Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 45/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. mars 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 25. mars 2015 fjallað um greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá sem gerð hafi verið skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til hans verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar 2015 til 9. febrúar 2015 samtals að fjárhæð 298.124 kr. að meðtöldu 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. maí 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 14. október 2014 og fékk greiddar bætur til 9. febrúar 2015. Í símaviðtali við ráðgjafa stofnunarinnar þann 9. janúar 2015 greindi kærandi frá því að hann hygðist fara í fjarnám við B. Ráðgjafinn fór yfir gildandi reglur er varða nám samhliða atvinnuleit með kæranda.

Með bréfi, dags. 6. mars 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og nemendaskráa viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráður í 30 eininga nám á vorönn 2015 við B jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þá óskaði stofnunin eftir skólavottorði frá kæranda og skýringum á því hvers vegna hann upplýsti Vinnumálastofnun ekki um nám hans. Engar skýringar bárust frá kæranda.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2015, var kæranda meðal annars tilkynnt um endurgreiðslukröfu stofnunarinnar.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi beðið eins lengi og hægt hafi verið með að skrá sig á atvinnuleysisskrá þar sem hann vilji ekki þiggja atvinnuleysisbætur. Í lok ágúst 2014 hafi hann ákveðið að innrita sig í fjarnám við B til þess að auka við sig þekkingu og gera hann að hæfari starfsmanni. Hann hafi verið of seinn til að hefja nám á haustönn en getað hafið nám eftir áramót.

Hann hafi á yfir 20 ára starfsferli ekki verið án atvinnu og eftir sumarleyfi hafi hann í fyrsta sinn verið í þeim sporum. Hann hafi búist við því að geta fengið starf innan fárra vikna sem hafi ekki gengið eftir og því hafi eina lausnin verið að skrá sig á atvinnuleysisskrá með það markmið að slíkt væri tímabundið.

Þegar liðið hafi að miðjum desember hafi komið greiðsluseðill fyrir náminu sem skyldi hefjast 12. janúar 2015. Hann hafi verið búinn að vera í atvinnuleit og komist í nokkur „seinni viðtöl“ og því hafi hann verið bjartsýnn á að hann væri að komast í vinnu og þar af leiðandi af atvinnuleysisskrá.

Hann hafi verið búinn að kanna möguleika á námsláni en vegna tekna hafi legið fyrir að hann fengi ekki slíkt lán til framfærslu auk þess sem tekjuskerðing haustsins hafi gert það að verkum að skuldir hafi safnast upp og fyrirgreiðsla í banka fyrir útgjöldum hafi ekki verið möguleg.

Í byrjun janúar hafi hann farið í viðtal sem hafi leitt til starfs í annarri viku í febrúar. Hann hafi gert allt til að hefja störf sem fyrst til þess að losna undan atvinnuleysisskrá og hann hafi skráð sig af skránni þann 9. febrúar 2015.

Hann hafi lent í þeirri aðstöðu að geta ekki hafið störf. Hann hafi ekki viljað hætta við nám og  þar af leiðandi þegið atvinnuleysisbætur í 20 daga á meðan hann hafi verið að bíða eftir því að komast í starf og stundað fjarnám á meðan. Honum þyki það ansi súrt að vera krafinn um endurgreiðslu ásamt álagi í ljósi þess að umsókn um skólavist hafi verið gerð töluvert áður en umsókn um atvinnuleysisbætur hafi verið gerð.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. júní 2015, segir að mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. mars 2015 þar sem kæranda hafi verið gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 9. febrúar 2015. Kærandi hafi á því tímabili verið skráður í nám við B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

 Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundi nám, sem skilgreint sé í c-lið 3. gr laganna, teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.  Kærandi geti því ekki talist tryggður á ofangreindu tímabili.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 9. febrúar 2015 samtals að fjárhæð kr. 298.124,- með 15% álagi. Kæranda beri í samræmi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.  Vinnumálastofnun bendi á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings. 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann var skráður í 30 ECTS-eininga nám í B á vorönn 2015. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma eingöngu til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda var 30 ECTS-einingar taldist það lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli kæranda.

Það er ekki markmið laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum atvinnuleysisbætur líkt og fram kemur í athugsemdum við 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þá er ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé í fullu samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Því ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. janúar 2015 til 9. febrúar 2015, samtals að fjárhæð 298.124 kr. með inniföldu 15% álagi.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. mars 2015 í máli A um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta með 15% álagi, samtals að fjárhæð 298.124 kr., er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum