Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

B

 

Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu karlmanns í starf framkvæmdastjóra.  Kærandi hafði meiri menntun en sá er ráðinn var og hafði til að bera talsverða reynslu af rekstri fyrirtækja. Ekki varð séð af fyrirliggjandi gögnum að kærandi og sá er ráðinn var hafi í raun verið borin saman með hliðsjón af reynslu af rekstri innan íþróttahreyfingarinnar og tengsla við aðila innan hreyfingarinnar. Taldi kærunefnd jafnréttismála að kærði hefði ekki fært fram málefnalegar ástæður fyrir ráðningunni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 24. september 2015 er tekið fyrir mál nr. 7/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 24. apríl 2015, kærði A ákvörðun B um að ráða karlmann í starf framkvæmdastjóra félagsins.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt B með bréfi, dagsettu 13. maí 2015. Greinargerð B barst með bréfi, dagsettu 30. maí 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. júní 2015. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, mótteknu 18. júní 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2015, óskaði kærunefndin eftir frekari gögnum frá kærða og bárust þau með bréfi, dags. 20. ágúst 2015. Með bréfi kærunefndar, dags. 26. ágúst 2015, voru gögnin send kæranda til kynningar. 

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust starf framkvæmdastjóra félagsins þann X 2015. Í auglýsingu kom fram að um væri að ræða 50% starfshlutfall og starfssviðið fæli meðal annars í sér daglegan rekstur félagsins, fjármála- og starfsmannastjórnun, undirbúning og framkvæmd ýmissa viðburða á vegum félagsins, samskipti við félagsmenn, foreldra og iðkendur og önnur tilfallandi verkefni. Í auglýsingunni voru jafnframt tilgreindar menntunar- og hæfniskröfur: Þekking og reynsla af rekstri, til dæmis íþróttafélaga, góðir skipulags- og stjórnunarhæfileikar, hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð og hæfileiki til þess að vinna með öðrum, drifkraftur og frumkvæði. Þá var háskólamenntun talin kostur.

  6. Tveir umsækjendur sóttu um starfið, karl og kona, og voru þau bæði boðuð í viðtal. Tekin var ákvörðun um að ráða karlinn í starfið og var kærandi upplýst um það með bréfi, dagsettu 6. apríl 2015. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni með bréfi, dagsettu 10. apríl 2015, og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 14. apríl 2015.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi greinir frá því að hún uppfylli öll þau skilyrði sem fram komi í auglýsingu um starfið. Sá sem hafi verið ráðinn uppfylli ekki eins vel skilyrðin og telur kærandi að hún hafi verið mun hæfari til að gegna starfinu. Kærandi bendir á að B sjái um íþróttir ungmenna í sveitarfélaginu ásamt því að sjá um meistaraflokkinn. Formaður félagsins spili nú með meistaraflokki og framkvæmdastjóri félagsins sé formaður meistaraflokksins. Kærandi hafi því áhyggjur af barnastarfinu innan félagsins og telur að þessi mikla tenging við meistaraflokkinn valdi hagsmunaárekstrum.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  8. Í greinargerð B kemur fram að samkvæmt rökstuðningi kæranda hafi hún kært sökum áhyggja af barnastarfi og vegna tenginga framkvæmdastjóra og formanns við önnur störf innan félagsins en ekki vegna kynjamismununar. Kærði bendir á að það sé eðlilegt að formaður og framkvæmdastjóri hafi yfirsýn yfir alla starfsemi félagsins. Kærði tekur fram að meirihluti stjórnar félagsins hafi ráðið karlmanninn til starfa, hann sé sjötti framkvæmdastjóri félagsins en jafnframt fyrsti karlmaðurinn til að gegna starfinu.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  9. Kærandi greinir frá því að hún hafi kært ráðninguna þar sem hún telji að hæfari einstaklingurinn hafi ekki fengið starfið. Hún óski því eftir að fá betri rökstuðning fyrir valinu út frá þeim kröfum sem gerðar hafi verið til umsækjenda í auglýsingunni. Kærandi óski eftir að umsækjendurnir verði metnir samhliða út frá þeim gögnum sem hafi legið til grundvallar í ráðningarferlinu. Hún viti fyrir víst að hún hafi umfangsmeiri menntun og reynslu hvað varðar flesta, ef ekki alla, hæfileika sem umsækjendur skyldu vera búnir.

  10. Kærandi tekur fram að það hafi verið hennar upplifun að hún hafi aldrei átt möguleika á því að fá starfið. Hún hafi ekki áhuga á að gegna starfinu núna en vilji fá úr því skorið hvort jafnréttislög hafi verið brotin með ráðningunni og að lært verði af þeim mistökum, ef svo sé. 

    NIÐURSTAÐA

  11. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  12. Í auglýsingu um starf framkvæmdastjóra kærða var starfssviði framkvæmdastjóra lýst þannig að það tæki til daglegs rekstrar félagsins, fjármála- og starfsmannastjórnunar, undirbúnings og framkvæmdar ýmissa viðburða á vegum félagsins, samskipta við félagsmenn, foreldra og iðkendur og annarra tilfallandi verkefna. Menntunar- og hæfniskröfur voru þessar: Þekking og reynsla af rekstri, t.d. íþróttafélags, háskólamenntun væri kostur, krafist var góðra skipulags- og stjórnunarhæfileika, hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæðra vinnubragða og hæfileika til að vinna með öðrum, drifkrafts og frumkvæðis.

  13. Kærandi hafði lokið prófi í lyfjatækni við fjölbrautaskóla, B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræði, diplomaprófi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun, diplomaprófi í mannauðsstjórnun og loks meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Sá er ráðinn var hafði stundað nám við fjölbrautaskóla, hafði lokið A og B þjálfarastigi frá Íþróttasambandi Íslands, 1., 2. og 3. þjálfarastigi frá Knattspyrnusambandi Íslands og unglingadómaraprófi frá Knattspyrnusambandi Íslands. Hann hafði einnig stundað tölvunám og sölu- og markaðsnám hjá tölvuskólum.  Þá hafði hann stundað undirbúningsnám fyrir háskólanám og tekið námskeið í skyndihjálp og endurlífgun með reglulegu millibili. Kærandi hafði þannig lokið háskólanámi á sviði stjórnunar en nám þess er ráðinn var lá einkum á sviði íþróttaþjálfunar. Nám kæranda var því umtalsvert meira en þess sem ráðinn var, auk þess sem það sýnist falla vel að þeirri skilgreiningu á starfinu sem í auglýsingu fólst.

  14. Kærandi hafði starfað sem verkefnastjóri á þróunarsviði hjá lyfjafyrirtæki, sem verkefnastjóri í þjónustudeild hjá flugfélagi og sem deildarstjóri lyfjavöruhúss hjá fyrirtæki í lyfjadreifingu en samanlagður starfsaldur hennar í þessum störfum var um 11–12 ár. Í síðastnefnda starfinu, er hún gegndi þegar hún sótti um starfið hjá kærða, hafði hún með höndum rekstur, stefnumótun og stjórnun, áætlanagerð, kostnaðargreiningu og eftirlit auk starfsmannamála. Sá er ráðinn var hafði starfað sem knattspyrnuþjálfari hjá kærða í um níu ár, gegnt ýmsum störfum hjá bílaleigu í um átta ár en í um fjögur ár áður en hann hlaut ráðningu í starf framkvæmdastjóra hjá kærða hafði hann starfað sem endurhæfingarráðgjafi og stuðningsfulltrúi hjá C. Hann hafði setið í aðalstjórn kærða, verið formaður knattspyrnudeildar kærða frá árinu X og samhliða verið framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar kærða í um fjögur ár. Starfsreynsla kæranda lá á sviði rekstrar en reynsla þess er ráðinn var lá ekki á því sviði. Hann hafði hins vegar langa reynslu af forystustörfum hjá kærða og því væntanlega vel kunnugur starfsemi kærða.

  15. Starf framkvæmdastjóra kærða felur meðal annars í sér daglegan rekstur félagsins, fjármála- og starfsmannastjórnun. Af því sem rakið er að framan er ljóst að kærandi hafði til að bera talsverða reynslu af rekstri fyrirtækja en óumdeilt er að kærandi hafi haft meiri menntun og reynslu á því sviði en sá er ráðinn var. Kærandi var því ótvírætt hæfari til starfsins hvað þennan þátt varðar.

  16. Kærandi hafði lokið diplomaprófi í verkefnastjórnun og starfað sem verkefnastjóri.  Þrátt fyrir að fyrir liggi að sá sem ráðinn var hafi um langt skeið starfað innan vébanda kærða liggur ekki fyrir að hann hafi til að bera reynslu umfram kæranda er geri hann hæfari til þess þáttar starfs framkvæmdastjóra er lýtur að framkvæmd viðburða á vegum félagsins. Sýnist nokkuð jafnt á með þeim komið í þeim efnum vegna náms og starfsreynslu kæranda og reynslu þess sem starfið hlaut af forystu í félagsstarfi kærða.

  17. Kærði hefur rökstutt ráðningu þess er ráðinn var með því að tekið hafi verið tillit til reynslu hans af rekstri innan íþróttahreyfingarinnar og tengsla hans við aðila innan hreyfingarinnar. Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að kærandi og sá er ráðinn var hafi í raun verið borin saman með hliðsjón af slíkum atriðum.

  18. Með vísan til ofanritaðs hafa verið leiddar líkur að því að kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu karlmannsins. Er það mat kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki fært fram málefnalegar ástæður fyrir ráðningunni. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að kærði hafi við ráðningu í starf  framkvæmdastjóra í apríl 2015 brotið gegn ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf framkvæmdastjóra í apríl 2015.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum