Hoppa yfir valmynd

628/2016. Úrskurður frá 6. júlí 2016

Úrskurður

Hinn 6. júlí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 628/2016 í máli nr. ÚNU 16060013.

Beiðni um frestun réttaráhrifa og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 20. júní 2016, sendi A, f.h. Endurmenntunar Háskóla Íslands, kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 622/2016 sem kveðinn var upp 7. júní 2016. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að Endurmenntun Háskóla Íslands bæri að veita B aðgang að fyrri hluta prófs í námskeiðinu Ferðaþjónusta, áhrif ferðamennsku og umhverfi, sem lagt var fyrir 11. desember 2014. Í málinu taldi úrskurðarnefndin að ekki væri lagaheimild til að undanþiggja umbeðinn prófhluta upplýsingarétti almennings og að 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga gæti ekki átt við um prófhlutann þar sem ekki stæði til að leggja hann fyrir aftur. Því væri ekki um að ræða fyrirhugað próf í skilningi ákvæðisins.

Í bréfi Endurmenntunar Háskóla Íslands kemur fram að farið sé fram á frestun réttaráhrifa í ljósi þess að verði fyrri hluti prófsins afhentur væri um að ræða það stóran hluta af viðkomandi gagnabanka að í raun mætti jafna því við afhendingu fyrirhugaðs prófs. 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 21. júní 2016, var B gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kröfuna. Í svari hennar, dags. 22. júní 2016, kemur meðal annars fram að Endurmenntun Háskóla Íslands hafi fallist á að veita fyrrum nemanda í námskeiðinu aðgang að prófinu. Þá hafi Endurmenntun Háskóla Íslands ekki fært fram nein rök í málinu sem ekki hafi legið fyrir þegar úrskurður nr. 622/2016 var kveðinn upp. Er því mótmælt að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagt fyrir stjórnvald eða annan aðila að veita aðgang að gögnum geti hún, að kröfu viðkomandi, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til. Krafa þess efnis skal berast úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa Endurmenntunar Háskóla Íslands um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. 622/2016 barst innan þessa tímafrests.

Í athugasemdum við 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í frumvarpi því sem varð að lögunum segir m.a.:

„Í 1. mgr. 24. gr. er lagt til að lögbundin verði heimild fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar þegar nefndin hefur úrskurðað að aðgang skuli veita að upplýsingum. Sá sem úrskurður beinist gegn getur þá gert kröfu þess efnis með það fyrir augum að bera ágreiningsefnið undir dómstóla. Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á“.

 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar að með heimildarákvæðinu séu fyrst og fremst höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 557/2015 og 575/2015, en úrskurða nr. A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B, A-277/2008B, A-328B/2010 B-438/2012 og B-442/2012 um ákvæði 18. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í úrskurði sínum nr. 622/2016 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til að undanþiggja umbeðinn prófhluta upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem ekki væri um að ræða fyrirhugað próf. Rökstuðningur Endurmenntunar Háskóla Íslands fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðarins er sá að verði umbeðinn hluti prófsins afhentur sé um að ræða það stóran hluta af viðkomandi gagnabanka að í raun megi jafna því við afhendingu fyrirhugaðs prófs. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur ekkert komið fram er breytir því sem fram kemur í tilvitnuðum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi afhendingu prófhlutans. Þá er og til þess að líta að ákvæði 5. tölul. 10. gr. geymir undanþágu frá upplýsingarétti almennings og ber því að túlka ákvæðið þröngt. Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðarframkvæmd lagt það til grundvallar að próf, sem lagt hefur verið fyrir, verði ekki undanskilið upplýsingarétti á grundvelli ákvæðisins nema fyrirhugað sé að leggja nákvæmlega sömu spurningar fyrir þá sem þreyta sams konar próf síðar, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum A-73/1999 og A-160/2003. Því hefur ekki verið borið við að til standi að leggja umrætt próf fyrir aftur.

Samkvæmt framangreindu er kröfu Endurmenntunar Háskóla Íslands um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 622/2016, frá 7. júní 2016, hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu Endurmenntunar Háskóla Íslands, um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar nr. 622/2016, frá 7. júní 2016, er hafnað.


Þorgeir Ingi Njálsson

varaformaður


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum