Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 299/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 299/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030056

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Frakklands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 22. janúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu hvergi verið skráð. Þar sem kærandi var með vegabréfsáritun til Frakklands var þann 27. janúar 2017 send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 31. janúar 2017 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Frakklands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 29. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 5. apríl 2017. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu þann 15. maí sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Frakklands. Lagt var til grundvallar að Frakkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Frakklands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi greint frá því í viðtali að hann óttist að fyrrverandi vinur hans geti sent einhvern til Frakklands til að ná í sig. Var það mat Útlendingastofnunar að frönsk lögregluyfirvöld séu fyllilega í stakk búin til að verja kæranda en engin gögn voru lögð fram sem bendi til annars.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi glímt við andleg vandamál frá árinu [...]. Kærandi hafi reynt að leita sér aðstoðar en það hafi reynst þrautinni þyngri vegna menningarlegra hindrana, [...]. Kærandi kvaðst ekki vilja fara aftur til Frakklands en hann hafi aðeins komið þangað einu sinni og dvalið þar vikulangt. Kærandi þekki ekki til í hæliskerfi landsins og geti ekki farið þangað aftur vegna fjölda [...] þar í landi. Kærandi hafi átt vin í [...] sem hafi komið honum ítrekað í vandræði. Kærandi sé þess fullviss að vinurinn gæti sent einhvern á eftir honum til Frakklands. Vinur kæranda hafi lamið kæranda og sé til alls líklegur.

Fram kemur í greinargerð kæranda að aðalkrafa hans um að málið verði tekið til efnismeðferðar og að hann verði ekki sendur aftur til Frakklands byggi aðallega á því að þangað megi ekki senda hann vegna non-refoulement reglu þjóðarréttar. Byggt sé á því að kærandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, m.a. óbeint vegna væntanlegrar framsendingar hans frá Frakklandi til [...]. Samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga megi ekki senda útlending til svæðis þar sem hann sé í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð annars vegar og hins vegar þangað þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Hin kærða ákvörðun sé byggð á ákvæði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af hálfu kæranda er því haldið fram að þrátt fyrir að til greina komi að mál hans falli undir fyrrnefnt ákvæði á grundvelli vegabréfsáritunar sé ótækt að beita heimildinni í tilviki kæranda. Þvert á móti njóti hann verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarregluna um non-refoulement. Þá kveði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd en ekki skyldu. Verði ekki fallist á framangreint er byggt á því í greinargerð að taka skuli mál kæranda til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Í greinargerð kæranda er bent á að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem beri ábyrgð. Það fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, frá desember 2015. Þar komi meðal annars fram að nýlegir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafi skýrt að það sé ekki nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Fram kemur í greinargerð að nýlega hafi verið gerðar margvíslegar breytingar á hæliskerfinu í Frakklandi og sem dæmi þurfi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki lengur að gefa upp heimilisfang í tengslum við umsókn um alþjóðlega vernd. Skráð heimilisfang sé hins vegar til þess fallið að tryggja að umsækjendum um alþjóðlega vernd berist allar tilkynningar frá stjórnvöldum, þar sem samskipti milli stjórnvalda og umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi fari fram með bréfpósti. Þá segir í greinargerð að þrátt fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á húsnæði á vegum yfirvalda, hafi stjórnvöld ekki getað séð öllum fyrir húsnæði undanfarin misseri. Fjöldi móttökumiðstöðva sé ekki nægjanlegur svo unnt sé að veita öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd aðgang að húsnæði í samræmi við móttökutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/33. Þeim sem ekki komast að í móttökumiðstöðvum sé komið fyrir í neyðarhúsnæði eða þeir neyðist til að búa á götunni.

Í greinargerð kæranda er fjallað um þá lögfræðiaðstoð sem umsækjendum um alþjóðlega vernd í Frakklandi er veitt og vísað í alþjóðlegar skýrslur því til stuðnings. Fram kemur í greinargerð að samkvæmt frönskum lögum hvíli ekki skylda á stjórnvöldum til að útvega umsækjendum um alþjóðlega vernd ókeypis túlka- og/eða lögfræðiþjónustu í tengslum við umsókn um alþjóðlega vernd. Þá hafi umsækjendum um alþjóðlega vernd verið mismunað eftir búsetu þegar komi að lögfræðiaðstoð. Vísað er til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi skv. 19. gr. og 2. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um málsmeðferð nr. 2013/32 rétt á ókeypis lögfræðiráðgjöf á fyrsta stigi málsmeðferðar. Þá beri stjórnvöldum að veita lögfræðiaðstoð án endurgjalds á kærustigi sé þess óskað sbr. m.a. 23. lið inngangsorða og 1. mgr. 20 gr. tilskipunarinnar.

Þá er bent á að innflytjendur í Frakklandi glími við mismunun og ofbeldi í Frakklandi sökum uppruna síns. Í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása í Frakklandi hafi ofbeldi gagnvart innflytjendum, sérstaklega múslimum, aukist mikið. Í greinargerð kæranda er einnig fjallað um samband heimaríkis kæranda og Frakklands, m.a. [...]. Fram kemur í greinargerð kæranda að undanfarin ár hafi Frakkland fengið fjölmarga áfellisdóma á sig frá Mannréttindadómstól Evrópu sem snúi margir að brotum franska ríkisins gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu vegna endursendinga, frávísana og brottvísana erlendra ríkisborgara. [...]. Málin séu að mörgu leyti lík og sýni seinni dómurinn einbeittan brotavilja franska ríkisins. Kærandi vísar einnig til dóms Mannréttindadómstólsins frá 15. janúar 2015 varðandi umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Súdan sem sýni að mati kæranda að frönsk yfirvöld hiki ekki við að senda viðkvæman hóp einstaklinga aftur í hættu. Framangreindir dómar sýni að mati kæranda opinbera stefnu stjórnvalda í Frakklandi sem ekki megi setja til hliðar með almennum fullyrðingum um að Frakkland sé bundið af alþjóðlegum mannréttindasamningnum. Fram kemur í greinargerð að kærandi glími við andleg vandamál vegna ofbeldis sem hann hafi orðið fyrir í [...] og sé farinn að ganga til sálfræðings hérlendis vegna þessa. Með vísan til alls sem fram hafi komið sé á því byggt að í máli hans sé ótvírætt fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka beiðni kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Varðandi varakröfu kæranda er því haldið fram af hálfu kæranda að niðurstöður Útlendingastofnunar séu ekki studdar nægilegum gögnum. Í greinargerð kæranda hafi verið vísað í fjölmargar heimildir sem hreki í mikilvægum atriðum rökstuðning Útlendingastofnunar og sýni að nákvæmari rannsóknar sé þörf. Með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsókn stjórnvalds og 22. gr. sömu laga um efni rökstuðnings, verði að gera þá kröfu að Útlendingastofnun vísi ítarlega til heimilda máli sínu til stuðnings. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðunum eins og raun beri vitni í máli kæranda. Þá bendi tilvísun Útlendingastofnunar til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli sem sé ekki í neinu tilliti sambærilegt við mál kæranda til þess að stofnunin hafi alls ekki framkvæmt hið ítarlega einstaklingsbundna mat sem henni bar að gera. Þá verði að telja það alvarlegan ágalla á rökstuðningi Útlendingastofnunar að stofnunin taki enga formlega og rökstudda afstöðu til þess hvers vegna kærandi teljist ekki vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem gæti haft úrslitaáhrif á það hvort beita skuli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af hálfu kæranda er því haldið fram að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga um að við ákvörðun skuli stjórnvald rannsaka mál í þaula. Í rannsóknarreglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess af eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Því er byggt á því í máli kæranda, verði ekki fallist á aðalkröfu, að við ákvarðanatöku í máli hans hafi svo gróflega verið brotið gegn framgreindri rannsóknarreglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina og taka umsókn hans til meðferðar hjá Útlendingastofnun að nýju.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Frakklands er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Frakklands.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæði sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstól Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 31. desember 2016);

· Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015);

· France 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016);

· Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012);

· Amnesty International Report 2016/17 – France (Amnesty International, 21. febrúar 2017);

· Freedom in the World 2017 – France (Freedom House, 15. apríl 2017);

· First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015);

· Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 september 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015) og

· Country Report on Human Rights Practises for 2016 (U.S. Department of State, 3. mars 2017).

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi má ráða að umsækjendur geta sótt um vernd á landamærum Frakklands eða inni í landinu. Þá eiga umsækjendur í Frakklandi rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l'Immigration et l'Intégration). Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d'asile). Þeir umsækjendur sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu í máli sínu eiga jafnframt möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Gögn málsins benda til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eigi möguleika á því að fá annaðhvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðsstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum, sbr. m.a. skýrsla Asylum Information Database, Country Report: France (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015) og fá slíka þjónustu m.a. í móttökumiðstöðvum. Þá fer í öllum tilvikum fram mat á því hvort umsækjandi teljist vera einstaklingur í viðkvæmri stöðu.

Þá er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ljóst að frönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Umsækjendur eiga rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l'Immigration et l'Intégration). Á kærustigi geta umsækjendur sótt um að fá lögfræðiaðstoð greidda af frönskum yfirvöldum. Slíkar umsóknir eru að jafnaði samþykktar að þeim skilyrðum uppfylltum að umsókn sé ekki talin vera bersýnilega tilhæfulaus. Sé umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd um lögfræðiaðstoð á kærustigi hafnað getur hann kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi hefur greint frá því að hann óttist að maður, sem hafi ítrekað komið honum í vandræði í heimaríki sínu, sendi einhvern á eftir honum til Frakklands. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að kærandi geti leitað aðstoðar og verndar lögreglu í Frakklandi sé þess þörf.

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fólk með geðraskanir eða geðfötlun, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Fram hefur komið í málinu að kærandi kveðst hafa átt við andlega erfiðleika að etja frá árinu [...] og sé í sálfræðimeðferð hérlendis. Í læknisfræðilegum gögnum málsins kemur fram að hann eigi erfitt með [...] vanlíðunar og líði illa í húsnæðinu þar sem hann hefur aðsetur. Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem þau andlegu veikindi sem kærandi hefur lýst ná ekki þeim alvarleikaþröskuldi sem framangreint ákvæði gerir kröfu um. Þó er tekið tillit til þess við meðferð málsins að kærandi glími við andleg veikindi.

Af framangreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi kemur fram að umsækjendur eiga rétt á því að fá [...] greidda af yfirvöldum. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Frakklands um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Frakklandi, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Það er því mat kærunefndar, að teknu sérstöku tilliti til kæranda, þar á meðal í ljósi [...] hans, að endursending kæranda til Frakklands sé ekki í andstöðu við 42. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi aðstæðna í Frakklandi og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. febrúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 22. janúar 2017.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að hafa ekki ekki stutt niðurstöðu sína með nægum gögnum. Kærunefnd tekur fram að ekki fáist annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi byggt á nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður í Frakklandi. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Eins og að framan greinir tekur kærunefnd undir það, sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar um aðstæður í Frakklandi, og telur ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn málsins er þetta varðar. Það er jafnframt mat kærunefndar að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því hvort rétt væri að synja kæranda um efnismeðferð og helstu málsatvikum sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærunefnd því ekki tilefni til að gera athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar í málinu. Varakröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju er því hafnað.

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum