Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 300/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 300/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18060026 og KNU18060027

Beiðni […], […] og barna þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 10. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. janúar 2018, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast vera ríkisborgarar Íraks og heita […], vera fæddur […], (hér eftir M), […], vera fædd […], (hér eftir K) og barna þeirra, […], fd. […], (hér eftir A) og […], fd. […], (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 16. apríl 2018. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 23. apríl 2018. Beiðni kærenda var synjað af kærunefnd þann 26. maí 2018. Þann 13. júní sl. barst kærunefnd endurupptökubeiðni kærenda. Þann 18. júní sl. bárust kærunefnd auk þess upplýsingar frá Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kærenda.

II. Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kærenda um endurupptöku er byggt á því að börn M og K uppfylli skilyrði ákvæðis I til bráðabirgða í lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016, og því beri að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Þann 29. september 2017 tóku gildi lög nr. 81/2017 sem bættu tveimur ákvæðum til bráðabirgða við lög um útlendinga nr. 80/2016. Í 1. málsl. ákvæðis I til bráðabirgða segir að þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli miða við níu mánuði í stað 12 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Í ljósi framangreindra reglna og þess að kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd þann 13. september 2017 og hafa dvalið samfellt hér á landi síðan er það mat kærunefndar að tilefni sé til þess að skoða mál kærenda aftur í ljósi breyttra aðstæðna sem uppi eru í málinu. Kærunefnd fellst því á að mál A og B verði endurupptekin hjá nefndinni á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verða mál M og K jafnframt endurupptekin.

Umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Í 1. málsl. ákvæðis I til bráðabirgða, sbr. lög nr. 81/2017, segir að þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli miða við níu mánuði í stað 12 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Kærendur M og K og börn þeirra A og B lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. september 2017 og eru þau enn hér á landi. Kærendur hafa því verið hér á landi í rúmlega níu mánuði og hafa ekki yfirgefið landið. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málsins fyrir stjórnvöldum, m.a. upplýsingar frá Útlendingastofnun, og verða kærendur ekki taldir bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði I til bráðabirgða við lögin, í máli barna kærenda eru því uppfyllt. Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál barnanna A og B og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til efnismeðferðar. Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2017 er það niðurstaða kærunefndar að endurupptaka jafnframt mál foreldranna M og K og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði I til bráðabirgða við lögin. 

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kærenda. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra.Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

The appellants’ request for re-examination of their case is granted.

The Directorate of Immigration shall examine the merits of the appellants’ applications for international protection in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Erna Kristín Blöndal                                                                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum