Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 11/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. júlí 2018
í máli nr. 11/2018:
Stjarnan ehf.
gegn
Isavia ohf. og
Halpal slf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. júní 2018 kærir Stjarnan ehf. útboð Isavia ohf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Veitingar á 2. hæð í suðurbyggingu“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Halpal slf. í hinu kærða útboði. Til vara er þess krafist að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru í máli þessu.

Í mars 2018 óskaði varnaraðili eftir fyrirtækjum til að taka þátt í útboði vegna veitingareksturs í rými á 2. hæð í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í útboðsgögnum kom fram að útboðið yrði í samræmi við reglugerð nr. 950/2017 um sérleyfi og útboðsaðferð yrði samkeppnisviðræður í samræmi við VI. kafla reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Einnig kom fram í útboðsgögnum að bjóðendur skyldu staðfesta að ársreikningar þeirra sýndu rekstrarsögu og jákvætt eigið fé síðustu þrjú ár, að þeir væru í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsgjöld starfsmanna og hefðu verið það síðustu þrjú ár. Loks var áskilið að þeir hefðu fjárhagslega getu til fjármögnunar verkefnisins að fjárhæð 40 milljónir króna. Þá kom fram að ef fleiri en þrír aðilar uppfylltu hæfisskilyrði myndi fara fram hæfismiðað val með það að markmiði að fækka aðilum niður í þrjá þar sem horft yrði til tilgreindrar reynslu bjóðenda, svo sem reynslu af öðrum arðbærum veitingarekstri. Jafnframt kom fram að bjóðendur skyldu vera lögaðilar með reynslu af veitingarekstri sem hefðu yfir að ráða vörumerki sem bjóði upp á einfalt og vel samsett vöruúrval sem samanstæði af pítsum í sneiðum, settum saman og bökuðum á staðnum, ferskum salötum og a.m.k. einn heitan rétt til viðbótar sem væri eldaður á staðnum. Þá kom fram að allar vörur skyldu vera ferskar, afgreiddar á innan við tveimur mínútum auk þess sem bjóðendur skyldu ekki vera með veitingarekstur annars staðar í flugstöðinni. Sagði einnig að varnaraðili myndi eiga viðræður við þá aðila sem boðið yrði til samningaviðræðna og að þeim yrði óskað eftir bindandi tilboðum sem skyldu metin á grundvelli verðs og gæða, en hvor matsþáttur fyrir sig skyldi gilda 50%. Fram kom að matsþátturinn „gæði“ skyldi skiptast í eftirfarandi undirþætti sem hver um sig svaraði til ákveðinna stiga: vöruúrval sem gat mest gefið 16 stig, afgreiðsla/þjónusta 12 stig, hönnun og útlit 16 stig og markaðssetning 8 stig. Verð skyldi skiptast í þrjá undirþætti: leigu, fjárfestingu og lágmarks veltutengda leigu sem hver um sig skyldi svara til stiga með sambærilegum hætti. Þá geymdi hver undirþáttur fyrir sig nánari lýsingu á því til hvaða atriða skyldi horft við stigagjöf. Að sögn varnaraðila óskuðu þrír aðilar eftir að taka þátt í viðræðunum, kærandi, Halpal slf. og Clippers ehf., og voru þeir allir taldir uppfylla hæfiskröfur útboðsgagna sem komu fram á bls. 7 í útboðslýsingu og á fylgiskjali nr. 1. Í kjölfar viðræðna lögðu þessir aðilar lokatilboð fram. Með bréfi varnaraðila 15. júní 2018 var tilkynnt að ákveðið hefði verið að velja tilboð Halpal slf. þar sem það hefði verið metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðslýsingar og tilkynnt að gerður yrði samningur að loknum 10 daga biðtíma.

Málatilbúnaður kæranda að því er varðar þennan þátt málsins byggir að meginstefnu á því að Halpal slf. hafi ekki staðist kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi. Kærandi efast um að Halpal slf. hafi nægilega sterka eiginfjárstöðu til að geta staðið undir nauðsynlegri fjárfestingu í tengslum við hinn útboðna veitingarekstur og þá uppfylli fyrirtækið ekki kröfur um jákvæða afkomu og reynslu. Jafnframt hafi mat á tilboðum ekki verið réttilegta framkvæmt þar sem valforsendur hafi verið of huglægar og veitt varnaraðila of mikið svigrúm við einkunnagjöf. Auk þess hafi Halpal slf. ekki verið með besta tilboðið samkvæmt valforsendum útboðsins, heldur kærandi.

Niðurstaða

Af útboðsgögnum verður ráðið að bjóðendur skyldu staðfesta með undirritun sinni á hæfisyfirlýsingu að ársreikningar sýndu rekstrarsögu og jákvætt eigið fé síðustu þrjú ár, að þeir væru í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsgjöld starfsmanna, og hefðu verið það síðustu þrjú ár, svo og að þeir hefðu fjárhagslega getu til fjármögnunar verksins að fjárhæð 40 milljónir króna. Til staðfestingar á þessu skyldu bjóðendur leggja fram, ef óskað væri eftir því, ársreikninga og staðfestingu á skilum á opinberum gjöldum og lífeyrissjóðsgjöldum. Aðrar kröfur um fjárhagslega getu voru ekki gerðar, en af útboðsgögnum verður ráðið að einungis skyldi líta til annarrar reynslu bjóðenda, svo sem reynslu af öðrum arðbærum veitingarekstri, við hæfismiðað val og fækkun þátttakenda í innkaupferlinu niður í þrjá. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður annað ekki ráðið en að Halpal slf. hafi uppfyllt framangreindar kröfur útboðsins.

Eins og fyrr greinir skiptust valforsendur útboðsins í tvennt, verð og gæði, en hvor þáttur um sig skyldi gilda 50%. Hvorri valforsendu fyrir sig var því næst skipt í tiltekna undirþætti sem skyldu svara til tiltekinna stiga en hver undirþáttur hafði einnig að geyma nánari lýsingu á því til hvaða atriða skyldi horft við stigagjöf. Að mati kærunefndar útboðsmála verður ekki talið að þessi framsetning valforsendna hafi veitt varnaraðila óheft svigrúm við mat tilboða eða hafi að öðru leyti verið í andstöðu við ákvæði reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Þá verður ekki séð, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að mat varnaraðila á tilboðum í útboðinu hafi verið haldið slíkum annmörkum að það hafi haft áhrif á röðun tilboða eða geti leitt til þess að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði verði felld úr gildi. Verður því ekki talið að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn reglum um opinber innkaup þannig að leitt geti til ógildingar ákvörðunar hans, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar vegna kærunnar.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar á grundvelli kæru kæranda, Stjörnunnar ehf., vegna útboðs varnaraðila, Isavia ohf., auðkennt „Veitingar á 2. hæð í suðurbyggingu“, er aflétt.


Reykjavík, 13. júlí 2018

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum