Hoppa yfir valmynd

Ásahreppur - Framkvæmd lokaðs útboðs, heimild til skipunar starfshóps um val á verktaka

Hreppsnefnd Ásahrepps
18. maí 2005
FEL04110014/1001

Laugalandi
851 Hellu

Miðvikudaginn 18. maí 2005 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

úrskurður:

Með erindi, dags. 8. nóvember 2004, kærði Jón Ögmundsson hdl. f.h. Árna Pálssonar, hér eftir

nefndur kærandi, ákvörðun Ásahrepps, hér eftir nefndur kærði, um val á viðsemjanda eftir lokað

útboð vegna safnvegar í Sauðholt I, í júlímánuði 2004.

Með bréfi, dags. 6. desember 2004, óskaði ráðuneytið eftir umsögn kærða vegna framkominnar

kæru. Umsögnin barst með bréfi, dags. 4. janúar 2005. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá

kæranda með bréfi, dags. 24. janúar 2005, og viðbótarathugasemdir frá kærða með bréfum, dags.

31. janúar 2005 og 6. apríl 2005.

I. Kröfur

 

Kærandi krefst þess að málsmeðferð á vegum Ásahrepps við lokað útboð vegna safnvegar í

Sauðholt I í sveitarfélaginu verði úrskurðuð ólögmæt og ekki í samræmi við góða

stjórnsýsluhætti.

II. Málavextir

 

Í júnímánuði 2004 fór fram lokað útboð á vegum Ásahrepps vegna lagningar 3,5 km

bráðabirgðavegar að býlinu Sauðholti I í Ásahreppi. Um var að ræða fyrirspurnarútboð en þá eru

tilboð ekki bindandi, hvorki af hálfu verkkaupa né verktaka en samið er við verktaka á grundvelli

einingaverða tilboðsins. Umræddur vegur telst vera safnvegur og var verkkaupi Ásahreppur.

Útboðsgögn voru send til sex aðila, þ.m.t. kæranda. Kærandi sendi inn tilboð ásamt fjórum

öðrum bjóðendum. Tilboð voru opnuð 28. júní 2004.

Á fundi vinnuhóps Ásahrepps, dags. 1. júlí 2004, var farið yfir tilboð sem bárust. Kærandi átti

lægsta tilboð, 2,3% undir kostnaðaráætlun en Heflun ehf. átti næstlægsta tilboð, 1,6% yfir

kostnaðaráætlun. Á fundinum var ákveðið að rætt skyldi fyrst við Heflun ehf. en kæranda til

vara. Með bréfi Ásahrepps, dags. 7. júlí 2004, var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að

taka tilboði Heflunar ehf. Vinnuhópur vegna útboðsins kom aftur saman á fundi 11. júlí 2004. Á

fundinum var undirritaður verksamningur við Heflun ehf. með fyrirvara um samþykki

hreppsnefndar Ásahrepps.

Á fundi hreppsnefndar Ásahrepps hinn 14. júlí 2004 var verksamningur við Heflun ehf. kynntur

og samþykktur samhljóða. Með bréfi, dags. 13. júlí 2004, óskaði kærandi eftir skriflegum

rökstuðningi Ásahrepps fyrir ákvörðun sveitarfélagsins um val á viðsemjanda. Vinnuhópur

vegna útboðsins kom saman á fundi 7. ágúst 2004 þar sem gengið var frá svarbréfi til kæranda

sem sent var 8. ágúst 2004. Í bréfinu kemur fram að við val á verktaka hafi verið vegnir saman

nokkrir þættir sem óskað var eftir upplýsingum um í tilboðsskrá fyrirspurnarútboðsins, þ.e.

kostnaður, tæknileg geta, verkreynsla og starfsmenn/verkstjórnendur fyrirtækis. Með hliðsjón af

nefndum þáttum hafi tilboð Heflunar ehf. verið metið hagstæðast.

Með bréfi kæranda, dags. 15. september 2004, til Ásahrepps krafðist kærandi bóta fyrir þátttöku í

útboðinu, með vísan til þess að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið ólögmæt, sbr. umfjöllun

um málsrök kæranda. Með bréfi lögmanns Ásahrepps, dags. 29. september 2004, var kröfu

kæranda hafnað. Með bréfinu fylgdi álitsgerð lögmannsins en um efni hennar er vísað til

umfjöllunar um málsrök sveitarfélags.

III. Málsrök aðila

 

Kærandi byggir á því að málsmeðferð Ásahrepps við ákvörðun um val á viðsemjanda á

grundvelli lokaðs útboðs hafi verið ólögmæt með hliðsjón af reglum um valdframsal

sveitarstjórna. Framsal valds til undirnefnda á vegum sveitarstjórnar verði að eiga sér stoð í

almennum lögum eða samþykktum sveitarfélags. Hvorki í samþykktum sveitarfélagsins né

lögum sé heimild til þess að framselja vald til vinnuhóps með þeim hætti sem gert var. Þá sé

óheimilt að skipa aðra en kjörna sveitarstjórnarmenn í undirnefnd sveitarstjórnar nema sérstök

lagaheimild standi til þess. Einnig hafi vinnuhópurinn í raun tekið ákvörðun um val á

viðsemjanda þrátt fyrir að verksamningur hafi verið staðfestur af sveitarstjórn. Í því hafi falist

valdframsal sem sé andstætt meginreglum stjórnsýsluréttar.

Kærandi heldur því fram að við málsmeðferð Ásahrepps hafi mál ekki verið nægjanlega upplýst

og rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar með brotin. Sveitarfélagið hafi

þannig ekki kannað hvort tækjabúnaður kæranda væri fullnægjandi eða verkreynslu hans í

sambærilegum verkum. Þá hafi ekki verið rannsakaðar nánar upplýsingar um starfsmenn

kæranda þótt upplýsingar hans hafi gefið tilefni til þess að ætla að fleiri en einn starfsmaður

kæmi að verkinu. Þá byggir kærandi á því að sveitarfélagið hafi ekki sinnt rannsóknar- og

leiðbeiningarskyldu sinni þar sem kæranda hafi ekki verið kynnt að nokkuð skorti á að tilteknar

upplýsingar í tilboðsskrá hans væru nægjanlega ítarlegar.

Loks er því haldið fram af kæranda að tilkynning ákvörðunar, með bréfi Ásahrepps til kæranda,

dags. 7. júlí 2004, hafi ekki uppfyllt kröfur stjórnsýslulaga varðandi leiðbeiningar um

kæruheimild og kærufresti.

Kærði byggir á því að sú ákvörðun og athöfn Ásahrepps að samþykkja tilboð Heflunar ehf. og

gera verksamning við fyrirtækið um framkvæmd verksins teljist ekki vera stjórnvaldsákvörðun í

skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, heldur ákvörðun einkaréttarlegs eðlis. Ákvæði

stjórnsýslulaga eigi því ekki við eins og atvikum sé háttað.

Í umsögn kærða kemur fram að hreppsnefnd Ásahrepps hafi falið sérstökum vinnuhópi að annast

framkvæmd útboðs. Í vinnuhópnum hafi átt sæti, auk skipulags- og byggingarfulltrúa, þrír af

fimm hreppsnefndarmönnum. Tveir hreppsnefndarmenn hafi ekki tekið þátt í meðferð málsins

vegna vanhæfis, þ.m.t. oddviti sveitarfélagsins. Við mat vinnuhópsins á tilboðum á fundi 1. júlí

2004 hafi fjórir meginþættir útboðsins verið vegnir saman, þ.e. kostnaður, tæknileg geta,

verkreynsla og starfsmannahald tilboðsgjafa. Mat á tilboðum hafi byggt á útboðsskilmálum að

öllu leyti. Þeir hafi verið skýrir og því ljóst fyrirfram hvaða þættir myndu ráða ákvörðun

verkkaupa. Niðurstaðan hafi orðið sú að tilboð Heflunar ehf. var talið hagstæðast. Á fundi

vinnuhópsins 11. júlí hafi verið farið yfir drög að verksamningi við Heflun ehf. og

verksamningur undirritaður með fyrirvara um samþykki hreppsnefndar. Á fundi hreppsnefndar

14. júlí 2004 hafi verksamningurinn verið kynntur og samþykktur samhljóða. Á fundinum hafi

varamenn tekið sæti þeirra tveggja hreppsnefndarmanna sem vanhæfir voru.

Þá heldur kærði því fram að athugasemdir kæranda varðandi tilkynningu um ákvörðun

vinnuhóps hafi ekki áhrif á gildi útboðsins eða ákvörðun um mat á tilboðum eða verksamning

við Heflun ehf.

Málsrök aðila í síðari athugasemdum verða ekki rakin sérstaklega en þeirra verður getið í

niðurstöðu ráðuneytisins eftir því sem tilefni er til.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, úrskurðar ráðuneytið um ýmis vafaatriði

sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Ákvæðið hefur verið túlkað á

þann veg að ráðuneytið fjalli einkum um mál er varða stjórnsýsluákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem

hafa áhrif á réttindi eða skyldur manna. Ákvarðanir sveitarstjórna sem eru eingöngu

einkaréttarlegs eðlis falla því almennt utan valdsviðs ráðuneytisins nema unnt sé að benda á brot

gegn meginreglum sveitarstjórnarlaga eða meginreglum stjórnsýsluréttar.

Ákvörðun um að ganga til samninga við tiltekinn verktaka um vegagerð á grundvelli útboðs er

ákvörðun tekin á einkaréttarlegum grunni og telst slík ákvörðun því ekki vera

stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. gr. laganna kemur fram að lögin

gildi um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Um samninga einkaréttarlegs eðlis gildi ákvæði II.

kafla laganna um sérstakt hæfi. Önnur ákvæði laganna gilda því ekki um samninga

einkaréttarlegs eðlis. Þá er gildi II. kafla stjórnsýslulaga takmarkað varðandi sveitarstjórnarmenn

enda fer um sérstakt hæfi þeirra eftir 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sbr. 2. mgr. 2. gr.

stjórnsýslulaga. Þótt reglur stjórnsýslulaga eigi ekki beint við um málið gilda engu að síður um

meðferð þess ákveðnar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins varðandi undirbúning og

rannsókn máls og skyldu til að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Ráðuneytið tekur til

skoðunar kröfugerð kæranda varðandi brot á rannsóknarreglu og leiðbeiningarskyldu, með tilliti

til framangreindra sjónarmiða. Sá þáttur málsins er varðar meint ólögmætt valdframsal

sveitarfélagsins sætir hins vegar ekki takmörkun vegna þessa.

Við úrlausn þess álitaefnis sem varðar meint ólögmætt valdframsal Ásahrepps til vinnuhóps

koma til skoðunar ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með áorðnum breytingum, einkum

ákvæði sem taka almennt til stjórnkerfis sveitarfélaga og málsmeðferðar innan þess. Auk

sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn og fundarsköp Ásahrepps, nr. 906/2001, koma til

skoðunar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um valdframsal.

Af gögnum málsins liggur fyrir að málefni tengd vegarlagningu við Sauðholt I komu ítrekað til

umfjöllunar hjá sveitarstjórn Ásahrepps um vor og sumar 2004. Málefnið var t.a.m. á dagskrá á

fundi 16. mars þar sem bókað var að skipulags- og byggingarfulltrúi kærða og Vegagerðin

skyldu skoða málið nánar. Málið var tekið til umfjöllunar á fundi 18. maí og á fundi 15. júní var

staðfest samkomulag milli kærða og eigenda Sauðholts I um fjármögnun og framkvæmd

lagningar vegar að Sauðholti I. Fyrirspurnarútboð kærða fór fram um sama leyti en það gerði ráð

fyrir að tilboð yrðu opnuð 28. júní 2004. Fyrsti fundur umdeilds vinnuhóps var haldinn í

kjölfarið, þann 1. júlí.

Af hálfu kærða er því haldið fram að í raun hafi meirihluti sveitarstjórnar annast framkvæmd

útboðs vegarlagningar að Sauðholti I og ekki hafi verið sérstakrar bókunar þörf um þá

málsmeðferð. Af fundargerðum vinnuhópsins verður ráðið að auk þriggja af fimm

sveitarstjórnarmönnum hafi skipulagsfulltrúi setið í hópnum. Ráðuneytið telur ljóst af atvikum

málsins að um sérstaka nefnd hafi verið að ræða enda er því ekki haldið fram af hálfu kærða að

fundir hópsins hafi verið sveitarstjórnarfundir í skilningi 15. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samkvæmt 7. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga hafa sveitarstjórnir heimild til að kjósa nefndir til

að sinna afmörkuðum verkefnum. Sams konar heimild er að finna í 52. gr. samþykktar um stjórn

og fundarsköp Ásahrepps, nr. 906/2001. Umboð slíkra nefnda fellur niður við lok kjörtímabils

hreppsnefndarinnar og fyrr ef verkefni nefndar er lokið. Hreppsnefnd getur einnig afturkallað

umboð slíkra nefnda hvenær sem er.

Að mati ráðuneytisins er sýnt að stofnun umrædds vinnuhóps og störf hans hafi farið fram í

samræmi við ákvarðanir sveitarstjórnar enda eru engar vísbendingar um annað. Þá telur

ráðuneytið að valdsvið vinnuhópsins hafi ekki byggt á heimild til að taka fullnaðarákvörðun um

skuldbindingu kærða við verktaka vegna vegarlagningar að Sauðholti I enda var verksamningur

staðfestur sérstaklega af sveitarstjórn á fundi 14. júlí 2004.

Með vísan til heimilda sveitarstjórnar til að fela nefndum að sinna afmörkuðum verkefnum, svo

sem að undirbúa mál fyrir fullnaðarákvörðun sveitarstjórnar, er það niðurstaða ráðuneytisins að

málsmeðferð kærða hafi ekki falið í sér ólögmætt valdframsal. Ráðuneytið gerir hins vegar

athugasemd við skráningu fundargerða hjá sveitarstjórn kærða. Ekki var skráð sérstök bókun um

stofnun vinnuhóps um framkvæmd útboðs á vegarlagningu að Sauðholti I. Þeirrar tilhögunar

hefði átt að geta sérstaklega í fundargerð sveitarstjórnar jafnvel þótt meirihluti sveitarstjórnar

sæti í vinnuhópnum, sbr. 22. og 23. gr. sveitarstjórnarlaga.

Varðandi álitaefni um meint brot á rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu kærða við útboð bendir

ráðuneytið á að við tilkynningu kærða til verkataka um að fram færi lokað útboð á vegum

hreppsins vegna vegar að Sauðholti I, hafi sveitarfélagið orðið bundið af lögum um framkvæmd

útboða, nr. 65/1993, og skilmálum útboðsgagna, þ.m.t. stöðlum sem vísað var til, þ.e. Alverk’95

og ÍST30:2003. Þá kemur til álita hvort lög um opinber innkaup, nr. 94/2001, hafi gilt um útboð

kærða. Samkvæmt lögum um opinber innkaup falla innkaup sveitarfélaga því aðeins undir

efnisreglur laganna að þau séu yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum Evrópska

efnahagssvæðisins. Með vísan til reglugerðar um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa

á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO)

um opinber innkaup, nr. 513/2001, var fjárhæð útboðs Ásahrepps langt undir viðmiðunarfjárhæð

vegna verksamninga. Ákvæði laga um opinber innkaup eiga því ekki við um mál þetta.

Framkvæmd fyrirspurnarútboðs á grundvelli laga um framkvæmd útboða, þ.m.t. opnun tilboða,

mat á tilboðum og samningsgerð, fer fram á einkaréttarlegum grundvelli. Sveitarfélag sem

verkkaupi ber því sambærilegar skyldur og einkaaðili auk skyldna á grundvelli meginreglna um

starfsemi sveitarfélaga, sbr. umfjöllun hér að framan. Tilgangur reglna um útboð er ekki síst að

tryggja jafnræði bjóðenda. Þá stuðlar útboð að því að kaupandi fái skýrar upplýsingar til að meta

hagkvæmni tilboða og að bjóðendum sé fyrir fram ljóst hvernig tilboð þeirra verði metið. Hinar

einkaréttarlegu reglur um útboð samræmast vel óskráðum meginreglum sem gilda um starfsemi

sveitarfélaga, þ.á m. um jafnræði og að byggt skuli á málefnalegum sjónarmiðum.

Kærandi byggir á því að skort hafi á að uppfylltar hafi verið rannsóknar- og leiðbeiningarskyldur

Ásahrepps eftir að tilboð voru opnuð. Ráðuneytið telur að á grundvelli þess jafnræðis bjóðenda

sem útboðsferli er ætlað að tryggja, svo sem lagaákvæði um opnun tilboða, séu heimildir

verkkaupa til að leiðrétta eða breyta tilboðsgögnum eftir opnun tilboða takmarkaðar. Þá er

mikilvægur þáttur í jafnræði bjóðenda við útboð að þeir hafa forræði á gerð og skráningu

upplýsinga í tilboði. Bjóðendur eiga jafnan rétt til leiðbeininga við þá vinnu. Í útboðsgögnum

kærða kemur fram að bjóðendur gátu sent fyrirspurnir vegna útboðsins á skrifstofu Ásahrepps

innan tiltekins frests sem rann út fimm dögum fyrir opnun tilboða. Kærði tók afstöðu til

framkominna tilboða eins og þau lágu fyrir við opnun þeirra og er sú tilhögun í samræmi við

sjónarmið sem meginreglur um jafnræði tryggja. Ráðuneytið telur að eins og atvikum málsins er

háttað hafi málsmeðferð kærða ekki verið í andstöðu við óskráðar meginreglur um rannsóknarog

leiðbeiningarskyldur stjórnvalda.

Í samræmi við framanritað er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð kærða við

framkvæmd lokaðs útboðs vegna vegar að Sauðholti I hafi verið lögmæt. Með vísan til

framangreindrar niðurstöðu ber að hafna kröfum kæranda í málinu.

Beðist er velvirðingar á því að vegna annríkis í ráðuneytinu hefur meðferð málsins tekið lengri

tíma en mælt er fyrir um í 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð Ásahrepps við lokað útboð vegna safnvegar í Sauðholt I er lögmæt.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

G. Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)

Samrit: Jón Ögmundsson hdl.

Afrit: Óskar Sigurðsson hdl.

18. maí 2005 - Ásahreppur - Framkvæmd lokaðs útboðs, heimild til skipunar starfshóps um val á verktaka (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum