Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Nr. 4/2018 Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja felld úr gildi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

 

ÚRSKURÐ

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru dags. 11. janúar 2018 kærði [X ehf.], hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja dags. 7. desember 2017, um að synja umsókn kæranda um heimild til að nýta hráefni frá Saltverksmiðjunni á Reykjanesi til framleiðslu á heilsusalti.

 

Kröfugerð og kæruheimild

Í stjórnsýslukæru er ekki gerð skýr krafa en af efni kæru verður að ráða að þess sé krafist að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, frá 21. nóvember, sem staðfest var þann 7. desember, verði felld úr gildi og kæranda heimilað að nýta saltbirgðir sem framleiddar voru af fyrirtæki sem hætti störfum árið 2002, sem hráefni til framleiðslu heilsusalts. 

Um kæruheimild fer samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran lýtur að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 7. desemer 2017. Þann 11. janúar 2018 barst stjórnsýslukæra kæranda. Samkvæmt framangreindu barst kæra fyrir lok kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Málið hófst með umsókn kæranda dags. 26. september 2017, til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um starfsleyfi til heilsusaltsframleiðslu, þar sem meðal annars var sótt um heimild til að nýta birgðir sjávarsalts úr fyrrum saltverksmiðju á Reykjanesi. Þeirri saltverksmiðju var lokað árið 2002 en saltbirgðum var pakkað í tvöfalda poka, þannig að þeir þyldu langa geymslu. Var saltið geymt í húsnæði saltverksmiðjunnar til ársins 2011, þegar rífa átti húsnæðið. Þá var saltið tekið til geymslu á Ásbrú af núverandi eigendum kæranda og hefur verið í þeirra vörslu frá þeim tima.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja synjaði kæranda, með bréfi dags. 21. nóvember 2017, um leyfi til að nota umrætt hráefni til saltframleiðslu á þeim grundvelli að það uppfyllti ekki kröfur um rekjanleika hráefna í matvælum.

Með bréfi dags. 27. nóvember 2017 óskaði kærandi þess að Heilbrigðiseftirlitið endurskoðaði ákvörðun sína og gerði nánar grein fyrir aðstæðum við framleiðslu og geymslu saltsins.

Heilbrigðiseftirlit staðfesti ákvörðun sína með bréfi dags. 7. desember 2017, og leiðbeindi kæranda um að kæra mætti úrskurðinn til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra dags. 11. janúar 2018 vegna ofangreindrar ákvörðunar. Þann 29. janúar 2018 sendi ráðuneytið Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja stjórnsýslukæruna til umsagnar og veittur var frestur til 19. febrúar 2018 til að skila umsögn.

Þann 13. febrúar 2018 barst ráðuneytinu umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, ásamt fylgigögnum, og var hún framsend kæranda með tölvupósti þann sama dag og honum boðið að skila inn athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu þann 12. mars 2018.

Með bréfi dags. 9. maí 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins þar sem tilteknir starfsmenn stofnunarinnar búa yfir sérfræðiþekkingu sem viðkemur málinu. Ráðuneytinu barst umsögn stofnunarinnar með bréfi dags. 22. maí 2018. Í kjölfarið var umsögnin send kæranda og honum boðið að skila inn athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 28. maí 2018.

Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Í stjórnsýslukæru er ekki gerð skýr krafa en af efni kæru verður að ráða að þess sé krafist að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, frá 21. nóvember 2017, sem Heilbrigðiseftirlitið staðfesti þann 7. desember 2017, verði felld úr gildi og kæranda heimilað að nýta umrætt salt sem hráefni til framleiðslu heilsusalts. 

Í stjórnsýslukæru dags. 11. janúar 2018 kvaðst kærandi hafa hug á að hefja framleiðslu heilsusalts með nýrri aðferð og nota framangreindar birgðir sem hráefni. Þar sem saltið uppfylli ekki viðmið fyrirtækisins um hlutfall efna og kornastærð, verði saltið leyst upp og efnasamsetning saltpækilsins stillt af áður en efnið fer í framleiðslu.

Bent er á að kærandi leigi húsnæði sem hafi fengið samþykki til matvælaframleiðslu og að hann hafi sótt um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Telur kærandi að hægt sé að sannreyna uppruna hráefnisins sbr. meðfylgjandi umsögn aðila, dags. 9. janúar 2018, sem starfaði við saltverksmiðjuna sem framleiddi umrætt salt og átti þátt í framleiðslu þess. Jafnframt sé unnt að sýna fram á með samanburði á efnagreiningum á heilsusalti sem framleitt var í tilraunaverksmiðju, að samsetning þess sé sambærileg efnasamsetningu hafsjávar.

Kveðst kærandi byggja framleiðslu sína á grunni fyrri framleiðslu á heilsusalti á Reykjanesi. Þegar það félag hætti störfum hafi talsverðar birgðir verið til af hreinu sjávarsalti og heilsusalti, en stofnendur kæranda hafi tekið að sér að geyma saltið. Við stofnun kæranda árið 2012 hafi saltið verið flutt í framleiðsluhúsnæði fyrirtækisins þar sem það hafi verið nýtt í framleiðslutilraunir.

Kærandi vísar til þess að rekstur hans sé að mestu leyti fjármagnaður með styrkjum frá […], ásamt hlutafé frá […]. Miklu máli skipti að geta hafið framleiðslu og sölu á heilsusalti sem fyrst, til að fjármagna áframhaldandi rekstur og uppbyggingu. Nýting eldri birgða af salti spari fyrirtækinu fjárfestingu í eimingarverksmiðju fyrir hafsjó, sem hlaupi á tugum milljóna og kæranda sé ómögulegt að fjármagna við núverandi aðstæður. Með nýtingu saltsins megi tryggja fyrirtækinu rekstrargrundvöll í nokkur ár og um leið gera það álitlegri kost fyrir fjárfesta.

Í greinargerð kæranda dags. 9. október 2017, kemur fram að umræddar saltbirgðir hafi verið geymdar í húsi saltverksmiðjunnar til ársins 2009, þegar allar byggingar verksmiðjunar hafi verið rifnar. Aðstandendur kæranda hafi samið við þáverandi eigendur verksmiðjunnar um að taka við hráefninu, og flutt það til geymslu í húsnæði að Klettatröð á Ásbrú. Þaðan hafi saltið verið flutt í geymsluhúsnæði að Ásbrú, en árið 2014 hafi saltið loks verið flutt í húsnæði kæranda að [A]. Þá segir kærandi enn fremur að hann hafi sannreynt með efnagreiningum frá vottuðum aðilum, að saltið uppfylli öll skilyrði um matvælasalt. 

Í yfirlýsingu fyrrum verkstjóra [V ehf], dags. 9. janúar 2018, segir að fyrirtækið hafi framleitt heilsusalt til útflutnings og fyrir innanlandsmarkað. Borholusjór hafi verið eimaður að mettun og blandaður með innfluttu kalíum klóríði (food grade). Blandan hafi síðan verið þurrkuð á tromluþurrkurum í flögur sem voru pressaðar, malaðar og sigtaðar í rétta kornastærð. Jafnframt hafi verið framleitt hreint sjávarsalt án íblöndunar kalíum klóríðs og það meðhöndlað á sama hátt og heilsusaltið.

Þegar fyrirtækinu hafi verið lokað árið 2002 hafi saltbirgðir, sem þá voru til staðar, verið settar í geymslu í „pönnuhúsi“. Saltið hafi staðið þar til ársins 2011 þegar það var tæmt vegna fyrirhugaðs niðurrifs og tekið til geymslu á Ásbrú af núverandi eigendum kæranda. Frágangur á saltinu hafi verið þannig að það þyldi langa geymslu, þar sem geymsluþol salts er ótakmarkað. Því hafi verið pakkað í tvöfalda poka, innri poka úr polýtýlen plasti og ytri burðarpoka úr trefjaplasti.

Kemur fram að saltið hafi verið framleitt við viðurkenndar aðstæður og framleiðslan hafi verið með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Þá væri það mat hans að saltið væri hæft til endurnýtingar og í framleiðslu á heilsusalti. Auk þess hafi engin utanaðkomandi mengun hafi borist í saltið og engin breyting verði á efnasamsetningu þess við geymslu.

[Y ehf.] skilaði athugasemdum f.h. kæranda í bréfi dags. 12. mars 2018, þar sem bent var á að ekki standi til að nota saltið óbreytt sem efnisþátt í matvöru, heldur leysa það upp í pækil ásamt kalíum klóríði og vinna úr því matvöru, eða heilsusalt. Saltið muni innihalda 60% minna magn natríum klóríðs en hefðbundið matarsalt.

Bent er á að 4. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli skilgreini matvæli sem „hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti.“ Þá segi meðal annars í athugasemdum frumvarps þess er varð að matvælalögum að „í stað þess að aðgreina matvæli og tilteknar neysluvörur eins og gert er í gildandi lögum eru matvæli skilgreind í 4. gr. þannig að allar neysluvörur, sem lögin nái til, teljast matvæli.“ Benti kærandi á að hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja lúti ekki að notkun umrædds salts sem neysluvöru, heldur verði það nýtt sem hráefni.

Kveður kærandi 13. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli ekki taka til geymslu saltsins sem hráefnis. Fráleitt væri að ákvæðið tæki til seltu sjávar sem almennt sé notuð sem hráefni í framleiðslu salts til manneldis. Ákvæði 4. gr. skilgreini hráefni sem „öll efni, önnur en bætiefni, aukefni, bragðefni og varnarefni, sem notuð eru við framleiðslu matvæla.“ Lögin geri því greinarmun á matvælum og hráefnum.

Kærandi mótmælir því áliti Heilbrigðiseftirlitsins að annmarki sé á geymslu saltsins og jafnframt því að ákvæði 13. gr. matvælalaga nái til geymslu umrædds salts sem hráefnis. Hann ítrekaði að saltið sem um ræðir var geymt í húsnæðinu sem var framleitt í til ársins 2011 og að forráðamenn kæranda höfðu aðstöðu á fyrrum athafnasvæði verksmiðjunnar og geti staðfest að engir óviðkomandi höfðu aðgang að geymsluhúsnæðinu. Húsnæðið hafi verið á yfirráðasvæði [R], sem var vaktað. Forráðamenn kæranda hafi tekið við saltinu árið 2011 og geymt það undir eftirliti á Ásbrú til ársins 2012, þegar það var flutt í trygga geymslu í framleiðsluhúsnæði kæranda, undir eftirliti. Allan tímann hafi saltið verið í tvöföldum umbúðum og því skorti ekkert á trausta geymslu þess.

Kærandi bendir á að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, sem var innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 102/2010, tók gildi 1. mars 2010. Samhliða setningu reglugerðarinnar hafi verið gerð breyting á matvælalögum með lögum nr. 143/2009, og 13. gr. a bætt við matvælalög, en ákvæðið sé efnislega samhljóða 2. tölul. 18. gr. reglugerð (EB) nr. 178/2002. Breytingin tók jafnframt gildi 1. mars 2010. Það sem fram komi í athugasemdum við frumvarp að lögum nr. 143/2009, leggi ekki víðtækari skyldur á stjórnendur matvælafyrirtækja en að halda utan um upplýsingar um þá sem útvegi þeim hráefni og láta eftirlitsaðilum upplýsingarnar í té, sér þess óskað. Kærandi bendir á að hann hafi upplýst Heilbrigðiseftirlitið um hvaðan félagið fékk hráefni það sem um ræðir í málinu og þær upplýsingar séu studdar gögnum, sbr. yfirlýsing verksmiðjustjóra framleiðanda saltsins frá 9. janúar 2018.

Bendir kærandi jafnframt á að þar sem framangreind ákvæði hafi fyrst tekið gildi 1. mars 2010, geti þau ekki náð til geymslu umrædds hráefnis fyrir þann tíma.

Kærandi kveðst tilbúinn til að leggja fram gögn sem sýni fram á að umrætt salt sé upprunnið úr hafsjó og jarðsjó, auk þess að gera nauðsynlegar mælingar til að tryggja að engin aðskotaefni hafi borist í saltið á geymslutímanum. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki farið fram á gögn varðandi uppruna og hreinleika saltsins. Bendir kærandi á að telji ráðuneytið þörf á slíkum gögnum, megi telja ljóst að Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telji ráðuneytið þörf á framangreindum gögnum, muni það því þegar af þeirri ástæðu ógilda hina kærðu ákvörðun.

Í umsögn sinni dags. 28. maí 2018 ítrekar kærandi m.a. að ekki sé fyrirhugað að nota umrætt hráefni í óbreyttri mynd sem efnisþátt í matvæli, heldur séu áform um að leysa saltið upp í pækil og vinna úr því salt til manneldis sem muni innihalda um 60% minna af natríum klóríð en hefðbundið matarsalt.

Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja synjaði kæranda með bréfi dags. 21. nóvember 2017, um leyfi til að nota umrætt salt til matvælaframleiðslu á þeim grundvelli að saltið uppfylli ekki skilyrði um rekjanleika í reglugerð nr. 102/2010, en veitti kæranda frest til 1. desember 2017 til að leggja fram sjónarmið sín í málinu.

Benti Heilbrigðiseftirlitið kæranda á 2. tölul. 18. gr. fylgiskjals reglugerðar nr. 102/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, þar sem segi að stjórnendur matvæla- og fóðurfyrirtækja skuli geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafi afhent þeim matvæli, fóður, dýr sem gefi af sér afurðir til manneldis, eða hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli eða fóður. […] í þessu skyni skulu umræddir stjórnendur hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera þessar upplýsingar aðgengilegar lögbærum yfirvöldum.

Heilbrigðiseftirlitið benti á að markmið löggjafarinnar væri að koma á víðtæku rekjanleikakerfi enda sýni reynslan að það geti stofnað starfsemi innri markaðarins með matvæli og fóður í hættu ef ekki er hægt að rekja feril matvæla og fóðurs.

Kvað Heilbrigðiseftirlitið ljóst að framleiðandi hráefnisins hafi ekki starfað undanfarin 14 ár og ekki hafi verið sýnt fram á að það grunnefni sem kærandi hyggist nota í sinni framleiðslu, hafi verið í höndum matvælafyrirtækja þennan tíma.

Heilbrigðiseftirlitið synjaði kæranda endanlega um heimild til að nota umrætt salt til matvælaframleiðslu, með bréfi dags. 7. desember 2017 og leiðbeindi um kæruheimild til ráðuneytisins. Vísaði Heilbrigðiseftirlitið til þess að ekki yrði séð að saltið hefði verið geymt í aðstöðu með gilt starfsleyfi frá árinu 2002 og því væru skilyrði 2. tölul. 18. gr. fylgiskjals I. reglugerðar nr. 102/2010 [reglugerð (EB) nr. 178/2002], ekki uppfyllt.

Í umsögn sinni frá 13. febrúar 2018 benti Heilbrigðiseftirlitið á að kærandi hafi ekki getað staðfest uppruna saltsins með gögnum þegar ákvörðunin var tekin. Benti Heilbrigðiseftirlitið á að starfsleyfi framleiðandans hafi runnið út þann 1. mars 2003 og saltið hafi ekki verið í umsjá eða á ábyrgð matvælafyrirtækis frá þeim tíma. Því sé ekki unnt að fullyrða að hráefnið hafi verið geymt og flutt við aðstæður sem uppfylla kröfur matvælalaga og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

Heilbrigðiseftirlitið kvaðst telja að hráefnið uppfylli ekki ákvæði 13. gr. matvælalaga og 2. tölul. 18. gr. fylgiskjals reglugerðar nr. 102/2010. Benti það á að það hafi verið grundvallaratriði við uppbyggingu matvælalöggjafar í Evrópu að allir aðilar sem komi að framleiðsluferli matvæla séu þekktir, beri ábyrgð á öryggi og heilnæmi matvæla á meðan þeir hafi þau undir höndum og lúti eftirliti þar til bærs stjórnvalds.

Umrætt hráefni hafi ekki verið í höndum slíks aðila frá 1. mars 2003, því sé engin leið til að staðfesta að nauðsynlegum ráðstöfunum hafi verið beitt til að tryggja öryggi og heilnæmi þess og þar af leiðandi ekki séð að hægt sé að heimila notkun þess til manneldis.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Málið lýtur að umsókn kæranda um leyfi til að framleiða heilsusalt til manneldis. Ágreiningurinn stendur um hráefnið sem kærandi vill nota í framleiðsluna, en hráefnið er salt sem framleitt var af öðru fyrirtæki sem hætti störfum árið 2002 og hefur saltið verið í geymslu frá þeim tíma en hefur ekki verið í höndum matvælafyrirtækis með starfsleyfi frá árinu 2003.

Um framleiðslu matvæla, þar með talins salts, gilda ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur laganna samkvæmt 1. gr. er meðal annars að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla. Í ákvæði 8. gr. a. laganna segir meðal annars að óheimilt sé að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Við ákvörðun á því hvort matvæli teljist óhæf til neyslu skal hafa hliðsjón af því hvort matvælin teljist óviðunandi með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar. Ákvæði 13. gr. laganna kveður á um að geyma skuli matvæli þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Ákvæði 13. gr. a. kveður á um að unnt eigi að vera að rekja feril m.a. matvæla og efna sem kunna að verða notuð í matvæli, á öllum stigum framleiðslu og dreifingar þeirra.

Í ákvæði 12. liðar formála reglugerðar (EB) nr. 178/2002, að til að tryggja öryggi matvæla þurfi að skoða allt framleiðsluferli matvæla sem samhangandi heild, því sérhver hlekkur geti haft áhrif á öryggi matvæla. 18. gr. reglugerðarinnar fjallar um rekjanleika. Í 1. tölul. greinarinnar segir að mögulegt skuli vera að rekja feril m.a. matvæla í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar. Í 2. tölul. er kveðið á um að stjórnendur matvælafyrirtækja skuli geta tilgreint alla þá sem hafi afhent þeim m.a. matvæli eða hvers kyns efni sem nota eigi eða vænst verði að notað verði í matvæli eða fóður.

Líkt og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja benti á, fela ofangreind ákvæði í sér kröfu um að hægt sé að rekja feril matvæla í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar. Því eiga þau jafnframt við um hráefni sem notað er í framleiðslu matvæla. Tilgangur ákvæða um rekjanleika er að tryggja öryggi matvæla og er krafan sú að aðilar með starfsleyfi, þ.e. matvælafyrirtæki, búi yfir kerfi sem tryggi þann rekjanleika.

Umrætt hráefni var framleitt af fyrirtæki sem hafði gilt starfsleyfi og í samþykktri starfsstöð. Fyrirtækið hætti störfum árið 2002 en starfsleyfi þess gilti til 1. mars 2003. Hráefnið hefur verið í geymslu frá árinu 2002 en ekki í höndum matvælafyrirtækis með gilt starfsleyfi frá árinu 2003.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn sérfræðinga Matvælastofnunar vegna málsins. Er það mat stofnunarinnar að þetta tiltekna mál sé nokkuð sérstaks eðlis þar sem það snúi að rekjanleika matvæla sem hafi verið í geymslu í 16-17 ár. Óumdeilt sé þó að geymsluþol salts sé nær endalaust. Saltið hafi verið framleitt á árunum 2001 og 2002 en það hafi ekki verið fyrr en þann 1. mars 2010 sem breyting á matvælalögum tók gildi þar sem rekjanleikakrafa matvæla var innleidd í íslenskan rétt. Ljóst sé að kærandi geti tilgreint alla þá sem komið hafi að geymslu efnisins en þó hafi saltið verið að mestum hluta tímans í vörslu aðila sem höfðu ekki gilt starfsleyfi. Synjun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja byggi á framangreindu. Í þessu máli komi hins vegar fram að saltið hafi verið geymt innandyra í verksmiðjuhúsnæði Saltverksmiðjunnar á Reykjanesi á árunum 2002-2010. Núverandi eigendur hafi tekið við saltinu árið 2010 og flutt það í annað húsnæði þar sem það hafi verið geymt innandyra.

Þá næst vísar Matvælastofnun til þess að samkvæmt upplýsingum kæranda standi til að endurvinna saltið með því að leysa það upp og sía það í kjölfarið til að fjarlægja gifs, kísil og önnur föst efni sem verði til í framleiðsluferli þess úr sjó og jarðsjó. Sé litið til áhættu með tilliti til matvælaöryggis, miðað þær forsendur sem kærandi lýsi og miðað við að sú hreinsunaraðferð sem notuð verði sé nægilega góð, virðist hún vera lítil. Því sé ljóst að hér sé um takmarkatilvik að ræða þar sem málið sé nokkuð sérstaks eðlis og ólíklegt að raunveruleg áhætta fylgi því að leyfa notkun saltsins eins og kærandi hyggist nýta það.

Meðalhófsreglan er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu segir að stjórnvald skuli eingöngu taka íþyngjandi ákvörðun þegar markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Líkt og áður greinir gerir ákvæði 8. gr. a. ráð fyrir að við ákvörðun um hvort matvæli teljist heilsuspillandi eða óhæf, skuli m.a. meta hvort þau teljist óviðunandi til neyslu með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar. Í þessu tilviki er um að ræða salt sem var framleitt til manneldis af fyrirtæki með gilt starfsleyfi. Álitamál er hins vegar hvort geymsla þess girði fyrir að kæranda sé heimilt að nota það sem hráefni í framleiðslu heilsusalts.

Kærandi lagði fram yfirlýsingu verksmiðjustjóra framleiðanda dags. 9. janúar 2018, þar sem hann staðfestir uppruna saltsins og lýsir því yfir að það hafi verið geymt í framleiðsluhúsnæðinu til ársins 2011, en þá hafi núverandi eigendur kæranda tekið það til geymslu á Ásbrú. Benti hann á að hann teldi saltið hæft til endurnýtingar, að engin utanaðkomandi mengun hafi borist í saltið og að engin breyting verði á efnasamsetningu þess við geymslu. 

Ráðuneytið telur, með hliðsjón af öllum gögnum málsins, að taka verði tillit til ofangreindrar yfirlýsingar. Hráefnið sem um ræðir var framleitt við samþykktar aðstæður, því var pakkað í tvöfaldar umbúðir og fékk kærandi hráefnið afhent beint frá framleiðanda og hefur haft það í vörslum sínum frá því. Þá hefur salt langan geymslutíma sé það geymt á viðunandi hátt. Loks hyggst kærandi vinna hráefnið enn frekar áður en það telst hæft til manneldis. 

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga telur ráðuneytið rétt að heimila kæranda að nota umræddar saltbirgðir til framleiðslu heilsusalts, með því skilyrði að kærandi sýni fram á, með viðurkenndum mælingum, að hráefnið sé ómengað.

Rannsóknarreglan er lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga og kveður á um að stjórnvald skuli gæta þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun. Yfirlýsing verksmiðjustjóra framleiðanda hráefnisins lá ekki fyrir þegar Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tók ákvörðun þann 7. desember 2017 og því lágu engin gögn til grundvallar sem studdu lýsingu kæranda. Því telur ráðuneytið ekki að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi brugðist rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja synjun um leyfi til framleiðslu heilsusalts úr umræddum saltbirgðum, verði felld úr gildi og kæranda heimilað að nota saltbirgðirnar, með því skilyrði að kærandi sýni fram á, með efnaprófunum, að saltið sé ómengað og hæft til manneldis.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að synja [X ehf.] um leyfi til að nota ofangreint salt til matvælaframleiðslu, er felld úr gildi og kæranda heimilað að nota umræddar saltbirgðir sem hráefni til framleiðslu heilsusalts, með því skilyrði að sýnt sé fram á með viðurkenndum mælingum, að hráefnið sé ómengað og hæft til manneldis.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum