Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 77/2013

Fimmtudaginn 1. október 2015


 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 6. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 13. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. júlí 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 22. júlí 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.

Greinargerð kæranda barst 5. september 2013. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 12. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 13. september 2013. Var hún send kæranda til kynningar með bréfi 23. september 2013 og henni boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kæranda barst kærunefndinni 20. mars 2014.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1984. Hún býr ásamt foreldrum sínum og syni í eigin húsnæði að B götu nr. 21, sveitarfélaginu C. Hún á einnig fasteign að D götu nr. 7, sveitarfélaginu C. Kærandi hefur stundað nám í förðunarfræði og flugþjónustu en hefur þegið endurhæfingarlífeyri frá árinu 2011. Ráðstöfunartekjur kæranda eru samtals að meðaltali 223.472 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 42.915.222 krónur en þar af falla 410.000 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008 er kærandi festi kaup á fasteign að D götu nr.7, sveitarfélaginu C.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2008 og eru ástæður skuldasöfnunar kaup á fasteign að D götu nr. 7 auk veikinda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. apríl 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum.

Við undirbúning frumvarps til greiðsluaðlögunar lagði umsjónarmaðurinn til að báðar fasteignir kæranda yrðu seldar í samræmi við 1. mgr. 13. gr. lge, þ.e. fasteign að D götu nr. 7 annars vegar og að B götu nr. 21 hins vegar. Óskaði kærandi eftir því að fá að halda eigninni að B götu nr. 21 þar sem hún heldur heimili ásamt syni sínum og foreldrum. Við frumvarpsvinnsluna kom síðar í ljós að vanskil hefðu orðið á lögveðkröfum vegna fasteigna kæranda, samtals að fjárhæð 900.000 krónur þann tíma sem kærandi hafði notið greiðsluskjóls.

Með bréfi 7. desember 2012 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Yrði það gert á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki sinnt skyldum sínum á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, annars vegar um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem umfram væri það sem hún þyrfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Hins vegar um að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 16. apríl 2013 þar sem henni var tilkynnt um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, henni gefinn kostur á að koma að andmælum og leggja fram gögn áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Í bréfinu var að auki óskað eftir afstöðu kæranda til þess mats umboðsmanns skuldara að selja þyrfti báðar eignir kæranda í ljósi óvissu um tekjur hennar og greiðslugetu um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi svaraði bréfinu 28. apríl 2013 og kvaðst samþykk sölu beggja eigna. Tilboð frá foreldrum hennar væri væntanlegt í eignina að B götu nr. 21. Þá kvaðst kærandi ekki hafa haft greiðslugetu til að standa skil á fasteignagjöldum auk þess sem umsjónarmaður hefði upplýst hana um að óvíst væri að hún gæti haldið eigninni að B götu nr. 21, þrátt fyrir að hún stæði í skilum með fasteignagjöld. Kvaðst kærandi hafa notið fjárstuðnings frá foreldrum sínum að fjárhæð um 150.000 krónur á mánuði.

Hinn 6. maí 2013 barst umboðsmanni skuldara óundirritað tilboð í fasteignina við B götu. og voru tilboðsgjafar foreldrar kæranda. Í fylgiskjali með tilboðinu voru tilgreindir gallar á fasteigninni og viðgerðarkostnaður áætlaður um 5.000.000 króna. Hljóðaði kauptilboðið upp á 21.000.000 króna þar sem kaupendur myndu yfirtaka áhvílandi lán á fyrstu fjórum veðréttum eignarinnar, samtals að fjárhæð 14.180.422 krónur og greiða kæranda samtals 6.819.578 krónur eftir nánara samkomulagi.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. maí 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. og b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Var það á grundvelli þeirrar afstöðu umboðsmanns skuldara að selja bæri báðar fasteignir kæranda svo og á þeim forsendum að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa sótt um greiðsluaðlögun 1. júní 2011. Hún eigi tvær fasteignir í sveitarfélaginu C, að B götu nr. 21 annars vegar og D götu nr. 7 hins vegar. Kveðst kærandi hafa óskað eftir því strax á fyrsta fundi með umsjónarmanni með greiðsluaðlögunar­umleitunum hennar að fasteignin að D götu yrði sett á sölu en það hafi ekki verið gert. Ef eignin hefði verið seld hefðu vanskil á fasteignagjöldum ekki safnast upp. Kveðst kærandi hafa óskað eftir því að fá að halda fasteigninni að B götu ef mögulegt væri. Hún hefði þó fengið kauptilboð í þá eign sem hún teldi ekki hafa verið rétt meðhöndlað. Segir kærandi umsjónarmanninn aldrei hafa lagt til að báðar fasteignirnar yrðu seldar. Í kauptilboði í fasteignina að B götu sé kveðið á um uppgjör á fasteignagjöldum af eigninni.

Kveðst kærandi hafa gert umsjónarmanni grein fyrir því að hún féllist á sölu fasteignarinnar að B götu og að kauptilboð væri væntanlegt í eignina frá foreldrum kæranda. Það sé rangtúlkun af hálfu umboðsmanns að hún hafi ekki fallist á sölu eignarinnar.

Umboðsmaður hafi sent Íbúðalánasjóði kauptilboðið, sem hafi hafnað því með vísan til endurkaupareglu samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Telur kærandi ákvæðið ekki eiga við þar sem tilboðsgjafar séu ekki að biðja um lánafyrirgreiðslu. Áhvílandi lán á B götu nr. 21 séu frá Íbúðalánasjóði en á nafni kaupenda. Telur kærandi að umboðsmaður skuldara hafi ekki skoðað tilboðið sem skyldi.

Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun segi umsjónarmaður að kærandi hafi 247.742 krónur í önnur laun. Kærandi viti ekki hvaðan þessi tala komi. Framfærslukostnaður kæranda hafi verið áætlaður 260.436 krónur og hafi greiðslugeta því verið neikvæð um 24.762 krónur. Nú sé greiðslugeta hennar neikvæð um 83.999 krónur og því hafi kærandi ekki getað staðið í skilum með fasteignagjöld og leikskólagjöld.

Rangt sé hjá umsjónarmanni að ekki hafi verið lagt fyrir. Það hafi verið gert.

Í greinargerð til kærunefndar ræðir kærandi fyrst um kauptilboð foreldra hennar í fasteignina að B götu nr. 21. Kærandi kveðst hafa sent undirritað tilboð. Umboðsmaður skuldara virðist hafa mistúlkað það og talið að gert hafi verið ráð fyrir greiðslu til kæranda að fjárhæð 6.919.578 krónur en í reynd væri þar um að ræða yfirtöku á skuldum. Segir kærandi að Íbúðalánasjóður hafi hafnað tilboðinu á röngum forsendum. Ekki sé verið að biðja sjóðinn um lán og fullyrðingar sjóðsins um málamyndagerning þarfnist útskýringa. Þá hafi umboðsmaður ekki kannað hvert raunhæft verð sé fyrir eignina og hann geti því ekki hafnað tilboðinu á þeim forsendum að ekki sé um raunhæft verð að ræða. Sé tilboðið of lágt eða of hátt sé eðlilegt að tilboðsgjöfum verði gefið færi á að gera annað tilboð.

Kveðst kærandi hafa viljað greiða fasteignagjöld af fasteigninni við B götu en umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi sagt að kærandi yrði að borga fasteignagjöld af báðum eignum til þess að „eiga einhvern séns“.  Einnig hafi hann sagt að hún „ætti engan séns“ þó hún greiddi af báðum eignunum. Segist kærandi vilja gera allt sem hún geti til þess að halda fasteigninni að B götu 21 sem fjölskyldan hafi átt í um 25 ár.

Í framhaldsgreinargerð til kærunefndarinnar svarar kærandi athugasemdum umboðsmanns skuldara. Hvað synjun á kauptilboði í fasteignina við B götu varði segir kærandi allar skuldir á eigninni hafa komið fram á skattskýrslum kæranda frá því hún eignaðist húsið. Ekki sé því unnt að segja að um skuldir foreldra hennar sé að ræða þó lánunum hafi ekki verið „nafnbreytt“.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins er síðar varð að lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem umsjónarmaður ætli að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Ekki hafi komið fram upplýsingar sem gefi til kynna að framfærslutekjur kæranda aukist á næstu misserum. Einnig sé óljóst hversu háa fjárhæð foreldrar kæranda hafi ætlað að greiða henni í húsaleigu, kæmist samningur á um greiðsluaðlögun. Áætlaðar mánaðarlegar afborganir af veðkröfum, sem hvíli innan matsverðs fasteignarinnar, séu um 120.000 krónur. Kærandi hafi ekki svigrúm til að standa undir afborgunum og rekstrarkostnaði af fasteigninni samkvæmt þeim upplýsingum sem liggi fyrir um fjárhag hennar, en greiðslugeta hennar sé nú áætluð neikvæð um 60.000 krónur á mánuði.

Umsjónarmaður greini frá því að kærandi hafi upplýst að foreldrar hennar greiddu henni 100.000 krónur til 150.000 krónur á mánuði í leigu. Í drögum umsjónarmanns að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun komi fram að kærandi hafi 247.742 krónur í önnur laun. Fjárhæðin sé ekki skýrð frekar í gögnum umsjónarmanns. Í bréfi umboðsmanns skuldara 16. apríl 2013 hafi kærandi verið beðin um að gera grein fyrir nefndum tekjum og hafi áhersla verið lögð á að ef ekki lægi fyrir glögg mynd af fjárhag hennar gæti það leitt til niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í svarbréfi kæranda 28. apríl 2013 segist kærandi hafa notið fjárstuðnings frá foreldrum sínum en þó ekki að fjárhæð 150.000 krónur eins og áður hafði komið fram. Kærandi hafi hins vegar ekki tilgreint fjárhæð fjárstuðningsins. Því telji umboðsmaður skuldara að upplýsingar, sem jafna mætti til staðfestingar á meintum leigugreiðslum og raunverulegri fjárhæð þeirra, hafi ekki borist frá kæranda. Í ljósi þeirrar óvissu, sem fyrir liggi um tekjur kæranda, verði að telja að hún hafi ekki svigrúm til að standa undir mánaðarlegum greiðslum veðkrafna.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 16. apríl 2013 hafi kærandi verið upplýst um það mat umboðsmanns skuldara að selja þyrfti báðar fasteignir hennar. Hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til þess mats. Í svarbréfi kæranda 28. apríl 2013 hafi kærandi greint frá því að hún væri samþykk sölu beggja eigna og að foreldrar hennar myndu leggja fram tilboð í fasteignina að B götu nr. 21. Hinn 6. maí 2013 hafi óundirritað tilboð þeirra í eignina borist embættinu. Tilboðið hafi hljóðað upp á 21.000.000 króna og samkvæmt því skyldi kaupverð greiðast þannig að kaupendur yfirtækju þau lán sem hvíldu á fyrstu fjórum veðréttum eignarinnar, samtals að fjárhæð 14.180.422 krónur ásamt því að greiða seljanda samtals 6.819.578 krónur eftir nánara samkomulagi. Í fylgiskjali með tilboðinu hafi verið taldar upp skemmdir á eigninni og viðgerðarkostnaður áætlaður um 5.000.000 króna. Fasteignamat eignarinnar samkvæmt Fasteignaskrá sé 28.750.000 krónur.

Við skoðun umboðsmanns skuldara á kauptilboðinu hafi komið í ljós að alls hafi átta veðskuldabréf hvílt á eigninni. Á fyrstu þremur veðréttum hafi hvílt þrjú lán frá Íbúðalánasjóði, sem foreldrar kæranda hafi stofnað til á árunum 1989 og 1998, og væru foreldrar hennar enn skráð greiðendur lánanna. Á fjórða veðrétti hvíldi lán frá Festu lífeyrissjóði sem kærandi hafi stofnað til árið 2002. Á fimmta og sjötta veðrétti hvíldu tvö veðlán frá Sparisjóðnum á Suðurlandi sem foreldrar kæranda hafi stofnað til árin 2002 og 2004. Á sjöunda veðrétti hvíldi lán frá Glitni hf. sem kærandi hafi stofnað til árið 2005 og á áttunda veðrétti hvíldi lán frá Gildi lífeyrissjóði sem kærandi hafi stofnað til árið 2008.

Samkvæmt framangreindu felist kauptilboð foreldra kæranda meðal annars í því að kaupendur yfirtaki þrjú lán sem þau hafi sjálf stofnað til og séu greiðendur að. Samanlagðar eftirstöðvar lánanna þriggja nemi 10.728.287 króna. Þá kveði kauptilboðið á um að kaupendur yfirtaki lán kæranda hjá Festu lífeyrissjóði að fjárhæð 3.452.135 krónur og greiði kæranda alls 6.819.578 krónur eftir nánara samkomulagi milli aðila. Þá sé tilgreint að skuldir á fimmta til áttunda veðrétti séu kaupendum óviðkomandi og skuli seljandi aflýsa þeim. Eins og að framan greini séu kaupendur sjálf lántakendur og greiðendur lána á fimmta og sjötta veðrétti og því verði ekki séð að þær skuldir séu þeim óviðkomandi. Þá þyki ekki mögulegt að taka tillit til þeirra athugasemda um ástand fasteignarinnar, sem fasteignasali hafi sent með kauptilboðinu og áætlaðri fjárhæð viðgerðarkostnaðar þar sem hvorki liggi fyrir gögn er staðfesti ástand eignarinnar né þann kostnað sem áætlað sé að þurfi til endurbóta.

Leitað hafi verið eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til kauptilboðsins og hafi svar borist 11. maí 2013. Þar hafi komið fram að sjóðurinn myndi ekki samþykkja kauptilboðið fyrir sitt leyti með vísan til svokallaðrar endurkaupareglu, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 522/2004, en þar sé kveðið á um að sjóðurinn veiti ekki fyrirgreiðslu vegna endurkaupa á íbúð nema liðin séu að minnsta kosti þrjú ár frá því að afsali vegna fyrri sölu var þinglýst og núverandi kaupandi hafi ekki nýtt húsnæðið í millitíðinni samkvæmt íbúðavottorði. Þar sem foreldrar kæranda hafi afsalað eigninni til kæranda árið 2002, án þess að óskað væri eftir því að hún yfirtæki lánin, og þar sem þau hefðu búið í eigninni frá þeim tíma, væri litið svo á að um málamyndargerning væri að ræða.

Samkvæmt bréfi umsjónarmanns 7. desember 2012 hafi kröfuhafar mótmælt því að taka á sig lögveðskröfur sem fallið hefðu til í greiðsluskjóli kæranda, kæmi til sölu á eigninni. Samkvæmt fyrirliggjandi kauptilboði í fasteignina við B götu nr. 21 sé ekki kveðið á um að kaupendur greiði lögveðskröfur í vanskilum, en þar sé einungis að finna staðlaðan texta um að seljandi skuli gera upp við kaupendur, meðal annars fasteignagjöld, og skuli uppgjör miðast við afhendingardag eignar.

Að framangreindu virtu sé það mat umboðsmanns skuldara að framkomið tilboð í fasteignina að B götu nr. 21 sé ekki til þess fallið að kærandi fái raunhæft endurgjald fyrir eign sína. Þá megi skilja af svarbréfi kæranda frá 28. apríl 2013 að hún sé samþykk því að selja foreldrum sínum eignina, en hún tilgreini ekki hver afstaða hennar sé til þess að eignin verði seld á frjálsum markaði. Því verði ekki litið svo á að hún hafi veitt samþykki fyrir því að eignin verði seld almennri sölu. Í 2. mgr. 13. gr. lge. sé kveðið á um að ef selja þurfi eignir kæranda skuli það gert með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær.

Í ákvörðuninni er einnig vísað til 1. mgr. 12. gr. lge. Í ákvæðinu séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Eins og að framan greini ríki óvissa um raunverulegar framfærslutekjur kæranda á tímabili greiðslu­aðlögunar­umleitana. Verði því ekki lagt mat á það hvort kærandi hefði átt að geta staðið í skilum með lögveðskröfur og dagvistunargjöld frá því frestun greiðslna hófst í júní 2011. Það sé mat umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn veiti ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að leggja megi mat á hvort a- og d-liðir 1. mgr. 12. gr. eigi við í málinu.

Upplýsingar um þær fjárhæðir sem foreldrar kæranda hafi lagt til vegna búsetu þeirra í eigninni að B götu nr. 21 séu á reiki. Gera verði þá kröfu að kærandi veiti allar þær upplýsingar um fjárhag sinn sem henni einni sé unnt að veita til að hægt sé að leggja mat á fjárhagsstöðu hennar og til að hægt sé að vinna að raunhæfu frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir hennar hönd. Í bréfi til kæranda 16. apríl 2013 hafi sérstök áhersla verið lögð á mikilvægi þess að hún gerði grein fyrir framfærslutekjum sínum og hafi kærandi þá jafnframt verið upplýst um afleiðingar þess að hún brygðist ekki við. Þrátt fyrir það hafi svör kæranda reynst óljós.

Í 1. mgr. 6. gr. lge. séu tilgreindar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þar segi í b-lið að gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer embættið fram á að ákvörðunin verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á 15. gr. lge. með vísan til 1. mgr. 13. gr. lge. annars vegar og b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. hins vegar.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Með bréfi 7. desember 2012 lagði umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. og 2. mgr. 12. gr. sömu laga. Var tillaga umsjónarmannsins byggð á því að kærandi hefði stofnað til nýrra skulda í greiðsluaðlögun og hefði vanrækt skyldu sína til þess að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem var umfram það sem hún þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Var tillaga umsjónarmannsins því ekki byggð á því að kærandi hefði lagst gegn sölu eigna, sbr. 13. gr. lge., sem hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara hins vegar byggist á.

Við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara gerðu foreldrar kæranda tilboð í eignina að B götu nr. 21, sveitarfélaginu C, vegna kröfu embættisins um að eignin yrði seld. Var tilboðinu hafnað af ástæðum sem þegar hafa verið raktar. Af gögnum málsins er hins vegar ekki að sjá að lagt hafi verið til við kæranda að eignin yrði seld á almennum markaði í kjölfarið, eða að kæranda hafi á annan hátt verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þess hvort selja mætti eignina öðrum en foreldrum kæranda er þegar höfðu gert tilboð í hana. Telur kærunefndin því ekki unnt að byggja niðurfellingu greiðsluaðlögunar­umleitana kæranda á því að hún hafi komið í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge.

Hin kærða ákvörðun byggist í öðru lagi á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Telur umboðsmaður skuldara sér ekki fært að taka afstöðu til tillögu umsjónarmanns um niðurfellingu á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af tekjum kæranda til þess að meta megi möguleika hennar á að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að standa í skilum með lögveðskröfur og dagvistunargjöld, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda, þar á meðal staðfest skattframtöl. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru tekjur kæranda 176.437 krónur á mánuði að frádregnum skatti. Kærandi hefur haldið því fram að auk þessa hafi hún notið fjárstuðnings frá foreldrum sínum, er búa með henni í fasteign hennar að B götu nr. 21, að fjárhæð um 150.000 krónur á mánuði. Hefur kærandi hins vegar ekki lagt fram gögn eða sýnt fram á þessar tekjur með neinum hætti. Verður því að leggja til grundvallar að tekjur hennar séu rétt tilgreindar í framlögðum skattframtölum og öðrum gögnum málsins svo sem að framan greinir enda verða upplýsingar í opinberum gögnum að teljast réttar nema sýnt sé fram á annað með viðhlítandi hætti. Er því ekki fallist á það með umboðsmanni skuldara að fjárhagur kæranda sé svo óglöggur að ástæða sé til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda hafi verið felldar niður, án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A, er felld úr gildi.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum