Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 102/2014

Mál nr. 102/2014

Fimmtudaginn 1. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 17. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. september 2014 þar sem kærendum var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 23. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. október 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 22. október 2014 og voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. október 2014. Frekari athugasemdir bárust síðan frá kærendum 1. júní 2015 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 23. júní 2015. Ekki bárust fleiri athugasemdir.

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1974 og eru í hjúskap. Þau búa í leiguhúsnæði að C ásamt tveimur börnum sínum sem eru fædd X og X. Kærendur eiga 118 fermetra íbúð að D sem þau leigja út.

Kærandi A er [...] og starfar hjá E. Kærandi B er [...] og starfar hjá F. Auk launatekna fá kærendur leigutekjur og barnabætur.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 4. september 2014, eru 57.160.814 krónur.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis en kæranda A hafi verið sagt upp störfum hjá G snemma árs 2008. Þá hafi hann fengið vinnu hjá H en einnig misst vinnuna þar í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Áður en hann hóf störf hjá E í X 2012 hafi hann starfað hjá tveimur fyrirtækjum en ekki fengið fullar launagreiðslur frá þeim og eigi hann inni vangoldin laun að fjárhæð 700.000 krónur hjá öðru fyrirtækinu.

Kærendur fengu samning um sértæka skuldaaðlögun hjá viðskiptabanka sínum 4. apríl 2012 og töldu sig geta staðið við hann yrðu vangoldin laun kæranda A greidd. Þar sem þau hafi ekki fengist greidd hafi þau ekki getað greitt af samningnum.

Kærendur sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 28. febrúar 2014, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. september 2014 var umsókn þeirra hafnað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir því að niðurstaða umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur óska eftir sértækri skuldaaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Þau séu ekki sammála embættinu um að þau hafi haft góða greiðslugetu og þau vilji koma skuldamálum sínum í lag. Kærendur kveðast vera í miklum vanskilum með skuldbindingar sínar og hafi þau ekki vitað hvar best væri að byrja eða hver samningsstaða þeirra væri. Þau hafi leitað til viðskiptabanka síns, fjármálaráðgjafa og loks umboðsmanns skuldara til að fá aðstoð en án árangurs. Þá þyki kærendum skjóta skökku við að ekki sé tekið tillit til veikinda sem upp hafi komið í fjölskyldunni, en móðir annars kæranda hafi veikst alvarlega í X 2012 og í kjölfarið hafi J fengið slæmt andlegt áfall. Slíkt ástand taki alla orku og getu frá fólki til að vinna í flóknum málum eins og fjármálum. Kærendur kveðast nú bæði vera komin í stöðuga vinnu eftir erfitt atvinnuástand hjá kæranda A.

Kærendur kveðast hafa fengið samning um sértæka skuldaaðlögun hjá viðskiptabanka sínum og hefðu þau átt að halda bíl og íbúð samkvæmt honum. Eftir tvo mánuði hafi þeim orðið ljóst að tekjur þeirra hefðu verið misreiknaðar og þau því óskað eftir leiðréttingu en án árangurs. Af þeim sökum hafi þau leitað til fjármálaráðgjafa. Kærendur kveðast ekki hafa fjárráð til að óska eftir að bú þeirra verði tekið til gjaldþrotaskipta eins og þeim hafi verið ráðlagt.

Í athugasemdum kærenda frá 1. júní 2015 kemur fram að aðstæður þeirra hafi breyst umtalsvert. Þeim hafi verið ráðlagt af fjármálaráðgjafa sínum að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu og jafnframt að flytja úr íbúð sinni og fara í leiguhúsnæði. Þau hafi farið að ráðum ráðgjafans og flutt úr íbúðinni en lítið hafi verið um leiguhúsnæði í K. J hafi verið í sálfræðimeðferð á vegum K vegna veikinda sinna og að mati kærenda hafi hann ekki ráðið við meiri breytingar að sinni. Kærendur hafi því tekið of dýra eign á leigu og hafi það verið þeirra versta ákvörðun. Íbúð þeirra hafi síðan verið seld nauðungarsölu haustið 2014 en kærendur hafi ekki getað samið um að leigja hana áfram þar sem þau hafi ekki búið í henni þegar hún var seld. Í nóvember 2014 hafi kærendur „misst bílinn“ sem hafi verið seldur á undirverði og eftirstöðvar af bílaláni hafi numið 800.000 krónum.

Kærendur kveðast vera í sömu stöðu og þegar þau hafi upphaflega leitað eftir aðstoð hjá viðskiptabanka sínum. Þar hafi þau fengið röng svör og sitji því uppi með afleiðingarnar. Þau séu nú komin í ódýrara húsnæði en óvíst sé hversu lengi. Þá hafi kærendur nú þegar þurft að flytja tvisvar á rúmu ári og J taki flutningunum mjög illa. Kærendur hafi greitt upp ýmsar skuldir, en kostnaður vegna vanskila sé svo hár að greiðslur fari að mestu í þann kostnað og skuldir lækki því lítið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Samkvæmt gögnum málsins hafi tekjur kærenda, útgjöld og geta til að greiða af skuldbindingum sínum verið eftirfarandi í krónum á neðangreindu árabili:

Tekjuár 2012 2013
Meðaltekjur kærenda á mánuði 705.528 740.951
Framfærslukostnaður á mánuði* 278.220 296.769
Annar kostnaður** 66.000 66.000
Kostnaður alls 344.220 362.769
Mánaðarleg greiðslugeta 361.308 378.182

*Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir hjón með tvö börn á framfæri 2012 og 2013.

**Fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld, hússjóður, tryggingar, rafmagn, hiti, dagvistunarkostnaður o.fl.

Í samningi kærenda um sértæka skuldaaðlögun hafi verið lagt til grundvallar að mánaðartekjur kærenda eftir greiðslu skatta væru 617.329 krónur, kostnaður vegna framfærslu væri 347.500 krónur á mánuði og að kærendur hefðu því 269.829 krónur aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum.

Áhvílandi veðkröfur á fasteign kærenda nemi samtals 48.621.040 krónum en samkvæmt samningi um sértæka skuldaaðlögun hafi greiðslubyrði lánanna numið 245.244 krónum á mánuði árið 2012. Þrátt fyrir að kærendur hefðu átt að hafa næga fjármuni aflögu til að greiða af veðkröfunum séu veðlán þeirra í vanskilum frá 2012.

Kærendur hefðu enn fremur leigt út eigin eign að D fyrir 240.000 krónur á mánuði og í staðinn leigt raðhús að C á 300.000 krónur á mánuði. Þetta hefðu þau gert samkvæmt ráðleggingum fjármálaráðgjafa þar sem íbúð þeirra væri yfirveðsett og í nauðungarsöluferli. Með þessu telji embættið að kærendur hafi minnkað það fé sem þau höfðu aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum um 60.000 krónur á mánuði.

Embættið vefengi ekki að kærendur hafi verið í góðri trú þegar þau gerðu þessar ráðstafanir en ekki verði hjá því komist að líta til þess hve háa fjárhæð þau höfðu aflögu í hverjum mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum. Ekkert hafi verið greitt af veðkröfum eða bílaláni og ekki verði ráðið af orðum kærenda að þau eigi nokkurn sparnað.

Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er f-liður 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. með því að hætta að greiða af samningi um sértæka skuldaaðlögun hjá Íslandsbanka hf. í september 2012, með því að greiða hærri fjárhæð í húsaleigu en þau höfðu í leigutekjur á móti og með því að hafa ekki greitt af skuldbindingum sínum eða leggja til hliðar fjármuni árin 2012 og 2013, þrátt fyrir að hafa þá aflögu.

Í gögnum málsins kemur fram að kærendur hafi ekki talið sig geta greitt umsamdar greiðslur af samningi um sértæka skuldaaðlögun, en samkvæmt samningnum skyldu þau greiða 269.829 krónur á mánuði. Greiðslur skyldu hefjast 1. júlí 2012 en síðasta greiðslan skyldi innt af hendi 1. júní 2015. Mánaðarlegar greiðslur skyldu haldast óbreyttar út samningstímabilið og að samningstíma loknum skyldu kröfuhafar fella niður alls 12.962.418 krónur, yrði staðið við samninginn. Kærendur hafi aðeins greitt tvær greiðslur af samningnum, í júlí og ágúst 2012, en honum hafi að endingu verið rift af hálfu kröfuhafa í apríl 2013. Kærendur hafi vísað til þess að samningurinn hafi ekki tekið til allra skulda þeirra, til að mynda hafi skuld vegna greiðslukorts og lífeyrissjóðslán með lánsveði fallið utan hans.

Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kærenda, útgjöld og greiðslugeta á neðangreindu árabili eftirfarandi í krónum:

Tekjuár 2012 2013
Tekjur kærenda eftir greiðslu skatta 7.845.427 8.797.519
Vaxtabætur 343.190 0
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 255.064 0
Barnabætur 0 55.784
Tekjur alls 8.443.681 8.853.303
Meðaltekjur á mánuði 703.640 737.775
Framfærslukostnaður á mánuði* 344.220 362.769
Mánaðarleg greiðslugeta 359.420 375.006
Greiðslubyrði samnings 269.829 269.829
Til ráðstöfunar 89.591 105.177

*Miðað er við framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir júní 2012 og júní 2013 og önnur gjöld samkvæmt upplýsingum frá kærendum.

Samkvæmt framangreindum útreikningum hefðu kærendur haft 89.591 krónur aflögu á mánuði árið 2012 þegar þau væru búin að greiða af samningi um sértæka skuldaaðlögun og áætlaðan framfærslukostnað. Árið 2013 hefðu þau átt 105.177 krónur aflögu á mánuði miðað við sömu forsendur.

Í fyrirliggjandi samkomulagi um sértæka skuldaaðlögun var gert ráð fyrir frystingu fjögurra lána kærenda hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem voru með lánsveði, í þrjú ár frá gildistöku samningsins. Í samkomulaginu kemur einnig fram að það taki hvorki til nýtilkomins láns frá Borgun hf. að fjárhæð 124.900 krónur né greiðslukortaskuldar hjá Arion banka hf. að fjárhæð 184.542 krónur. Því verður að telja að samningsskilmálar hafi legið fyrir frá upphafi og að kærendur hafi gengið að samningnum í fyrrgreindum búningi. Auk þess er ljóst að kærendur höfðu svigrúm til greiðslu annarra skulda eins og fram hefur komið.

Af gögnum málsins er ekki að sjá að kærendur hafi greitt inn á skuldir vegna greiðslukorta en 4. júní 2013 greiddu þau 99.843 krónur inn á skuld vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0544-26-110466. Af fyrirliggjandi gögnum má því ráða að kærendur hafi greitt samtals 130.745 krónur af skuldbindingum sínum árin 2012 og 2013. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna fram á frekari greiðslur á þessum tíma.

Kærunefndin telur með vísan til framangreindra útreikninga að kærendur hafi haft fjárhagslega burði til að greiða af samningi við viðskiptabanka sinn um sértæka skuldaaðlögun frá 4. apríl 2012.

Í ljósi þess, sem að framan greinir, verður fallist á það með umboðsmanni skuldara að rétt hafi verið að synja umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til þess að þau hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að láta hjá líða frá september 2012 að greiða af fyrrnefndum samningi. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A og B um greiðsluaðlögun er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum