Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 59/2014

Mál nr. 59/2014

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 26. maí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 28. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. júní 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 3. júlí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1952. Hún er í sambúð og býr ásamt sambýlismanni sínum og dóttur, fæddri árið 1997, í eigin fasteign að B sem er 272 fermetra einbýlishús. Tveir uppkomnir synir kæranda búa einnig hjá henni og eru þeir báðir í framhaldsskóla.

Kærandi starfar hjá Heilsugæslu C. Ráðstöfunartekjur kæranda eru 303.613 krónur á mánuði. Í tekjur hefur kærandi laun, auk þess sem hún fær greitt meðlag og barnabætur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 18. mars 2013, eru 31.987.916 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003, 2006 og 2011.

Að sögn kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hennar til fasteignakaupa.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. mars 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. september 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann legði til að greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda yrði hætt. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að fasteign kæranda væri að hans mati óhæfileg að stærð, væri tekið mið af kæranda sjálfum og þeim aðilum sem hún bæri framfærsluskyldu gagnvart lögum samkvæmt. Mánaðarlegar afborganir af þeim kröfum, sem tryggðar séu með veði í fasteigninni og rúmist innan matsverðs hennar, hafi verið um 167.000 krónur. Kærandi eigi 66.651 krónu aflögu á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar. Greiðslugeta kæranda hafi því verið nokkuð frá raunafborgunum veðkrafna innan matsverðs fasteignarinnar og dygði ekki til, jafnvel þótt gert yrði ráð fyrir að maki kæranda greiddi helming afborgana. Afstaða umsjónarmanns hafi því verið sú að selja ætti fasteignina, en kærandi lét ekki uppi afstöðu sína um það þrátt fyrir að á eftir því væri gengið. Umsjónarmaður hafi því talið að með því að kærandi hafi ekki komið á framfæri við hann hver afstaða hennar til sölu fasteignarinnar væri, hafi skort á samstarfsvilja hennar og hafi kærandi þannig komið í veg fyrir áframhaldandi vinnu í greiðsluaðlögunarmáli hennar og að fasteignin yrði seld. Með vísan til framangreinds hafi umsjónarmaður lagt til, sbr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge., að greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda yrði hætt.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 26. febrúar 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að greiðsluaðlögunarumleitanir hennar skyldu felldar niður. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði ekki bréfinu.

Með ákvörðun 14. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Kærandi vísar til þess að tekjur sambýlismanns hennar hafi ekki verið teknar með í málið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er greint frá því að í málinu liggi fyrir að þær 66.651 króna, sem kærandi geti greitt af skuldbindingum sínum á mánuði, hafi ekki dugað til að standa straum af mánaðarlegum afborgunum fasteignaveðkrafna, jafnvel þótt tekið yrði tillit til framlags af hálfu maka. Þessum útreikningum hafi kærandi hvorki mótmælt né hafi hún gefið upp afstöðu sína til sölu fasteignarinnar. Þá hafi umsjónarmaður ítrekað reynt að fá kæranda til samstarfs við sig. Í ljósi eigna- og skuldastöðu kæranda hafi umsjónarmaður metið það svo að kærandi ætti 7.000.000 króna umfram skuldir væri gert ráð fyrir sölu fasteignarinnar en með henni hefði mátt leysa alfarið úr fjárhagsvanda kæranda.

Umboðsmaður skuldara hafi tekið undir það mat umsjónarmanns og telji að kærandi geti ekki staðið skil á raunafborgunum veðkrafna innan matsverðs eignarinnar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., og því hafi verið fallist á ákvörðun umsjónarmanns um að nauðsynlegt væri að selja fasteign kæranda.

Varðandi málatilbúnað kæranda um að ekki hafi verið tekið tillit til tekna sambýlismanns hennar hafi komið fram í bréfi umsjónarmanns að jafnvel þótt reiknað yrði með því að sambýlismaður kæranda greiddi helming af mánaðarlegum afborgunum áhvílandi lána, hafi verið ljóst að það myndi ekki duga til.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunnar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skuli samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í málinu er óumdeilt að greiðslugeta kæranda var 66.651 króna á mánuði að teknu tilliti til helmings kostnaðar við framfærslu hjóna eða sambýlisfólks með eitt barn á framfæri samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og upplýsingum frá kæranda sjálfum. Mánaðarlegar afborganir af fasteignaveðlánum kæranda voru 167.000 krónur á mánuði og þykir þannig ljóst að kærandi gat ekki greitt af veðlánum innan matsverðs fasteignar sem nam 36.700.000 krónum á mánuði á þeim tíma sem miðað er við. Í ljósi þessa lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara síðan niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

Í lge. er ekki gert ráð fyrir að aðrir en skuldarar sjálfir greiði mánaðarlegar afborganir af lánum sem tryggðar eru með veði í fasteignum í þeirra eigu. Þegar skuldari sækir um greiðsluaðlögun er gerð greiðsluáætlun til að kanna hve mikið hann getur greitt af skuldbindingum sínum í mánuði hverjum, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar. Sæki eingöngu annað hjóna eða sambúðarmaka um greiðsluaðlögun er reiknað með að maki greiði helming framfærslukostnaðar á móti skuldara þegar framangreindir útreikningar eru gerðir. Tekjur maka skuldara koma ekki til skoðunar að öðru leyti.

Í ljósi ákvæða lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna afborgana af fasteignaveðkröfum. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti en að kærandi hafi ekki framfylgt fyrirmælum umsjónarmanns um að selja fasteignina B. Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum