Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 541/2018 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og endursenda hann til Slóveníu er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 541/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100062

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. október 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […] vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 14. maí 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Slóveníu og Grikklandi. Þann 1. júní 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Slóveníu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá slóvenskum yfirvöldum, dags. 14. júní 2018, kom fram að þau synjuðu viðtöku kæranda sökum þess að kærandi hafi verið fylgdarlaust barn við komuna til Slóveníu, […], og farið þaðan áður en hægt hafi verið að leggja mat á aldur hans. Var það mat slóvenskra yfirvalda að þau bæru af þeim sökum ekki ábyrgð á umsókn kæranda. Þau myndu hins vegar endurskoða málið ef íslensk stjórnvöld sýndu fram á að kærandi væri fullorðinn. Þann 29. ágúst 2018 sendu íslensk stjórnvöld bréf til yfirvalda í Slóveníu þar sem fram kom að kærandi hafi staðfest í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann væri fullorðinn og að hann hafi gefið upp rangan fæðingardag í Slóveníu af ótta við að vera vísað frá landinu. Þá bárust upplýsingar frá stjórnvöldum í Grikklandi þann 29. ágúst 2018 þar sem fram kom að kærandi hafi undirgengist læknisfræðilegt mat á aldri, en samkvæmt því væri kærandi eldri en 18 ára. Var því beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd að nýju beint til yfirvalda í Slóveníu þann sama dag. Með svari slóvenskra yfirvalda, dags. 11. september 2018, samþykktu slóvensk yfirvöld viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. október 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 16. október 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 30. október 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 8. nóvember 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að slóvensk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Slóveníu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Slóveníu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram hann hafi verið boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 6. júlí 2018 þar sem hann kvaðst vera fæddur […]. Kærandi hafi gefið upp rangan aldur í viðtökuríki af ótta við að vera sendur aftur til heimaríkis. Þá kemur fram að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hendi smyglara sem hafi komið honum hingað til lands og að hann beri þess merki. Þá hafi föðurbróðir hans ítrekað beitt hann ofbeldi í heimaríki vegna þess að hann [...]. Kærandi kveður að aðstæður hans í viðtökuríki hafi verið slæmar, hann hafi verið læstur inni í litlu herbergi í fimm daga og einungis fengið mat tvisvar sinnum á dag. Maturinn hafi ekki verið góður og hann hafi fengið mjög lítið að drekka. Kærandi hafi ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu, ekki notið aðstoðar lögfræðings og fundið fyrir fordómum þar í landi. Þá hafi hann haft samband við smyglara að loknu viðtali hjá útlendingastofnuninni í viðtökuríki. Hann hafi dvalið í herbergi á vegum smyglarans í mánuð áður en hann hafi komið hingað til lands.

Kærandi gerir athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til þess að í reglugerðinni sé að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu og að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Framangreind viðmið séu hvergi að finna í lögum um útlendinga auk þess sem að þau séu nefnd í dæmaskyni og því sé ekki um tæmandi talningu að ræða. Kærandi telji að atriði sem talin séu í dæmaskyni geti með engum hætti komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda. Því til stuðnings vísar hann til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 199/2018 frá 24. apríl 2018.

Í greinargerðum kæranda hjá kærunefnd og Útlendingastofnun er umfjöllun um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Slóveníu með vísan til alþjóðlegra skýrsla. Í greinargerðunum kemur m.a. fram sú afstaða kæranda að hæliskerfið í Slóveníu sé ekki í stakk búið að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þau réttindi sem þeir eiga tilkall til. Í því sambandi sé málsmeðferðartíminn úr hófi og sérstaklega viðkvæmir einstaklingar njóti ekki þess stuðnings sem þeim er nauðsynlegur. Þá hafi fordómar í samfélaginu í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd aukist og séu útbreitt vandamál.

Kærandi byggir kröfu sína á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til ummæla í frumvarpi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og túlkunar kærunefndar á þeim ummælum. Telji kærandi að á stjórnvöldum hvíli skylda til að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður hans og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann. Kveði kærandi að kanna þurfi hvort hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna sinna eða vegna almennra aðstæðna í viðtökuríki. Kærandi kveði að aðstæður hans í viðtökuríki hafi verið mjög slæmar. Hann hafi ekki fengið næga fæðu, hvorki fengið endurgjaldslausa lögfræðiþjónustu né dagpeninga og hafi fundið fyrir fordómum þar í landi. Þá hafi hann verið í varðhaldi í fjóra til fimm daga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Slóveníu á umsókn kæranda er byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja slóvensk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi […] einhleypur og barnlaus karlmaður sem er almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Kærandi kveður að hann hafi orðið fyrir ofbeldi annars vegar af hendi föðurbróður síns í heimaríki og hins vegar af hendi smyglara sem hafi m.a. komið honum hingað til lands. Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. framlagðar komunótur og frásögn kæranda, beri ekki með sér að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kveður að aðstæður hans í móttökumiðstöð í viðtökuríki hafi verið slæmar, en hann hafi ekki fengið nóg að drekka og ekki fengið næga fæðu. Þá hafi honum verið haldið inni í móttökumiðstöðinni og meinað að fara út. Þá kveður kærandi enn fremur að hann hafi orðið fyrir fordómum í Slóveníu.

Aðstæður í Slóveníu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Slóveníu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices - Slovenia (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Slovenia (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Asylum Information Database, Country Report – Slovenia (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),
  • Freedom in the World 2018 – Slovenia (Freedom House, 28. maí 2018),
  • Regional Refugee and Migrant Response Plan for Europe – Eastern Mediterranean and Western Balkans Route, January-December 2016 (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), janúar 2016),
  • Report to the Slovenian Government on the visit to Slovenia carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 28 March to 4 April 2017 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 20. september 2017) og
  • Unidentified and Unattended: The Response of Eastern EU Member States to the Special Needs of Torture Survivor and Traumatised Asylum Seekers (Hungarian Helsinki Committee, maí 2017).

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Slóveníu má ráða að einstaklingar geta lýst því yfir við hvaða opinberu stofnun sem er að þeir hyggist sækja um alþjóðlega vernd. Frá þeim tímapunkti er óheimilt að brottvísa viðkomandi frá landinu. Í kjölfarið er umsóknarferli hafið hjá lögregluyfirvöldum en tekin er stutt skýrsla af umsækjanda, hann spurður út í ferðaleið og beðinn um að sanna á sér deili. Því næst er umsækjandi fluttur í móttökumiðstöð þar sem hann fer í læknisskoðun og hefur möguleika á að hitta lögfræðing áður en hann leggur fram formlega umsókn um vernd. Samkvæmt slóvenskum lögum um alþjóðlega vernd fer fram mat á því hvort umsækjandi teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í framangreindri læknisskoðun. Þá getur viðkvæm staða einnig verið greind við framlagningu umsóknar um vernd eða síðar við meðferð málsins. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd fara í viðtal áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra. Þá eiga umsækjendur rétt á aðstoð túlks við málsmeðferð sína. Af alþjóðlegum skýrslum má ráða að upp hafa komið tilvik þar sem túlkun er ábótavant eða ekki er hægt að túlka ákveðin tungumál. Samkvæmt slóvenskum lögum ber yfirvöldum að afgreiða umsóknir um vernd innan sex mánaða en gögn málsins bera með sér að nokkuð algengt sé að niðurstaða fáist ekki í mál innan þess tíma.

Samkvæmt slóvenskum lögum er umsækjendum um alþjóðlega vernd ekki tryggð lögfræðiaðstoð þeim að kostnaðarlausu á fyrsta stigi málsmeðferðar. Umsækjendur eiga hins vegar kost á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð frá frjálsum félagasamtökum sem veita ráðgjöf áður en umsókn um vernd er lögð fram, í umsóknarferlinu og við málsmeðferðina. Þá er gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð á kærustigi tryggð í slóvenskum lögum. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að slóvensk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar.

Umsækjendur eiga þess kost að skjóta niðurstöðu máls síns til stjórnsýsludómstóls með því að leggja fram kæru gegn innanríkisráðuneytinu. Þá geta umsækjendur lagt fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Slóveníu kemur fram að umsækjendur þar eiga rétt á húsaskjóli í móttökumiðstöðvum á vegum stjórnvalda. Í móttökumiðstöðvum fá þeir m.a. þrjár máltíðir á dag, hreinlætisvörur og vasapeninga. Þá er umsækjendum tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu samkvæmt slóvenskum lögum. Í stærstu móttökumiðstöð Slóveníu sem er staðsett í Ljubljana starfa félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingur auk þess sem sálfræðingur kemur þangað einu sinni í viku. Í minni móttökumiðstöðvum landsins starfa einnig félagsráðgjafar og íbúar eiga þess kost að fá tíma hjá sálfræðingi. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í gegnum heilbrigðiskerfi landsins, svo sem á heilsugæslustöðvum og spítölum. Eigi þeir í vandræðum með að nálgast þjónustuna geta þeir leitað aðstoðar hjá félagsráðgjöfum móttökumiðstöðvanna.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að íbúar landsins geta leitað aðstoðar yfirvalda óttist þeir tiltekna einstaklinga eða telji brotið á réttindum sínum. Umboðsmaður mannréttindamála sinnir eftirliti með mannréttindabrotum og hægt er að tilkynna mannréttindabrot til embættisins. Árið 2016 var sett á laggirnar nýtt embætti, umboðsmaður jafnréttismála, en hann hefur það hlutverk að sinna vitundarvakningu um jafnréttismál og koma í veg fyrir mismunun. Þá geta íbúar landsins leitað til lögreglunnar sem hefur fullnægjandi úrræði til að rannsaka þau mál sem leitað er til hennar með.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Slóveníu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Slóveníu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Þá telur kærunefnd að þær aðstæður sem kærandi hefur vísað til, m.a. varðandi réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Slóveníu og aðlögun þeirra að samfélaginu séu ekki þess eðlis að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 19. september 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 14. maí 2018.

Frávísun

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands þann 12. maí 2018. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann 14. maí 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Slóveníu eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa slóvensk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Slóveníu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                                            Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira