Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 77/2014

Mál nr. 77/2014

Fimmtudaginn 20. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 18. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. ágúst 2014.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 19. ágúst 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1980. Hún býr ásamt syni sínum í eigin húsnæði að B. Kærandi starfar hjá C.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 28. maí 2013, eru 33.465.032 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003-2009.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til vankunnáttu í fjármálum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. maí 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. október 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), þar sem kærandi hefði ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. og 21. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að hann hafi talið nauðsynlegt að selja fasteign kæranda. Umsjónarmaður hafi tilkynnt kæranda þá ákvörðun á fundi en hún þá ekki viljað taka afstöðu til sölunnar. Umsjónarmaður hafi haft samband við kæranda 20. ágúst 2013 og hún þá tjáð honum að hún féllist ekki á að fasteign hennar yrði seld. Kærandi hafi óskað eftir svigrúmi til að kanna möguleika sína á því að fá aukavinnu til að auka greiðslugetu sína og hafi umsjónarmaður fallist á það. Í kjölfar þess hafi umsjónarmaður gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af kæranda sem hafi loks gengið eftir 10. september 2013. Þá hafi kærandi tjáð umsjónarmanni að hún hefði fengið aukavinnu en gæti hvorki veitt upplýsingar um starfshlutfall né kjör fyrr en daginn eftir. Umsjónarmaður kveðst hafa gert margar tilraunir til að ná tali af kæranda eftir þetta, bæði símleiðis og með tölvupósti, en án árangurs.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 21. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 28. maí 2014 þar sem fram kom að samkvæmt nýjum upplýsingum um tekjur hennar teldi embættið að hún gæti greitt af áhvílandi veðkröfum innan verðmats fasteignar. Embættið óskaði eftir upplýsingum um hve mikið tekjur kæranda hefðu aukist og hvort það yrði til framtíðar. Þá var óskað eftir upplýsingum um sparnað kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kæranda var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin viðbrögð voru af hálfu kæranda.

Með ákvörðun 4. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður málatilbúnað hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst lengi hafa hundsað vandamál sín og haldið í barnslegri trú að þau myndu leysast. Kærandi hafi vakið máls á þessu þegar hún sótti um greiðsluaðlögun og óskað eftir því að haft yrði samband við föður hennar sýndi hún ekki viðbrögð og/eða samstarfsvilja. Kærandi telur sig vera haldna þunglyndi eða frestunaráráttu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð.

Embættið hafi tekið til skoðunar hvort það teldist brot á 1. mgr. 16. gr. lge. að kærandi hafi ekki brugðist við ítrekuðum tilraunum umsjónarmanns til að ná af henni tali. Þá hafi verið óskað eftir upplýsingum um sparnað kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Svo að umsjónarmaður gæti gert drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun yrði að leggja þær skyldur á kæranda að hún veitti liðsinni sitt eins og þörf krefði, enda bæri umsjónarmanni að semja frumvarp í samráði við skuldara. Athafnaskylda kæranda um þetta atriði sé leidd af 1. mgr. 16. gr. lge.

Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. og eðli máls samkvæmt sé ekki mögulegt að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum, standi vilji skuldara ekki til þess. Kærandi hafi ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. þar sem hún hafi hvorki svarað fyrirspurnum hans né haft samband vegna greiðsluaðlögunarumleitana þrátt fyrir að ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að ná sambandi við hana, bæði af hálfu umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi áður sótt um greiðsluaðlögun, en heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar hafi þá einnig verið felld niður á grundvelli 1. mgr. 16. gr.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV.N iðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður eins fljótt og auðið er, eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að skort hafi á samstarfsvilja kæranda þar sem ekki hafi náðst í hana eftir að hann tók ákvörðun um að selja skyldi fasteign kæranda. Kærandi mótmælir því ekki en vísar til þess að hún hafi óskað eftir því að haft yrði samband við föður hennar ef ekki næðist í hana. Umsjónarmaður reyndi ítrekað að ná tali af kæranda, bæði símleiðis og með tölvupósti. Faðir kæranda fékk afhent bréf umboðsmanns skuldara 28. maí 2014 þar sem kynnt var ákvörðun umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, auk þess sem kærandi fékk sent afrit bréfsins með tölvupósti 25. júní 2014. Þrátt fyrir þetta sýndi kærandi engin viðbrögð í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og er ljóst að atbeina hans er þörf til að svo megi verða. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er rakið hvað skuli taka fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, meðal annars að tiltaka skuli viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag skuldara og greiðslugetu svo sem upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Jafnframt skuli tiltaka allar veðmætar eignir sem skuli selja eða halda eftir. Kærandi veitti ekki þann atbeina sem nauðsynlegur var til að unnt væri að gera slíkt frumvarp og ljóst er að hún sinnti ekki með fullnægjandi hætti að taka afstöðu til ákvörðunar umsjónarmanns um að selja fasteign hennar. Sökum þessa verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kæranda í málinu sem var forsenda þess að unnt væri að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í samræmi við 16. gr. lge.

Í ljósi þess er að framan greinir verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 16. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum