Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 90/2014

Mál nr. 90/2014

Fimmtudaginn 17. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 27. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. ágúst 2014 þar sem kæranda var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 28. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. september 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. september 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1966. Hún er einhleyp og býr ásamt uppkomnum syni í eigin íbúð að B sem er 100 fermetra íbúð í fjölbýli, ásamt 28 fermetra bílskúr. Kærandi starfar hjá C.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 14. ágúst 2014, eru 51.084.955 krónur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til hækkunar afborgana af fasteignaveðlánum frá árinu 2009. [...] kæranda hafi látist af slysförum sama ár og hafi hún bæði greitt útfararkostnað og orðið fyrir tekjutapi vegna fjarveru frá vinnu vegna þessa.

Kærandi fékk heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010. Samningurinn, sem komst á 16. júlí 2010, var til 48 mánaða og mánaðarlegar greiðslur samkvæmt honum námu 120.000 krónum. Kærandi fékk jafnframt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samningskrafna samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með úrskurði Héraðsdómi Reykjavíkur 24. mars 2010. Sá samningur var einnig til 48 mánaða og tók gildi 1. september 2010. Samkvæmt samningnum skyldi greiðslum frestað í 12 mánuði og eftir það skyldi kærandi greiða 50.000 krónur á mánuði í 36 mánuði. Greiðslubyrði samninganna nam því samtals 170.000 krónum á mánuði.

Kærandi hætti að greiða af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í október 2011 en þá bárust síðustu greiðslur til kröfuhafa. Samningurinn var ógiltur með dómi 14. apríl 2014. Ekki liggur fyrir hvort kærandi greiddi af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar samningskrafna frá og með 1. september 2011, en kærandi hefur ekki mótmælt því að samningurinn hafi farið í vanskil í nóvember 2011.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) 13. maí 2014, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. ágúst 2014 var umsókn hennar hafnað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um greiðsluaðlögun verði felld úr gildi og að henni verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa fengið samþykktan samning um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2009 sem og nauðasamning um samningskröfur. Hinn fyrrnefndi hafi ekki gert ráð fyrir leiðréttingu fasteignaveðlána, eins og greiðsluaðlögunarsamningar samkvæmt lögum nr. 101/2010 geri, og hafi hann nú verið ógiltur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. X.

Kærandi vísar til umsóknar sinnar um greiðsluaðlögun en þar komi fram að hún hafi átt að geta greitt 21.000 krónur á mánuði af skuldbindingum sínum, að teknu tilliti til afborgana af fasteignaveðkröfum, en henni hafi engu að síður verið gert að greiða 50.000 krónur af nauðasamningi um greiðsluaðlögun samningskrafna samkvæmt ákvörðun héraðsdóms. Forsendur samningsins hafi því verið rangar frá upphafi, auk þess sem afborganir af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafi hækkað. Í árslok 2011 hafi kærandi talið vonlaust að greiða af fyrrgreindum samningum og hafi hún því hætt að greiða af þeim. Fasteignaveðskuldir hafi ekki lengur verið í samræmi við verðgildi fasteignar kæranda og hafi hún því talið að höfuðstól fasteignaveðlána þyrfti að leiðrétta. Umboðsmaður kæranda hafi verið í samskiptum við einn kröfuhafa í því skyni að fá slíka leiðréttingu, en fengið þau svör að ekki stæði til að gefa neitt eftir af áhvílandi lánum. Vegna þessa viðhorfs kröfuhafa hafi kæranda verið gert ómögulegt að standa við þær skuldbindingar sem fyrrnefndur nauðasamningur kvað á um, þrátt fyrir að hafa sýnt viðleitni þar um fyrr á árinu 2011. Áhvílandi veðkröfur á fasteign kæranda séu nú rúmar 43.000.000 króna en eignin sé metin á 26.250.000 krónur.

Þegar kærandi hætti að greiða af fyrrgreindum samningum hafi hún talið að hennar biði ekkert nema gjaldþrot. Samningarnir hefðu því ekki gert henni kleift að ráða bót á skuldastöðu sinni í samræmi við markmið laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Kærandi taldi sig ekki geta greitt af báðum samningum, enda væru þeir botnlaus hít, auk þess sem staða fasteignalána væri ekki í neinu samræmi við verðgildi fasteignar kæranda en hún hafi vitað af stórfelldri niðurfærslu höfuðstóls fasteignalána vina sinna sem voru í svipaðri stöðu. Kærandi sé ekki löglærð og hefði ekki verið kunnugt á þessum tíma um að nauðasamningur myndi falla úr gildi með umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010. Greiðsluaðlögunarúrræði hefðu tekið sífelldum breytingum og framsetning á mismunandi samningsúrræðum hefði verið ruglingsleg.

Kærandi telur mat umboðsmanns skuldara þess efnis að hún hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar ekki vera rétt. Um leið og samningur um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafa hafi verið felldur úr gildi hafi kærandi leitað aðstoðar lögfræðings til að meta stöðu sína og síðan sótt umsvifalaust um greiðsluaðlögun á ný. Kærandi telur að beiting f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við, enda séu ekki fyrir hendi atvik í málinu sem kærandi beri ábyrgð á. Þvert á móti hafi henni verið „skammtað“ úrræði sem hafi ekki leyst skuldavanda hennar og hafi hún þannig verið „rekin til að vanefna samninga sem engar forsendur hafi verið fyrir að hún stæði við.“ Viðleitni hennar til að semja við stærsta kröfuhafa fasteignaveðlána hafi reynst árangurslaus. Í greinargerð með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 sé skýrt kveðið á um að sé ljóst að samningur hafi verið óraunhæfur frá upphafi verði að telja að um sérstakar aðstæður sé að ræða. Í ljósi meðalhófsreglu sé ókleift að ætla ólöglærðu fólki að meta stöðu sína í síbreytilegu lagaumhverfi eins og raunin hafi verið á þessum tíma.

Kærandi telur að synjun umboðsmanns skuldara geri henni ókleift að njóta réttarúrræða sem komið hafi verið á fyrir fólk í hennar stöðu og telur hún ekki óhæfilegt að hún fái að njóta sömu úrræða og aðrir skuldarar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hefði ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt.

Árið 2010 hafi kærandi fengið samþykkta samninga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sbr. lög nr. 50/2009, og nauðasamning um greiðsluaðlögun samningskrafna, samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Samkvæmt samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skyldi kærandi greiða 120.000 krónur á mánuði í fjögur ár en í nauðasamningi um greiðsluaðlögun samningskrafna hafi verið kveðið á um greiðslufrest í eitt ár en að því loknu skyldi kærandi greiða 50.000 krónur á mánuði í þrjú ár. Við samningslok yrðu eftirstöðvar samningskrafna felldar niður og hefði kærandi þá greitt 16,5% af samningskröfum. Afborgunarfjárhæðir samkvæmt samningunum hafi verið tengdar launavísitölu.

Samkvæmt skattframtölum kæranda og öðrum gögnum málsins hafi fjárhagur hennar verið eftirfarandi í krónum:

Tekjuár 2011 2012 2013
Tekjur að meðaltali á mánuði* 419.829 386.986 448.723
Mánaðarlegur framfærslukostnaður** 186.248 194.064 202.122
Ráðstöfunartekjur á mánuði 233.581 192.922 246.601
Mánaðarlegar greiðslur af samningum*** 186.248 194.229 205.810
Ráðstöfunartekjur eftir greiðslu af samningnum 47.333 -1.307 40.791

* Tekjur að frádregnum sköttum.

** Framfærslukostnaður miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í júní 2014 og annar kostnaður samkvæmt upplýsingum frá kæranda var alls 204.004 krónur. Framfærslukostnaður er fundinn með því að afturreikna þann kostnað m.v. vísitölu neysluverðs. Miðað er við meðaltal framfærslukostnaðar hvers árs.

*** Greiðslur samkvæmt samningi um tímbundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og nauðasamningi um greiðsluaðlögun samningskrafna, uppreiknað m.v. launavísitölu 2011, 2012 og 2013. Miðað er við meðaltal mánaðarlegrar afborgunar á hverju ári fyrir sig.

Kærandi hafi samkvæmt framangreindu átt að geta greitt af báðum samningum árið 2011 en hún hafi hætt að greiða af þeim í nóvember það ár. Útreikningarnir sýni að árið 2012 hefði henni reynst erfitt að greiða af báðum samningunum en hún hefði þó átt að geta greitt af öðrum þeirra. Árið 2013 hefði kærandi átt að geta greitt af báðum samningum samkvæmt áætluðum mánaðarlegum greiðslum.

Samningur kæranda um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafi verið ógiltur með dómi í apríl 2014 vegna vanskila. Kærandi hafi þá veitt þær skýringar að greiðslur samkvæmt samningnum hefðu hækkað og hafi henni því reynst erfitt að greiða af honum. Þá hafi kærandi talið sig þurfa leiðréttingu á veðlánum en það hafi ekki falist í samningnum.

Kærandi hafi veitt þau svör við fyrirspurn umboðsmanns skuldara um það hvernig hún hefði ráðstafað þeim fjármunum sem hún hafði aflögu eftir greiðslu framfærslukostnaðar að hún hefði varið þeim öllum til framfærslu. Auk þess hefði hún verið í námi um tíma og enn fremur hefði hún ráðstafað 25.000 til 50.000 krónum á mánuði til greiðslu persónulegra skulda. Kærandi sé ekki löglærð og hafi vankunnátta hennar leitt til þess að hún hafi ekki metið stöðu sína með réttum hætti.

Að framangreindu virtu verði að telja að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni þar sem hún hafi hætt að greiða af fyrrgreindum samningum í nóvember 2011, þrátt fyrir að hafa fjárhagslega getu til þess samkvæmt útreikningum embættisins. Kæranda hefði borið að leita lausna strax hefði hún metið það svo að afborganir samkvæmt samningunum væru henni ofviða eða að hún væri að fara á mis við önnur eða betri úrræði í stað þess að hætta að greiða af þeim og aðhafast ekkert í tvö ár. Umboðsmanni skuldara þyki ekki fullnægjandi skýring að kærandi hafi varið fjármunum til náms í stað þess að greiða af fyrrgreindum samningum.

Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur kæranda ekki hafa sýnt fram á hvernig þeim fjármunum, sem voru umfram framfærslukostnað í mánuði hverjum, hafi verið ráðstafað að öðru leyti en því að hún hafi verið í námi 2012-2013. Kærandi hafi þó ekki lagt fram gögn sem sýna fram á útlagðan kostnað vegna námsins eða hvort um hafi verið að ræða nauðsynleg útgjöld í ljósi þess að hún hafi þegar skuldbundið sig til að greiða af tveimur samningum eins og fyrr greinir. Þá hafi kærandi ekki skýrt það hvers vegna hún lét hjá líða að leita annarra úrræða í rúm tvö ár að öðru leyti en því að hún sé ekki löglærð og hafi því ekki haft forsendur til að leggja mat á þau úrræði sem voru í boði.

Embættið vísar til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 181/2012 og 80/2012 um framkvæmd í greiðsluaðlögunarmálum þegar umsóknum sé synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Af þeim verði ráðið að kæranda skuli veitt tækifæri til að sýna fram á ráðstöfun fjármuna og að skýringum kæranda skuli fylgja gögn. Framkomnar skýringar kæranda hafi ekki verið studdar viðhlítandi gögnum og telji embættið kæranda ekki hafa sýnt fram á að hún hafi ekki getað greitt af að minnsta kosti öðrum samningnum.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er f-liður 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Kærandi fékk heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010. Samningurinn, sem komst á 16. júlí 2010, var til 48 mánaða og voru mánaðarlegar greiðslur samkvæmt honum 120.000 krónur með fyrsta gjaldaga 1. ágúst 2010. Afborgunarfjárhæð var bundin við vísitölu launa miðað við 4. júní 2010.

Kærandi hafði einnig fengið heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samningskrafna samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2010. Sá samningur var einnig til 48 mánaða og tók gildi 1. september 2010. Samkvæmt samningnum skyldi greiðslum frestað í 12 mánuði og eftir það skyldi kærandi greiða 50.000 krónur á mánuði í 36 mánuði. Afborgunarfjárhæð var bundin við vísitölu launa miðað við september 2010. Greiðslubyrði samninganna beggja nam því samtals 170.000 krónum á mánuði og skyldu greiðslur hefjast annars vegar 1. ágúst 2010 af fasteignaveðkröfum og hins vegar 1. september 2011 af samningskröfum.

Kærandi hætti að greiða af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en síðustu greiðslur bárust kröfuhöfum í október 2011. Samningurinn var í framhaldinu ógiltur með dómi 14. apríl 2014. Ekki liggur fyrir hvort kærandi hafi greitt af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar 1. september 2011, en samkvæmt gögnum málsins urðu vanskil á þeim samningi í nóvember 2011.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að með því að kærandi hafi hætt að greiða af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í nóvember 2011, þrátt fyrir að hafa fjárhagslega getu til þess, hafi hún látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi kveðst hafa hætt að greiða af framangreindum samningum, annars vegar þar sem hún hafi ekki getað greitt af báðum samningum og hins vegar vegna þess að hún hafi talið að samningarnir myndu ekki leysa úr skuldavanda hennar þar sem ekki var gert ráð fyrir leiðréttingu fasteignaveðlána í tímabundum samningi um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Samkvæmt gögnum málsins hafa tekjur kæranda, útgjöld og greiðslugeta á neðangreindu árabili verið eftirfarandi í krónum:

Tekjuár 2011 2012 2013
Nettótekjur kæranda 5.037.951 4.643.840 5.384.684
Vaxtabætur 35.644 67.132
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 78.584 81.835 0
Tekjur alls 5.116.535 4.761.319 5.451.816
Meðaltekjur á mánuði 426.378 396.777 454.318
Framfærslukostnaður á mán.* 186.248 194.064 202.122
Mánaðarleg greiðslugeta 240.130 202.713 252.196
Árleg greiðslugeta 2.881.560 2.432.556 3.026.352

* Framfærslukostnaður miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í júní 2014 og annar kostnaður samkvæmt upplýsingum frá kæranda var alls 204.004 krónur. Framfærslukostnaður er fundinn með því að afturreikna þann kostnað m.v. vísitölu neysluverðs. Miðað er við meðaltal framfærslukostnaðar hvers árs.

Eins og að framan er rakið var samanlögð greiðslubyrði nauðasamninga kæranda 170.000 krónur á mánuði og áttu afborganir að breytast í samræmi við vísitölu launa. Áætlaðar afborganir miðað við vísitölu launa eru 185.576 krónur að meðaltali á mánuði árið 2011, 194.229 krónur að meðaltali á mánuði árið 2012 og 205.810 krónur að meðaltali á mánuði árið 2013. Kærandi hafði því greiðslugetu til að standa við báða samningana á árunum 2011 til 2013 samkvæmt þeim útreikningum sem fram koma í framangreindri töflu. Með vísan til þessa verður að hafna þeim staðhæfingum kæranda að engar forsendur hafi verið fyrir því að hún gæti staðið við samningana.

Að mati kærunefndarinnar þykir ljóst, með vísan til framangreindra útreikninga, að kærandi hafi haft fjárhagslega burði til að greiða af báðum nauðasamningum sínum þegar vanskil hófust í nóvember 2011 og allt til loka ársins 2013. Þar sem kærandi stóð ekki við umrædda samninga gat ekki komið til leiðréttingar fasteignaveðlána samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Hefur þetta atriði því ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður fallist á það með umboðsmanni skuldara að rétt hafi verið að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í samræmi við það ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum