Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2014

Mál nr. 11/2014

Föstudaginn 5. febrúar 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 11. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur árið 1975. Hann er ógiftur og býr einn í 58,9 fermetra eigin íbúð að B í Reykjavík. Kærandi á barn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi er […..]. Hann rak eigið fyrirtæki en félagið hefur nú hætt rekstri. Kærandi hefur verið atvinnulaus og fær greiddar atvinnuleysisbætur. Hann hefur að auki fengið greiddar vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á tíma greiðsluaðlögunarumleitana.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 22.061.099 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árinu 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnumissis árið 2008, en eftir efnahagshrunið það ár hafi fyrirtæki hans engin verkefni fengið.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. desember 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 30. ágúst 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Við skoðun á reikningsyfirliti kæranda hefði komið í ljós að hann hefði unnið sjálfstætt en ekki starfað hjá þeim aðila sem hann hafði greint frá. Hafi þetta leitt í ljós að meðaltekjur kæranda hefðu í raun verið mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara þannig að greiðslugeta hans var jákvæð gagnstætt því sem gert hafi verið ráð fyrir. Því var það mat umsjónarmanns að kærandi hefði brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lgr. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á meðan hann var í greiðsluskjóli. Einnig var það mat umsjónarmanns að fyrirliggjandi gögn veittu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr., en umsjónarmaður hafi talið skýringar kæranda á inn- og útborgunum á bankareikningi hans ófullnægjandi. Taldi umsjónarmaður einnig að nefndar inn- og útborganir hefðu verið þess eðlis að kærandi hefði átt að upplýsa umsjónarmann um þær að fyrra bragði. Þannig hefði komið í ljós að tvær af innborgununum hefðu verið laun fyrir vinnu kæranda sem að sögn hans hefðu átt að fara til félags sem hann hafi ætlað að stofna undir starfsemi sína. Aðrar færslur hafi verið vegna „svartrar vinnu“, lán frá fjölskyldu og vinum og greiðslur gamalla skulda. Þar að auki var það mat umsjónarmanns að kanna þyrfti frekar hvort kærandi hefði af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sínar, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Af framangreindum sökum þyrfti einnig að kanna hvort synja bæri kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á þeim grundvelli.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 12. desember 2013. Þar var honum kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Í bréfinu var kæranda einnig gefið tækifæri til að leggja fram frekari gögn. Með svari kæranda 2. janúar 2014 mótmælti hann því að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður.

Með bréfi til kæranda 28. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfu í málinu en skilja verður kæru hans á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður verði felld úr gildi.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn eða rök máli sínu til stuðnings. Hann skýrði þó frá því að hann myndi reyna að leggja til hliðar en það hefði hann ekki getað gert á tímabili greiðsluskjóls vegna verkefnaskorts.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá segi í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu.

Upplýsingar um tekjur sem ekki séu taldar fram á staðgreiðsluskrá og upplýsingar um atvinnuhagi verði að telja þess eðlis að það sé einungis á færi kæranda sjálfs að veita þær. Þrátt fyrir að kærandi hafi í tölvupósti veitt skýringar á millifærslum á bankareikningi sínum verði enn að telja fjárhag hans óljósan, enda hafi hann ekki stutt frásögn sína með gögnum eða sýnt fram á eðli hinna millifærðu fjármuna að öðru leyti. Kærandi hafi heldur ekki lagt fram upplýsingar um leigutekjur eða lagt fram leigusamninga, en hann kveðst hafa haft leigutekjur á tímabilinu.

Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um tekjur sínar, stofnun einkahlutafélags eða breytingu á atvinnuhögum en slíkar upplýsingar teljist mikilsverðar í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Telur umsjónarmaður að kærandi hefði átt að upplýsa um heildartekjur sínar og raunverulega atvinnuhagi strax í upphafi. Með því að greina ekki frá þessum atvikum hafi hann veitt rangar og villandi upplýsingar í skilingi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umboðsmaður synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda þar sem hann hefði látið hjá líða að gefa fullnægjandi upplýsingar um millifærslur af bankareikningi sínum og framvísa viðhlítandi gögnum þar um, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Hins vegar er byggt á því að kærandi hefði gefið rangar eða villandi upplýsingar um atvinnuhagi sína og tekjur í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Af þessum ástæðum beindi umsjónarmaður því til umboðsmanns skuldara að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með ákvörðun 28. janúar 2014.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun. Í málinu liggur fyrir að þær upplýsingar sem kærandi gaf umsjónarmanni um fjárhag sinn og tekjur voru ekki í samræmi við millifærslur á bankareikningi kæranda. Þannig liggur fyrir að á árinu 2012 gaf kærandi upp til skatts atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélags samtals að fjárhæð 1.460.588 krónur og verktakagreiðslur að fjárhæð 480.791 krónu eða alls 1.910.986 krónur. Aðrar tekjur gaf hann ekki upp. Þessu til viðbótar fékk kærandi greiddar inn á bankareikning sinn 1.588.370 krónur sem hann segir meðal annars vera húsaleigutekjur, endurgreiðslur á gamalli skuld og peningagjafir frá ættingjum. Á árinu 2013 liggja fyrir upplýsingar um greiðslur inn á bankareikning kæranda að fjárhæð 1.377.400 krónur. Kærandi kveður þessar greiðslur meðal annars vera vegna verktakavinnu og húsaleigutekna. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn eða upplýsingar sem styðja frásögn hans eða varpa ljósi á uppruna fjárins þrátt fyrir áskoranir og beiðnir þar um. Samkvæmt því verður að telja að kærandi hafi ekki látið í té fullnægjandi upplýsingar til að unnt væri að fá nauðsynlega heildarmynd af fjárhag hans og greiðslugetu vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Verður því að telja fjárhag kæranda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi hvorki upplýst umsjónarmann um allar tekjur sínar né breytingu á atvinnuhögum, en slíkar upplýsingar telur umboðsmaður að séu mikilsverðar í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr.

Aðstæður, sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge., eru þær að skuldari hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur kærandi ekki gefið nauðsynlegar upplýsingar eða skýringar til að hægt sé að fá raunhæfa mynd af fjárhag hans. Með vísan til gagna málsins hefur kærandi haft meiri fjármuni til ráðstöfunar en hann hefur upplýst, en ekki liggur fyrir hve mikið. Þá benda gögnin enn fremur til þess að kærandi hafi haft einhverja atvinnu á tímabilinu þótt hann kveðist hafa verið atvinnulaus. Upplýsingar um laun og aðrar tekjur eru, eins og að framan er rakið, grundvallarupplýsingar í greiðsluaðlögunarumleitunum. Þessar upplýsingar eru enn fremur þess eðlis að kæranda bar skilyrðislaust að leggja þær fram og upplýsa umsjónarmann um þær. Sé litið til þess verður ekki hjá því komist að telja að kærandi hafi með framgöngu sinni brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brotið gegn b- og d-liðum 1. mgr. 6. gr. lge. með framangreindri háttsemi. Bar umboðsmanni skuldara því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum