til séu aðeins dæmi úr stærri gagnagrunni um þetta bóluefni. Ofangreindar upplýsingar um bóluefnið og viðvaranir virðist vera rauður þráður í þeim öllum. Kærandi bendi á að krabbameinslæknar og aðrir starfsmenn heilsugæslustöðvarinnar á C hefðu átt að gera ítarlegt mat á standi ónæmiskerfis kæranda og meta áhættuna af því að taka bóluefnið. Þá hefðu þeir átt að tilkynna henni um hugsanlegar afleiðingar og áhættu, með það í huga að leyfa henni sjálfri að ákveða hvort hún vildi láta bólusetja sig eða ekki. Slíkt hafi ekki verið gert.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að umsókn kæranda um bætur hafi verið synjað á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt atvik sem fallið gat undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. 

Við meðferð málsins hafi verið óskað eftir heilsufarsgögnum kæranda auk afrits af bólusetningarskírteini hennar en fram hafi komið í umsókn kæranda að hún teldi að heyrnartap sitt mætti rekja til bólusetningar frá X og að heilbrigðisstarfsmaður hefði sýnt af sér saknæma háttsemi með því að bólusetja hana vegna krabbameinsmeðferðar sem hún undirgekkst á þeim tíma. Gögn málsins hafi sýnt að kærandi hlaut enga bólusetningu á árinu X þegar hún var í umræddri krabbameinsmeðferð en samkvæmt bólusetningarskírteini hennar hafi mátt sjá að hún fékk inflúensubólusetningu árin X og X. Var því, við meðferð málsins, miðað við að kærandi ætti við bólusetninguna X, en bera fór á heyrnatapi hennar í X.

Niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands hafi verið sú að ekkert hefði verið athugavert við að gefa kæranda inflúensubólusetningu á umræddum tíma, enda hafði hún áður fengið slíka bólusetningu án kvilla og þá var kröftugri krabbameinsmeðferð hennar lokið. Þá sé ljóst, að alla jafna sé mælt með slíkri bólusetningu ef einstaklingar svari henni vel nema rík ástæða sé að ætla, að einstaklingur sé ólíklegur til að svara bólusetningu með eðlilegum hætti. Um hafi verið að ræða bólusetningu með bóluefninu Vaxigrip sem innihaldi ekki lifandi eða veiklaða veiru, en flokkun þess sé mótefnisvaki (IIV). Samkvæmt gögnum málsins sem legið hafi fyrir frá heilbrigðisstofnunum hafi þótt ljóst að kærandi hafi fengið veirusýkingu sem leiddi til enteroveiruheilabólgu með þeim afleiðingum að kærandi missti meðal annars heyrn.  

Í ljósi þessa hafi skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna ekki verið uppfyllt, enda tjón kæranda ekki rakið til inflúensubólusetningarinnar heldur enteroveiruheilabólgunnar og ekki talið að orsakatengsl gætu verið þar á milli. Þá hafi aðrir töluliðir 2. gr. ekki verið til skoðunar vegna málsins. 

1)         Kærandi telji að heilsutjón hennar sé að rekja til bólusetningarinnar X. Komi fram í kæru að ónæmiskerfi kæranda hafi verið svo veikt að hjúkrunarstarfsmaður er sinnti bólusetningunni hefði mátt vita að kærandi myndi hljóta heilsutjón af. Þannig sé ljóst, að mati kæranda, að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

2)         Í kæru sé einnig tekið fram að kærandi bendi á að réttur þeirra sem tryggðir séu samkvæmt lögum nr. 111/2000 sé að engu hafður sé fyrirfram gengið út frá þeirri forsendu að saga um heilsubrest útiloki orsakasamband á milli læknamistaka og líkamlegra einkenna. Verði að telja aðferðarfræði Sjúkratrygginga Íslands, þar sem fyrri heilsufarsvandamál girði fyrir rétt sjúklinga til bóta vegna mistaka við læknismeðferð, í hróplegu ósamræmi við það markmið áðurnefndra laga, að tryggja tjónþola víðtækari bótarétt en hann ætti samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

Í ljósi þessa telji kærandi því skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu uppfyllt og að tjón kæranda sé bótaskylt.

1)         Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi byrjað krabbameinsmeðferð sína á árinu X eftir að hafa greinst með [...] Hafi þá verið byrjuð kröftug lyfjameðferð á kæranda. Þeirri meðferð hafi lokið um mitt ár X og viðhaldsmeðferð þá tekið við. Fram hafi komið í gögnum að kærandi hafi fengið inflúensubólusetningu árið X sem virðist hafa reynst vel og svo aftur árið eftir eða þann X. Í bæði skiptin hafi kærandi verið bólusett með Vaxigrip, en bóluefnið innihaldi enga lifandi eða veiklaða veiru, sem gæti verið hættuleg þeim sem kunni að hafa veiklað ónæmiskerfi. Sú staðhæfing kæranda að heilbrigðisstarfsmaður hefði mátt vita að kærandi myndi hljóta heilsutjón af bólusetningunni eigi, að mati Sjúkratrygginga Íslands, ekki við rök að styðjast þar sem mælt sé með slíkri bólusetningu og þá sérstaklega fyrir þá sem meðal annars þjáist af illkynja og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum og séu í áhættuhóp vegna veiklaðs ónæmiskerfis. Í ljósi þess sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að meðferð kæranda hafi verið hagað í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði og því skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000, ekki uppfyllt.

2)         Í athugasemdum með 2. gr., laganna komi fram að sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða áverka. Heilsubrestur einn og sér geti því ekki verið bótaskyldur nema hann verði rakinn til einhverra þeirra atriða sem talin séu  upp í 2. gr. laganna. Þá segi ennfremur að ,,Ef niðurstaðan verður sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi.”  Að mati Sjúkratrygginga Íslands  þyki ljóst af gögnum málsins, að kærandi hafi fengið [...] vegna bælds ónæmiskerfis í kjölfar krabbameinsmeðferðarinnar. Sú meðferð, að bólusetja kæranda, hafi verið til þess fallin að reyna að koma í veg fyrir veikindi, enda njóti einstaklingar í áhættuhópi, forgangs í bólusetningu. Þá innihaldi bóluefnið enga lifandi né veiklaða veiru og því sé ómögulegt að sú entreoveiruheilabólga sem kærandi hafi fengið og olli tjóni kæranda, sé afleiðing bólusetningarinnar. Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laganna ekki verið talin uppfyllt og bótaréttur því ekki fyrir hendi úr tryggingunni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að bólusetningar sem hún fékk X og X hafi leitt til heyrnartaps þar sem ónæmiskerfi hennar hafi verið veikt vegna krabbameinsmeðferðar sem hún hafi áður gengist undir.

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir.  Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt bólusetningarskírteini kæranda fékk hún lyfið Vaxigrip (ATC-Kóði J07BB02) X og X á sama tíma og hún var í viðhaldsmeðferð vegna krabbameins. Ekki liggur fyrir að hún hafi fengið bólusetningu á árinu X eins og sagt er í kæru. Hún varð veik og missti síðar heyrn að mestu á báðum eyrum. Heyrnartap kæranda reyndist varanlegt og leiddi til þess að hún þurfti síðar að gangast undir kuðungsígræðslu. Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á því að bólusetning með lyfinu Vaxigrip hafi valdið heyrnartapinu enda hafi verið ljóst að bólusetning myndi valda henni tjóni þar sem ónæmiskerfi hennar var veiklað.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á þau gögn sem fyrir liggja í málinu og telur þau fullnægjandi. Kærandi greindist með [...] árið X og gekkst undir lyfjameðferð vegna þess fram á mitt ár X. Tók þá við viðhaldsmeðferð sem stóð fram í X. Á árinu X komu fram stoðkerfiseinkenni sem síðar voru rannsökuð af gigtarlækni og kærandi fékk nokkrum sinnum köst með hita og höfuðverkjum. Meðal annars kom hún á bráðadeild Landspítala vegna þessa X. Þann X. kemur fram í sjúkraskrá að kærandi hafi fengið beinverki, hitavellu, hósta og kvefeinkenni í kjölfar inflúensubólusetningar X sama mánaðar. Ekki er þess getið að heyrn hafi verið skert á þeim tíma. Um heyrnarskerðingu er ekki getið í sjúkraskrám fyrr en við komu á heilsugæslu X. Í göngudeildarskrá X kemur fram að heyrnartap hafi orðið fremur skyndilega þremur vikum fyrr. Daginn eftir, X, var kærandi lögð inn á Landspítala vegna gruns um [...] og leiddu rannsóknir í ljós [...] sem meðal annars var talin hafa valdið heyrnartapi á öðru eyra og versnandi heyrn á hinu. Þurfti að meðhöndla þessa sýkingu með lyfjagjöf beint í heilavökva.

Úrskurðarnefnd fær af þessu samhengi ráðið að heyrnartap kæranda hafi komið til vegna [...] sumarið X. Ekki er sennilegt að bólusetning meira en hálfu ári áður hafi valdið heyrnartapinu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að meiri líkur en minni séu á því að tjónið, sem kærandi varð fyrir, sé óháð þeirri meðferð sem beitt var og því sé bótaréttur ekki fyrir hendi samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 10. nóvember 2017, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun bóta úr sjúklingatryggingu til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira