Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 86/2014

Mál nr. 86/2014

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 14. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 15. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. ágúst 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 14. janúar 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1951 og er einhleypur. Hann býr í eigin fasteign að B sem samanstendur af 195 fermetra einbýlishúsi, [...] og 22 fermetra bílskúr.

Kærandi starfar sem [...] í hlutastarfi en hefur verið metinn til 75% örorku. Tekjur hans eru greiðslur frá Tryggingastofnun, Greiðslustofu lífeyrissjóða og C. Hið síðastnefnda er fyrirtæki í eigu kæranda.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 31. júlí 2013, eru 36.768.107 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005-2010.

Að mati kæranda er fjárhagserfiðleika hans einkum að rekja til veikinda sem hófust árið 2009 og lægri tekna í kjölfarið. Hann var metinn til 75% örorku árið 2010 en sótti ekki strax um lífeyri hjá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun þar sem honum hafði verið ráðlagt að leita réttinda sinna fyrst í D, en hann hafði starfað þar í landi áður en hann veiktist. Fram hefur komið að á meðan kærandi beið niðurstöðu vegna umsóknar um greiðslur frá D hafi hann verið nær tekjulaus og sökum þess hafi vanskil orðið á skuldbindingum hans.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 2. nóvember 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. júlí 2013 var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 6. maí 2014 tilkynnti sá fyrrnefndi að hún teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærandi hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem greiðsluskjól hefði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að kærandi hefði fengið greiddar 1.800.000 krónur frá D á tímabili greiðsluskjóls í eingreiðslu. Að sögn kæranda hefði hann endurgreitt ættingjum sínum hluta fjárins, sem lánað hefðu honum fé til framfærslu á því tímabili er kærandi var tekjulaus, og ætti hann um það bil 1.000.000 króna eftir af því. Þá teldi umsjónarmaður að fella ætti niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hann hefði ráðstafað framangreindu fé til ættingja sinna í stað þess að leggja það til hliðar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 16. júní 2014 þar sem honum var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með tölvupósti 25. júní 2014 og aftur 7. og 16. júlí 2014.

Með ákvörðun 30. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu heimildar hans til að leita greiðsluaðlögunar og fer fram á að skipaður verði nýr umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Kærandi kveðst hafa veikst á árunum 2010 til 2011 og orðið fyrir umtalsverðum tekjumissi vegna þess. Á þeim tíma hafi hann átt rétt á sjúkradagpeningum frá D en reynst hafi tímafrekt að sækja um þá og því hafi hann verið tekjulaus í heilt ár áður en hann fékk örorkulífeyrisgreiðslur. Kærandi hafi fengið lánað fé hjá fjölskyldumeðlimum til þess að framfleyta sér á meðan hann var tekjulaus og hafi ætlun hans verið að endurgreiða þeim lánið þegar hann fengi greidda sjúkradagpeninga frá D.

Fjárhagserfiðleikar kæranda hafi byrjað vegna tekjumissis í kjölfar veikindanna og þegar kærandi hafi verið metinn til 75% örorku var orðið ljóst að hann gæti ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar til framtíðar sökum breyttra aðstæðna. Kærandi hafi fengið sjúkradagpeninga greidda frá D eftir að frestun greiðslna hófst og þá endurgreitt fjölskyldumeðlimum það sem þeir höfðu lánað honum til framfærslu á því tímabili er hann var tekjulaus. Kærandi hefði talið það í lagi samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem féð var notað til framfærslu, auk þess sem það hefði verið greitt eftir á vegna tímabils sem átti sér stað fyrir tíma greiðsluskjóls.

Kærandi telur einnig að greiðsluaðlögun taki ekki til framfærslulána þar sem hann hefði getað greitt þau að fullu með vísan til e-liðar [1]. mgr. 3. gr. lge.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar 1.879.446 krónur inn á bankareikning eftir að frestun greiðslna hófst. Kærandi hafi greint umsjónarmanni frá því að hann hefði notað um 800.000 krónur af fjárhæðinni til að greiða skuldir við ættingja sína vegna framfærslulána sem hann hefði fengið hjá þeim á þeim tíma er hann var tekjulaus. Þá hafi kærandi andmælt því að honum hefði borið að leggja framangreinda fjármuni til hliðar, enda væru þetta sjúkradagpeningar fyrir árin 2010-2011 og hann ætti rétt á.

Umboðsmaður skuldara telji skylt að leggja til hliðar allt fé sem sé umfram kostnað vegna framfærslu í samræmi við skyldur skuldara samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og hafi kæranda því borið að leggja fyrrnefnda eingreiðslu til hliðar samkvæmt ákvæðinu.

Þá verði einnig að telja að kærandi hafi látið af hendi eignir sem gagnast hefðu getað lánardrottunum sem greiðsla með því að greiða skuldir við ættingja sína með fyrrgreindum fjármunum og þannig brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Embættið fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar og fer fram á að skipaður verði nýr umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda þá þegar. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans halda áfram en ákvörðun um hvort skipaður verður nýr umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum kæranda er í höndum umboðsmanns skuldara. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kæranda samþykkt 31. júlí 2013 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kæranda jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.879.446 krónur sem hann fékk greiddar á tímabili greiðsluskjóls. Embættið telur enn fremur að kæranda hafi verið óheimilt að endurgreiða ættingjum lán með hluta þeirra fjármuna.

Hinn 11. október 2013 fékk kærandi greidda sjúkradagpeninga frá E vegna tímabilsins 1. febrúar 2011 til 19. júní 2011 í eingreiðslu. Eingreiðslan nam 94.205 D krónum eða 1.879.446 íslenskum krónum, samkvæmt bréfi umsjónarmanns 6. maí 2014.

Við mat á málsmeðferð umboðsmanns skuldara ber meðal annars að líta til rannsóknarreglu 5. gr. lge., sem styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Við mat á því hvort kæranda hafi verið skylt að leggja fyrrgreinda eingreiðslu til hliðar í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. verður ekki hjá því komist að líta til þess að fyrrnefndar greiðslur frá E voru fyrir liðinn tíma og nokkru áður en greiðsluskjól kæranda hófst. Með tilliti til þess var nauðsynlegt að leggja heildarmat á fjárhag kæranda á öllu tímabilinu, þ.m.t. á þeim tíma er eingreiðslan tók til svo að unnt væri að staðreyna hvort kærandi hefði staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ekki verður séð af gögnum málsins að það hafi verið gert. Verður því að telja að mat umboðsmanns skuldara hafi verið haldið þeim ágalla að vera einvörðungu byggt á afmörkuðum þætti, þ.e. að kæranda hafi verið skylt að leggja fyrrgreinda eingreiðslu til hliðar í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., án þess að fjárhagur kæranda og framfærslukostnaður væru metnir á öllum þeim tíma sem hér skiptir máli. Samkvæmt þessu bar við úrlausn málsins að líta til fjárhags kæranda í heild á öllu tímabilinu, þ.e. til tekna hans og útgjalda með hliðsjón af skyldum hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá var hin kærða ákvörðun einnig byggð á því að kærandi hefði látið fé af hendi til ættingja sinna í bága við skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til fyrri umfjöllunar um a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. telur kærunefndin að til þess að hægt sé að meta hvort kærandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þurfi að leggja mat á fjárhag kæranda allt frá því tímabili sem eingreiðslan átti að taka til og til þess tíma sem fjármunum var ráðstafað til ættingja af hálfu kæranda.

Samkvæmt framangreindu bar umboðsmanni skuldara að rannsaka fjárhag kæranda með tilliti til þess að eingreiðsla sjúkradagpeninga var fyrir liðinn tíma og þannig meta fjárhag hans allt frá 1. febrúar 2011 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður 30. júlí 2014 til að hægt væri að meta hvort hann hefði staðið við skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Mat embættisins á fjárhag kæranda á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge., sem náði eingöngu til þess hvernig kærandi ráðstafaði þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda frá E árið 2013 vegna eftirágreiddra sjúkradagpeninga, var því ófullnægjandi og verða greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda ekki felldar niður einvörðungu á grundvelli þess mats.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda hafi verið felldar niður án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 5. gr. lge. Af þeim sökum ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Í ljósi þess er að framan greinir er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málið sent til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum