Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 145/2013

Fimmtudaginn 8. október 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 24. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. nóvember 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust 13. desember 2013.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1973. Þau eru í sambúð og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin 137,8 fermetra íbúð með bílskúr að D götu nr. 6 í sveitarfélaginu E. Kærandi A er með eigin rekstur og framkvæmdastjóri X ehf. en kærandi B stundar hárgreiðslustörf heima við.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 65.295.832 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2005.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, meiðsla vegna slyss og áfalla í rekstri fyrirtækis sem þau ráku.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 9. nóvember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem komið hefðu fram upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Umsjónarmaður greindi frá því að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kærendur hefði verið lagt fyrir kröfuhafa 22. ágúst 2012. Kröfuhafar, þar á meðal Landsbankinn, hefðu hafnað samningnum og jafnframt óskað eftir nánari skýringum. Landsbankinn hafi í fyrsta lagi óskað skýringa á óvenju mörgum innlögnum einstaklinga á reikning kæranda B. Í svari kærenda hafi komið fram að viðskiptavinir kæranda B greiddu fyrir hárgreiðslu með því að leggja inn á reikning hennar. Þetta taldi umsjónarmaður fullnægjandi skýringu.

Í öðru lagi hafi bankinn óskað skýringa á óvenju mörgum og háum færslum á greiðslukorti kæranda B til Y. Í svari kærenda hafi verið greint frá því að um væri að ræða erlent lán sem fjölskylda kærenda hafi greitt af í sameiningu. Það væri þó langt síðan kærendur sjálf hafi hætt að borga af láninu. Fjölskylda þeirra hafi innt greiðslurnar af hendi þó að þær færu fram í gegnum greiðslukort kæranda B. Kærendur bæru engan kostnað af þessu láni. Eftir að kærendur hafi ítrekað verið innt eftir frekari skýringum hafi komið í ljós að greiðslur þeirra til Y væru vegna afnotaréttar af hótelrými í Flórída. Kærendur hafi greitt alls 413.646 krónur vegna þessa á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi greint frá því að á móti fyrrgreindum greiðslum þeirra hafi komið greiðslur að fjárhæð 561.000 krónur frá föður kæranda B en hann hafi hjálpað þeim að greiða fyrir afnotaréttinn. Hafi kærendur framvísað skjali sem faðir kæranda B hafi undirritað þessu til stuðnings. Umsjónarmaður hafi óskað nánari staðfestingar á þessu, svo sem innborgana á reikning kærenda, en kærendur hafi ekki getað lagt fram slíka staðfestingu.

Í þriðja lagi hafi verið óskað skýringa á millifærslum af reikningi kæranda B til Kreditkorts ehf. Kærendur hafi greint frá því að millifærslurnar væru vegna greiðslukorts móður kæranda B sem hefði öðru hverju séð um matarinnkaup fyrir kærendur. Millifærslurnar væru endurgreiðsla sem stundum væri safnað saman í hærri fjárhæðir. Þessa skýringu hafi umsjónarmaður ekki talið viðhlítandi.

Þá hafi umsjónarmaður tekið eftir óeðlilega háum fjárhæðum sem kærendur hafi ekki gefið skýringar á. Eftir að þau hafi ítrekað verið innt eftir nánari skýringum hafi meðal annars komið í ljós að kærendur hafi selt tvo hunda fyrir 350.000 krónur í greiðsluskjólinu. Þetta hafi þau ekki upplýst umsjónarmann um.

Þar sem umsjónarmaður hafi ekki talið ofangreindar skýringar kærenda fullnægjandi hafi hann talið að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umsjónarmaður telji vert að kanna hvort kærendur hafi einnig farið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem þau hafi ekki upplýst umsjónarmann um ofangreint fyrr en þau hafi ítrekað verið innt svara, en samkvæmt því lagaákvæði skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Í ljósi ofangreinds telji umsjónarmaður sig ekki geta haldið greiðsluaðlögunarumleitunum áfram á grundvelli 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 10. júlí 2013 þar sem þeim var boðið að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn innan tilskilins frests, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella ætti niður heimild til greiðsluaðlögunar. Í svari kærenda kom fram að í skattskýrslu vegna tekna ársins 2012 hafi verið gerð grein fyrir óreglulegum tekjum kærenda vegna vinnu kæranda B við hárgreiðslu og sölu á hvolpum. Var skattframtalið lagt fram með svarinu. Að því er varðaði innlagnir á greiðslukort og greiðslur til Y vegna hótelréttar í Flórída, hafi faðir kæranda B nú greitt skuldina upp. Hafi kærendur þar með bætt úr þeim annmörkum sem hafi verið máli þeirra til fyrirstöðu.

Með bréfi til kærenda 2. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hrundið og heimild veitt til greiðsluaðlögunar í samræmi við frumvarp til greiðsluaðlögunar frá 11. maí 2012.

Kærendur vísa til þeirra skýringa og upplýsinga sem þau hafa lagt fram á fyrri stigum málsins.

Í ákvörðun umboðsmanns séu tilteknar tvær ástæður fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Annars vegar að fyrirliggjandi gögn gefi ekki rétta mynd af fjárhag kærenda þar sem þau hafi aðeins að hluta til eða á ófullnægjandi hátt gefið skýringar á innborgunum og millifærslum. Þessu mótmæli kærendur og telji sig hafa gefið fullnægjandi skýringar sem virðast þó ekki hafa verið teknar gildar. Þá komi ekkert fram í leiðbeiningum umboðsmanns skuldara um að erlend skuld, eins og í tilviki þeirra, falli undir umdæmi embættisins. Hins vegar byggi embættið á því að kærendur hafi millifært 841.543 krónur af tékkareikningi sínum í greiðsluskjóli. Stærstur hluti þessa fjár hafi verið greiðslur til móður kæranda B sem oft annist matarinnkaup fyrir fjölskylduna og hafi kærendur síðan endurgreitt inn á reikning móðurinnar. Þetta séu á engan hátt óeðlilegar greiðslur þegar þeim sé deilt niður á þá mánuði sem málið hafi tekið því að um sé að ræða fimm manna fjölskyldu með ungabarn.

Kærendur telja að það sé notað gegn þeim að þau hafi getað aflað aukatekna og af þeim sökum sé sagt að fjármál þeirra séu óskýr. Samt hafi þau gert grein fyrir öllum sínum tekjum á skattframtali vegna ársins 2012. Þau hafna því að hafa reynt að fela eitthvað fyrir umboðsmanni skuldara eins og gefið sé í skyn.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan frestun greiðslna standi yfir.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Sömu gagna sé þörf þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge.

Kærendur hafi fengið greitt inn á bankareikning sinn alls 938.093 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Sé fjárhæðin að hluta tekjur kæranda B samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali vegna ársins 2012. Kærendur hafi einnig millifært af reikningi sínum alls 841.543 krónur en hafi greint frá því að hluti þeirrar fjárhæðar, 275.557 krónur, hafi verið endurgreiðsla til móður kæranda B vegna matarinnkaupa. Þá hafi kærendur millifært af greiðslukorti sínu alls 413.646 krónur til Y en fengið á móti greiddar 581.000 krónur vegna hótelréttar þeirra í Florida.

Þrátt fyrir útskýringar kærenda á ofangreindum atriðum er að mati umboðsmanns skuldara ekki hægt að fá heildarsýn yfir fjárhag kærenda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., þannig að hægt sé að meta hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt lge. Þannig skýri framlögð færsluyfirlit kærenda aðeins hluta þeirra fjárhæða sem um sé að ræða. Við mat á skyldum kærenda í greiðsluskjóli verði ekki hjá því komist að telja að sú háttsemi þeirra að taka 841.543 krónur út af reikningi sínum á tímabili greiðsluskjóls hafi falið í sér brot á skyldum þeirra við greiðsluaðlögun samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kærendur hafi með því látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt því sem rakið hafi verið telji umboðsmaður skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda þar sem þau hafi einungis að hluta til og á ófullnægjandi hátt veitt skýringar á fyrrnefndum innborgunum og millifærslum. Embættinu sé því skylt að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma er ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn samkvæmt ákvæðum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt. Hin kærða ákvörðun byggist á heildstæðu mati á aðstæðum kærenda miðað við þau gögn sem legið hafi fyrir.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hrundið og að heimild verði veitt til greiðsluaðlögunar í samræmi við frumvarp til greiðsluaðlögunar frá 11. maí 2012. Ef umboðsmaður skuldara fellir niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Samkvæmt lge. gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti eða felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanirnar halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Það er mat embættis umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda þar sem þau hafi aðeins að hluta til veitt skýringar á innborgunum og millifærslum á bankareikning og greiðslukort á árunum 2011 og 2012. Einnig hafi þau látið af hendi fé á tímabili greiðsluskjóls sem hefði getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Þessu mótmæla kærendur.

Á árinu 2011 námu greiðslur frá ýmsum einstaklingum inn á bankareikning kæranda B alls 421.000 krónum. Um er að ræða margar en lágar innborganir fyrir utan 150.000 krónu innborgun 26. júlí 2011 og 160.000 krónu innborgun 11. júlí 2011. Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var móttekin 3. maí 2011. Við meðferð málsins hafa kærendur greint frá því að innborganir þessar hafi verið vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi kæranda B á heimili þeirra. Kærandi B gaf ekki upp tekjur vegna þessarar starfsemi á árinu 2011.

Umboðsmaður skuldara hefur sömuleiðis gert athugasemdir við tilteknar greiðslur inn á bankareikning kæranda B á árinu 2012. Séu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, öðrum opinberum aðilum og millifærslur á milli reikninga kærenda sjálfra dregnar frá þeim fjárhæðum, sem athugasemdir voru gerðar við, standa eftir 446.950 krónur. Sú fjárhæð er í samræmi við reiknað endurgjald kæranda B samkvæmt skattframtali ársins 2013 vegna ársins 2012. Verður samkvæmt því að telja að kærendur hafi gefið fullnægjandi skýringar á innborgunum á tékkareikning kæranda B á árinu 2012. Rétt er að geta þess að umrætt skattframtal lá ekki fyrir við meðferð málsins hjá umsjónarmanni.

Á árunum 2011 og 2012 bárust eftirtaldar greiðslur inn á greiðslukort kæranda B í krónum.

 

Dagsetning Fjárhæð
30.5.2011 12.000
30.5.2011 44.000
3.6.2011 40.000
18.7.2011 50.000
20.7.2011 15.000
29.8.2011 30.000
14.9.2011 20.000
28.11.2011 100.000
9.1.2012 50.000
5.3.2012 40.000
10.4.2012 50.000
4.5.2012 40.000
25.6.2012 40.000
Samtals: 531.000

 

Reikningsyfirlitin bera ekki með sér hver innti greiðslurnar af hendi. Meðal gagna málsins er ódagsett og óvottuð yfirlýsing frá C, föður kæranda B, þar sem hann staðfestir að hafa verið þátttakandi í kaupum á hótelrétti ásamt kærendum. Hafi hann tekið þátt í greiðslum vegna þessa. Í yfirlýsingunni segir orðrétt: „Þegar afborganir hækkuðu eftir efnahagshrunið og þegar dóttir mín og tengdasonur lentu í vandræðum með sinn hlut, tók ég þá ákvörðun að brúa kostnaðinn af þessu sjálfur og hef til þess látið þau fá peninga mánaðarlega.“

Í athugasemdum með b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er áréttað, eins og víða annars staðar í lge., að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína. Að mati kærunefndarinnar er ekki unnt að líta á fyrrnefnda yfirlýsingu föður kæranda B sem viðhlítandi skýringu á þeim fjármunum sem lagðir hafa verið inn á bankareikning og/eða greiðslukort kæranda B, enda er yfirlýsingin ónákvæm og ekki að öllu leyti í samræmi við atvik málsins.

Þegar allt ofanritað er virt, í ljósi lágra tekna kærenda og atvika málsins að öðru leyti, verður að telja að óútskýrðar greiðslur að fjárhæð 421.000 krónur inn á bankareikning kæranda B og 531.000 krónur inn á greiðslukort hennar, eða alls 952.000 krónur, eftir að kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar, leiði til að fjárhagur kærenda verði talinn óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Verður því fallist á sjónarmið umboðsmanns skuldara þar að lútandi.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. bera gögn málsins með sér að á tímabili greiðsluskjóls hafi kærandi B greitt út af bankareikningi sínum sem hér segir í krónum:

 

Dagsetning Fjárhæð Viðtakandi
10.10.2011 21.102 Óupplýst
5.9.2011 50.000 Kreditkort
5.5.2011 55.000 Kreditkort
5.5.2011 20.000 Óupplýst
21.8.2012 8.000 Kreditkort
20.8.2012 5.000 Kreditkort
7.7.2012 136.455 Óupplýst
21.5.2012 250.000 Úttekt
9.5.2012 65.986 Óupplýst
6.2.2012 250.000 Úttekt
Samtals: 861.543  

 

Fjárhæðir til Kreditkorts ehf., alls 118.000 krónur, kveðst kærandi B hafa greitt inn á greiðslukort móður sinnar en það hafi verið endurgreiðsla á ýmsum nauðsynjum fyrir fjölskylduna sem móðirin hafi lagt út fyrir. Þetta hafa kærendur þó ekki getað sýnt fram á með gögnum. Alls nema óútskýrðar greiðslur af bankareikningi 743.543 krónum, þar á meðal peningaúttektir, samtals að fjárhæð 500.000 krónur.

Með greiðslukorti sínu hefur kærandi B enn fremur greitt 271.325 krónur til Z og 142.321 krónu til Y. Alls nema greiðslur hennar til þessara erlendu aðila 413.646 krónum.

Alls nema peningaúttektir af bankareikningi 500.000 krónum og greiðslur til erlendra aðila 413.646 krónum, samtals 913.646 krónur. Samkvæmt gögnum málsins voru þessar greiðslur ekki nauðsynlegar til að sjá kærendum farborða, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og teljast því brot á skyldum kærenda samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þessa telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum