Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 79/2014

Mál nr. 79/2014

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 28. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 15. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 2. september 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þau gerðu með bréfi 19. september 2014. Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 23. september 2014. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1958 og 1950 og eru í sambúð. Þau búa ásamt uppkominni dóttur sinni og unnusta hennar í eigin einbýlishúsi að C sem er 212 fermetrar að stærð ásamt 42 fermetra bílskúr.

Kærendur hafa bæði verið metin til örorku. Tekjur kæranda A eru greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði D. Tekjur kæranda B eru greiðslur frá Tryggingastofun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði E.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 8. mars 2013, eru 68.506.943 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árið 2006 vegna endurfjármögnunar á fasteignaveðlánum og fjármögnunar á lóðakaupum.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til veikinda, auk þess sem forsendur hafi brostið varðandi fjármögnun byggingaframkvæmda við efnahagshrunið haustið 2008 þegar verðlag hafi hækkað og lánsfé hafi ekki lengur verið aðgengilegt.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 19. júlí 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2013 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. maí 2014 tilkynnti sá fyrrnefndi að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem greiðsluskjól hefði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við heildartekjur kærenda ættu þau að hafa getað lagt fyrir tæplega 1.200.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls en kærendur hafi ekkert lagt til hliðar. Þá teldi umsjónarmaður enn fremur að fella ætti niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge. þar sem þau hefðu verið í vanskilum með fasteignagjöld á tímabili greiðsluskjóls og hefðu auk þess ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu bifreiðar. Umsjónarmaður rekur einnig að kærendur hafi undirritað söluumboð vegna sölu fasteignar þeirra að C en eignin hafi ekki selst og telji umsjónarmaður kærendur hafa verðlagt eignina of hátt.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 18. júní 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 7. og 13. júlí 2014.

Með ákvörðun 14. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a– og d-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu heimildar þeirra til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi og að umsókn þeirra um sömu heimild verði samþykkt.

Kærendur kveða veikindi kæranda A hafa reynt mikið á þau, bæði andlega og fjárhagslega. Hvorki umsjónarmaður né umboðsmaður skuldara hafi fylgt því eftir að bifreið kærenda yrði seld, en þeim hafi verið veitt svigrúm til að selja hana vegna aðstæðna. Engin gögn hafi komið fram í málinu sem sanni fullyrðingar umboðsmanns skuldara um að embættið eða umsjónarmaður hafi beitt sér fyrir því að kærendur myndu selja eignir sínar eða að þau hafi staðið í vegi fyrir sölu eigna. Kærendur hafi aftur á móti fengið frest vegna veikinda og telji þau að embættið geti ekki tekið íþyngjandi ákvörðun á grundvelli vanefnda þeirra, nema sú ákvörðun byggi á réttum gögnum sem sanni að þær vanefndir hafi átt sér stað.

Í athugasemdum kærenda kemur enn fremur fram að ekki sé að finna í rökstuðningi umboðsmanns skuldara hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til veikinda kærenda og þeim veittur rýmri frestur til að selja fyrrnefnda bifreið. Engin gögn séu til um að umsjónarmaður hafi leiðbeint kærendum eða sett þeim tímamörk til að selja hana.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hinn fyrrnefndi telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúma 13 mánuði og sé miðað við tímabilið 1. apríl 2013 til 30. apríl 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Launatekjur 1. apríl 2013 til 30. apríl 2014 4.759.454
Meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls 366.112
Framfærslukostnaður á mánuði* 279.025
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 87.087
Samtals greiðslugeta 1.132.129

* Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í maí 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur kveðist hafa þurft að greiða hærri útgjöld á tímabili greiðsluskjóls en til stóð vegna lækniskostnaðar, en þau hafi hvorki lagt fram gögn um þann kostnað né veitt frekari skýringar á honum. Kærendur hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu og því verði að telja að þau hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara kveður kærendur enn fremur hafa stofnað til nýrra skuldbindinga í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða ekki fasteignagjöld á tímabili greiðsluskjóls en skuldin nemi alls 273.863 krónum.

Þá hafi kærendur ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um að selja bifreiðina X í þeirra eigu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir umsjónarmanns þar um. Kærendur kveðist ekki hafa getað selt bifreiðina vegna veikinda annars kæranda en þau hafi ekki rökstutt það frekar. Umsjónarmaður kærenda hafi tilkynnt þeim 17. júlí 2013 að selja þyrfti bifreið þeirra og hafi þau því haft rúmlega tíu mánuði til þess en þrátt fyrir það ekki selt hana. Af þeim sökum telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi komið í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Þá bendir umboðsmaður jafnframt á að kærendur hafi staðfest að þau væru meðvituð um að þeim bæri að selja bifreið sína en ekki gert það vegna veikinda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Embættið fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Þess er krafist að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og veiti þeim áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.

Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur sá síðarnefndi kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara falla greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar og 5. mgr. 13. gr. lge.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar slíkt er nauðsynlegt til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda samþykkt 8. mars 2013 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýstir um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 1.132.129 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. apríl 2013 til 31. desember 2013: Níu mánuðir
Nettótekjur kærenda 3.733.237
Nettó mánaðartekjur kærenda að meðaltali 414.804
Tímabilið 1. janúar 2014 til 30. júní 2014: Sex mánuðir
Nettótekjur kærenda 2.397.243
Nettó mánaðartekjur kærenda að meðaltali 399.541

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtölum um tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. apríl 2013 til 30. júní 2014: 15 mánuðir
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli 6.130.480
Ráðstöfunartekjur að meðaltali á mánuði í greiðsluskjóli 408.699
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 279.025
Greiðslugeta kærenda á mánuði 129.674
Alls sparnaður í 15 mánuði í greiðsluskjóli x 129.674 1.945.105

*Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í maí 2014 auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Að þessu virtu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.945.105 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hafa ekkert lagt til hliðar á tímabilinu. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld á þeim tíma sem þau nutu greiðsluskjóls og hafi með því stofnað til nýrra skulda á tímabilinu, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur eru bæði örorkulífeyrisþegar og er ólíklegt að tekjur þeirra og aðstæður aðrar muni breytast á komandi árum. Við heildarmat á hagsmunum kærenda af áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum, sem og hagsmunum kröfuhafa, telur kærunefndin að draga megi í efa að sú skuldasöfnun, sem hér er fyrir hendi að fjárhæð 273.863 krónur, yrði líkleg til að skaða hagsmuni lánardrottna, sérstaklega ef litið er til þess að látið verði reyna á sölu fasteignar eins og kærendur hafa fallist á að gera. Að þessu leyti verður því ekki fallist á niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kærenda með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá taldi umboðsmaður skuldara kærendur hafa staðið í vegi fyrir sölu eignar þar sem sem þau hefðu ekki farið eftir ítrekuðum fyrirmælum umsjónarmanns um að selja bifreiðina X.

Samkvæmt 1. gr. lge. er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í þessu skyni er umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum heimilt að grípa til ýmissa úrræða svo sem að ákveða að selja þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án samkvæmt 13. gr. lge. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.

Samkvæmt skattframtali 2014 eiga kærendur tvær bifreiðar með skráningarnúmerin X, að verðmæti 2.558.887 krónur, og Y, að verðmæti 649.539 krónur. Í bréfi umsjónarmanns 20. maí 2014 kemur fram að kærendum hafi verið tilkynnt á símafundi 17. júlí 2013 sú ákvörðun hans að þau skyldu selja bifreið með skráningarnúmerið X. Kærendur hafi í framhaldinu samþykkt sölu bifreiðarinnar símleiðis 1. ágúst 2013. Á símafundi umsjónarmanns með kæranda B 10. mars 2014 hafi komið í ljós að kærendur hefðu enn ekki selt fyrrnefnda bifreið. Með símtali 17. mars 2014 hafi umsjónarmaður veitt kærendum frest í tvo til þrjá mánuði í viðbót til þess að selja bifreiðina en 16. maí sama ár hafi þau enn ekki hafist handa við söluna.

Kærendur kveða engin gögn sýna fram á að umsjónarmaður eða umboðsmaður skuldara hafi fylgt því eftir að bifreið þeirra yrði seld eða að þau hafi staðið í vegi fyrir sölu hennar. Aftur á móti hafi þau fengið frest vegna veikinda til að selja hana og telji kærendur að sökum þess hefði átt að veita þeim enn rýmri frest í því skyni. Engin gögn séu til um að umsjónarmaður hafi leiðbeint kærendum eða sett þeim tímamörk varðandi sölu bifreiðarinnar.

Í málinu liggur fyrir bréf umsjónarmanns til kærenda frá 26. ágúst 2013 þar sem fram kemur að kærendum sé veittur tiltekinn frestur til að undirrita söluumboð handa umsjónarmanni vegna sölu fasteignar þeirra að C. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að kærendum hafi verið tilkynnt sérstaklega um ákvörðun umsjónarmanns þess efnis að þau skyldu selja fyrrgreinda bifreið. Þrátt fyrir það liggur fyrir í málinu að kærendur greindu sjálf frá því í kæru að þeim hafi verið kunnugt um þá ákvörðun umsjónarmanns að selja þyrfti bifreiðina. Í fyrrgreindu bréfi umsjónarmanns frá 20. maí 2014 kemur fram að umsjónarmaður hafi 17. mars 2014 veitt kærendum frest í tvo til þrjá mánuði til að selja bifreiðina en að hún hafi enn verið óseld 16. maí 2014. Með vísan til þess er að framan greinir þykir ljóst að umsjónarmaður veitti kærendum frest til að selja fyrrnefnda bifreið og að sá frestur var ekki liðinn þegar umsjónarmaður lagði til við Embætti umboðsmanns skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Með vísan til þess fellst kærunefndin ekki á að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður á grundvelli 5. mgr. 13. gr. lge.

Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum