Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

innanríkisráðuneytinu

 

Kærandi, sem er kona, kærði setningu þriggja karlmanna í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns. Kærunefnd taldi að leiddar hafi verið líkur að því að við stigagjöf fyrir spurningar er umsækjendur svöruðu í viðtali hefði kærði ekki gætt málefnalegra sjónarmiða og mismunað kæranda. Þótti kærði ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið þar til grundvallar. Taldi nefndin því að kærði hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. júní 2015 er tekið fyrir mál nr. 1/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 2. janúar 2015, kærði A ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að setja karla í þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns á löggæslusviði við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 7. janúar 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 17. febrúar 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. febrúar 2015. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 20. mars 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 24. mars 2015. Frekari athugasemdir bárust frá kærða með bréfi, dagsettu 17. apríl 2015, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. apríl 2015.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti lausar þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns á löggæslusviði embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 21. febrúar 2014. Í auglýsingu kom fram að sett yrði í stöðurnar til reynslu í tólf mánuði með skipun í huga að reynslutíma loknum. Helstu verkefni voru talin þessi: Stjórn og ábyrgð á deildum, svo og með tilteknum verkefnum sem viðkomandi væri falin og krefjist sérstakrar þekkingar, þjálfunar eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum væri framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga væri innan fjárheimilda. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Próf frá Lögregluskóla ríkisins, að minnsta kosti fimm ára starfsreynsla sem lögreglumaður, góð hæfni til mannlegra samskipta var talin nauðsynleg og skipulagshæfileikar, frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum voru taldir mikilvægir eiginleikar. Þá var tekið fram að leitað væri að einstaklingum með reynslu af störfum þar sem reynt hafi á þessa hæfileika. Loks kom fram að konur væru sérstaklega hvattar til að sækja um.

  6. Á þessum tíma mælti 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, fyrir um að ráðherra skipaði aðstoðaryfirlögregluþjóna. Með 7. gr. laga nr. 51/2014 er tóku gildi 27. maí 2014 var ákvæðinu breytt í þá veru að lögreglustjóri skipi aðstoðaryfirlögregluþjóna að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri starfræki hæfnisnefnd sem veiti lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjenda við skipun í störf lögreglumanna. 

  7. Alls bárust 51 umsókn. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skipaði hæfnisnefnd til að undirbúa ráðningarferlið og leggja mat á hæfi og hæfni umsækjenda. Ákveðið var að kalla 25 umsækjendur í fyrsta viðtal og var kærandi þar á meðal. Tíu voru síðan valdir til að fara í annað viðtal en kærandi var ekki þar á meðal. Með bréfi 26. maí 2014 setti kærði karlmenn í stöðurnar þrjár. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir setningunni með tölvubréfi 2. júlí 2014 og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 3. júlí 2014.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  8. Kærandi telur að hún sé að minnsta kosti jafnhæf þeim sem settir voru í stöðurnar þrjár. Í yfirmannsstöðum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi hallað mjög á konur og geri enn, þótt einhverjar breytingar hafi orðið, enda hafi verið bent á þá kynjaskekkju í auglýsingunni um störfin og konur sérstaklega hvattar til að sækja um. Kærandi telur að með vísan til ákvæða jafnréttislaga, sérstaklega 1. mgr. 18. gr. laganna, og dómvenju Hæstaréttar um að skipa skuli konu í stöðu sé hún að minnsta kosti jafnhæf og karlumsækjandi þegar konur séu færri fyrir, þá sé ljóst að kærði hefði átt að bjóða henni eina af þessum stöðum. Með því að ráða karla í allar stöðurnar hafi kærði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008. Kærandi bendir á að þegar líkur hafi verið leiddar að því að einstaklingum hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu, setningu eða skipun í starf, beri atvinnurekanda að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

  9. Kærandi bendir á að hún uppfylli vel öll hæfnisskilyrði sem fram hafi komið í auglýsingunni um störfin og búi yfir haldgóðri og yfirgripsmikilli stjórnunarreynslu sem spanni meira en tíu ár af starfstíma hennar, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, hér á landi sem og erlendis. Kærandi hafi farið með stjórn allt að 70 manns, í sex deildum, á vettvangi mannauðs-, fjármála- og ferlastjórnunar, þar sem reynt hafi á hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæði, frumkvæði, skipulagshæfni og samþættingu til að ná árangri.

  10. Kærandi gerir athugasemdir við skipan og störf hæfnisnefndarinnar en hún hafi verið samsett af tveimur næstu yfirmönnum verðandi stöðvarstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ásamt mannauðsstjóra embættisins. Leiða megi að því líkur að valið á starfsfólki í umræddar stöður hafi getað litast af persónulegum skoðunum umræddra tveggja nefndarmanna og það haft áhrif, sérstaklega á huglægt mat þeirra á frammistöðu umsækjenda í viðtölum. Við skoðun á minnispunktum úr viðtali megi glöggt sjá að reynsla kæranda, menntun og sú hæfni sem hún hafi öðlast á öðrum vettvangi en í lögreglunni hér á landi hafi ekki verið metin kæranda til tekna nema að takmörkuðu leyti. Kærandi telur að ýmsar spurningar sem hafi verið lagðar fyrir hafi verið hlutdrægar og hentað betur þeim umsækjendum sem voru þegar í starfi hjá lögreglunni. Hún telur að reynsla, menntun og hæfni hennar hafi verið vanmetin og að það þurfi hlutlausan aðila til að endurmeta þessa þætti.

  11. Kærandi greinir frá menntun sinni og tekur fram að hún hafi skorað lægra en þeir sem ráðnir voru í stöðurnar hvað varðar almenna og sérstaka menntun sem nýtist í starfi þrátt fyrir að hafa jafnmikla eða meiri menntun en þeir allir. Varðandi reynslu hennar sem varðstjóri/aðalvarðstjóri bendir hún á að hún hafi gegnt sambærilegri stöðu og aðalvarðstjóri í tólf ár. Þrátt fyrir að hafa ekki verið með mannaforráð þá hafi reynt mikið á sjálfstæði, frumkvæði, samvinnu og samræmingu á þeim vettvangi. Kærandi rekur reynslu sína af samstarfi við hagsmunaaðila og bendir á að hún hafi aðeins skorað fjögur af fimm stigum þrátt fyrir að hafa mjög víðtæka reynslu af slíku samstarfi, bæði hjá alþjóðadeildinni hér á landi og í verkefni Sameinuðu þjóðanna í B.

  12. Kærandi gerir athugasemd við að tungumálaþekking hafi verið tekin út úr heildarmatinu eftir á en hún hafi skorað hæst fyrir þann lið. Kærandi bendir á að hún hafi aðeins fengið þrjú stig af fimm fyrir aðra starfsreynslu þrátt fyrir að hafa fjölbreyttari starfsreynslu en þeir sem ráðnir voru í stöðurnar, bæði úr einka- og opinbera geiranum. Þá hafi hún einnig fengið þrjú stig af fimm fyrir reynslu af stjórnun/stjórnunarstörfum þrátt fyrir að búa yfir afar víðtækri og fjölbreyttri stjórnunarreynslu sem reyni á mun fleiri þætti en hægt sé að öðlast innan lögreglunnar hér á landi.

  13. Kærandi bendir á að óeðlilegur aðstöðumunur hafi ríkt á milli umsækjenda varðandi spurninguna um hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðva. Spurningin sé afar opin og því erfitt að svara henni og í raun ekki hægt af fullu innsæi fyrir utanbúðarmanneskju eins og hana. Kærandi tekur fram að hún hafi skorað þrjú stig af fimm í spurningunni um kosti hennar í starfið. Þar sé að finna frekar neikvæðar athugasemdir sem eigi alls ekki við og fullyrðir að hún hafi ekki nefnt þau atriði sem kosti í starfið. Þá tekur kærandi fram að hún hafi mikla reynslu af áætlanagerð og eftirfylgni, bæði hvað fjármál og mannafla varðar.

  14. Kærandi tekur fram að stjórnunarnám Lögregluskóla ríkisins sé almennt ekki í boði fyrir lögreglumenn en til þess að komast í námið þurfi yfirmaður viðkomandi að mæla með honum og yfirmaður stofnunar að samþykkja það. Kærandi hafi óskað eftir því árið 2007 að fara í námið en verið tjáð að ekki væri komið að henni en námið hafi ekki verið í boði síðan 2008 eða 2009. Kærandi telur ljóst að þetta fyrirkomulag hafi gert það að verkum að lögreglumenn hafi ekki allir setið við sama borð varðandi möguleika á því að þróa sig sem stjórnanda. Annað stjórnunarnám á háskólastigi ætti því að vera metið lögreglumönnum til tekna með sama hætti.

  15. Kærandi telur sig að minnsta kosti jafnhæfa þeim sem settir voru í stöðurnar og að reynsla hennar, menntun og hæfni hafi ekki verið metin að verðleikum. Kynferði hafi ráðið valinu, fremur en menntun, starfsreynsla, sérþekking eða aðrir sérstakir hæfileikar sem krafa hafi verið gerð um eða komi að gagni í starfinu. Í starfsviðtalinu hafi spurningar nefndarmanna aðallega beinst að störfum hennar í alþjóðadeildinni en sá vettvangur geti ekki einn og sér gefið góða mynd af hæfni hennar eða getu til að gegna stöðu stöðvarstjóra hjá embættinu. Ekki hafi verið tekið mið af reynslu og hæfni sem hún hafi öðlast annars staðar en innan lögreglunnar á Íslandi.

  16. Kærandi bendir á að það hafi reynst konum erfitt að fá tækifæri til að prófa sig í stöðum innan lögreglunnar, til dæmis vegna afleysinga, og því geri þetta viðhorf konum illmögulegt að klífa metorðastiga lögreglunnar á Íslandi. Það sé hætt við að markmið jafnréttislaganna nái seint framgangi innan lögreglunnar ef ekki fari fram heildarmat á reynslu, menntun og hæfni eins og jafnréttislög geri ráð fyrir. Kærandi óskar eftir að kærunefndin líti til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, úrskurði nefndin kæranda í hag. 

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  17. Í greinargerð kærða er vísað til athugasemda með 4. mgr. 26. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 10/2008 varðandi rökstuðning atvinnurekanda fyrir ráðningu annars umsækjanda af gagnstæðu kyni. Þar komi fram að atvinnurekandi geti, auk menntunar, starfsreynslu og sérþekkingar þess sem ráðinn var til starfans, tilgreint sérstaka hæfileika sem hann telji að komi að gagni í umræddu starfi. Þá komi fram í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 5466/2008 að ljá verði veitingarvaldshafa ákveðið svigrúm við mat á vægi einstakra þátta og mat á málefnalegum sjónarmiðum og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum. Hinar umdeildu stöður séu ábyrgðarmiklar stöður innan lögreglunnar og að mati kærða hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu verið best til þess fallinn að meta hvaða hæfisskilyrði lögð yrðu til grundvallar við mat á hæfi umsækjenda. Lagt hafi verið upp með að lögreglustjórinn ynni tillögu til kærða að því hver skyldi settur í embætti en hann hafi skipað hæfnisnefnd til að undirbúa ráðningarferlið og leggja mat á hvaða umsækjendur kæmu helst til greina í stöðurnar.

  18. Kærði bendir á að strax í upphafi hafi verið lögð mikil áhersla á að mat á umsækjendum yrði byggt á málefnalegum sjónarmiðum þar sem jafnframt væri gætt jafnræðis og samræmis í mati. Kærði hafi lagt mat á ráðningaráætlun hæfnisnefndarinnar og forsendur fyrir vali á umsækjendum sem helst hefðu komið til greina í umræddar stöður. Nefndin hafi ákveðið fyrirfram spurningar og matskvarða fyrir viðtölin til að leitast við að tengja svör umsækjenda við þau viðmið sem nefndin hafi verið sammála um að endurspegluðu hæfustu umsækjendurna og tæki jafnframt mið af ákvæðum jafnréttislaga. Kærði hafi talið matsáætlunina málefnalega og til þess fallna að finna hæfasta umsækjandann. Kærði hafi fengið spurningarnar sendar til skoðunar og kallað hafi verið eftir athugasemdum á gagnsemi þeirra við að byggja á áframhaldandi mati á umsækjendum. Að mati kærða hafi spurningarnar verið til þess fallnar að leggja frekara mat á grunnkröfur til starfsins meðal annars með því að kanna hve vel reynsla umsækjenda myndi nýtast í umræddum störfum. Kærði hafi því ekki gert athugasemdir við spurningarnar. Reynsla í árum segi ekki endilega til um hæfni viðkomandi til að gegna starfi og því mikilvægt að fá betri mynd af þessum atriðum í viðtali. Valnefndin hafi tekið umsækjendur í viðtal og metið frammistöðu þeirra en matið hafi meðal annars verið byggt á fyrirframgefnum forsendum sem nefndin hafi áður lagt fyrir kærða. Í ljósi þess að stjórnvald verði einnig að gæta að skilvirkni í sínum störfum hafi kærði ekki setið viðtölin, enda nefndarmenn vel til þess fallnir að vinna frekar úr umsóknum og að endingu finna hæfasta umsækjandann. 

  19. Kærði tekur fram að við ráðningu, skipun eða setningu í störf á vegum hins opinbera verði að hafa grundvallarreglur stjórnsýsluréttar að leiðarljósi. Veitingarvaldshafi skuli velja hæfasta umsækjandann út frá málefnalegum og gildum sjónarmiðum og veitingarvaldshafi verði að sýna fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á umsækjendum. Að mati kærða hafi valferli lögreglustjórans uppfyllt þau skilyrði. Hæfnisnefndin hafi kosið að leggja aukið vægi á reynslu innan lögreglunnar, sem og menntun er tengist beint lögreglustörfum. Þar sem um yfirmannsstöður hafi verið að ræða séu það málefnaleg sjónarmið og góð mannauðsstjórnun. Það sé því ekki óeðlilegt að það hafi verið ákveðið í upphafi ráðningar að horfa til þessa sjónarmiðs. Þá sé ekki óeðlilegt að kanna hvaða hugmyndir umsækjendur hafi þegar komi að áherslum í því starfi sem sótt sé um. Ekki verði séð að sú spurning sé til þess fallin að mismuna umsækjendum eftir kynferði.

  20. Kærði greinir frá starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns á löggæslusviði en viðkomandi sé stöðvarstjóri á lögreglustöð. Það hafi verið niðurstaða hæfnisnefndarinnar að umfang stjórnunar á lögreglustöð gerði kröfu um haldgóða reynslu af stjórnun, samfellda reynslu í að lágmarki eitt ár en ekki tímabundna í afleysingum í skamman tíma hverju sinni. Slík samfelld reynsla ætti að hafa náð yfir alla verkþætti í störfum stjórnenda. Reynsla af verkefnastjórnun og sérfræðingsverkefni af ýmsu tagi ein og sér kæmu því ekki til álita sem fullnægjandi stjórnunarreynsla. Hæfnisnefndin hafi talið þessa nálgun til þess fallna að draga úr líkum á hlutdrægni og ómálefnalegu mati á stjórnunarreynslu umsækjenda. Fjöldi þeirra umsækjenda sem hafi uppfyllt skilyrði um stjórnunarreynslu hafi verið 25 og hafi þeir verið boðaðir til viðtals, kærandi hafi verið ein þeirra. Kærði bendir á að með aðstoð samræmdra spurninga og matskvarða hafi nefndarmenn leitast við að vera málefnalegir í mati, hvort heldur umsækjendur væru karlar eða konur, starfandi við embætti lögreglustjórans eða önnur embætti. Kærði tekur fram að í tilvikum þar sem umsækjandi hafi verið undirmaður fráfarandi stöðvarstjóra á löggæslusviði sem heyri undir einn nefndarmanna hafi sá hinn sami ekki tekið þátt í viðtalinu. 

  21. Kærði bendir á að þó það megi fá hlutlausan aðila til að annast undirbúning að skipan í stöðu þá verði veitingarvaldshafi sjálfur að taka ákvarðanir um þau atriði er hafa verulega þýðingu fyrir stöðu umsækjanda í ferlinu, svo sem þau sjónarmið sem byggt er á við hæfnismat umsækjenda og endanlegt mat á því hver sé talinn hæfastur. Hæfnisnefndin hafi verið valin á grundvelli þekkingar og reynslu og hún leitast við að vera málefnaleg í mati og uppfylla væntingar lögreglustjóra um vönduð vinnubrögð. Kærði hafni því athugasemdum kæranda við skipan og störf hæfnisnefndarinnar. Í viðtölum hafi verið lögð áhersla á að kanna nánar hvernig upplýsingar í umsóknargögnum færu heim og saman við kröfur samkvæmt auglýsingu. Jafnframt hafi verið lögð áhersla á mat á frammistöðu og viðmóti umsækjenda í viðtalinu, hversu sannfærandi þeir hafi verið með tilliti til stjórnunar- og leiðtogahlutverks stöðvarstjóra.

  22. Kærði greinir frá niðurstöðu úr spurningu um almenna og sérstaka menntun sem nýtist í starfi en einkum hafi verið horft til símenntunar á sviði löggæslu auk stjórnunarnáms í Lögregluskóla ríkisins eða sambærilegs stjórnunarnáms. Stjórnunarnám lögregluskólans sé það eina sem sé sérstaklega sniðið að störfum stjórnenda í lögreglu og standi að því leyti framar stjórnunarnámi sem kærandi hafi stundað. Mikil stjórnunarreynsla innan lögreglu og umrætt stjórnunarnám sé óumdeilanlega kostur en kærandi hafi ekki lokið sambærilegu námi í stjórnun eins og hún skýri frá. Ekki sé vefengt að menntun kæranda nýtist í stjórnunarstarfi en í samanburði við menntun þeirra sem ráðnir voru verði ekki gengið fram hjá sérsniðinni og lengri stjórnunarmenntun þeirra, ásamt lengri reynslu. Þeir sem ráðnir voru í stöðurnar hafi lokið mun fleiri námskeiðum en kærandi á sviði almennrar löggæslu sem nýtist beint í umræddum stöðum.

  23. Kærði rekur reynslu kæranda og þeirra sem ráðnir voru af stjórnun með og án mannaforráða. Það hafi verið mat nefndarinnar að lengri reynsla þeirra sem ráðnir voru af stjórnun með mannaforráð innan lögreglu vegi óumdeilt þyngra en reynsla kæranda. Kærði rekur einnig reynslu kæranda og þeirra sem ráðnir voru af samstarfi við hagsmunaaðila. Það gefi augaleið að mun lengri reynsla þeirra sem ráðnir voru af stjórnun deilda, sem aðalvarðstjóri og lögreglufulltrúi, veiti þeim forskot á þessu sviði. Þeir hafi víðtækari reynslu sem sé líkari því sem reyni á í störfum stöðvarstjóra en reynsla kæranda. Varðandi tungumálaþekkinguna tekur kærði fram að nefndarmönnum hafi þótt viðeigandi að kanna hana þar sem einhver tungumálakunnátta sé gagnleg í störfum stöðvarstjóra eins og annarra lögreglumanna. Ekki hafi þótt rétt að horfa til hennar í mati þar sem hún hafi ekki verið hluti af hæfnikröfum.

  24. Kærði bendir á að svör umsækjenda um aðra starfsreynslu sem nýtist í starfi hafi spannað vítt svið og verið lítt samanburðarhæf. Til að tryggja að allir sætu við sama borð hafi verið ákveðið að horfa ekki til svara við þeirri spurningu sérstaklega og hún tekin út úr matinu sem slík. Varðandi reynslu af stjórnun/stjórnunarstörfum tekur kærði fram að það hafi verið mat hæfnisnefndarinnar að reynsla kæranda væri fjölbreytt en reynsla á sviði stjórnunar innan lögreglu væri mun minni en þeirra sem ráðnir voru. Kærandi hafi ekki reynslu af því að stjórna lögreglumönnum til verka í umfangsmiklum verkefnum á vettvangi en þeir sem ráðnir voru hafi allir töluverða reynslu af slíku. Slík reynsla sé nauðsynleg fyrir stöðvarstjóra. Reynsla kæranda af því að stjórna í fjölmenningarlegu umhverfi teljist henni til tekna en hún hafi ekki náð að sýna fram á hvernig sú reynsla kæmi að beinum notum í starfi stöðvarstjóra.

  25. Kærði tekur fram að tilgangurinn með spurningu um hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðvanna hafi meðal annars verið að fá fram sýn umsækjenda á stöðvaskipulagið og hlutverk stjórnandans í því. Jafnframt að leggja mat á hvernig stjórnunarreynsla þeirra og viðhorf féllu að skipulaginu. Spurningin hafi ekki átt að vera ívilnandi fyrir einhverja umsækjendur heldur að vera opin til þess að allir umsækjendur gætu tjáð sig en einn af þeim sem ráðinn var hafi starfað við annað embætti á þessum tíma og því eins settur og kærandi. Varðandi kosti kæranda í starfið tekur kærði fram að nefndarmenn hafi skráð minnispunkta við einstök svör jafnóðum og því geti ekki verið að rangt sé haft eftir kæranda. Kærði bendir á að minnispunktarnir séu samhengislausir og ekki sé rétt að horfa til þeirra, þeir séu ekki lýsandi fyrir álit nefndarmanna á kæranda. Kærði rekur reynslu kæranda og þeirra sem ráðnir voru af áætlanagerð, eftirfylgni við áætlun og utanumhald/skipulag vinnu í Vinnustund. Þekking þeirra og lengri reynsla hafi vegið þyngra en þekking og reynsla kæranda sem sé úr ólíku umhverfi.

  26. Kærði bendir á að við ákvörðun um skipun eða setningu í starf sé skipunarvaldshafa skylt að líta til þess með hvaða hætti menntun og starfsreynsla nýtist í því starfi sem sé til umfjöllunar hverju sinni. Skipunarvaldshafi hafi talsvert svigrúm til mats hvað það varðar með hliðsjón af viðkomandi starfi og auglýsingu starfsins, að frátöldum lögákveðnum skilyrðum. Við mat á hæfni umsækjenda hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og allir umsækjendur hafi notið jafnræðis í málsmeðferð en kyn þeirra hafi ekki komið til álita við yfirferð umsókna. Þegar horft hafi verið til langrar reynslu þeirra sem skipaðir voru af stjórnun með mannaforráð innan lögreglunnar og stjórnunarnáms þeirra hjá lögregluskólanum hafi niðurstaðan verið sú að þeir væru best til þess fallnir að gegna störfunum. Ekki verði séð að menntun og reynsla kæranda geti nýst með jafn beinum hætti í umræddum störfum og menntun og reynsla þeirra þriggja sem ráðnir voru. Þeir hafi einnig sýnt fram á færni sína og hvernig nám og reynsla gætu nýst í starfinu með skýrari hætti en kærandi. Kærandi sé hæf til að gegna umræddu starfi en það hafi hvorki verið ómálefnalegt né heimilt að líta fram hjá framangreindum þáttum við mat á hæfni þeirra sem ráðnir voru. Kærandi sé því ekki jafnhæf þeim sem ráðnir voru og því hafi ekki verið brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við ráðningu í stöðurnar.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  27. Kærandi bendir á að kærði hafi vitnað í ákvæði í frumvarpi til laga nr. 10/2008 sem hafi verið fellt út í meðförum þingsins. Gildandi ákvæði 4. og 5. mgr. 26. gr. laganna séu hins vegar lykilgreinar í kærumálinu. Kærandi gerir athugasemd við að í greinargerð kærða komi ekki fram upplýsingar um hvernig litið hafi verið til jafnréttislaga við ráðningu í stöðurnar en það sé óumdeilt að innan lögreglunnar halli verulega á konur.

  28. Kærandi vísar til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, varðandi skipan hæfnisnefndarinnar og telur að fyrir hendi séu aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni í efa. Þegar sá grundvöllur og rammi sem hæfnisnefndin hafi sett sér í upphafi sé borinn saman við athugasemdir og niðurstöður í greinargerð lögreglustjóra komi fram töluvert ósamræmi. Í ráðningaráætluninni komi fram að það sé niðurstaða hæfnisnefndarinnar að horfa skuli fyrst og fremst til reynslu umsækjenda af stjórnun fólks en hvergi í greinargerðinni komi fram upplýsingar um hversu mörgum starfsmönnum þeir sem ráðnir voru hafi stýrt. Í umsókn kæranda komi hins vegar fram hversu margir starfsmenn hafi verið undir hennar stjórn. Enginn samanburður sé gerður á þessum lykilþætti samkvæmt ráðningaráætluninni. Rökstuðningurinn snúist fyrst og fremst um að sýna fram á að stjórnunarreynsla hennar muni ekki nýtast í starfi stöðvarstjóra þar sem hún hafi ekki reynslu af því að stjórna lögreglumönnum til verka í umfangsmiklum verkefnum á vettvangi. Kærandi rekur nánar stjórnunarreynslu sína og tekur fram að niðurstaða nefndarinnar, að reynsla hennar af öðrum vettvangi en í lögreglu skori lægra og yfirfærist ekki, sé sérkennileg þar sem fræðin kenni að stjórnunarreynsla og menntun yfirfærist af einum vettvangi yfir á annan, sérstaklega ef tæknileg þekking sé til staðar.

  29. Kærandi gerir athugasemd við það mikla vægi sem stjórnendanámi lögregluskólans sé gefið þrátt fyrir að ekki hafi verið gerð krafa um það í auglýsingu að umsækjendur skyldu hafa lokið námi í stjórnun, hvað þá sérstöku stjórnunarnámi hjá lögreglunni. Hafi það verið nauðsynlegt hefði þurft að taka það fram í auglýsingunni. Kærandi ítrekar að meta hefði átt nám hennar með sama hætti og annað stjórnunarnám. Þá gerir kærandi athugasemd við ósamræmi varðandi mat á símenntun og telur að kyn hennar hafi haft áhrif á hvernig menntun hennar hafi verið metin. Kærandi rekur reynslu sína af lögreglustörfum og gerir alvarlegar athugasemdir við að tekið hafi verið fram að hún hefði aðeins nokkra þekkingu og reynslu af lögreglustörfum. Kærandi gerir athugasemdir við það álit kærða að málefnaleg og gild sjónarmið hafi legið að baki þeim athugasemdum og röksemdum sem hæfnisnefndin setji fram og styðjist við í samanburði á reynslu hennar og þeirra sem settir voru í stöðurnar. Kærandi telur að nefndin hafi tekið sér mun rýmra svigrúm en álit umboðsmanns Alþingis nr. 5466/2008 gefi tilefni til og því samrýmist valferlið hvorki álitinu né þeim grundvallarforsendum sem settar hafi verið fram í ráðningaráætlun. Það sé ekki málefnalegt sjónarmið að halda því fram að það sé annars eðlis að stjórna erlendum lögreglumönnum en þeim íslensku og að stjórnunarreynsla úr einkageira yfirfærist ekki yfir á vettvang lögreglu. Um sé að ræða afar sjálfhverf sjónarmið sem hafi viðgengist innan lögreglu á Íslandi og gripið hafi verið til, sérstaklega þegar verið sé að meta konur. Kærandi bendir á að svokölluð verkefnastjórnun sé metin lægra en önnur stjórnun en stjórnunarreynsla hennar sé ekki takmörkuð við verkefnastjórnun. Svo virðist sem ofuráhersla hafi verið lögð á stjórnunarreynslu innan lögreglunnar en ekki megi ráða af auglýsingunni að þeir umsækjendur einir kæmu til greina sem hefðu innanbúðarstjórnunarreynslu.

  30. Kærandi tekur fram að hún hafi ekki verið spurð um hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðvanna heldur hvort hún vissi í hverju skipulagsbreytingarnar sem gerðar hafi verið hjá embættinu árið 2009 hefðu falist. Slík spurning leiði til mikils aðstöðumunar milli karlanna, sem hafi verið innanbúðarmenn, og hennar þar sem hún hafi ekki verið í sömu stöðu. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við matskvarðann sem lagður hafi verið til grundvallar við mat á kostum umsækjenda í starfið og telur að umsækjendur hafi ekki setið við sama borð. Varðandi síðustu spurninguna tekur kærandi fram að reynsla hennar og þekking virðist minna metin en meðumsækjenda en samkvæmt gögnum málsins megi ráða að hún sé að minnsta kosti sambærileg reynslu annarra.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  31. Kærði bendir á að símenntun þeirra sem ráðnir voru hafi verið frekar sniðin að störfum hjá lögreglu og þannig nýst mjög vel í starfi. Ekki verði séð að stjórnendanámi Lögregluskóla ríkisins hafi verið gefið eins mikið vægi og kærandi nefni þar sem einn þeirra sem ráðinn var hafi, þrátt fyrir að hafa lokið því námi, fengið jafnmörg stig og kærandi. Það sem hafi fyrst og fremst skilið þau að sé sú staðreynd að þeir sem ráðnir voru hafi lokið fleiri námskeiðum á sviði löggæslu sem nýtist beint í umræddum stöðum. Það mat lögreglustjóra rúmist innan þess valds sem veitingarvaldshafi hafi til að leggja mat á hvernig umsækjendur falli að málefnalegum sjónarmiðum lögreglustjórans. Varðandi reynslu af stjórnunarstörfum tekur kærði fram að þeir sem ráðnir voru hafi allir lengri reynslu, í árum talið, sem varðstjóri eða aðalvarðstjóri. Það sé sú forsenda sem lögreglustjórinn hafi gefið sér í upphafi. Að mati kærða byggi matskvarði lögreglustjórans á réttmætum sjónarmiðum þar sem sú reynsla sem hann horfi sérstaklega til nýtist betur í starf aðstoðaryfirlögregluþjóns en almenn reynsla innan lögreglu.

  32. Kærði tekur undir athugasemd kæranda varðandi samskipti hennar við hagsmunaaðila og telur að hún hefði átt að fá fullt hús stiga fyrir þann lið. Varðandi spurninguna um reynslu af stjórnun/stjórnunarstörfum tekur kærði undir athugasemd kæranda en út frá ferilskrá hennar og svörum megi ráða að hún hafi sannarlega sinnt stjórnun með mannaforráð en ekki einvörðungu verkefnastjórnun. Það sé þó í samræmi við matskvarða lögreglustjóra að hún fái fjögur stig þar sem þeir sem ráðnir voru hafi allir stjórnað lögreglumönnum til verka í umfangsmiklum verkefnum á vettvangi og hafi töluverða reynslu af slíku ásamt því að hafa lengri reynslu en kærandi af því að stjórna deild innan lögreglu. Umfang stjórnunarreynslu hennar sé því minna en þeirra sem ráðnir voru.

  33. Kærði bendir á að tilgangurinn með spurningunni um hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðvanna hafi verið að gefa umsækjendum tækifæri til þess að setja fram sína sýn á skipulagið innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hlutverk stjórnandans og þannig leggja mat á hvernig stjórnunarreynsla og viðhorf féllu að skipulaginu. Vissulega megi færa fyrir því rök að innanbúðarfólk eigi auðveldara með að svara slíkri spurningu en hins vegar verði að benda á að innanbúðarfólk sé af báðum kynjum. Þá sé einn af þeim þremur er ráðnir voru ekki innanbúðarmaður og því eins settur og kærandi en honum hafi tekist að koma sjónarmiðum sínum vel á framfæri og betur en kæranda. Varðandi mat á kostum umsækjenda tekur kærði fram að í öllum auglýstum störfum í dag sé gerð krafa um einhvers konar persónubundna þætti. Með spurningunni hafi lögreglustjórinn gert tilraun til að hlutbinda mat sitt á slíkum þáttum og að mati kærða verði ekki annað séð en að það mat samrýmist því svigrúmi sem veitingarvaldshafa sé gefið í vali sínu á hæfasta umsækjandanum. Þá tekur kærði undir athugasemd kæranda varðandi síðustu spurninguna og telur að kærandi hefði átt að fá fimm stig. Þegar framangreind atriði séu tekin saman hljóti kærandi 27 stig í stað 24 en það hefði hins vegar ekki komið henni í annað viðtal. Í annað viðtal hafi verið teknir tíu stigahæstu umsækjendurnir en þeir hafi allir verið með 29 stig eða fleiri.

  34. Kærði tekur fram að í mati lögreglustjóra sé upplifun nefndarmanna á frammistöðu í viðtali gefið 50% vægi. Það megi færa rök fyrir því að það vægi sé heldur mikið, sérstaklega í ljósi þess að þau stig sem umsækjendur hafi fengið séu ekki rökstudd frekar. Sé horft framhjá stigum vegna frammistöðu hefði kærandi samt sem áður ekki komist í annað viðtal. Því telur kærði ljóst að ekki sé hægt að leiða líkur að því að mismunað hafi verið á grundvelli kyns við setningar í stöðurnar. Reynsla þeirra sem ráðnir voru ásamt menntun hafi verið meiri og betur fallin að störfum innan lögreglunnar en reynsla og menntun kæranda. Þá hafi þeim betur tekist að koma á framfæri hæfni sinni sem umsækjendur um starfið.   

  35. Kærði tekur fram að farið hafi verið í gegnum matsáætlun og spurningar til umsækjenda. Með því að tryggja að mat sé byggt á málefnalegum forsendum og umsækjendur metnir kerfisbundið út frá því mati sé verið að byggja ákvörðun á málefnalegum sjónarmiðum, án tillits til kynferðis umsækjenda. Sé þeirri aðferðafræði beitt sé best tryggt að ákvæðum laga nr. 10/2008 sé fylgt. Aðferð lögreglustjóra, að hver spurning sé metin til stiga út frá fyrirframgefnum matskvarða, sé að mati kærða til þess fallin að uppfylla kröfur um beitingu málefnalegra og sanngjarnra aðferða við val á umsækjendum, án tillits til kynferðis þeirra.

    NIÐURSTAÐA

  36. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  37. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar eru starfsstig níu. Verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóna eru eftirfarandi: 1. Hann er yfirlögregluþjóni til aðstoðar. 2. Stjórn og ábyrgð á deildum svo og tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn. 3. Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga sé innan fjárheimilda. Aðstoðaryfirlögregluþjónn á löggæslusviði hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu mun vera stöðvarstjóri á lögreglustöð. Samkvæmt upplýsingum frá kærða eru stöður lögreglumanna með mannaforráð hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 34 en þessar stöður eru skipaðar 32 körlum og tveimur konum. Lögreglumenn er sinna sérverkefnum eru níu, átta karlar og ein kona. Lögreglumenn sem eru stjórnendur á vettvangi eru 53, 49 þeirra eru karlar en fjórir eru konur. Þannig skipa konur sjö af 96 stöðum lögreglumanna með mannaforráð hjá embættinu.

  38. Hinn 20. febrúar 2014 gaf innanríkisráðuneytið út auglýsingu um að lausar væru stöður þriggja aðstoðaryfirlögregluþjóna á löggæslusviði. Tekið var fram að ráðherra myndi setja í stöðurnar til reynslu í tólf mánuði frá 1. maí 2014 með skipun í huga að reynslutíma loknum. Í auglýsingu var hæfniskröfum lýst svo að góð hæfni til mannlegra samskipta væri nauðsynleg, skipulagshæfileikar, frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum væru mikilvægir eiginlegar og að leitað væri að einstaklingum með reynslu af störfum þar sem reynt hefði á þessa hæfileika. Loks kom fram í auglýsingunni að í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglunnar og jafnréttisáætlunar lögreglunnar væru konur sérstaklega hvattar til að sækja um.

  39. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu valdi þrjá einstaklinga í hæfnisnefnd, aðstoðarlögreglustjóra og yfirlögregluþjón hjá embættinu og mannauðsstjóra embættisins. Nefndin gerði ráðningaráætlun sem dagsett er í mars 2014. Þar kemur fram að við val á hæfustu umsækjendunum í starf stöðvarstjóra á löggæslusviði beri fyrst að horfa til reynslu af stjórnun sem skuli vera samfelld, að lágmarki í eitt ár. Umfang stjórnunar, bæði verkefni og fjöldi starfsmanna, skipti máli. Reynsla af stjórnun einstakra málaflokka eða rannsókna vegi ekki jafn þungt þar sem starf stöðvarstjórans felist einkum í víðtækri stjórnun en ekki sérhæfingu á skilgreindu sviði. Í áætluninni var einnig lýst markmiði viðtala við umsækjendur og tilgreindur spurningalisti er leggja skyldi fyrir þá.

  40. Kærandi var í 25 manna hópi er talinn var uppfylla skilyrði um stjórnunarreynslu og var boðuð til viðtals en í þessu tilliti var miðað við samfellda stjórnunarreynslu við stjórnun og ábyrgð á deild eða einingu í að minnsta kosti eitt ár. Tvær aðrar konur voru í þessum hópi. Spurningarnar er lagðar voru fyrir viðmælendur í viðtalinu voru þessar: 1. Almenn og sérstök menntun sem nýtist í starfinu. 2. Reynsla af störfum sem varðstjóri/aðalvarðstjóri við rannsóknir. 3. Reynsla af samstarfi við hagsmunaaðila. 4. Tungumálaþekking. 5. Önnur starfsreynsla sem nýtist á þessu sviði. 6. Stjórnun/stjórnunarstörf og reynsla á því sviði. 7. Hugmyndafræði og áherslur í starfsemi lögreglustöðvanna. 8. Hverja telur þú kosti þína í starfi? 9. Rekstur - aðkoma að áætlanagerð, eftirfylgni við áætlun (fjárhags- og mannaflamál), utanumhald/skipulag vinnu í Vinnustund. Gefin voru stig fyrir svör við hverri spurningu á kvarðanum 1–5. Á yfirliti yfir heildarniðurstöður úr viðtalinu kemur fram að svörum við spurningum var veitt 50% vægi á móti 50% vægi frammistöðu í viðtalinu. Við samantekt heildarniðurstaðna var ekki tekið tillit til svara við spurningum um tungumálakunnáttu og aðra starfsreynslu.

  41. Í stigagjöf fyrir viðtalið hlaut kærandi 24 stig en þeir er settir voru í stöðurnar hlutu 33, 32 og 31 stig. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur kærði leiðrétt stigagjöf fyrir svör kæranda við spurningum þannig að í stað fjögurra stiga fyrir svör við spurningu um samstarf við hagsmunaaðila hefði borið að gefa fimm stig, í stað þriggja stiga fyrir stjórnunarreynslu hefði borið að gefa fjögur stig og fyrir rekstur og áætlanagerð hefði rétt stigagjöf verið fimm stig í stað fjögurra. Þannig hefði rétt stigagjöf gefið 27 stig. Þá hefur kærði tiltekið að frammistöðu í viðtali hafi verið veitt of mikið vægi en þrátt fyrir að stigagjöf hafi nú verið endurreiknuð á þann hátt að eingöngu sé miðað við svör við spurningum en ekki við upplifun nefndarmanna á frammistöðu í viðtali sé ljóst að kærandi hefði samt sem áður ekki komist í annað viðtal þar sem 29 stig hefði þurft til þess.

  42. Við stigagjöf fyrir almenna og sérstaka menntun sem nýtist í starfinu miðaði kærði einkum við símenntun á sviði löggæslu auk stjórnunarnáms við Lögregluskóla ríkisins. Kærandi og sá sem hlaut fæst stig fyrir þennan þátt úr hópi þeirra er settir voru höfðu bæði lokið símenntunarnámskeiðum á sviði löggæslu. Þeir er settir voru höfðu allir lokið stjórnunarnámi frá Lögregluskóla ríkisins. Kærandi hafði sótt um að fá inngöngu í námið á árinu 2007 en var tjáð að ekki væri komið að henni til að hljóta inngöngu. Námið hefur ekki verið í boði frá þessum tíma en kærandi hafði hins vegar lokið diploma námi (60 einingum) í viðskiptafræði á stjórnunarlínu við Háskólann í Reykjavík árið 2012. Í auglýsingu um stöðurnar kom fram að þeim er skipaðir yrðu og ekki hefðu lokið stjórnunarnámi við Lögregluskóla ríkisins yrði gefinn kostur á að sækja það nám eða sambærilegt nám á almennum markaði. Þegar það er haft í huga og með vísan til þess sem framar er rakið telur kærunefndin að við stigagjöf til handa kæranda (4 stig) fyrir almenna og sérstaka menntun sem nýtist í starfinu hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða.

  43. Í stigagjöf hæfnisnefndar skoraði kærandi fimm stig fyrir tungumálakunnáttu en hún hafði það umfram þá er settir voru að hafa kunnáttu í þriðja tungumáli, auk ensku og Norðurlandamála er þessir þrír tilgreindu. Þeir sem settir voru skoruðu ýmist fimm eða fjögur stig fyrir þennan þátt. Eins og fyrr segir tók hæfnisnefnd ekki tillit til þessa þáttar prófsins í samantekt heildarniðurstaðna þrátt fyrir að kærði hefði ekki gert neinar athugasemdir við ráðningaráætlun hæfnisnefndarinnar þar sem tungumálakunnátta var ein af níu spurningum er beint skyldi til umsækjenda í fyrsta viðtali. Hefur kærði ekki fært fram neinar haldbærar skýringar á þessari framkvæmd.

  44. Í kvarða hæfnisnefndar var spurningu 2 lýst svo að hún tæki til reynslu af störfum sem aðalvarðstjóri, lögreglufulltrúi og aðstoðaryfirlögregluþjónn og við rannsóknir. Gögn málsins bera með sér að kærði hafi metið svör við spurningu 2 fyrst og fremst með tilliti til stjórnunarreynslu en ekki með tilliti til árafjölda við tiltekin störf eins og kvarðinn gerði þó ráð fyrir. Í rökstuðningi kærða fyrir því að kærandi hafi hlotið þrjú stig fyrir þessa spurningu er tiltekið að lengri reynsla þeirra þriggja er settir voru í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóns af stjórnun með mannaforráð innan lögreglu vegi óumdeilt þyngra en reynsla kæranda af stjórnun með mannaforráð innan friðargæslu. Kærði hefur ekki talið ástæðu til að víkja frá þessari stigagjöf þrátt fyrir að kvarðinn geri ráð fyrir að tíu ára reynsla veiti fimm stig.

  45. Spurningu 6 var lýst þannig að hún tæki til reynslu af stjórnun. Í rökstuðningi kærða fyrir stigagjöf er fjallað um hvort sú stjórnunarreynsla er umsækjendur hefðu til að bera væri til þess fallin að nýtast í starfinu. Þannig lagði hæfnisnefndin mat á stjórnunarreynslu umsækjenda með stigagjöf fyrir tvær spurningar en kærunefnd fær ekki séð að slíkt samræmist matskvarðanum. Með því að setja mælistikuna upp á þann máta að stjórnun með mannaforráð innan lögreglu skuli vega þyngra en stjórnun með mannaforráð innan friðargæslu felur hún nánast í sér að þeir starfsmenn sem gegnt hafa yfirmannstöðum í lögreglunni sitja fyrir um starf en það eru nánast eingöngu karlmenn eins og fyrr segir. Kærandi hafði starfað í fimm ár við eigin rekstur áður en hún hóf störf hjá lögreglu á árinu 1997 en ekki var tekið tillit til þessa að neinu leyti í stigagjöf. Samkvæmt þessu virðist starfsreynsla kæranda ekki hafa verið metin sem skyldi og ekki í samræmi við þá ráðningaráætlun sem lagt var upp með.

  46. Af því sem að framan greinir er ljóst að mat á að minnsta kosti fimm af sjö spurningum er beint var til umsækjenda var háð annmörkum að meira eða minna leyti. Telur nefndin að kærði hafi ekki metið hæfni kæranda til að gegna stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns á málefnalegum forsendum. Framangreindar athugasemdir kærunefndar um stigagjöf sýna að hæfni kæranda var að öllum líkindum vanmetin. Við þessar aðstæður telur kærunefnd að leiddar hafi verið líkur að því að kærði hafi mismunað kæranda og þykir kærði ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hennar hafi legið þar til grundvallar. Með því braut kærði gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi orðið fyrir kostnaði við rekstur málsins fyrir kærunefndinni. Standa því ekki rök til þess að verða við kröfu hennar um málskostnað úr hendi kærða.


Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við setningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum