Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2014

Mál nr. 53/2014

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 6. maí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. apríl 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 12. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. júní 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. júní 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 10. júlí 2014 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 14. júlí sama ár.

Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 29. janúar 2015 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi 12. febrúar 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1951. Hún er einstæð og býr í eigin íbúð að B, sem er um 70 fermetrar að stærð.

Kærandi er atvinnulaus og stundar nám við C. Mánaðarlegar tekjur hennar eftir greiðslu skatta eru 236.497 krónur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, 3. janúar 2013 eru 20.635.333 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Að sögn kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hennar til atvinnuleysis.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. janúar 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann legði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda skyldu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns 13. febrúar 2014 kemur fram að hann hafi upplýst kæranda um að kveða þyrfti á um sölu fasteignar hennar þar sem kærandi gæti ekki greitt mánaðarlegar afborganir af eigninni. Kæranda vantaði 6.832 krónur í hverjum mánuði til að ná endum saman að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Mánaðarlegar afborganir af þeim lánum, sem tryggðar væru með veði í fasteign kæranda og rúmuðust innan matsverðs eignarinnar, næmu aftur á móti 61.402 krónum. Umsjónarmaður lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til framangreindra lagaákvæða.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 1. apríl 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að greiðsluaðlögunarumleitanir hennar skyldu felldar niður. Jafnframt var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Svar kæranda til umboðsmanns skuldara barst með bréfi 8. apríl 2014. Þar kemur fram að kærandi sé andvíg sölu íbúðarinnar.

Með ákvörðun 15. apríl 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði ómerkt á þeim grundvelli að hún hafi byggst á röngum forsendum og ólögmætum sjónarmiðum. Kærandi krefst þess að henni verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Þá telur kærandi að rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi verið verulega áfátt.

Í kæru er fjallað um aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar umboðsmanns skuldara og þau andmæli sem kærandi hafði komið á framfæri áður en hún var tekin. Í andmælum sínum 8. apríl 2014 við bréfi umboðsmanns skuldara 1. apríl sama ár kveður kærandi forsendu þess að hún hafi fengið samþykkta heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafa verið þá að hún væri í námi sem auka átti líkur hennar á atvinnu og á sama tíma gera henni kleift að standa undir húsnæðisskuldbindingum sínum. Þessar forsendur hafi ekki breyst þrátt fyrir að kæranda hafi seinkað í námi. Það hafi komið kæranda í opna skjöldu þegar henni var tilkynnt að selja bæri fasteignina en það hafi kærandi ekki getað fallist á, enda ætti hún ekki í önnur hús að venda. Kærandi hefði ekki efni á að leigja sér íbúð en hefði gert sér vonir um að geta búið í íbúð sinni þar til námi lyki og hún gæti mögulega staðið undir greiðslum af henni.

Í ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. sé kveðið á um að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í athugasemdum um 13. gr. í frumvarpi til. lge. kemur fram að með ákvæðinu sé umsjónarmanni veitt heimild til að krefja skuldara um sölu eigna að vel athuguðu máli. Við mat á slíku ber umsjónarmanni að gera samanburð á hagsmunum lánardrottna og skuldara af því að salan fari fram, en slíkir hagsmunir geti verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Í frumvarpinu sé getið um að miða skuli við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo að um muni fyrir alla lánardrottna.

Umsjónarmanni beri jafnframt að leggja mat á hversu líklegt sé að skuldara takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma og með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Í frumvarpinu greini enn fremur að við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir séu undir matsverði íbúðarinnar megi ætla að til álita komi að íbúðin verði seld að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Þá beri umsjónarmanni að taka tillit til þess með hvaða hætti fjölskylduhagir skuldara séu. Í þessu sambandi beri umsjónarmanni að líta til fjölskylduhaga skuldara sem og aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni og meta hvort af sölu íbúðar, og þar af leiðandi kaupum eða leigu á nýrri íbúð, geti orðið innan tímabils greiðsluaðlögunarumleitana. Megi ætla að sala eða kaup íbúðar muni dragast á langinn eða óvíst sé með öllu hvaða söluverð fáist samþykkt skuli umsjónarmaður síður kveða á um sölu íbúðar samkvæmt fyrrgreindri lagagrein. Umsjónarmaður sé þó ekki bundinn af því að sala fari fram á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og geti mælt fyrir um að sala fari fram einhvern tímann á greiðsluaðlögunartímanum.

Einnig skuli umsjónarmaður almennt síður kveða á um sölu íbúðar skuldara telji hann stærð og staðsetningu íbúðarinnar hæfa skuldara og fjölskyldu hans. Enn fremur skuli litið til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldumeðlimi hans að þurfa að flytja á milli staða með tilliti til starfsstöðva þeirra, skólagöngu og félagslegra aðstæðna. Skuldarinn geti hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Við þær aðstæður hafi lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skuli því almennt ekki gera ráð fyrir sölu íbúðar þegar slíkar aðstæður séu fyrir hendi. Jafnframt beri umsjónarmanni að líta til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi.

Að mati kæranda sé brýnt að umboðsmaður skuldara meti heildstætt þau atriði sem rakin séu í athugasemdum með ákvæði 13. gr. í frumvarpi að lge. þegar hann tekur ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Í þeim athugasemdum sé ítarleg grein gerð fyrir mörgum þáttum sem umsjónarmanni beri að taka tillit til við mat á því hvort skuldara verði gert að afhenda eign sína til sölu. Umsjónarmanni beri einungis að taka slíka ákvörðun að vel ígrunduðu máli en við mat á því beri honum einkum að horfa til þess hvaða áhrif salan kunni að hafa á skuldara og fjölskylduaðstæður hans.

Kærandi telur að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið tekin að vel ígrunduðu máli, enda byggist hún ekki á heildstæðu mati á máli kæranda, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til þeirra þátta sem ákvörðun á grundvelli 13. gr. lge. skuli byggjast á. Ekki verði séð að tekið hafi verið nokkurt tillit til þess hvaða áhrif ákvörðunin kunni að hafa á kæranda. Með sölu fasteignarinnar verði kærandi húsnæðislaus sem muni hafa neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér fyrir hana. Þar sem um íbúðarhúsnæði kæranda sé að ræða en ekki aðrar eignir, svo sem bifreið, verði að telja að með skírskotun til athugasemda í frumvarpi til laganna, séu heimildir umboðsmanns skuldara til sölu slíkra eigna takmarkaðri. Í hinni kærðu ákvörðun sé engin grein gerð fyrir því hvort söluandvirði fasteignarinnar, að frádregnum veðskuldum, tryggi kæranda nýtt húsnæði annað hvort til kaupa eða leigu, og dugi til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

Þá verði ekki séð að í málinu liggi fyrir afstaða kröfuhafa til þess að fasteign kæranda yrði ekki seld, til að mynda hvort það myndi þjóna hagsmunum þeirra að svo yrði ekki gert. Þá liggi ekkert fyrir um það í ákvörðun umboðsmanns skuldara hvort líklegt sé að unnt verði að koma eign kæranda í verð með tilliti til markaðsaðstæðna.

Jafnframt hefði umboðsmanni skuldara borið að gæta þess að söluandvirði fasteignarinnar, að frádregnum veðskuldum, tryggði kæranda nýtt húsnæði annað hvort til kaups eða leigu, og dygði til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekkert minnst á að slíkra sjónarmiða hafi verið gætt og því blasi við að kærandi verði húsnæðislaus, verði ákvörðun umboðsmanns skuldara ekki ómerkt. Eins og fram hafi komið hafi umboðsmanni skuldara borið að taka tillit til þess hvort eign kæranda væri talin hæfa henni, til dæmis varðandi stærð. Ljóst sé að kærandi búi í hóflegu húsnæði og stærð þess sé í samræmi við þarfir hennar.

Kærandi telur að umboðmaður skuldara hafi ekki gætt meðalhófs þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Viðbárur kæranda um að hún telji unnt að standa undir greiðslum afborgana veðskulda þegar [námi] ljúki hafi verið virtar að vettugi. Sá rökstuðningur, sem færður hafi verið fyrir því að ekki skyldi selja fasteign kæranda, mæli alfarið gegn því að umboðsmaður skuldara líti eingöngu til núverandi stöðu á greiðslugetu hennar, enda beri umboðsmanni að líta heildstætt á málavexti alla og taka mið af sjónarmiðum um sanngirni, félagsleg áhrif á kæranda og framtíðarhorfur. Afar líklegt sé að kærandi geti staðið undir afborgunum af áhvílandi veðlánum fái hún áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Þá hafi umboðsmaður skuldara virt að vettugi skýringar kæranda þess efnis að fjárhagur hennar kynni, að hennar mati, að batna eftir [nám] sem áætlað var að myndi ljúka um áramótin 2015/2016.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að umboðsmaður skuldrara hafi hvorki gætt að þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvíli samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né að reglum stjórnsýslulaga um meðalhóf, sbr. 12. gr. laganna.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er greint frá því að við vinnslu málsins hjá umsjónarmanni hafi komið í ljós að greiðslugeta kæranda væri neikvæð um 6.832 krónur í hverjum mánuði. Mánaðarlegar afborganir af fasteignaveðlánum innan matsverðs eignarinnar hafi verið 61.402 krónur og því ljóst að kærandi gæti ekki greitt af þeim lánum. Umboðsmaður skuldara hafi því tekið undir mat umsjónarmanns um að selja þyrfti fasteign kæranda. Í andmælum kæranda hafi komið fram að hún gerði sér vonir um að geta staðið við afborganir eftir að námi lyki áramótin 2015/2016. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal kærandi greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar. Umsjónarmanni hafi því ekki verið fært að kveða á um það í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að kærandi greiddi ekki af veðkröfum fasteignarinnar fyrr en að hún lyki námi að tveim árum liðnum.

Í athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til lge. sé að að finna vísbendingar um inntak greinarinnar og þau sjónarmið sem umsjónarmaður skuli líta til þegar hann taki ákvörðun um sölu eigna umsækjanda. Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. komi hins vegar skýrt fram að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim kröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar. Þegar a-liður 1. mgr. 21. gr. lge. sé skýrður með hliðsjón af 1. mgr. 13. gr. lge. sé ljóst að þegar umsækjandi geti ekki greitt af veðkröfum á tímabili greiðsluaðlögunar sé ekki annað fært en að selja þær eignir sem umsækjandi geti ekki staðið í skilum með afborganir af. Við mat á því hvort umsjónarmaður geti lagt til að umsækjandi haldi eftir fasteign sé nauðsynlegt að grunnskilyrði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. séu til staðar, nánar tiltekið verði að vera skýrt að umsækjandi geti greitt áður ákveðnar afborganir af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar á meðan á greiðsluaðlögunartímabilinu standi. Ljóst sé að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge., en fyrir liggi að hún sé með neikvæða greiðslugetu og hafi umsjónarmanni því hvorki verið heimilt né mögulegt að leggja til að hún héldi eftir fasteigninni. Þau sjónarmið sem fram komi í athugasemdum við 1. mgr. 13. gr. í frumvarpi til lge. komi þannig ekki til skoðunar í tilvikum sem þessum þar sem kærandi sé með neikvæða greiðslugetu.

Við mat á því hvort nauðsynlegt sé að selja fasteign skuldara samkvæmt lge. sé fyrst og fremst litið til greiðslugetu hans. Sé skuldari talinn geta greitt fullar afborganir af áhvílandi veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar eða í það minnsta 60% af þeim, sé metið hvort fasteign skuldara sé hófleg og hvort sanngjarnt og eðlilegt þyki að hann haldi eigninni fyrir sig og fjölskyldu sína. Sé skuldari með neikvæða greiðslugetu, eins og í tilfelli kæranda, komi ofangreint mat ekki til skoðunar þar sem engar forsendur séu fyrir því að skuldari haldi fasteigninni. Umboðsmaður telur rannsóknarskyldu í málinu hafa verið fullnægt, en við vinnslu málsins hjá umsjónarmanni og hjá umboðsmanni skuldara hafi greiðslugeta kæranda verið reiknuð út með nákvæmum hætti á grundvelli framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara og tekna kæranda.

Í ljósi framangreinds og með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og greiðsluaðlögunarumleitunum hennar verði haldið áfram. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Þær falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Því kemur aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfu kæranda þess efnis að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram ber að túlka í samræmi við þetta og kemur sú krafa því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.

Kærandi álítur að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. gr. lge., og að ekki hafi verið gætt meðalhófs þegar hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Rannsóknarregla 5. gr. lge. kveður á um að umboðsmanni skuldara beri að afla allra nauðsynlegra upplýsinga sem hann telur að skipt geti máli varðandi skuldir, eignir tekjur og framferði skuldara áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Stjórnvald þarf því að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna hverjar skuldbindingar umsækjanda um greiðsluaðlögun séu, hver sé greiðslubyrði þeirra, hve mikið hann geti greitt af þeim í mánuði hverjum að framfærslukostnaði frádregnum og hvort selja þurfi eignir. Í málinu liggur fyrir að upplýsinga um greiðslugetu kæranda var aflað til þess að unnt væri að meta hvort selja ætti fasteign hennar, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Af þeim sökum verður ekki fallist á að rannsókn umboðsmanns skuldara hafi verið áfátt.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skuli samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæðinu.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í málinu er óumdeilt að greiðslugeta kæranda var neikvæð um 6.832 krónur á mánuði að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Mánaðarlegar afborganir af fasteignaveðlánum kæranda voru 61.402 krónur á mánuði. Kærandi gat því ekki greitt af veðlánum innan matsverðs fasteignar sem nam 15.000.000 króna á þeim tíma sem hér er miðað við. Í ljósi þessa lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Er þá jafnframt litið til þess að við útreikninga á greiðslubyrði af veðkröfum og greiðslugetu kæranda er ekki unnt að líta til hugsanlegra framtíðartekna hennar, sem alls óvíst er hverjar verða, eins og kærandi telur að borið hafi að gera. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti en að kærandi hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni B. Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Verður enn fremur að telja að við úrlausnina hafi verið byggt á þeim sjónarmiðum sem horfa verður til við slíka úrlausn. Er því ekki fallist á að ákvörðunin hafi verið byggð á röngum forsendum, hún hafi ekki við studd viðhlítandi rökum eða að meðalhófs hafi ekki verið gætt, eins og vísað er til af hálfu kæranda.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum