Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2014

Mál nr. 62/2014

Fimmtudaginn 3. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 3. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Frekari rökstuðningur kæranda vegna kæru barst með bréfi 7. júlí 2014.

Með bréfi 10. júlí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. ágúst 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. ágúst 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1972. Hún er einstæð og býr ásamt X sonum sínum í eigin íbúð að B sem er um 94 fermetrar að stærð.

Kærandi er [...] og starfar hjá C og að auki sem verktaki hjá D.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 7. júní 2012, eru 28.867.710 krónur og falla þar námslán samtals 5.073.363 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005-2010 vegna fasteigna- og bifreiðakaupa, auk þess sem stofnað var til námslána á þeim tíma.

Að sögn kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hennar til atvinnuleysis fyrrverandi sambýlismanns hennar, auk þess sem tekjur kæranda hafi verið lágar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 20. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 13. gr. lge. Ákvörðunin hafi byggst á því að kærandi gæti ekki staðið skil á skuldbindingum sínum vegna fasteignarinnar þar sem mánaðartekjur hennar dygðu ekki til, auk þess sem kærandi þyrfti að greiða 2.000.000 króna vegna framkvæmda á fasteigninni. Kærandi lýsti því yfir við umsjónarmann að hún myndi ekki una ákvörðun um að fasteign hennar yrði seld.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 26. febrúar 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að greiðsluaðlögunarumleitanir hennar skyldu felldar niður. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði með bréfi 10. mars 2014.

Með ákvörðun 14. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og mál hennar tekið fyrir að nýju. Kærandi telur að ekki hafi verið rétt staðið að máli hennar hjá umsjónarmanni.

Kærandi kveðst hafa mótmælt sölu fasteignar sinnar að svo stöddu og óskað eftir fundi með umsjónarmanni vegna málsins sem hafi verið hundsað. Kærandi sé einstæð móðir X drengja en [...] sé á skólaaldri og óþarfi að fjölyrða um þá stöðu sem upp geti komið þurfi hann að skipta um skóla. Kærandi kveðst því hafa þurft að hafa hagsmuni barna sinna í fyrirrúmi hvað húsnæðismál snerti. Fasteignina hafi kærandi keypt árið 2007 ásamt þáverandi sambýlismanni sínum. Hann hafi verið skráður fyrir 20% hluta af eigninni en hann hafi afsalað þeim eignarhluta til hennar.

Kærandi telur að umsjónarmaður hafi krafist þess að selja heimili hennar þrátt fyrir að ljóst væri að leigumarkaðurinn yrði henni ofviða, auk þess sem biðtími í félagslega húsnæðiskerfinu væri langur.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að í málinu liggi fyrir að kærandi geti ekki greitt af þeim lánum sem tryggð séu með veði í fasteigninni. Í frumvarpsdrögum umsjónarmanns frá 14. ágúst 2013 hafi áhvílandi veðkröfur numið 20.165.227 krónum en verðmat eignarinnar 25.000.000 króna. Kærandi eigi 80% hlut í fasteigninni og greiðslubyrði áhvílandi lána frá Íbúðalánasjóði sé u.þ.b. 101.838 krónur á mánuði.

Umboðsmaður hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni greiðsluáætlun þar sem tekið hafi verið tillit til upplýsinga frá kæranda sjálfum um kostnað við framfærslu og upplýsingar um auknar tekjur hennar. Þrátt fyrir það hafi legið fyrir að kærandi hefði aðeins um 41.000 krónur á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, eins og greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara gefi til kynna.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í máli þessu hefur umsjónarmaður mælt fyrir um að selja skuli fasteign kæranda sem er skráður eigandi 80% eignarhluta fasteignarinnar að B. Fyrrum sambýlismaður kæranda er skráður fyrir 20% eignarhlut í fasteigninni en ekkert liggur fyrir um samþykki hans til sölunnar sem meðeiganda kæranda að fasteigninni. Þar sem kærandi er aðeins eigandi hluta fasteignarinnar þarf meðeigandi hennar, eðli málsins samkvæmt, að samþykkja sölu eignarinnar til að hún verði seld við greiðsluaðlögun. Ekki verður séð að einungis eignarhluti kæranda verði seldur, enda um óskipta sameign að ræða. Þannig er atbeini meðeiganda kæranda nauðsynlegur til að eignin verði seld. Það kemur samkvæmt þessu fyrst til þess að meta viðhorf kæranda til fyrirhugaðrar sölu eignarinnar þegar meðeigandi hefur samþykkt söluna fyrir sitt leyti.

Að mati kærunefndarinnar eru við þessar aðstæður ekki fyrir hendi forsendur til þess að mæla fyrir um sölu nefndrar fasteignar, án þess að samþykki meðeiganda til sölunnar liggi fyrir. Fáist samþykki meðeiganda ekki kemur til kasta kröfuhafa að taka afstöðu til frumvarps kæranda til greiðsluaðlögunar með hliðsjón af atvikum málsins. Eins og málið liggur fyrir koma ákvæði 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. því ekki til frekari skoðunar að svo stöddu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda hafi verið felldar niður án þess að lagaskilyrði væru fyrir hendi. Með vísan til þess ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum