Hoppa yfir valmynd

629/2016. Úrskurður frá 29. júlí 2016

Úrskurður

Hinn 29. júlí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 629/2016 í máli ÚNU 14060003.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 17. júní 2014 kærði A synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda dags. 26. maí 2014 um afrit allra skjala sem varði greiðslur af viðskiptakorti Isavia fyrir utanlandsferðir stjórnar og framkvæmdstjórnar Isavia, þar með talinna endurrita af viðskiptayfirliti Icelandair á árunum 2010-2014 og upplýsingar um ferðir stjórnenda Isavia á sama tímabili, t.d. hverjir hafi farið í tilteknar ferðir sem taldar væru fram á viðskiptayfirliti Icelandair og snerti stjórn eða stjórnendur Isavia, hvenær þær ferðir sem viðskiptayfirlitið nær til voru farnar, hvert, hver áfangastaðurinn var og hvenær viðkomandi sneri aftur til landsins.

Isavia synjaði beiðni kæranda þann 28. maí 2014. Í rökstuðningi Isavia fyrir synjun á beiðni kæranda er vísað til þess að upplýsingalög nr. 140/2012 veiti, hvað Isavia varði, einungis aðgang að gögnum í vörslum félagsins sem orðið hafi til eftir 1. júlí 2012, auk þess sem upplýsingar um greiðslur af viðskiptakorti varði fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Isavia og séu upplýsingarnar því undanþegnar upplýsingarétti skv. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá séu samantekin gögn um ferðir einstakra starfsmanna eða stjórnarmanna félagsins ekki fyrirliggjandi hjá Isavia.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 5. október 2015 var kæra kæranda kynnt Isavia og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði afhent afrit umbeðinna gagna í trúnaði.

Í umsögn Isavia dags. 12. október er vísað til fyrri rökstuðnings og tekið fram að upplýsingalög veiti einungis aðgang að gögnum í vörslum Isavia sem orðið hafi til eftir 1. júlí 2013. Í umsögninni er áréttað að félagið hafi hvorki tekið saman skjöl eða skjal um utanlandsferðir stjórnar og framkvæmdastjórnar félagsins né greiðslur af viðskiptakorti fyrir slíkar ferðir. Þá hafi heldur ekki verið tekin saman skjöl eða skjal um það hverjir hafi farið hvert og hvenær. Tekið er fram að Isavia sé ekki skylt að taka saman gögn úr bókhaldi sem ekki hafi þegar verið tekin saman, sbr. t.d. A-459/2012.

Með erindi dags. 19. október 2015 var umsögn Isavia kynnt kæranda og veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Með erindi dags. 14. júní 2016 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari skýringum á því hvort sá rökstuðningur Isavia að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi ætti einnig við um viðskiptayfirlit Icelandair. Svar Isavia barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti dags. 23. júní 2016. Þar kemur fram að ekki sé til að dreifa viðskiptayfirliti vegna viðskipta við Icelandair um farmiðakaup, hvorki vegna stjórnenda né annarra starfsmanna félagsins og ekki hafi verið tekin saman sérstök gögn um þessi kaup.

Meðferð málsins hefur dregist óhæfilega af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna mistaka við skráningu kæru. Biðst nefndin velvirðingar á því.

Niðurstaða 

1.

Með 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 var gildissvið upplýsingalaga víkkað á þann hátt að lögin tækju til allrar starfsemi lögaðila sem væru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laganna gilda ákvæði þeirra aðeins um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila skv. 2. mgr. 2. gr. sem urðu til eftir gildistöku laganna, nema þegar viðkomandi lögaðila hafi verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun. Af ákvæði 3. mgr. 35. gr. leiðir að í máli þessu nær réttur kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum Isavia aðeins til þeirra gagna sem til urðu eftir að lög nr. 140/2012 tóku gildi, þ.e. frá og með 1. janúar 2013. Verður því að vísa kæru frá úrskurðarnefndinni hvað varðar þann hluta gagnabeiðninnar sem snýr að gögnum sem urðu til fyrir 1. janúar 2013. 

2.

Í málinu reynir á rétt kæranda til upplýsinga á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings en samkvæmt ákvæðinu er skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en upplýsingalög skylda ekki þá sem undir lögin heyra til að útbúa ný skjöl eða gögn í ríkara mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Í umsögn Isavia um kæruna er tekið fram að ekki séu fyrirliggjandi gögn um utanlandsferðir æðstu stjórnenda eða greiðslur af viðskiptakorti fyrir slíkar ferðir. Þá hafi ekki verið tekin saman gögn um ferðir einstakra starfsmanna eða stjórnarmanna félagsins. Isavia hefur auk þess upplýst að viðskiptayfirlit vegna viðskipta við Icelandair sé ekki fyrirliggjandi hjá félaginu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar Isavia. Með vísan til þessa liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því verður að vísa frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru vegna synjunar á afhendingu afrita af öllum skjölum sem varða greiðslur af viðskiptakorti Isavia fyrir utanlandsferðir stjórnar og framkvæmdstjórnar Isavia, þar með talinna endurrita af viðskiptayfirliti Icelandair og upplýsingar um ferðir stjórnenda Isavia.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 17. júní 2014, á hendur Isavia ohf.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum