Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2014

Mál nr. 12/2014

Miðvikudaginn 13. janúar 2016

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kærendum 28. ágúst 2014 en engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1973 og 1976. Þau eru gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 236,4 fermetra einbýlishúsi með bílskúr að C í Reykjavík. Kærandi Birgir á einnig 99,3 fermetra íbúð að D í Reykjavík sem hann kveðst leigja út.

Kærandi A er bifvélavirki og starfar í verslun. Kærandi B er viðskiptafræðingur en hún er í hlutastarfi og fær atvinnuleysisbætur að hluta. Tekjur kærenda eru vegna launa, lífeyrissjóðsgreiðslna, atvinnuleysis- og barnabóta. Einnig segjast þau fá tekjur vegna útleigu á fasteign kæranda A.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 113.289.780 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2006 og 2007.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 2. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 12. desember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu brotið gegn b- og d-liðum 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns er því lýst að kærendur séu þinglýstir eigendur tveggja fasteigna í Reykjavík; C og D. Frá upphafi hafi verið ljóst að selja þyrfti eignina við D, en kærendur hafi upplýst umsjónarmann um að eignin væri til sölu hjá fasteignasölunni E. Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að einnig þyrfti að selja eignina við C. Með tölvupósti 27. september 2012 hafi kærendum verið veittur tveggja vikna frestur til að taka afstöðu til þess hvort þau óskuðu eftir því að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram þar sem kveða þyrfti á um sölu eignarinnar við C samkvæmt 13. gr. lge. Kærendur hafi óskað eftir viðbótarfresti til 19. október 2012 sem þeim hafi verið veittur. Kærendur hefðu ekki haft samband við umsjónarmann innan frestsins. Með tölvupósti 25. október 2012 hafi umsjónarmaður bent kærendum á að fresturinn væri liðinn og veitt lokafrest til 26. október 2012. Þann dag hafi umsjónarmanni borist tölvupóstur frá kærendum þar sem þau kváðust vilja halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram. Hafi þau jafnframt spurt hvort þau ættu að hafa samband við fasteignasölu til að selja eignina við C. Hafi umsjónarmaður bent kærendum á að þeim væri heimilt að velja fasteignasölu til að sjá um söluna en ættu að tilkynna umsjónarmanni um það. Hafi þeim verið veittur frestur til 5. nóvember 2012 til að semja við fasteignasölu. Þann dag hafi umsjónarmaður ítrekað fyrirmæli til kærenda um að þeim bæri að semja við fasteignasölu um sölu á eigninni. Daginn eftir, 6. nóvember 2012, hafi kærendur sent umsjónarmanni tölvupóst, en honum hafi fylgt afrit af söluumboði til E fasteignasölu. Jafnframt hafi þau greint frá því að myndataka af húsinu væri fyrirhuguð í lok vikunnar. Með tölvupósti til kærenda 14. nóvember 2012 hafi umsjónarmaður bent kærendum á að þeim bæri að fylgja því eftir að teknar yrðu myndir af húsinu og eignin auglýst á netinu. Einnig hafi verið óskað upplýsinga um hvar íbúðin að D væri í sölu þar sem eignin hefði hvorki verið auglýst á heimasíðu fasteignasölunnar E né öðrum heimasíðum eins og kærendur hefðu þó sagt umsjónarmanni.

Með tölvupósti 15. nóvember 2012 hafi kærendur sent umsjónarmanni afrit af kauptilboði í íbúðina við D en ekki hafi komið fram upplýsingar um hvar eignin hefði verið til sölu. Umsjónarmaður hefði sent kærendum tölvupóst 16. nóvember 2012 þar sem óskað hafi verið eftir myndum af eigninni og söluyfirliti fyrir 19. nóvember 2012 þannig að hægt væri að taka afstöðu til kauptilboðsins. Söluyfirlit hafi aldrei borist, en kærandi B hefði sent umsjónarmanni myndir sem hún hefði tekið á síma sinn. Við skoðun á kauptilboðinu sást að það hafði verið sett fram á bréfsefni fasteignasölunnar F sf. þar sem fram kom að kærandi B væri löggiltur fasteignasali og færi með söluna. Hún undirritaði þó ekki tilboðið sem fasteignasali. Kærandi A hafði þegar samþykkt tilboðið sem þinglýstur eigandi eignarinnar. Kaupverð hafi verið 14.730.000 krónur sem að mati umsjónarmanns var töluvert undir áætluðu verðmati eignarinnar.

Umsjónarmaður telji að með þessu hafi kærendur gengið gegn ákvörðun hans þar sem kærendum sjálfum hefði ekki verið gefið leyfi til að annast sölu á íbúðinni við D, sbr. 2. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður hafi því sent kærendum tölvupóst 20. nóvember 2012 þar sem hann tilkynnti að tilboðinu yrði ekki tekið. Væri það meðal annars vegna þess að kærendur og aðilar þeim tengdir hefðu sjálfir séð um söluna. Þá væri ekki séð að reynt hefði verið að selja eignina á almennum markaði frá því að kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar, en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skuli selja eignir þannig að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Af þessum ástæðum hafi verið óskað eftir því að kærendur tilnefndu aðra fasteignasölu til að sjá um sölu eignanna við D og C og umboðsmaður skuldara myndi hafa milligöngu um að semja við viðkomandi fasteignasölu.

Umsjónarmaður hafi óskað eftir frekari upplýsingum frá kærendum, meðal annars ársreikningum félaga sem kærendur tengdust. Hafi þeim verið gefinn frestur til 26. nóvember 2012 til að framvísa umbeðnum gögnum. Þar sem engin viðbrögð hafi borist frá kærendum hafi umsjónarmaður ítrekað beiðni sína með tölvupósti 27. nóvember 2012. Í svari sama dag hafi komið fram að kærandi B hefði ekki starfað hjá F sf. frá því í lok sumars en ætti þar inni laun. Þá hefði ekki reynst mögulegt að leggja fram umbeðin gögn vegna veikinda og því óskað eftir viðbótarfresti til 29. nóvember. Með tölvupósti 29. nóvember 2012 hafi umsjónarmaður óskað upplýsinga um laun kæranda B hjá F sf. Einnig hafi umsjónarmaður óskað skýringa á því hvers vegna kærandi væri enn tilgreind sem starfsmaður F sf. á heimasíðu og skráð fyrir tveimur eignum sem þar væru auglýstar. Frestur kærenda hefði verið framlengdur til 30. nóvember 2012. Umsjónarmaður hafi fengið tölvupóst 29. nóvember 2012 frá kærendum þar sem fram kom að haft hefði verið samband við endurskoðendur fyrrnefndra félaga til að nálgast ársreikninga þeirra en kærendur hefðu ekki fengið þá í hendur. Þá kvaðst kærandi B hafa óskað þess að verða tekin af heimasíðu F sf. en það hafi ekki verið gert. Með tölvupósti 30. nóvember 2012 óskaði kærandi B eftir fresti til 3. desember 2012 til að framvísa gögnum um þau laun sem hún ætti inni hjá F sf. en þau næmu 600.000 krónum. Féllst umsjónarmaður á frestinn en fram kemur að gögnin hafi ekki borist.

Af framanrituðu sjáist að kærendur hafi ítrekað hundsað þá fresti sem þeim hafi verið veittir við meðferð málsins. Þá liggi ekki fyrir öll gögn sem nauðsynleg séu til að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Telji umsjónarmaður framkomin gögn óljós, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi kærendur látið hjá líða að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu eigna, sbr. 2. og 4. mgr. 13. gr. lge. Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 13. desember 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns kemur meðal annars fram að embættið teldi kærendur ekki hafa haft nægilegt samstarf við umsjónarmann, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge., auk þess sem fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega skýra mynd af fjárhag þeirra. Þá teldi embættið að kærendur hefðu leynt upplýsingum um starf kæranda B á fasteignasölunni F sf. Einnig hefðu kærendur tafið sölu fasteigna sinna og gengið gegn fyrirmælum umsjónarmanns um að selja eignirnar á frjálsum markaði í andstöðu við 1., 2. og 5. mgr. 13. gr. lge. og enn fremur gefið villandi og rangar upplýsingar um sölu fasteignanna og þannig brotið gegn ákvæði d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi kærendur keypt hluti í G ehf. fyrir 50.000 krónur á árinu 2012 og telji umboðsmaður það brjóta gegn ákvæði c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í framangreindu bréfi umboðsmanns var óskað upplýsinga um sparnað kærenda á tímabili greiðslufrestunar, tekjur kæranda B, leigutekjur af fasteigninni við D og eignarhluta kærenda í félögum. Þess var einnig óskað að allar upplýsingar væru studdar gögnum. Kærendur mótmæltu sjónarmiðum og málatilbúnaði umboðsmanns skuldara með bréfi 5. janúar 2014.

Með ákvörðun 28. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og d- liði 1. mgr. 6. gr., a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og 2. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka umsókn þeirra aftur til efnislegrar meðferðar á þeim grundvelli að stjórnsýslulög hafi verið brotin við málsmeðferð og að reglugerð á grundvelli 34. gr. lge. verði höfð til grundvallar svo að hægt sé að tryggja jafnræði skuldara og hlutlausa málsmeðferð. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða umboðsmann skuldara ekki hafa tekið tillit til þeirra athugasemda sem þau hafi gert eða þeirra gagna sem þau hafi lagt fram. Það sé ekki nægjanlegt að stjórnvald afli gagna á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ef ekkert tillit er tekið til þeirra gagna. Telji stjórnvald að virða beri að vettugi málsbætur aðila eða þau gögn sem hann leggi fram beri stjórnvaldi að geta þess í rökstuðningi sínum. Í forsendum ákvörðunar sinnar taki umboðsmaður fram að enn séu atriði varðandi fjárhag kærenda óljós. Kærendum hafi ekki gefist kostur á að bregðast við þessu jafnvel þó að þau hafi sérstaklega tekið fram í andmælum sínum að þau vildu koma að frekari skýringum væri þess óskað.

Kærendur mótmæla því að kærandi B hafi leynt störfum sínum fyrir fasteignasöluna F. Fyrir liggi yfirlýsing frá eiganda félagsins þar sem fram komi hvernig sambandi kæranda B og félagsins hafi verið háttað.

Að mati kærenda verði ekki annað séð en að umsjónarmaður þeirra hafi gefið sér ákveðnar forsendur fyrir fram. Hann hafi síðan unnið að því að ná fram þeirri niðurstöðu sem honum hafi verið þóknanleg, þ.e. að vísa kærendum úr greiðsluaðlögunarferli. Rannsóknarreglan hafi ekki verið virt og ekki verði séð hvernig umsjónarmaður hafi getað byggt ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem fyrir lágu. Þegar kærendur geti ekki lagt fram frekari gögn séu dregnar af því ályktanir sem leiði til niðurfellingar í stað þess að gætt sé meðalhófs samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga. Þegar efni ákvörðunar sé að einhverju leyti byggt á mati stjórnvalds sé það mat bundið af meðalhófsreglunni. Meðalhófsreglan sé lögfest í íslenskum stjórnsýslurétti og í henni felist þrír meginþættir. Í fyrsta lagi verði efni ákvörðunar að ná því marki sem að sé stefnt. Í máli þessu virðist sem efni ákvörðunar hafi átt að vera að vísa kærendum úr greiðsluaðlögun frekar en að reyna að finna lausn á vanda þeirra. Í öðru lagi sé gerð krafa um að velja skuli það úrræði sem vægast sé, ef fleiri úrræði eru fyrir hendi sem þjónað geta því markmiði sem að sé stefnt. Ekki sé tekið tillit til þess að gögn málsins séu orðin gömul og flókið sé að veita kærendum andmælarétt á þeim grundvelli sem eins árs ákvörðun umsjónarmanns sé byggð á. Þess í stað sé farin einfaldasta leiðin, þ.e. sú að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Í þriðja lagi sé gerð sú krafa að hófs sé gætt við beitingu þess úrræðis sem valið hafi verið. Ekki verði séð að það hafi verið gert.

Þá telja kærendur að málshraðareglan hafi verið brotin í máli þeirra. Tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda sé frá því í desember 2012. Ákvörðun umboðsmanns skuldara sé frá desember 2013. Kærendur hafi mótmælt því að fasteign þeirra yrði seld áður en endurútreikningur lána hafi átt sér stað og hafi staðið í þeirri trú að beðið væri eftir endurútreikningi veðlána á fasteign þeirra. Svo hafi ekki verið og því sé sú töf sem orðið hafi á málinu óútskýrð.

Kærendur vísa til 34. gr. lge. sem mæli fyrir um að ráðherra setji reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Engin reglugerð hafi verið sett og telji kærendur því að ekki liggi fyrir eftir hvaða reglum sé unnið. Af þessum sökum sé það byggt á huglægu mati viðkomandi umsjónarmanns hvernig mál séu unnin.

Kærendur geri sérstaklega athugasemd við það sem greini í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni „einkum“ að kanna hvort fyrir liggi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Kærendur vilji fá skýr svör um það hvar standi í lögum að Embætti umboðsmanns skuldara beri fyrst og fremst að kanna hvernig hægt sé að vísa fólki úr greiðsluaðlögun. Þar sem markmiðið með stofnun Embættis umboðsmanns skuldara hafi verið að gæta hagsmuna og réttinda skuldara finnist kærendum ótækt að embættið líti svo á að 6. gr. lge. sé megingrein laganna þegar hinar 35 greinarnar snúi að því að skýra hvernig embættið skuli aðstoða skuldara.

Umboðsmaður skuldara telji kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hér sé embættið að vinna með gögn sem séu eldri en tveggja ára og líti ekki til þeirra andmæla sem kærendur hafi haft uppi. Umboðsmaður hafi ekki sértaklega óskað upplýsinga um sparnað kærenda í desember 2013, en hefði kærendum verið það ljóst hefðu þau lagt fram skýringar og gögn. Kærendur hafi haldið eftir þeim fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar. Embætti umboðsmanns taki ekki tillit til þess að kærandi B hafi verið nánast atvinnulaus. Ekki sé heldur tekið tillit til óvæntra útgjalda kærenda vegna nauðsynlegs viðhalds á fasteigninni að C.

Loks mótmæla kærendur því að hafa af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Kærendur hafi þvert á móti veitt allar upplýsingar sem þau hafi getað.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu  mikilsverðar í málinu. Þá segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun skuli samið í samráði við skuldara. Að sögn umsjónarmanns hafi kærendur ítrekað hundsað þá fresti sem þeim hafi verið veittir til að framvísa gögnum og veita upplýsingar. Kærendur hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um eign sína í félögum, leigutekjur eða störf kæranda B. Með bréfi umboðsmanns skuldara 13. desember 2012 hafi enn verið óskað upplýsinga, meðal annars ársreikninga félaga sem kærendur tengdust. Hafi það verið gert til að fá heildarsýn yfir fjárhag kærenda en engar upplýsingar hafi borist vegna þessa. Þá liggi ekki fyrir upplýsingar um leigutekjur kærenda aðrar en þær að kærendur kveði þær nema 150.000 krónum á mánuði.

Umsjónarmaður kveði kærendur hafa leynt upplýsingum um störf kæranda B á fasteignasölunni F, en telja verði þetta mikilsverðar upplýsingar í málinu. Með því að leyna þessum upplýsingum hafi kærendur veitt rangar og villandi upplýsingar í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara fallist á þessa túlkun umsjónarmanns á ákvæðinu. Kærendur hafi greint frá því að kærandi B hafi hvorki vitað hverjar tekjur hennar yrðu af fasteignasölu né hvort hún hefði áfram tekjur af því starfi. Þrátt fyrir þetta telji umboðsmaður skuldara að kærandi B hefði átt að upplýsa umsjónarmann um þessi atriði, enda augljóst að hún fengi tekjur vegna þeirra fasteigna sem hún hefði umsýslu með. Engu skipti þó að hún hafi ekki vitað hverjar tekjur hennar af fasteignasölu yrðu til framtíðar.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 30 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júní 2011 til októberloka 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:


Launatekjur 1. júní 2011 til 31. október 2013 að frádregnum skatti 12.576.173
Vaxta- og barnabætur á tímabilinu 2.499.287
Samtals 15.075.460
Mánaðarlegar meðaltekjur 519.843
Framfærslukostnaður á mánuði 425.316
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 94.528
Samtals greiðslugeta í 30 mánuði 2.741.312

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið 425.316  krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og reiknaður framfærslukostnaður októbermánaðar 2013 fyrir hjón með tvö börn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 2.741.312 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 94.528 krónur á mánuði í 30 mánuði. Við þá fjárhæð bætast þær tekjur sem kærandi B hafi haft af störfum sínum sem fasteignasali en fjárhæð þeirra liggi ekki fyrir. Kærendur kveðist hafa lagt fyrir um 1.000.000 króna en hafi ekki framvísað gögnum því til staðfestingar. Þar sem kærendur hafi greint frá því að framfærslukostnaður þeirra sé mun lægri en gert sé ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara verði að telja að þau hefðu átt að getað lagt meira fyrir á tímabilinu.

Í ljósi þessa verði að líta svo á að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2013 vegna tekna ársins 2012 hafi þau keypt hluti í G ehf. fyrir 50.000 krónur á árinu 2012. Verði að telja kaupin brjóta í bága við ákvæði c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 2. mgr. 13. gr. lge. komi fram að selja skuli eignir með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Umsjónarmaður skuli ákveða hvernig sala fari fram og annast söluna sjálfur nema hann feli það öðrum. Sé skuldara skylt að annast söluna ef umsjónarmaður ákveði það. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skuli umsjónarmaður gera þeim sem njóti veðréttar í eign skuldara viðvart um ákvörðun um sölu hennar og gefa þeim sem ekki mundu fá fullnustu krafna sinna af söluverði kost á að gera hærra boð eða ganga eftir atvikum inn í framkomið boð. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umsjónarmaður hafi kveðið á um sölu tveggja fasteigna kærenda samkvæmt 13. gr. lge. Eignirnar séu að D og C í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns hafi kærendur tafið sölu eignanna. Þá hafi þau reynt að annast söluna sjálf í stað þess að veita fasteignasala umboð til að annast hana eins og umsjónarmaður hafi ákveðið. Einnig hafi þau tekið tilboði í aðra eignina án samþykkis umsjónarmanns. Samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir hafi kærendur ekki auglýst eignirnar til sölu á almennum markaði eins og umsjónarmaður hafi kveðið á um. Þá hafi þau talið að umsjónarmanni hefði verið í lófa lagið að óska eftir umboði þeirra til að annast sjálfur sölu eignanna.

Umsjónarmaður hafi falið kærendum að hlutast til um sölu eignanna og hafi ítrekað sent þeim fyrirspurnir um framgang málsins. Kærendur verði sjálf að bera ábyrgð á því að hafa ekki sinnt tilmælum umsjónarmanns.

Kærendur hafi talið það yrði þeim til tjóns að selja eignirnar áður en áhvílandi lán yrðu endurútreiknuð. Ekki sé unnt að tefja greiðsluaðlögunarumleitanir á meðan leyst sé úr vafamálum varðandi áhvílandi lán. Hafi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála staðfest þennan skilning embættisins í úrskurðum sínum í málum nr. 230/2012 og 234/2012. Umsjónarmanni beri að starfa eftir lge. Hann hafi metið það svo, meðal annars með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, að selja skyldi fasteignir kærenda í greiðsluaðlögunarferli. Hafi það verið með vísan til þess að afborganir af eignunum séu hærri en greiðslugeta kærenda leyfi. Kærendur kveði greiðslugetu sína meiri en gert sé ráð fyrir samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Fram komi í tölvupósti umsjónarmanns frá 27. september 2012 að greiðslugeta kærenda sé 110.000 krónur á mánuði að frátöldum leigutekjum. Afborganir veðkrafna á fasteigninni við C, miðað við markaðsvirði, nemi á milli 400.000 og 500.000 krónum á mánuði. Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að greiðslugeta kærenda sé meiri en umsjónarmaður geri ráð fyrir sé ljóst að hún dugi ekki til að greiða afborganir veðkrafna innan matsverðs eignarinnar. Þá sé fasteign kærenda að C, sem er 240 fermetra einbýlishús, metið á 62.100.000 krónur samkvæmt fasteignamati fyrir 2014. Telja verði eignina stærri en þörf sé á fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Kærendur telji Embætti umboðsmanns skuldara ekki hafa lagt mat á þau gögn sem þau hafi lagt fram og þannig virt andmælarétt þeirra að vettugi. Embættið mótmælir þessu og vísar til rúmra fresta sem kærendum hafi verið veittir til að koma að gögnum og útskýringum. Þannig hafi meðalhófs einnig verið gætt gagnvart kærendum.

Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. komi meðal annars fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann skuldara að nálgast einhver gögn og sé það þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Embættið hafi beint því til kærenda að afla tiltekinna upplýsinga sem þeim einum hafi verið unnt að afla og telji sig hafa rannsakað málið til hins ítrasta á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þeirra gagna sem embættinu hafi verið unnt að afla. Bendi embættið á skyldu kærenda til að leggja fram gögn sem nauðsynleg séu til að skýra fjárhag þeirra samkvæmt 4. gr., sbr. 5. og 16. gr. lge.

Kærendur segi umboðsmann skuldara hafa byggt mat sitt að því er varðar skyldur þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tveggja ára gömlum gögnum. Því sé til að svara að kærendur hafi fengið tækifæri til að leggja fram ný gögn áður en umboðsmaður tók ákvörðun um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Þau hafi þó hvorki lagt fram ný gögn né upplýsingar um sparnað sinn í greiðsluskjóli. Verði kærendur sjálf að bera hallann af þessu, en um sé að ræða upplýsingar sem embættið geti ekki aflað án aðkomu kærenda sjálfra.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur kveða umboðsmann skuldara ekki hafa tekið tillit til þeirra athugasemda sem þau hafi gert eða þeirra gagna sem þau hafi lagt fram. Þau telja að ekki sé nægjanlegt að stjórnvald afli gagna á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ef ekkert tillit er tekið til þeirra gagna.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 13. desember 2013 var óskað eftir upplýsingum og gögnum frá þeim. Í bréfinu var meðal annars gerð grein fyrir b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og tekið fram hvaða upplýsingar skorti frá kærendum og að hvaða leyti umboðsmaður skuldara teldi ákvæðið eiga við um málatilbúnað þeirra. Er það mat kærunefndarinnar að með bréfi þessu hafi kærendur fengið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins á þann hátt sem gert er ráð fyrir í 13. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærunefndin samkvæmt þessu að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur og tekin nægilega skýr afstaða til þeirra andmæla sem fram komu með ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Þá telja kærendur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki virt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Nánar tiltekið hafi það verið fyrirfram ákveðið að vísa kærendum úr greiðsluaðlögun í stað þess að leysa vanda þeirra. Þá sé ekki tekið tillit til þess að gögn málsins hafi verið orðin gömul þegar ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að í 12. gr. felist að efni íþyngjandi ákvörðunar sem stjórnvald taki verði að vera til þess fallið að þjóna lögmætu markmiði sem að sé stefnt. Þá feli ákvæðið í sér að sé fleiri úrræða völ, er þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt, skuli velja það úrræði sem vægast sé. Loks byggir ákvæðið á því að gæta verði hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé og megi því ekki ganga lengra en nauðsyn beri til. Stjórnvaldi sé skylt að vega og meta þau andstæðu sjónarmið sem fyrir hendi séu.

Eins og sjá má af ofangreindu beinist meðalhófsreglan að ákvörðun stjórnvalds, en ekki undirbúningi að ákvarðanatöku og verður síðar um það fjallað í úrskurðinum.

Einnig telja kærendur að rannsóknarregla 5. gr. lge. hafi ekki verið virt við meðferð á máli þeirra, en ekki verði séð hvernig umboðsmaður skuldara hafi getað byggt ákvörðun sína á þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu. Regla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er þess vegna nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði og greiðslugetu viðkomandi skuldara.

Kærendur álíta að ekki verði séð hvernig umboðsmaður skuldara hafi getað tekið ákvörðun sína á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Verður málatilbúnaður kærenda ekki skilinn á annan veg en þann en að þau telji að umrædd gögn hafi verið orðin of gömul til að unnt væri að byggja ákvörðun á þeim. Eins og rakið hefur verið var kærendum boðið að leggja fram frekari gögn og andmæli, sbr. bréf umboðsmanns skuldara til þeirra 13. desember 2013. Ákvörðun embættisins um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda var tekin 28. janúar 2014 eða rúmu ári eftir að tillaga umsjónarmann um niðurfellingu barst umboðsmanni skuldara. Til þess ber að líta að í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns skuldara frá 13. desember 2013 kom meðal annars fram að kærendur hefðu ekki lagt fram fullnægjandi gögn um tekjur sínar. Andmælum kærenda 5. janúar 2014 fylgdu gögn vegna annarra tekna en húsaleigutekna en gögn um þær tekjur voru aldrei lögð fram. Samkvæmt þessu getur kærunefndin ekki fallist á að umrædd gögn vegna tekna kærenda hafi verið orðin of gömul er ákvörðun umboðsmanns var tekin. Verður einnig að líta til þess að sú skylda hvílir á kærendum að upplýsa mál sitt eftir föngum, einkum að því er varðar gögn sem ekki er á valdi annarra en viðkomandi skuldara að afla. Er það því mat kærunefndarinnar að meðferð málsins hafi að þessu leyti verið í samræmi við rannsóknarreglu 5. gr. lge.

Loks er það skoðun kærenda að málsmeðarferðtími hafa verið of langur og að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið brotin í máli þeirra. Sú töf sem orðið hafi á máli þeirra sé óútskýrð. Í 9. gr. stjórnsýslulaga er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. hennar segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í málinu liggur fyrir að frá því að gagnaöflun umboðsmanns skuldara lauk og þar til ákvörðun var tekin í málinu liðu rúmir 12 mánuðir. Embætti umboðsmanns fellst á það sjónarmið kærenda að málið hafi tekið of langan tíma og vísar í því sambandi til fækkunar starfsmanna embættisins og skipulagsbreytinga. Verður því ekki séð að kærunefndin þurfi eins og á stendur í málinu að fjalla sérstaklega um þetta atriði. Kærunefndin tekur þó fram að almennnt er talið að tafir á afgreiðslu máls geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar, nema þær hafi haft áhrif á niðurstöðu ákvörðunarinnar. Í þessu máli er það álit kærunefndarinnar að slíku sé ekki til að dreifa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar, ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar, ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 12. desember 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 13. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 28. janúar 2014.

Að því er varðar b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að fjárhagur kærenda sé óljós þar sem kærendur hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um eign sína í félögum, leigutekjur og störf kæranda B.

Á árunum 2009 til 2012 áttu kærendur eignarhluti í eftirtöldum félögum samkvæmt skattframtölum:

Félag 2009 2010 2011 2012
H ehf. 125.000 125.000 125.000 125.000
I ehf. 500.000      
G ehf.       50.000

Í málinu liggja fyrir ársreikningar H ehf. fyrir árin 2010 og 2011. Þá liggur fyrir að á árinu 2012 keyptu kærendur hlut í G ehf. og var kaupverðið 50.000 krónur. Eign kærenda að því er framangreind félög varðar er því ekki unnt að telja óljósa. Samkvæmt skattframtölum kærenda seldu þau hlut sinn í félaginu I ehf. á árinu 2009. Var söluverð 5.000 krónur. Eðli málsins samkvæmt hafa kærendur ekki aðgang að ársreikningum félagsins eftir þann tíma. Í framangreindu ljósi og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður ekki talið að eignastaða kærenda sé óljós vegna eigna þeirra í framangreindum félögum.

Kærendur eiga tvær fasteignir í Reykjavík; C þar sem þau búa og D sem þau leigja út. Engar leigutekjur voru taldar fram vegna eignarinnar við D á árunum 2009 til 2012 þrátt fyrir að húsaleigusamningi hafi verið þinglýst á eignina. Kærendur hafa ekki upplýst um fjárhæð leigutekna. Í 4. gr. lge. er greint frá því hvaða gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir þegar óskað er greiðsluaðlögunar. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun þurfi að koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skal greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að sýna fram á hverjar eru heildartekjur þeirra, en kærendur hafa ekki orðið við óskum um skýringar með viðhlítandi hætti. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggist greiðsluaðlögun að hluta til á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að allar tekjur kærenda liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á greiðslugetu þeirra eða hversu háa fjárhæð þau geti greitt til kröfuhafa, en upplýsingar um það verða að liggja til grundvallar samningi um greiðsluaðlögun.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærendur hafi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar eins og þeim er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skortir því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu þeirra vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Samkvæmt því sem hér hefur komið fram er það mat kærunefndarinnar að með framangreindri háttsemi hafi kærendur brotið gegn ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að með því að kærendur hafi leynt upplýsingum um störf kæranda B á fasteignasölunni F hafi þau leynt mikilsverðum upplýsingum í málinu og þar með veitt rangar og villandi upplýsingar í skilningi ákvæðisins.

Á fundi umsjónarmanns og kærenda í september 2012 var haft eftir kæranda B að hún hefði haft 50% starf fram í júní sama ár. Síðar í málsmeðferðinni kom fram að um óreglulega verktakavinnu hefði verið að ræða. Í málinu liggja ekki fyrir skattframtöl eða tekjuupplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur kæranda B á árinu 2013. Þó að vissulega hefði verið heppilegra ef kærandi hefði upplýst fyrr um starf sitt fyrir umrædda fasteignasölu telur kærunefndin ekki unnt að fullyrða að með þessu einu hafi kærandi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt villandi og rangar upplýsingar í málinu. Verður þá til þess að líta að tekjur kæranda af starfinu voru litlar og óvissar. Eins og málið er vaxið telur kærunefndin því að ákvæði d-liðar 1. mgr. 6. lge. eigi ekki við í málinu.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara byggir hina kærðu ákvörðun meðal annars á því að kærendur hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með hafi þau brotið gegn skyldum sínum á þeim tíma. Kærendur kveðast á hinn bóginn hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og lagt til hliðar þá fjármuni sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar. Einnig hafi þau orðið fyrir óvæntum útgjöldum vegna viðhalds á fasteign sinni við C. Kærendur kveða umboðsmann skuldara byggja ákvörðun sína að því er þetta varðar á gömlum upplýsingum. Þá hafi þeim ekki verið ljóst að þau ættu að leggja fram nýjar upplýsingar um sparnað í desember 2013 áður en umboðsmaður skuldara felldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2011: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 1.584.910
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 226.416
Nettótekjur B 1.510.086
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 215.727
Nettótekjur alls 3.094.996
Mánaðartekjur alls að meðaltali 442.142
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.751.048
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 229.254
Nettótekjur B 2.720.739
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 226.728
Nettótekjur alls 5.471.787
Mánaðartekjur alls að meðaltali 455.982
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.007.420
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 250.618
Nettótekjur B 2.594.124
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 216.177
Nettótekjur alls 5.601.544
Mánaðartekjur alls að meðaltali 466.795
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.168.327
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 457.043

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2013: 31 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.168.327
Bótagreiðslur 2.648.228
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.816.555
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 542.470
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 425.316
Greiðslugeta kærenda á mánuði 117.154
Alls sparnaður í 31 mánuð í greiðsluskjóli x 117.154 3.631.759

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur kveðast hafa orðið fyrir óvæntum útgjöldum vegna viðhalds á fasteign þeirra. Þau hafa þó ekki sýnt fram á það eða lagt fram gögn um aukin útgjöld í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikning á sparnaði kærenda. Þá kveðast kærendur hafa haft leigutekjur af fasteigninni D í Reykjavík. Þessar tekjur hafa ekki verið taldar fram til skatts og ekki liggur fyrir hvað þær eru háar. Eðli málsins samkvæmt hafa þessar tekjur þó aukið greiðslugetu kærenda. Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að hafa getað lagt til hliðar að lágmarki 3.631.759 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa ekki lagt fram nein gögn um sparnað sinn fyrir kærunefndina, þrátt fyrir að hafa gert athugasemdir við það að umboðsmaður skuldara hafi byggt ákvörðun sína á gömlum gögnum um sparnað. Er því ekki unnt að líta svo á að kærendur hafi lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafa því samkvæmt mati kærunefndarinnar brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að með því að kaupa hluti í G ehf. fyrir 50.000 krónur á árinu 2012 hafi kærendur brotið gegn því lagaákvæði. Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Á þessum grunni byggist c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. Á árinu 2012 voru kærendur í greiðsluskjóli samkvæmt 11. gr. lge. og bar að ráðstafa fé sínu í samræmi við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Jafnvel þó að ekki sé um að ræða háa fjárhæð verður að telja að með kaupunum hafi kærendur látið af hendi fjármuni sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., enda hafa kærendur enga grein gert fyrir hlutafjárkaupum þessum. Í samræmi við það telur kærunefndin að kærendur hafi ekki virt skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar fasteignir kærenda liggur fyrir að umsjónarmaður kvað á um sölu tveggja fasteigna kærenda samkvæmt 13. gr. lge. Um var að ræða eignirnar að D í Reykjavík, en eignin var í útleigu, og að C í Reykjavík þar sem kærendur bjuggu. Kærendur fengu ekki heimild til að annast sölu eignanna sjálf, en umsjónarmaður hafði óskað þess að þau veldu fasteignasölu til að hafa milligöngu um sölu þeirra. Kærendur greindu umsjónarmanni frá því að eignin að D væri til sölu hjá fasteignasölu. Í ljós kom að um var að ræða fasteignasölu sem kærandi B hafði starfað fyrir sem löggiltur fasteignasali. Kærendur tóku tilboði í eignina án samráðs við umsjónarmann og samkvæmt gögnum málsins var eignin ekki auglýst til sölu áður en tilboðinu var tekið. Ekkert verðmat lá fyrir á eigninni og því óljóst hvort söluverð hennar væri í samræmi við verðmæti. Af þessum ástæðum hafnaði umsjónarmaður framkomnu tilboði í eignina. Umsjónarmaður óskaði þess að kærendur bentu á fasteignasölu sem væri ótengd þeim sjálfum til að annast sölu eignanna. Það gerðu kærendur ekki. Þau svöruðu heldur ekki boði umsjónarmanns um að umboðsmaður skuldara hefði milligöngu um að semja við fasteignasala um sölu eignanna.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum í frumvarpi með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Þegar hefur verið gerð grein fyrir greiðslugetu kærenda en þegar framfærslukostnaður þeirra hefur verið greiddur er greiðslugeta þeirra 117.154 krónur á mánuði. Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá er einbýlishús kærenda að C samtals 236,4 fermetrar að stærð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var hæfileg leiga á sambærilegri eign á almennum markaði á bilinu 280.604 til 351.168 krónur á mánuði á því tímabili sem hér skiptir máli. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er, enda ljóst að kærendur geta ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., jafnvel þótt miðað yrði við að sérstakar og tímabundnar ástæður væru fyrir hendi.

Sem fyrr segir hafa kærendur ekki hlutast til um að fasteignir þeirra verði seldar hjá fasteignasala sem þeim er ótengdur. Á þetta bæði við um þá fasteign sem þau leigja út og þá fasteign sem þau búa á. Hafa kærendur því ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. 5. mgr. sömu greinar. Bar umboðsmanni því samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laganna, að taka afstöðu til þess hvort fella ætti greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður.

Þegar allt ofanritað er virt, með tilliti til framgöngu kærenda í málinu, verður ekki á það fallist með kærendum að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks álítur kærunefndin að ekki skipti máli fyrir niðurstöðu málsins þótt ráðherra hafi ekki sett reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt 34. gr. lge., en málsmeðferð umboðsmanns skuldara byggist bæði á stjórnsýslulögum og lge. og hefur ekki annað komið fram en að hún hafi verið í samræmi við ákvæði þeirra laga.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt b- og d-liðum 1. mgr. 6. gr., a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. og 2. og 5. mgr. 13. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum