Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 306/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 306/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030053

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. mars 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt eiginkonu sinni og barni.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns og alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. febrúar 2016. Með ákvörðun dags. 22. apríl 2016 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Ítalíu á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Með úrskurði kærunefndar útlendingamála var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 15. desember 2016 og 25. janúar 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. mars 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. mars 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. apríl 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. júní 2017. Kærunefnd bárust viðbótarathugasemdir og frekari gögn frá kæranda 12. og 13. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé á flótta frá heimaríki sínu vegna pólitískra ofsókna. Einnig sé hann […] og eigi á hættu ofsóknir af hálfu […]. Jafnframt byggði kærandi á því að hann væri að flýja hjón sem hafi […] og haft uppi hótanir gagnvart henni. Kærandi telji lögreglu ekki geta veitt sér og fjölskyldu sinni vernd.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun í desember 2016 kemur fram að kærandi telji sig hafa sætt ofsóknum í heimalandi sínu á grundvelli stjórnmálaskoðana, nánar tiltekið vegna þátttöku sinnar í stjórnmálaflokknum […] sem nú heitir […]. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi verið einkabílstjóri formanns […] flokksins í […]. Árið [...] hafi kærandi verið að keyra formann flokksins á fund þegar ráðist hafi verið á þá með þeim afleiðingum að formaðurinn hafi látist. Í kjölfarið hafi kærandi verið eftirlýstur af lögreglunni vegna gruns um þátttöku í árásinni. Samkvæmt kæranda hafi pólitískir andstæðingar, nánar tiltekið […] í […], staðið að baki árásinni. Pólitískt ofbeldi eigi sér langa og mikla sögu í […], aldrei hafi þó ástandið orðið jafn slæmt og í kjölfar kosninga sem hafi farið fram árið [...]. Spilling sé viðvarandi vandamál og fyrirfinnist í öllum þáttum stjórnkerfis […]. Þá hafi kærandi verið hræddur um að vera hnepptur í fangelsi ef hann gæfi sig fram við lögreglu. Algengt sé að einstaklingar í haldi lögreglu sæti ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Í skýrslu sérstaks talsmanns Sameinuðu þjóðanna frá [...] kemur fram að dæmi séu um að einstaklingar séu í haldi án ákæru eða réttarhalda í allt að 10 ár. Það sé rík tilhneiging yfirvalda í […] að vernda gerendur pólitísks ofbeldis og þ.a.l. neita fórnarlömbum þeirra um réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum. Af þessum sökum hafi kærandi ekki treyst […] lögreglunni, hafi hann óttast um sitt eigið líf og ákveðið að flýja […]. Kærandi kveðst óttast pólitíska andstæðinga, […] og spillta lögreglu í […].

Með greinagerð fylgdi blaðagrein úr […] dagblaði, […]. Í greinargerð kemur fram að þar sé kærandi nafngreindur og eftirlýstur af […] lögreglunni. Kærandi gerir alvarlega athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að ekki verði byggt á því að kærandi sé sá maður sem blaðagreinin fjalli um. Hafi Útlendingastofnun gengið út frá því að kærandi hafi sannað á sér deili með framlagningu […] vegabréfs, þar sem kærandi beri sama nafn og einstaklingurinn sem blaðagreinin fjalli um. Þar að auki samræmist tímasetning þess atburðar er blaðagreinin fjallar um, ferðalagi og komu kæranda til Evrópu. Til frekari sönnunar hafi kærandi lagt fram annað fylgiskjal, þ.e. auglýsingu frá lögreglunni í […] þar sem fram komi að kærandi sé eftirlýstur vegna gruns um aðildar að morði formanns […] í […].

Kærandi telur jafnframt að líf og heilsa hans verði í mikilli hættu í […], sökum alvarlegra aðstæðna eiginkonu hans. Eiginkonu kæranda stafi ógn af tilgreindum hjónum sem hafi hótað henni lífláti og beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Árið 2008 hafi eiginkona kæranda verið […].

Árið 2014 hafi kærandi og eiginkona hans ákveðið að snúa aftur til […] í þeim tilgangi að hefja nýtt líf ásamt dóttur þeirra. Þau hafi þó ekki þorað út úr flugvallarbyggingunni í […] vegna stöðugra líflátshótana af hálfu hjónanna. Eftir tveggja vikna dvöl á flugvellinum hafi ekki verið neitt annað í stöðunni en að leggja land undir fót og ferðast […]. Það hafi verið kæranda og eiginkonu hans ljóst að þeirra biðu ekki góðar aðstæður á Ítalíu enda hafi þau dvalið þar við slæmar aðstæður í nokkur ár og hafi snúið aftur til heimaríkis eftir að hafa gefist upp á lífinu í Evrópu. Ákvörðun kæranda, að snúa aftur til Ítalíu, sýni hversu mikilli hættu þau séu í en kærandi kveður að hann og fjölskylda hans séu hvergi óhult í […]. Falli kærandi því undir skilgreiningu flóttamanns eins og hún kemur fram í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir mismunun og áreiti sem geti talist endurteknar athafnir sem feli í sér brot á grundvallarmannréttindum og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Kærandi teljist því vera flóttamaður í skilningi ákvæðanna og eigi rétt á alþjóðlegri vernd skv. 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð að með vísan til ótryggs ástands í […], viðvarandi spillingar í löggæslu- og dómskerfinu í landinu sé ljóst að stjórnvöld þar í landi hafi hvorki getu né vilja til að vernda kæranda. Hafi kærandi þurft að dvelja á flugvellinum í […] í tvær vikur þegar hann hafi snúið sjálfviljugur aftur til heimaríkis vegna ótta um líf sitt þar í landi. Af ofangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því geri kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd.

Með vísan til alls sem liggur fyrir í málinu áréttar kærandi að endursending hans og fjölskyldu hans til […] bryti gegn 42. gr. útlendingalaga.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Þar komi meðal annars fram að veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni og að heildarmat á öllum þáttum máls verði að fara fram.

Til þrautaþrautavara bendir kærandi á að eftir eins og hálfs árs dvöl á Íslandi hafi kærandi og fjölskylda hans myndað sterk tengsl við Ísland. Kærandi hafi starfað í u.þ.b. eitt ár hjá byggingarfyrirtæki og staðið sig með prýði að sögn vinnuveitenda. Einnig hafi dóttir kæranda í fyrsta skipti á ævinni fengið tækifæri til að ganga í skóla.

Að lokum bendir kærandi á að ávallt skuli hafa það sem barni sé fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess og vísar til útlendingalaga, barnalaga nr. 76/2003, og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna því til stuðnings. Í ljósi þeirra aðstæðna sem muni bíða kæranda og barns hans sé það í andstöðu við framangreindar reglur að þeim verði gert að snúa aftur til […] og það sé ljóst að það sé barni kæranda fyrir bestu að fjölskyldunni verði veitt vernd á Íslandi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

Efnahagur ríkisins byggist aðallega á útflutningi hráolíu. Þrátt fyrir að olían hafi fært […] mikil auðæfi þá búi meirihluti íbúa landsins við fátækt. Misskipting auðs sé mikil í […] og fjárhagur íbúanna virðist vera mismunandi eftir landshlutum og trúarbrögðum. Mikil óánægja tengd efnahag landsins ríki í landinu sem talin sé ein orsök átakanna sem þar geisi. Þá kemur fram að […] . Íbúar landsins hafi þurft að þola mannskæðar árásir af völdum […] en þau tengist […]. Þá hafi […] lögreglan, öryggissveitir og stjórnarher barist gegn […], en spilling í öllum hlutum stjórnkerfisins, pólitískur óstöðugleiki og mannréttindabrot hindri framgang þeirra. Framganga samtakanna hafi leitt til talsverðar eyðileggingar á svæðum sem eru undir áhrifum […]. Þar séu […] manna særðir eða látnir og hafi […] lagt á flótta frá þeim. Þá séu dæmi um að öryggisþjónusta landsins hafi gerst sek um tilhæfulaus manndráp, pyndingar og óréttmætar fangelsanir.

Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2016 er gert ráð fyrir að um helmingur íbúa landsins séu […] og hinn helmingurinn […]. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá […] og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í […] séu […] og í […] séu […] í meirihluta. Bæði […] og […] hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.

Í fyrrgreindum gögnum er ekkert sem bendir til þess að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana tíðkist í […]. Af gögnunum má eigi að síður ráða að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. […].

Í ofangreindum gögnum kemur fram að […].

Af fyrrgreindum gögnum má ráða að […] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og koma í veg fyrir mansal, t.d. hafi verið gerðar ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og sérstök löggjöf sett til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal. Þá hafi stjórnvöld þjálfað lögreglulið landsins, starfsmenn ríkisins og stofnanir til að rannsaka, sækja til saka og sakfella gerendur mansals. Árið […] hafi ný lög tekið gildi sem komu stofnuninni […] á laggirnar. Markmið stofnunarinnar sé að vekja athygli á málefninu, fræða þjóðina og með þeim hætti reyna koma í veg fyrir frekara mansal, vernda fórnarlömb mansals ásamt því að sækja gerendur til saka.

Þá kemur fram í framangreindum gögnum að […] hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið […] og stofnskrá Afríkusambandsins um velferð og réttindi barnsins (e. The African Charter on the Rights and Welfare of the Child) árið […]. Hafi þjóðþing […] samþykkt árið […] lög um réttindi barnsins (e. the Child Rights Act) og […]. Þar sem […] sé sambandslýðveldi sé ekki nóg að þjóðþingið samþykki löggjöfina heldur þurfi bæði fylkisþing og landstjóri hvers fylkis að samþykkja lagasetninguna til þess að hún taki gildi í hverju fylki. […]. Lögin kveði á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir er varða börn skuli byggðar á því sem sé barninu fyrir bestu. Í lögunum komi einnig fram að öll börn eigi rétt á að njóta menntunar. Þá hafi þjóðþing […] samþykkt, árið […], löggjöf sem kveði á um ókeypis […] . Hafi þessi nýjung verið leidd í lög með því markmiði að fjölga nemendum í grunnskóla og koma á fót ókeypis og skyldubundnu skólakerfi fyrir öll börn í […].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á því að hann verði fyrir ofsóknum vegna þátttöku sinnar í […] flokknum í […]. [...]. Haldi kærandi fram sakleysi sínu og telji að pólitískir andstæðingar hafi komið á hann sök. Jafnframt telji kærandi að líf hans sé í hættu í […] sökum alvarlegra aðstæðna eiginkonu hans.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast ofsóknir af hálfu pólitískra andstæðinga […] og hjóna sem hafi […] verði honum gert að snúa aftur til […]. Hefur kærandi greint frá þeim hótunum sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir þar í landi. Kærandi kveður lögreglu í heimaríki hans ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd þar sem mikil spilling ríki í […]. Kærandi lagði fram gögn til stuðnings frásögn sinni af þeirri atburðarás sem hann hefur lýst. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar höfðu forsetakosningarnar árið […] í för með sér að […]. Hafi stjórnmálaflokkurinn […] tekið við af flokki […] sem hafi verið við völd frá árinu […]. Þá sé ekkert í gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað sem bendir til þess að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana tíðkist nú í […]. […].

Kærunefnd telur að í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimalandi hans gæti misræmis. Framburður kæranda hefur verið óstöðugur um ástæður flótta hans frá heimaríki og þá er tímalína atburða að nokkru leyti á reiki. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á tveimur viðtölum við kæranda hjá kærunefnd, afritum af fjórum viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Nokkurt ósamræmi er á milli lýsingar kæranda á tilteknum en mikilvægum atriðum í upphaflegu viðtali við Útlendingastofnun og því sem hann hefur haldið fram síðar. Kærandi sagði í viðtali hjá Útlendingastofnun í febrúar 2016 að árið 2014 hafi hann ásamt eiginkonu sinni og barni dvalist í […] í sex mánuði þar til þau hafi snúið aftur til Ítalíu. Í viðtali við Útlendingastofnun í desember á sama ári og í viðtali hjá kærunefnd sagði hann að þau hafi dvalist í […] í tvær vikur árið 2014 og allan tímann á flugvellinum í […]. Í viðtali við kærunefnd í júní 2017 sagði kærandi að hann hafi farið þaðan landleiðina til Ítalíu. Hafi það tekið kæranda og fjölskyldu hans um […]. Í viðtali hjá kærunefnd í ágúst 2016 kvaðst kærandi hafa flogið frá […] til […]. Þá ber framburðum kæranda og eiginkonu hans ekki saman um hvenær þeim var tilkynnt um andlát tengdamóður kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun í desember 2016 og hjá kærunefnd í júní 2017 segir kærandi að hann hafi komist að því að tengdamóðir hans væri látin þegar þau voru á flugvellinum í […]. Í sama viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa frétt af andláti tengdamóður sinnar eftir að þau komu til baka frá […]. Einnig, í sama viðtali, kvaðst kærandi hafa vitað af andláti tengdamóður sinnar áður en þau fóru til […] árið 2014. Frásögn kæranda er í ósamræmi við frásögn eiginkonu hans af andláti móður hennar og hvenær hún frétti af því.

Í fylgigögnum við greinagerð kæranda voru ljósrit af lögregluskýrslu frá lögreglunni í […] fylki í […] og auglýsing þar sem […] sé eftirlýstur. Í viðtali hjá kærunefnd í júní 2017 kvaðst kærandi eiga frumritin af þessum gögnum og óskaði nefndin eftir því að fá frumritin afhent. Kærunefnd veitti kæranda frest til 13. júní 2017 til að afla þessara gagna. Engin frumrit bárust en ljósrit af gögnunum bárust fyrir tilskilinn frest.

Nokkurt innra misræmi er í lögregluskýrslunni. Á vinstri jaðri hennar kemur fram að hún sé dagsett 22. apríl 2007 og í meginmáli er einnig vísað í þá dagsetningu. Ofar í skýrslunni er hún hins vegar dagsett 23. júlí 2007. Ekki fékkst fullnægjandi útskýring á þessu misræmi í skjalinu í viðtali kærunefndar við kæranda. Þá er orðalag skýrslunnar sambærilegt við frétt úr […], dagblaði sem gefið er út í […], sem birtist deginum áður.

Kærandi kveður fæðingardag sinn í vegabréfi ekki vera réttan. Í vegabréfi hans kemur fram að hann sé fæddur í […]. Kærandi heldur því fram að hann sé fæddur árið […]. Sé fyrri dagsetningin rétt hefur kærandi verið aðeins 15 ára gamall þegar hann var ökumaður stjórnmálaleiðtogans sem var myrtur árið […]. Þá passar aldur hans, hvort sem er aldur í vegabréfi eða sá aldur sem hann segir vera sinn, ekki heldur við þá auglýsingu um eftirlýstan mann með sama nafn og kærandi sem hann segist hafa fundið við landamærastöð í […] árið 2014. Þar kemur fram að sá sem er eftirlýstur vegnar morðsins hafi þá verið 32 ára gamall. Kærandi kveður sig samt sem áður vera manninn í þessari tilkynningu. Aðspurður um hvers vegna rangur fæðingardagur sé á vegabréfi svaraði kærandi að […] yfirvöld hafi byggt aldurinn á dagsetningu sem komi fram í gögnum sem ítölsk yfirvöld hafi útbúið í tengslum við komu kæranda til Ítalíu. Kærunefnd telur þessa skýringu ótrúverðuga. Af þessu leiðir að lögregluskýrslan og tilkynning um að kærandi sé eftirlýstur telst vera ótrúverðug gögn og verður ekki byggt á þeim í þessu máli.

Í viðtali hjá kærunefnd í júní 2017 kvað kærandi föður sinn hafa verið lögreglumann en bætti svo við að hann hefði einnig verið […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun í febrúar 2016 var kærandi spurður um ástæður flótta frá heimaríki. Hann sagði þá að faðir sinn hefði verið […]. Seinna hafi faðir hans verið myrtur og þá hafi hann og móðir hans flúið heimaríki þeirra. Kærandi kveðst nú hafa flúið heimaland sitt þar sem hann óttaðist hefndaraðgerðir og handtöku þar sem hann er grunaður um aðild að morði stjórnmálaleiðtogans sem hann kveðst hafa unnið fyrir. Spurður um þetta misræmi kannaðist kærandi við að hafa sagt frá morði föður síns. Það hafi hins vegar ekki verið ástæða flóttans frá […] heldur hafi hann flúið innanlands eftir þann atburð. Kærandi kveðst hafa verið óundirbúinn í viðtali hjá Útlendingastofnun og ákveðið að gefa stofnuninni þessa sögu þá en segja sannleikann í stærra viðtali síðar.

[…].

Verði kærandi eða eiginkona hans fyrir áreiti í heimaríki sínu sýni gögn að þau eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í landinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í […] geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeirri hættu sem hann telji sig vera í m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir.

Kærunefnd telur að óútskýrt misræmi í frásögn kæranda, almennur óstöðugleiki frásagnar hans og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé að mestu ótrúverðug og verði því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Með vísan til þess sem að framan hefur komið fram telur kærunefnd að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd jafnframt að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES-eða EFTA-ríki skal hann fluttur þangað. Þar sem fyrir liggur að kærandi hefur haft heimild til dvalar á Ítalíu telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærandi og barn hennar verði flutt til Ítalíu.

Við mat á aðstæðum á Ítalíu hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Ítalíu og skoðaðar hafa verið vegna fyrri úrskurða kærunefndar í tengslum við endursendinga einstaklinga til Ítalíu. Þá hefur kærunefnd litið til dóms Hæstaréttar frá 1. október 2015 í máli nr. 114/2015 þar sem fjallað var um málsmeðferð og skilyrði til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu og til fordæma Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur ítrekað í dómum sínum og ákvörðunum, sbr. t.d. í dómi í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) frá 30. júní 2015 og í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, að ekki sé hægt að túlka 3. gr. mannréttindasáttmálans á þá vegu að krafa sé á aðildarríkjunum að sjá öllum einstaklingum innan lögsögu þeirra fyrir heimili.

[…]. Þegar aðstæður kæranda séu metnar í heild er það mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki ástæðu til að líta svo á að aðstæður kæranda séu slíkar að hann teljist vera í svo sérstaklega viðkvæmri stöðu að það standi í vegi endursendingar hans til Ítalíu.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um endurnýjun á dvalarleyfi á Ítalíu hefur heldur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Ítalíu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í skýringum með 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendingalaga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og er sem dæmi nefnt aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða sem aðhyllast ekki kynhlutverk sem eru hefðbundin í heimaríki þeirra og af þessum sökum eigi þær hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Kærandi heldur því fram að hann verði fyrir ofsóknum vegna þátttöku hans í […] flokknum í […]. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað þá er arftaki […], […] flokkurinn, nú við völd í […]. Einnig kveðst kærandi óttast að verða fyrir ofsóknum vegna […]. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur litið til við meðferð málsins bendir ekkert til þess að eiginmenn fyrrum […] verði fyrir áreiti. Auk þess verður að líta til þess að liðinn er hartnær áratugur síðan […]. Þau séu nú kvænt og eigi barn saman. Það er mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga fjallar um.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Eins og fjallað hefur verið um hefur kærunefnd jafnframt farið yfir gögn varðandi aðstæður á Ítalíu. Komi til þess að kæranda yrði vísað til Ítalíu er það mat kærunefndar að hann hafi ekki sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd vegna aðstæðna sem kunna að bíða hans á Ítalíu, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og kærði kærandi þann þátt ákvörðunarinnar til kærunefndar útlendingamála.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 4. mgr. 78. gr. laganna að til sérstakra tengsla við landið skv. 2. mgr. geti ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis sem gefið er út til umsækjenda um alþjóðlega vernd, sbr. 77. gr. laganna. Af gögnum málsins liggur fyrir að kærandi hefur dvalið hér á landi í fimmtán mánuði vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur að dvöl vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, hvort sem umsækjandi hefur fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga eða ekki, geti ekki talist til lögmætrar dvalar í skilningi 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki hafa tengsl við Ísland. Þrátt fyrir að kærandi hafi stundað atvinnu hér á landi í um eitt ár og myndað ákveðin tengsl við landið á þeim grundvelli er það mat kærunefndar, í ljósi þess að kærandi hefur aldrei dvalið hér á landi í lögmætri dvöl, að kærandi hafi ekki myndað sérstök tengsl við landið í skilningi 78. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er því staðfest.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum