Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 177/2013

Mál nr. 177/2013

Miðvikudaginn 13. janúar 2016

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. október 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 29. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. desember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 28. ágúst 2014 en athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1973. Hann býr í eigin húsnæði að B í Reykjavík, sem er 221,2 fermetrar að stærð. Stór hluti fasteignar kæranda er í útleigu. Dóttir kæranda býr hjá honum aðra hvora viku. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi sé atvinnulaus en auk atvinnuleysisbóta eru tekjur kæranda vegna vaxtabóta og útleigu fasteignar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 129.293.830 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2006.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnureksturs sem varð gjaldþrota og atvinnuleysis.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 1. febrúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. nóvember 2011 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns skuldara var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 11. september 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem að hans mati hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. Tveir kröfuhafar hefðu mótmælt því að frumvarp til greiðsluaðlögunar næði fram að ganga. Ástæðurnar væru fyrst og fremst þær að kærandi hefði ekki lagt nægilega fyrir á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Miðað við mánaðarlega greiðslugetu hafi kærandi átt að geta lagt fyrir 2.200.000 krónur á greiðsluaðlögunartíma, en hefði aðeins lagt fyrir um 500.000 krónur. Annar kröfuhafa hafi óskað skýringa á 450.000 króna gjaldeyriskaupum kæranda 23. nóvember 2011, upplýsinga um 224.403 króna „netviðskipti“ kæranda á tímabili greiðsluskjóls og skýringa á peningaúttektum samtals að fjárhæð 2.100.000 krónur frá maí 2011 til júlí 2012. Skýringar kæranda voru þær helstar að hann hefði notað gjaldeyri til að ferðast til útlanda til heimsókna og í atvinnuleit. Þá hefði kærandi þurft að greiða iðnaðarmönnum verulega fjármuni vegna viðgerða og viðhalds á fasteign sinni. Varðandi viðskipi á netinu kvaðst kærandi ekki geta gert grein fyrir einstökum færslum. Að mati umsjónarmanns hafi skýringar kæranda á gjaldeyriskaupum ekki verið viðhlítandi. Fyrir utan ferðakostnað hafi gjaldeyriskaup kæranda vegna ferðalaga numið samtals tæplega 500.000 krónum. Útgjöldin hafi verið óhófleg og skaðað hagsmuni kröfuhafa, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. október 2012 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 3. september 2013 var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið í bið hjá embættinu en væri komið til vinnslu að nýju. Vísað var til fyrrnefnds bréfs umboðsmanns skuldara frá 5. október 2012 og kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun yrði tekin í málinu.

Í svari kæranda 13. október 2013 voru gerðar athugasemdir við það að Landsbankinn hefði yfirfarið allar banka- og kreditkortafærslur hans. Þá var því mótmælt að brotið hefði verið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmaður skuldara hefði ekki tekið tillit til reiknings frá pípulagningameistara.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 15. október 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í svari kæranda 22. október 2013 var útreikningum umboðsmanns skuldara á tekjum kæranda mótmælt og því hafnað að brotið hefði verið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ákvörðun 28. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðslu­aðlögunar­umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og að umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa kæranda að finna lausn á skuldamálum hans í samræmi við lge. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er farið fram á málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi ekki lesið bréf hans til embættisins 22. ágúst 2012 þar sem rækilega sé farið yfir leigutekjur og kostnað vegna viðgerða á fasteign. Í bréfinu hafi einnig verið raktar einstaka peningaúttektir kæranda á greiðsluaðlögunartímabilinu og farið yfir sparnað. Þá hafi verið lagðir fram reikningar vegna kostnaðar við viðgerðir á fasteign kæranda. Jafnframt hafi kærandi gert grein fyrir launa- og leigutekjum, utanlandsferðum, viðgerðum á fasteign, gjaldeyri o.fl. í bréfum til umboðsmanns skuldara 13. september og 22. október 2013.

Samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi embættið ákveðið að taka ekki tillit til framlagðs reiknings frá C að fjárhæð 751.369 krónur vegna viðgerða á húsnæði kæranda. Að mati kæranda hafi umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til reikningsins, annað hvort vegna þess að gögn málsins hafi ekki verið skoðuð eða vegna þess að umsjónarmaður hafi ekki sent embættinu gögnin. Hvort heldur sem er sé brot á stjórnsýslulögum.

Kærandi hafnar því sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hann hefði á árinu 2012 fengið sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 96.986 krónur. Einnig hafnar kærandi því að hann hefði fengið 356.624 krónur í vaxtabætur á árinu 2011. Hið rétta sé að kærandi hafi engar vaxtabætur fengið á árinu 2011 eins fram komi á álagningar- og innheimtuseðlum ríkisskattstjóra fyrir umrædd ár.

Niðurstaða umboðsmanns skuldara sé sú að kærandi hefði átt að vera búinn að leggja til hliðar 3.100.000 krónur á 29 mánaða tímabili greiðsluskjóls. Þá haldi umboðsmaður skuldara því fram að kærandi hafi einungis lagt fram tvo reikninga vegna viðgerða á fasteign sinni. Kærandi mótmælir þessu og kveðst hafa lagt fram fleiri reikninga. Einnig gefi umboðsmaður skuldara til kynna að kærandi hefði farið til útlanda í skemmtiferðir en hið rétta sé að kærandi hafi farið  þangað í atvinnuviðtöl. Í lögum eða reglum sé ekkert sem banni kæranda að sækja um vinnu erlendis og fara í atvinnuviðtöl.

Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður á þeirri forsendu að hann hefði ekki lagt nægilega mikið fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi heldur því fram að umboðsmaður skuldara hefði aldrei spurt um það hversu mikið fé hann hefði lagt til hliðar. Þvert á móti hafi umboðsmaður gefið sér að kærandi hefði ekki lagt nægilegt fé til hliðar. Umboðsmaður skuldara hafi því brotið andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en það sé alvarlegt í ljósi þess að tilgangur embættisins sé að gæta hagsmuna og réttinda skuldara, sbr. lög um umboðsmann skuldara nr. 100/2010. Að mati kæranda hafi umboðsmaður skuldara ekki gætt hagsmuna hans. Þvert á móti virtist embættið ekki hafa farið yfir gögn málsins, eða þá valið þau gögn sem hentuðu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 29 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. febrúar 2011 til 31. júní 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur og leigutekjur 9.136.106
Vaxtabætur 549.122
Samtals 9.685.228
Mánaðarlegar meðaltekjur 333.973
Framfærslukostnaður á mánuði 226.987
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 106.986
Samtals greiðslugeta í 29 mánuði 3.102.594

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 333.973 krónur í meðaltekjur á mánuði á 29 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að heildarútgjöld kæranda hafi verið um 226.987 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið á þeim tíma, þ.e. októbermánaðar 2013 fyrir einstakling með eitt barn á framfæri. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.102.594 krónur á fyrrnefndu tímabili en hann hafi ekkert lagt fyrir.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi hafi haldið því fram í andmælum sínum að tekjur hans hafi verið lægri en útreikningar umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Kærandi telji að nettó mánaðarlegar tekjur hans árið 2012 hafi verið 239.425 krónur og árið 2011 hafi þær verið 243.025 krónur. Kærandi hafi ekki sýnt fram á þetta en umboðsmaður skuldara byggi á skattframtölum kærenda og álagningarseðlum.

Kærandi hafi gefið skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki lagt til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls. Hann kveðst hafa farið í utanlandsferðir með tilheyrandi gjaldeyriskaupum vegna atvinnuleitar. Hann hafi þó ekki lagt fram gögn um hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að fara í þessar ferðir. Af þeim sökum hafi ekki verið tekið tillit til gjaldeyriskaupa kæranda nema þess gjaldeyris sem hann kvaðst eiga og nam alls 232.624 krónum.

Kærandi hafi einnig lagt fram reikning vegna pípulagnaviðgerða að fjárhæð 555.849 krónur og reikning að fjárhæð 262.228 krónur vegna kaupa á efni í byggingavöruverslun. Sé tekið tillit til þeirra og þess að kærandi eigi 232.624 krónur inni á reikningi, vanti enn 2.051.893 krónur upp á þá fjárhæð sem kæranda hefði átt að vera mögulegt að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í kæru komi fram að umboðsmaður skuldara hefði ekki tekið tillit til reiknings að fjárhæð 751.369 krónur frá félaginu C sem kærandi hefði lagt fram hjá umsjónarmanni. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hefði ekki gert embættinu grein fyrir umræddum reikningi en umsjónarmaður hafi talið reikninginn ófullnægjandi. Því sé ljóst að umsjónarmaður hefði tekið afstöðu til reikningsins. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til umrædds reiknings myndi það ekki breyta afstöðu umboðsmanns skuldara þar sem upp á sparnað kæranda myndi enn skorta 1.300.524 krónur.

Kærandi telji sig ekki hafa fengið sérstaka vaxtaniðurgreiðslu árið 2012 eins fram kom í hinni kærðu ákvörðun. Umræddri greiðslu hafi verið skuldajafnað að hluta á móti fjármagnstekjuskatti sem kæranda hafi borið að greiða þetta ár. Í útreikningum á tekjum kæranda hefði umboðsmaður skuldara þegar tekið tillit til greiðslu fjármagnstekjuskatts af leigutekjum kæranda og því hafi verið reiknað með því að kærandi hefði fengið 96.989 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu árið 2012. Kærandi hafi einnig haldið því fram að hann hefði ekki fengið vaxtabætur árið 2011. Á innheimtuseðli 2011 komi fram að kærandi hafi fengið 356.624 krónur í vaxtabætur og 47.756 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem einnig hafi verið ráðstafað til greiðslu fjármagnstekjuskatts kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 11. september 2012 að fram væru komnar upplýsingar sem að hans mati hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 28. október 2013 samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 3.102.594  krónur í greiðsluskjóli á tímabilinu frá 1. febrúar 2011 til 28. október 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðarlegar launatekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: 11 mánuðir
Nettótekjur alls 949.516
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 86.320
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 1.094.408
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 91.201
Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013: Níu mánuðir
Nettótekjur alls 518.538
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 57.615
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 2.562.462
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 80.077

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júní 2011 til 30. september 2013: 32 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 2.562.462
Bætur -549.140
Fjármagnstekjur 8.470.460
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.483.782
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 327.618
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 226.987
Greiðslugeta kæranda á mánuði 100.631
Alls sparnaður í 32 mánuði í greiðsluskjóli x 100.631 3.220.198

* Bætur sem skuldajafnað var á móti ógreiddum gjöldum en komu ekki til ráðstöfunar

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattsstjóra um tekjur kæranda á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 30. september 2013 auk upplýsinga um leigutekjur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu var greiðslugeta kæranda 100.631 króna á mánuði að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar frá því að hann lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 1. febrúar 2011 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður 28. október 2013.

Kærandi hefur framvísað kvittunum vegna viðgerða á fasteign hans í krónum:
9. september 2011
Vinna við pípulagnir 555.849
20. júní 2012 Viðgerð á fasteign 751.369
  Samtals:     1.307.218    

Kærandi kveður fasteign hans hafa orðið fyrir skemmdum og nauðsynlegt hafi verið að lagfæra hana. Verður því talið að framangreindar viðgerðir, sem kærandi lét gera á húsnæði því sem hann leigði út að hluta, hafi ekki verið brot á skyldum kæranda samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi heldur því fram að hann hafi keypt efni til viðgerðanna í gegnum reikning föður síns. Lagði kærandi fram reikningsyfirlit frá byggingavöruverslun vegna ógreiddra reikninga „D“ á tímabilinu 6. júní 2011 til 30. júní 2011. Verður ekki fallist á skýringar kæranda hvað þessi efniskaup varðar, enda voru þau ekki gerð í nafni kæranda og ekki liggur fyrir hvort efnið hefur verið greitt.

Kærandi hefur engin gögn lagt fram í málinu því til staðfestingar að hann hafi lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls, þrátt fyrir fullyrðingar hans í þá veru. Kærandi hefur heldur ekki lagt fram viðhlítandi gögn sem sýna fram á nauðsyn utanlandsferða og kaup hans á gjaldeyri fela ekki í sér sparnað í skilningi 12. gr. lge. Samkvæmt því verður ekki tekið tillit til þessa kostnaðar við mat á sparnaði kæranda.

Samkvæmt framansögðu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 1.912.980 krónur (3.220.198-1.307.218) á tímabili greiðsluskjóls en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur hann ekkert lagt fyrir.

Að öllu þessu virtu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að farið sé fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hann gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Þar sem kærandi brást skyldum sínum, eins og að framan er lýst, bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Kröfu um málskostnað er hafnað.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum