Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 42/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 42/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, A, um greiðslu atvinnuleysisbóta var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 7. janúar 2014 en hann var ekki talinn eiga rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Með beiðni sem barst Vinnumálastofnun þann 6. febrúar 2015 óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun stofnunarinnar að synja honum um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 23. febrúar 2014. Kærandi vildi ekki una ákvörðun stofnunarinnar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. maí 2015. Kærandi krefst þess að réttur hans til tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði viðurkenndur. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann hafi sótt um bætur þann 19. desember 2014.

Kærandi sótti fyrst um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 2. janúar 2009 og var umsókn hans samþykkt með 86% bótarétt. Hann fékk greiddar grunnatvinnuleysisbætur til 11. júní 2009. Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta á ný þann 19. desember 2014. Á fundi stofnunarinnar þann 7. janúar 2015 var umsókn hans samþykkt en hann var ekki talinn eiga rétt á tekjutengdum bótum.

Í kæru kæranda segir að kærandi hafi í framhaldinu af því að vera atvinnulaus árið 2009 farið að vinna og sækja um háskólanám. Hann hafi útskrifast með BA gráðu árið 2012 og meistaragráðu árið 2014. Hann hafi svo fengið tímabundna vinnu frá byrjun júní 2014 til 17. desember 2014. Kærandi hafi því ekki unnið í samfellt tvö ár eftir að hann hafi hætt á atvinnuleysisbótum 2009 og þar til hann hafi byrjað á þeim aftur í desember 2014.

Kærandi hafi ekki notið tekjutengingar þegar hann hafi verið á atvinnuleysisbótum árið 2009 þar sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur hans hafi reynst lægri en grunnatvinnuleysisbætur og hann hafi einungis átt rétt á 86% af fullum grunnatvinnuleysisbótum.

 Orðalag 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveði á um að einstaklingur eigi ekki aftur rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar hann komi inn á atvinnuleysisbætur eftir hlé, hafi hann ekki unnið samfellt í tvö ár enda fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Það sé því niðurlag 8. mgr. 32. gr. sem þarfnist túlkunar þar sem segi „enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.“ Lögskýring á ákvæðinu væri þá sú að einstaklingur eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum komi hann aftur inn á atvinnuleysisbætur og hafi fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í fyrra skiptið. Þá ætti einnig að skýra ákvæðið með þrengjandi lögskýringu enda takmarki ákvæðið réttindi bótaþega. Það sé því ekki hægt að skýra ákvæðið þannig að bótaþegi eigi einungis rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í upphafi bótatímabils nema það komi skýrt fram í ákvæðinu.

Í greinargerð með ákvæðinu komi vissulega fram að gert sé ráð fyrir að einstaklingur geti einungis átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í byrjun bótatímabils. Í framhaldinu komi hins vegar fram að þegar fyrra tímabil haldi áfram þegar umsækjandi sæki að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinni skv. 1. mgr. Þetta styðji þá lögskýringu á 8. mgr. 32. gr. laganna að ákvæðið takmarki rétt bótaþega til að nýta sér tekjutengdar atvinnuleysisbætur ef hann hefur fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta áður á bótatímabilinu.

Hafi markmið löggjafans verið að takmarka rétt bótaþega til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þannig að rétturinn kæmi aðeins til fyrstu þrjá mánuðina á tímabilinu þá hefði orðalag ákvæðisins skýrt kveðið á um það. Orðalag ákvæðisins sé á þá leið að þegar einstaklingur komi aftur inn á atvinnuleysisbætur eigi hann ekki aftur rétt á þeim hafi hann fullnýtt þann rétt sinn í fyrra skiptið.

Kærandi hafi ekki nýtt sér rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann hafi farið á atvinnuleysisbætur í ársbyrjun 2009. Grunnatvinnuleysisbætur hafi reynst hærri og kærandi ekki átt rétt á meira en 86% af grunnatvinnuleysisbótum. Því sé ekki hægt að fallast á að kærandi hafi nýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann hafi farið á atvinnuleysisbætur árið 2009 og hvað þá fullnýtt rétt sinn eins og orðalag ákvæðisins segi til um. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur geti aðeins komið til þegar tekjuhár einstaklingur fari á bætur og eigi þannig rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði sem hækki bætur hans umfram grunnatvinnuleysisbætur. Ekki þegar einstaklingur útskrifist með stúdentspróf, hafi lítið sem ekkert unnið á ævi sinni og eigi ekki rétt á fullum grunnatvinnuleysisbótum.

 Því sé ekki hægt að fallast á að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta árið 2009 eins og orðalag 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveði á um. Niðurstaðan geti því ekki verið önnur en sú að kærandi eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 19. desember 2014.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 19. júní 2015, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Þá er vísað í 8. mgr. þar sem fram kemur að þegar tímabil skv. 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.

Einnig er vísað í athugasemdir við 32. gr. frumvarps þess er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 þar sem segi að eingöngu sé gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig sé gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fari aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga skv. 15 eða 19. gr. frumvarpsins.

Þá segir að kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2009. Hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur til 31. ágúst 2009. Á tímabilinu hafi hann átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum en sökum þess að tekjutengdar atvinnuleysisbætur hans hafi reynst lægri en grunnatvinnuleysisbætur hafi honum verið greiddar grunnatvinnuleysisbætur í samræmi við 7. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 19. desember 2014 hafi kærandi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta á ný. Sökum þess að hann hafi ekki unnið samfellt í 24 mánuði frá því að hann hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafi það bótatímabil sem hófst 1. júní 2009 haldið áfram að líða, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til laganna sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti eingöngu átt rétt til tekjutengdra bóta í upphafi hvers bótatímabils. Af þeim sökum hafi kærandi ekki átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta er hann hafi sótt um að nýju þann 19. desember 2014.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

2. Niðurstaða

Óumdeilt er að kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 19. desember 2014 enda hafði hann ekki starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði eftir að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að því hvort kærandi hafi átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar hann sótti um bætur á ný.

Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Í 1. mgr. 32. gr. laganna segir að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Þá segir svo í 8. mgr. 32. gr. laganna:

Þegar tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða er hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.

Enn fremur segir svo í athugasemdum við 32. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar:

Eingöngu er gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga skv. 15. eða 19. gr. frumvarpsins.
Þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr
.“

Fyrir liggur að þegar kærandi sótti upphaflega um atvinnuleysisbætur þann 2. janúar 2009 þá fékk hann greiddar grunnatvinnuleysisbætur í samræmi við 7. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur hans reyndust lægri en grunnatvinnuleysisbætur. Kærandi telur að af orðalagi 8. mgr. 32. gr. laganna megi ráða að heimilt sé að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur þegar bótatímabil skv. 29. gr. laganna haldi áfram að líða hafi atvinnuleitandi ekki áður fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra bóta. Þar sem hann hafi ekki fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur er hann sótti um atvinnuleysisbætur fyrst þann 2. janúar 2009 hafi hann átt rétt á þeim er hann sótti um bætur á ný þann 19. desember 2014.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að túlka beri ákvæði 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með hliðsjón af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Þar kemur skýrt fram að eingöngu sé gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils og sá sem fari aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefndin að skýra beri ákvæði 8. mgr. 32. gr. þannig að atvinnuleitandi geti ekki átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar ný umsókn berst innan sama bótatímabils skv. 29. gr. laganna. Kærandi á því ekki, samkvæmt framanskráðu, rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta er staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að synja kæranda um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum