Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 134/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 134/2017

Mánudaginn 28. ágúst 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 31. mars 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. mars 2017 þar sem umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 10. apríl 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. apríl 2017.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 19. apríl 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með tölvupósti 25. apríl 2017 og voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 3. maí 2017. Með tölvupósti 8. maí 2017 upplýsti embættið að það teldi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir í málinu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1956 og 1953. Þau búa í 221 fermetra raðhúsi að C sem er í eigu kæranda A.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara eru 63.241.955 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis, tekjulækkunar og ábyrgðarskuldbindinga.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 17. janúar 2017 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2017 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Kærandi A hefur áður óskað greiðsluaðlögunar en fyrri umsókn hennar barst umboðsmanni skuldara 10. febrúar 2011. Var henni veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns 24. ágúst 2011. Heimildin var felld niður 3. október 2013 og var sú ákvörðun kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Kærunefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 22. október 2015, sbr. mál nr. 165/2013, þar sem kærandi A var talin hafa brotið gegn skyldum sínum um að leggja fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að útreikningur umboðsmanns skuldara verði leiðréttur og tekið tillit til þeirra aðstæðna sem þau telja vera fyrir hendi. Þá gera þau kröfu um að 11.747.433 krónu umframveðsetning verði afskrifuð af láni nr. X á húsi þeirra. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þau krefjist þess einnig að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur færa fram neðangreindar skýringar og athugasemdir til stuðnings kærunni:

1. Kærendur trúa því ekki að þeir einir sem hafi skuldað mikið fyrir hrun fái úrlausn og afléttingu lána, fari veðin yfir mat eða tekjur standi ekki undir afborgunum, sem segi kærendum að fjölskylda sem hafi skuldað 50% í eign sinni og lánið fari í 75%, fái enga lækkun.

2. Umboðsmaður skuldara taki ekki tillit til þess að kærandi A eigi ein húsið og hafi ein sótt um greiðsluaðlögun árið 2011. Því sé rangt að reikna tekjur kæranda B með í útreikningi 2011 til 2017. Lán nr. X sem hvíli á húsinu sé á nafni kæranda Aog fari kærendur fram á lækkun á því láni. Á húsinu hvíli einnig minna lán, nr. Y, sem tekið sé í nafni beggja kærenda. Það sé greiðsluerfiðleikalán og hafi öll lánsfjárhæðin farið í að greiða inn á lán X.

3. Kærendur gagnrýna ómarkviss vinnubrögð starfsmanna umboðsmanns skuldara varðandi verðmat á húsi þeirra.

4. Að því er varði arf kæranda A liggi sú fjárhæð fyrir á skattskýrslu með greiddum erfðafjárskatti og sé þar með allur vafi frá varðandi arfinn.

5. Í útreikningum sínum neiti starfsmaður umboðsmanns skuldara að taka tillit til þess að kærendur séu komin það nálægt eftirlaunaaldri að tekjur þeirra muni dragast saman.

6. Á skuldalista séu taldar upp skuldir að fjárhæð 4.500.227 krónur og 924.167 krónur eða samtals 5.424.394 krónur en í sama texta sé sagt að skuldirnar séu afskrifaðar. Hver sé þá tilgangurinn með því að telja þessar skuldir upp?

7. Í útreikningum umboðsmanns skuldara sé fjárhæð útborgaðra nettó launa röng. Kærendur hafi lagt fram skýringar sem ekki hafi verið tekið tillit til.

8. Byggju kærendur í fjölbýlishúsi þar sem bæði væru greidd húsgjöld og gjöld í viðhaldssjóð yrði sú fjárhæð dregin frá tekjum. Kærendur búi í raðhúsi sem ekki hafi fengið viðhald að neinu marki frá 2008. Í tilviki kærenda séu reiknaðar fullar tekjur af kjallaraíbúð en neitað að reikna viðhald hússins. Töluverðar múr- og málningarskemmdir séu á húsinu og sé það tekið með í fyrirliggjandi verðmati.

9. Húsið hafi verið selt Íbúðalánasjóði á uppboði X 2016. Kærendum hafi verið gefinn kostur á að taka aftur við húsinu en til þess hafi þau þurft að leggja fram 305.335 krónur í peningum. Þessa fjárhæð hafi sonur kærenda lánað þeim og kærendur endurgreitt honum um áramótin með því að fá 300.000 krónu yfirdráttarlán. Auðvelt sé að sýna fram á þetta með bankayfirliti.

10. Kærendur séu með lán frá Landsbankanum hf. á bifreið sinni. Til þess að vera með bílalán þurfi að kaskótryggja bílinn. Þá fjárhæð neiti umboðsmaður skuldara að taka inn í útreikning sinn á tryggingum. Samkvæmt útreikningi umboðsmanns séu tryggingar 10.000 krónur á mánuði en í raun greiði kærendur 22.000 krónur á mánuði.

11. Þar sem kærendur telja að laun kæranda B eigi ekki að vera með í útreikningi sé óþarfi að sýna fram á innborgun til Innheimtustofnunar sveitarfélaga eða arf.

12. Í fyrri umsókn hafi umsjónarmaður í málinu verið búinn að reikna hlutdeild B í kostnaði við rekstur heimilis. Þá fjárhæð væri sanngjarnt að taka inn í útreikninginn.

13. Hús kærenda sé 211 fermetrar að stærð. Kærendur leigi út 70 fermetra í kjallara og búi þar af leiðandi í 140 fermetrum, að frádregnum grunnfleti stiga, 2*5 fermetrar, eða 130 fermetrum.

14. Ekki sé að fullu tekið tillit til þess í framfærsluútreikningi umboðsmanns skuldara að kærendur séu með [tvö börn] í framhaldsskóla á heimilinu.

15. Við meðferð fyrra greiðsluaðlögunarmáls hafi aðstæður kærenda verið mjög ólíkar því sem nú sé. Þá hafi þau ekki getað staðið undir útreiknaðri upphæð, enda hafi verið gríðarlegar skuldir samhliða á húsi kærenda og fyrirtæki þeirra, allar meira og minna í vanskilum. Kærendur hafi reynt að halda hvoru tveggja, húsinu og fyrirtækinu, en það hafi ekki tekist þrátt fyrir að þau hafi lagt til eigið arfsfé. Með því hafi tapast tugir milljóna og hafi kærendur neyðst til þess að loka fyrirtækinu og selja tæki og búnað fyrir smáaura, sem allir hafi farið til að greiða upp skuld við veðhafa á innbúinu, og ganga til nauðasamninga við kröfuhafa. Það hafi tekist að því marki að aðrar skuldir en hjá Íbúðalánasjóði og Borgun hf., yfirdráttarlán, bílalán og fasteignagjöld, séu frá.

16. Umboðsmaður skuldara kveði fasteignagjöld vegna ársins 2016 í vanskilum og því sé sá kostnaður ekki tekinn með í útreikning þrátt fyrir að kærendur hafi lagt fram samkomulag við D. Samkvæmt því hafi kærendur greitt 65.000 krónur á mánuði síðan um mitt ár 2016 og muni gera til 5. febrúar 2018 til að greiða niður uppsafnaðar skuldir vegna fasteignagjalda.

17. Kærendur fara sérstaklega fram á að úrskurðarnefndin afgreiði erindið sem fyrst þar sem frostskemmdir á svölum húss þeirra muni versna næsta vetur, verði ekki brugðist við með viðgerðum á þessu sumri.

Kærendur kveðast ekki hafa fengið leiðréttingu eins og tugþúsundir heimila, hvorki með atbeina umboðsmanns skuldara, 110% leið né leiðréttingu síðustu ríkisstjórnar. Kærendur telja að samkvæmt jafnræðisreglu eigi þau rétt á leiðréttingu eins og aðrir landsmenn en í raun hafi þau orðið fyrir tvöföldum forsendubresti með hækkun á lánum og verðhruni á fyrirtæki sínu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í málinu liggur fyrir erfðafjárskýrsla 17. ágúst 2015 þar sem fram kemur að kærandi A hafi fengið afhentan 25% eignarhlut í fasteigninni að E sem fyrirframgreiddan arf. Samkvæmt erfðafjárskýrslu var fasteignamat eignarinnar 28.300.000 krónur og fasteignamat eignarhlutar kæranda þar með 7.075.000 krónur. Samkvæmt skattframtali 2016 var fasteignin seld 2. október 2015 fyrir 37.500.000 krónur.

Til að unnt væri að fá glögga mynd af fjárhag kærenda hafi verið óskað eftir afriti af kaupsamningi vegna sölu eignarinnar og upplýsingum um hvort áhvílandi lán hefðu verið greidd upp við söluna. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum um söluhagnað kærenda og hvernig honum hefði verið ráðstafað. Hvorki umbeðnar upplýsingar né gögn hafi borist umboðsmanni skuldara. Sökum þessa teljist fjárhagur kærenda óglöggur.

Þá vísar umboðsmaður skuldara til 2. mgr. 6. gr. lge., en þar komi fram að auk þeirra synjunarástæðna, sem kveðið sé á um í 1. mgr. 6. gr. lge., sé umboðsmanni heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Við það mat skuli taka sérstakt tillit til aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a til g í ákvæðinu. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast hafi verið unnt.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé kærandi A eini eigandi fasteignarinnar að C. Kærendur hafi óskað eftir því að tekjur þeirra væru ekki reiknaðar saman við útreikning á greiðslugetu þeirra undanfarin ár. Þá haldi þau því fram að þar sem kærandi A sé ein eigandi eignarinnar eigi kærandi B aðeins að greiða hæfilegt hlutfall inn í búið. Þar sem það sé ekki gert sé útreikningur á tekjum hans ekki réttur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu báðir kærendur skuldarar að áhvílandi veðláni hjá Íbúðalánasjóði. Af þeim sökum séu tekjur beggja kærenda notaðar við útreikning á greiðslugetu til greiðslu lána og annarra skuldbindinga þegar lagt sé mat á hvort f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu, enda ljóst að skuldir á hendur báðum kærendum falli undir greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge.

Fyrri umsókn kæranda A um greiðsluaðlögun hafi verið til vinnslu hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála frá 11. febrúar 2011 til 22. október 2015. Á þeim tíma hafi kærandi Anotið svokallaðs greiðsluskjóls, sbr. 11. gr. lge. Með ákvörðun 3. október 2013 hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 15. gr. lge. Ástæðan hafi verið sú að kærandinn hafi ekki lagt til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli og hafi umboðsmaður skuldara talið að með því hafi kærandinn brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með úrskurði 22. október 2015 hafi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kæranda A til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Samkvæmt skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hefði kærandi A átt að geta lagt til hliðar 5.387.375 krónur á tímabilinu frá 1. mars 2011 til 31. ágúst 2013 en engin gögn hafi verið lögð fram um fyrirliggjandi sparnað.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtali ársins 2014 hafi heildartekjur kæranda A frá október 2013 til og með desember 2013 numið 1.136.167 krónum. Um sé að ræða útborguð laun og leigutekjur vegna útleigu kjallaraíbúðar á fyrrgreindu tímabili. Framfærslukostnaður hennar á sama tímabili hafi numið samtals 518.735 krónum. Sá kostnaður taki mið af framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir hjón með tvö börn ásamt raunútgjöldum samkvæmt umsókn. Framfærslukostnaði sé skipt til helminga á móti maka þar sem kærandi A hafi verið ein í greiðsluskjóli. Hún hefði þannig getað lagt til hliðar 617.432 krónur til viðbótar í greiðsluskjóli árið 2013.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árin 2012 og 2013 hafi útborguð laun kæranda B numið 1.440.000 krónum fyrir hvort ár. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali hafi kærandi B fengið greiddan arf á árinu 2013 en hann hafi numið 5.995.675 krónum eftir greiðslu skatts. Heildartekjur hans á árunum 2012 og 2013 hafi því numið samtals 8.875.675 krónum. Í fyrirliggjandi gögnum sé ekki að finna upplýsingar um launatekjur kæranda B á árinu 2011 og sé því ekki unnt að gera ráð fyrir þeim í útreikningum. Verði að telja það kærendum til hagsbóta.

Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, fyrir hjón með tvö börn á árinu 2013, ásamt upplýsingum um raunútgjöld samkvæmt umsókn kærenda, skipt til helminga á móti maka, hafi framfærslukostnaður kæranda B numið samtals 4.149.880 krónum á árunum 2012 og 2013. Þar sem kærandi B hafi ekki verið í greiðsluskjóli á þessu tímabili eins og kærandi A, hefði hann getað greitt af áhvílandi veðskuldum Íbúðalánasjóðs. Greiðslugeta hans til greiðslu lána og annarra skuldbindinga hafi numið samtals 4.725.795 krónum á tímabilinu 2011 til 2013.

Samkvæmt framansögðu verði gert ráð fyrir að kærandi A hefði átt að geta lagt til hliðar 6.004.807 krónur í greiðsluskjóli á árunum 2011 til 2013. Þá hafi greiðslugeta kæranda B, til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, numið 4.725.795 krónum sömu ár. Samtals séu þetta 10.730.602 krónur.

Á tekjuárinu 2014 hafi útborguð laun kæranda A verið 3.828.068 krónur samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Þá hafi hún fengið 122.179 krónur í barnabætur á árinu. Nettó leigutekjur hafi numið 850.500 krónum, en samkvæmt þinglýstum, ótímabundnum húsaleigusamningi hafi kjallari í húsi kæranda A að C verið í útleigu frá og með 1. apríl 2014 en húsaleigan sé 100.000 krónur á mánuði. Heildartekjur kæranda A á árinu 2014 hafi samkvæmt því numið 4.800.747 krónum.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2014 hafi útborguð laun kæranda B samtals numið 1.560.000 krónum á því ári. Hann hafi fengið 122.179 krónur í barnabætur og samkvæmt skattframtali hafi hann fengið 462.843 krónur greiddar í arf á árinu 2014 að frádregnum erfðafjárskatti. Heildartekjur kæranda B á árinu 2014 hafi því numið 2.145.022 krónum.

Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður hjóna með tvö börn á framfæri verið áætlaður að meðaltali 301.778 krónur á mánuði á árinu 2014. Samkvæmt umsókn kærenda um greiðsluaðlögun greiði þau 22.000 krónur á mánuði í rafmagn og hita. Álögð fasteignagjöld ársins 2017 nemi að meðaltali 24.732 krónum á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélagi nemi bruna- og innbústrygging kærenda að meðaltali 6.047 krónum á mánuði, en bifreiðatryggingar séu reiknaðar inn í framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Samkvæmt umsókn kærenda um greiðsluaðlögun nemi kostnaður við skóla og dagvistun að meðaltali 7.500 krónum á mánuði.

Samkvæmt framangreindu sé framfærslukostnaður kærenda metinn að meðaltali 366.534 krónur á mánuði á árinu 2014. Því hefðu kærendur átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli kæranda A, eða eiga til ráðstöfunar til greiðslu lána og annarra skuldbindinga kæranda B, samtals 2.547.356 krónur á árinu 2014.

Á tekjuárinu 2015 hafi útborguð laun kæranda A verið 3.867.230 krónur. Hún hafi fengið 57.679 krónur í barnabætur og 1.080.000 krónur í leigutekjur eftir skatt. Reiknað sé með að hún hafi haft þær leigutekjur á árinu 2015 þrátt fyrir að þær komi ekki fram á skattframtali, enda hafi kærendur ekki mótmælt því. Heildartekjur kæranda A á árinu 2015 hafi þannig numið 5.004.909 krónum.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2015 hafi útborguð laun kæranda B numið 1.562.333 krónum á því ári. Þá hafi hann fengið 57.679 krónur í barnabætur. Heildartekjur kæranda B á árinu 2015 hafi því verið 1.620.012 krónur.

Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi áætlaður framfærslukostnaður hjóna með tvö börn á framfæri verið að meðaltali 304.887 krónur á mánuði á árinu 2015. Þá sé kostnaður kærenda vegna hita- og rafmagns, bruna- og innbústryggingar, skóla- og dagvistunar, auk fasteignagjalda, sá sami og á árinu 2014. Framfærslukostnaður kærenda sé samkvæmt framangreindu metinn að meðaltali 369.643 krónur á mánuði á árinu 2015. Samkvæmt þessu hefðu kærendur átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli kæranda A, eða eiga til ráðstöfunar til greiðslu lána og annarra skuldbindinga kæranda B, samtals 2.189.205 krónur á árinu 2015. Sú fjárhæð sé reiknuð án tillits til arfs og söluhagnaðar kæranda A á árinu 2015, enda óljóst hve há sú fjárhæð hafi verið, sbr. ofangreinda umfjöllun um b. lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Á tekjuárinu 2016 hafi útborguð laun kæranda A verið 4.384.096 krónur samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Hún hafi fengið 55.892 krónur í barnabætur og 1.080.000 krónur í leigutekjur eftir skatt. Sé reiknað með að hún hafi haft leigutekjur á árinu, enda hafi því ekki verið mótmælt. Heildartekjur kæranda A á árinu 2016 hafi þannig verið 5.519.988 krónur.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2016 hafi útborguð laun kæranda B verið 4.202.499 krónur á árinu, en að auki hafi hann fengið barnabætur að fjárhæð 55.892 krónur. Heildartekjur kæranda B á árinu 2016 hafi því verið 4.258.391 króna.

Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi áætlaður framfærslukostnaður hjóna með tvö börn á framfæri verið að meðaltali 308.112 krónur á mánuði á árinu 2016. Kostnaður vegna annarra útgjalda kærenda sé sá sami og árin 2014 og 2015 og að framan er rakinn. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum séu öll fasteignagjöld ársins 2016 í vanskilum og verði sá kostnaður því ekki metinn kærendum sem framfærslukostnaður á árinu 2016. Framfærslukostnaður kærenda sé samkvæmt þessu talinn að meðaltali 348.136 krónur á mánuði á árinu 2016. Samkvæmt því hafi greiðslugeta þeirra til greiðslu lána og annarra skuldbindinga á árinu 2016 samtals verið 5.600.747 krónur.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar séu helstu skuldbindingar kærenda og greiðslur af þeim eftirfarandi:

1. Veðskuldabréf hjá Íbúðalánasjóði nr. X, að fjárhæð 36.980.511 krónur. Kærandi Asé skuldari að láninu.

2. Veðskuldabréf hjá Íbúðalánasjóði nr. Y, að fjárhæð 17.912.610 krónur. Báðir kærendur séu skuldarar.

3. Bílasamningur nr. Z hjá Landsbankanum hf., að fjárhæð 1.467.068 krónur. Kærandi A sé skuldari.

4. Skuldabréf hjá Íslandsbanka hf. nr. Þ, að fjárhæð 4.500.227 krónur. Kærandi A sé skuldari. Skuldabréfið hafi verið afskrifað.

5. Þrír yfirdráttarreikningar hjá Íslandsbanka hf., samtals að fjárhæð 924.167 krónur. Kærandi A sé skuldari. Skuldirnar hafi verið afskrifaðar.

6. Kreditkort hjá Íslandsbanka hf., að fjárhæð 280.000 krónur. Kærandi B sé skuldari.

7. Yfirdráttarreikningur nr. Æ hjá Arion banka hf., að fjárhæð 267.876 krónur. Kærandi Bsé skuldari.

8. Yfirdráttarreikningur nr. Ö hjá Arion banka hf., að fjárhæð 336.775 krónur. Kærandi Asé skuldari.

Einnig séu ógreiddir reikningar til innheimtu á hendur kæranda A hjá D vegna fasteignagjalda, F hf. vegna hita/rafmagns og G ehf.

Í ákvörðun sinni fari umboðsmaður yfir greiðslur kærenda á árunum 2011 til 2015. Þar komi fram að kærandi A hafi verið í greiðsluskjóli frá mars 2011 til október 2015. Á því tímabili hafi ekkert verið greitt inn á ofangreind lán og skuldbindingar kærenda. Samkvæmt 11. gr. lge. hafi kæranda A verið óheimilt að greiða inn á lánin en kæranda B hafi á hinn bóginn borið að greiða af sínum skuldbindingum á tímabilinu. Greiðslugeta kærenda, þ.e. sú fjárhæð sem þau hefðu átt að geta lagt til hliðar í greiðsluskjóli eða nýtt til greiðslu lána og annarra skuldbindinga eftir að greiðsluskjóli lauk, hafi á tímabilinu frá 1. mars 2011 til ársloka 2015 numið samtals 15.467.163 krónum.

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hafi samtals 561.934 krónur verið greiddar inn á lán sjóðsins nr. X og Y frá október 2015 til desember 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hf. hafi 400.000 krónur verið greiddar inn á yfirdráttarskuld á reikningi nr. Ö þann 17. desember 2015. Ekkert hafi verið greitt inn á aðrar skuldbindingar kærenda á tímabilinu október 2015 til desember 2015. Miðað við greiðslugetu þeirra frá mars 2011 til ársloka 2015 vanti því samtals 14.505.229 krónur sem þau hefðu átt að greiða inn á skuldir sínar. Sé sú fjárhæð án tillits til arfs og söluhagnaðar kæranda A á árinu 2015.

Að því er varði árið 2016 hafi samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði alls verið greiddar 2.862.710 krónur inn á lán nr. X og Yá árinu 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hf. hafi bílasamningi nr. Z verið skuldbreytt með nýjum samningi í febrúar 2016. Samtals hafi 369.688 krónur verið greiddar inn á bílasamninginn frá apríl 2016 til desember 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hf. hafi 1.800.000 krónur verið greiddar inn á lán hjá bankanum. Yfirdráttarskuldir hjá Íslandsbanka hf. hafi verið í vanskilum og að lokum verið afskrifaðar í febrúar 2011. Þá hafi samtals verið greiddar 280.000 krónur inn á kreditkort hjá Íslandsbanka hf. á árinu 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hf. hafi verið greiddar 193.928 krónur inn á yfirdráttarreikning nr. Ö á árinu 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra hafi kærandi A greitt 1.134.725 krónur upp í skuld á árinu 2016. Þá hafi kærendur upplýst að kærandi A hafi nýtt þá fjármuni sem hún fékk í arf og fjármuni vegna sölu á íbúð móður sinnar að E til greiðslu skuldarinnar. Þessi fjárhæð sé ekki reiknuð til frádráttar af greiðslugetu kærenda, enda séu fjármunir vegna arfs á árinu 2015 ekki reiknaðir kæranda Atil tekna.

Að sögn kæranda B hafi hann greitt um 800.000 krónur inn á skuld hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga á árinu 2015. Óskað hafi verið eftir staðfestingu á þessari greiðslu hjá stofnuninni en hún hafi ekki fengist þar sem kærandi B sé ekki lengur skráður skuldari í kerfum hennar. Umboðsmaður skuldara hafi jafnframt óskað eftir því við kæranda B að hann sýndi fram á kvittun eða önnur gögn vegna þessarar greiðslu en það hafi ekki verið gert. Ekki verði því tekið tillit til þessarar innborgunar við útreikning á greiðslugetu kærenda.

Greiðslugeta kærenda til greiðslu lána og annarra skuldbindinga á árinu 2016 hafi sem fyrr greinir numið 5.600.747 krónum. Af þeirri fjárhæð standi eftir 94.421 króna eftir að ofangreindar innborganir, samtals að fjárhæð 5.506.326 krónur, hafi verið dregnar frá. Þrátt fyrir þessa umfram greiðslugetu kærenda á árinu 2016, sbr. ofangreint, séu ógreiddir reikningar kærenda vegna október, nóvember og desember 2016 alls 109.902 krónur. Þá hafi kærendur tekið yfirdráttarlán hjá Arion banka hf. að fjárhæð 300.000 krónur í desember 2016.

Af gögnum málsins og því sem fram hafi komið telji umboðsmaður að enn liggi ekki fyrir nægilega glögg mynd af fjárhag kærenda þar sem hvorki hafi verið veittar upplýsingar um söluhagnað þeirra á árinu 2015 né hvernig kærandi A hafi ráðstafað þeim fjármunum sem hún fékk í fyrirframgreiddan arf á árinu 2015.

Að mati umboðsmanns verði að telja að kærendur hafi, með því að greiða ekki af skuldbindingum sínum þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu að fjárhæð samtals 14.599.650 krónur á tímabilinu frá mars 2011 til ársloka 2016, látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telur því óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, enda verði að telja framangreinda háttsemi umsækjenda ámælisverða í ljósi fjárhagsstöðu þeirra á tímabilinu.

Kærendum hafi verið sent bréf 22. febrúar 2017, bæði í tölvupósti og ábyrgðarpósti. Í bréfinu hafi verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar til greind atriði og leggja fram gögn. Jafnframt hafi verið tekið fram hvaða afleiðingar það gæti haft bærust ekki umbeðnar skýringar og gögn.

Mikið af málatilbúnaði kærenda hafi snúist um önnur atriði svo sem afmáningu veðkrafna Íbúðalánasjóðs umfram matsverðs fasteignar kæranda A, tímalengd greiðsluaðlögunar, viðhald fasteigna og tekjur þeirra og greiðslugetu þegar þau yrðu komin á eftirlaunaaldur. Kærendur hafi einnig krafist þess að reiknaður yrði út sá forsendubrestur sem hefði orðið hjá þeim árið 2008 og að útreiknuð fjárhæð kæmi til lækkunar á veðskuldum þeirra við Íbúðalánasjóð. Kærendur taki fram að það sé í raun það eina sem þau fari fram á að verði leiðrétt með atbeina umboðsmanns skuldara, í samræmi við jafnræðisreglu sem gildi um alla landsmenn. Samkvæmt lögum nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara sé eitt af hlutverkum umboðsmanns að veita einstaklingum sem eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausnar, ásamt því að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Til þess að fá samþykkta greiðsluaðlögun þurfi umsókn að uppfylla skilyrði 6. gr. lge. en það séu þau skilyrði sem könnuð hafi verið í máli kærenda. Að mati umboðsmanns skuldara verði ekki talið að það sé í verkahring hans að reikna út í prósentum talið þann forsendubrest sem orðið hafi hjá kærendum árið 2008 og þau telji að koma eigi til lækkunar á veðskuldum Íbúðalánasjóðs.

Kærendur hafi enn fremur krafist þess að tekið yrði tillit til þess að þau séu tæplega 61 og 64 ára gömul og hafi þau núverandi tekjur aðeins í örfá ár. Þau fari því fram á að afmáð verði 20% af áhvílandi lánum Íbúðalánasjóðs af fasteign kæranda A að C. Með því móti telji kærendur líklegt að þau geti greitt mánaðarlegar afborganir áhvílandi veðlána þegar þau hafi náð eftirlaunaaldri en muni með öðru móti ekki takast að klára að greiða upp þau veðlán sem hvíli á fasteigninni.

Kærendum hafi verið greint frá því að komi til þess að einstaklingar fái samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun sé notast við þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji og miðað sé við þær tekjur sem viðkomandi hafi þá stundina. Þegar frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun sé stillt upp sé greiðslugeta fundin þannig að tekið sé meðaltal núverandi tekna og framfærslukostnaðar samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Embættið hafi ekki lagalegar forsendur til þess að miða við annan framfærslukostnað eða mögulegar breytingar á tekjum eftir 3, 6 eða 9 ár. Miðað sé við núverandi stöðu og komi til þess að tekjur lækki sé hægt að óska eftir breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi samkvæmt 24. gr. lge. Í greiðsluaðlögun sé ekki gert ráð fyrir að skuldarar greiði upp íbúðalánin og sé lánstími því ekki tekinn með í útreikninga við vinnslu greiðsluaðlögunarmála.

Líkt og að ofan greini sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi með því að greiða ekki af skuldbindingum sínum þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu á tímabilinu frá mars 2011 til ársloka 2016, látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni. Kærendur hafi ekki mótmælt útreikningi umboðsmanns að því er varði tekjur þeirra og framfærslukostnað sem efnislega röngum. Þau hafi á hinn bóginn lagt fram staðfestingu á kostnaði sem tekið hafi verið tillit til.

Embætti umboðsmanns skuldara telji sig hafa veitt kærendum færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með fyrrgreindu bréfi 22. febrúar 2017 en þegar stjórnvaldsákvarðanir séu teknar sé umboðsmanni skuldara ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu.

Að ofangreindu virtu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Málatilbúnaður kærenda varðar öðrum þræði kröfu þeirra um afskrift á hluta lána Íbúðalánasjóðs. Embætti umboðsmanns skuldara starfar á grundvelli laga nr. 100/2010. Tilgangur embættisins er meðal annars sá að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar, hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi og veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, lge. Embættið hefur á hinn bóginn ekki heimildir til þess að fella niður lán að hluta eða öllu leyti og þar af leiðandi verður kröfu um slíkt ekki beint til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umboðsmaður skuldara telji óhæfilegt að samþykkja umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og er umsókninni synjað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt.

Kærandi A óskaði greiðsluaðlögunar með umsókn 10. febrúar 2011 og þann dag hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól gagnvart henni, samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge. Kærandi B var ekki aðili að því máli. Kæranda A var í framhaldinu veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2011. Heimildin var felld niður 3. október 2013. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 22. október 2015, sbr. mál nr. 165/2013, þar sem kærandi A var talin hafa brotið gegn skyldum sínum um að leggja fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þar með féll greiðsluskjól kæranda A niður samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge.

Kærandi A sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 17. janúar 2017 og nú ásamt kæranda B. Það var rúmlega þremur árum eftir að fyrra máli kæranda A lauk hjá umboðsmanni skuldara og um 15 mánuðum eftir að úrskurðarnefnd greiðsluaðlögunarmála úrskurðaði í því máli. Hinni nýju umsókn var hafnað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2017. Þessa ákvörðun kærðu kærendur til úrskurðarnefndar velferðarmála og er sú ákvörðun til meðferðar í máli þessu.

Umboðsmaður skuldara byggir á því að fjárhagur kærenda sé óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem ekki sé ljóst hve mikla fjármuni kærandi A hafi fengið í sinn hlut þegar íbúð, sem hún fékk ásamt öðrum í fyrirframgreiddan arf, var seld árið 2015.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í fyrirliggjandi skattframtali kærenda 2016 vegna ársins 2015 kemur fram að kærandi B hafi keypt fyrrnefnda íbúð að E fyrir 37.500.000 krónur og selt hana aftur á sama verði. Bæði kaup og sala hafi átt sér stað árið 2015. Að öðru leyti kemur dagsetning kaupanna ekki fram. Einnig liggur fyrir afsal vegna íbúðarinnar 1. desember 2015. Samkvæmt afsalinu voru kærandi A og meðerfingjar hennar seljendur íbúðarinnar. Kaupsamningur er sagður hafa átt sér stað 2. október 2015 og eignin hafi verið seld án veðbanda. Að því er varðar sölu eignarinnar er samkvæmt framangreindu ósamræmi á milli skattframtals kærenda og afsals. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 22. febrúar 2017 var óskað eftir upplýsingum um kaup- og söluverð eignarinnar og hvernig fjármunum vegna sölunnar hefði verið ráðstafað. Einnig var óskað eftir afriti af kaupsamningi og upplýsingum um áhvílandi lán sem greidd voru upp við söluna. Kærendur urðu ekki við þessari beiðni. Þannig liggja engin gögn fyrir í málinu er varpað geta ljósi á þessi atriði, þ.e. hvaða fjármuni kærendur, annað eða þau bæði, fengu við sölu íbúðarinnar til þriðja manns eða hvernig þeim fjármunum var ráðstafað. Þannig er ómögulegt að meta hvernig fjárhagur þeirra var eftir að fyrrnefndri íbúð var afsalað 1. desember 2015 og fram til 17. janúar 2017 eða á rúmlega þrettán mánaða tímabili áður en þau sóttu um að fá að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt framansögðu fellst úrskurðarnefndin á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að fjárhagur kærenda sé óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara byggir einnig á því að kærendur hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt og hafi með því brotið gegn f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2011 til ársloka 2015 hafi kærendur haft samtals 14.505.229 krónur til ráðstöfunar til að greiða af skuldum sínum og leggja til hliðar en þau hafi aðeins greitt skuldir að fjárhæð 961.934 krónur. Þá sé ekki tekið tillit til arfs sem kærandi A hafi fengið árið 2015. Á þessum tíma hafi kærandi A notið greiðsluskjóls og því ekki mátt greiða af skuldum. Kæranda B, sem ekki hafi staðið í greiðsluaðlögunarumleitunum, hafi á hinn bóginn borið að greiða af skuldbindingum sínum. Á árinu 2016 hafi kærendur nýtt alls 5.506.326 krónur af ráðstöfunartekjum sínum til greiðslu af skuldum en haft greiðslugetu að fjárhæð 5.600.747 krónur. Þannig vanti 94.421 krónu upp á að kærendur hefðu staðið við skuldbindingar sínar á árinu 2016 eftir því sem þeim frekast hafi verið unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Eins og fram hefur komið var kærandi A aðili greiðsluaðlögunarmáls hjá umboðsmanni skuldara frá 10. febrúar 2011 til 3. október 2013. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana hennar stóð þó yfir til 22. október 2015 er úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála var kveðinn upp í samræmi við 1. mgr. 15. gr. lge., en þangað til bar kærandi A þær skyldur sem greiðsluaðlögunarumleitanir leggja á herðar skuldara.

Þegar stjórnsýsluákvörðun er tekin eða stjórnsýsluúrskurðir uppkveðnir verður að telja að máli sé lokið. Eðli málsins samkvæmt felur slík ákvörðun eða úrskurður í sér lyktir máls, þ.e. bindur enda á stjórnsýslumál, en samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur hún bindandi réttaráhrif fyrir þann eða þá sem hún beinist að eftir að hafa verið birt aðila eða aðilum máls. Samkvæmt þessu lauk fyrra máli kæranda A 22. október 2015 með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana þar sem hún hafði ekki sinnt skyldu sinni um að leggja fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Úrskurðarnefndin telur að af því leiði að umboðsmaður skuldara geti ekki tekið aðra ákvörðun nú sem byggi á háttsemi sem þegar hafi verið úrskurðað um, þ.e. að atvik í eldra máli kæranda A verði ekki notuð til að afgreiða síðara mál hennar, eins og gert er í ákvörðun umboðsmanns skuldara vegna tímabilsins 1. mars 2011 til 22. október 2015.

Að því er varðar kæranda B stóð hann ekki í greiðsluaðlögunarumleitunum á tímabilinu 1. mars 2011 til 22. október 2015 og bar því hvorki skyldur né naut réttinda samkvæmt lge. Aðeins liggja fyrir gögn er staðfesta þrjár skuldir hans á þessu tímabili; skuld hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Íslandsbanka hf. og Kreditkortum hf. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi hann skuld sína við Innheimtustofnun sveitarfélaga að fjárhæð 688.081 krónu 28. desember 2012 en þá hefur verið tekið tillit til bakfærðra dráttarvaxta. Hann skuldaði Íslandsbanka hf. 311.976 krónur vegna kreditkorts en sú skuld var afskrifuð hjá bankanum 1. desember 2012. Til innheimtu vegna Kreditkorta hf. voru 606.929 krónur sem voru í vanskilum á árunum 2008, 2009 og 2010. Ekkert var greitt inn á þessar skuldir frá 1. mars 2011 til 22. október 2015. Samkvæmt þessu liggja fyrir gögn til staðfestingar á skuldum kæranda B að fjárhæð 1.606.986 krónur á tímabilinu 1. mars 2011 til 22. október 2015 en þar af greiddi hann 688.081 krónu.

Á tímabilinu frá 22. október 2015 til 17. janúar 2017 liggja fyrir gögn um fyrrgreinda skuld kæranda B við Kreditkort hf. en á árinu 2016 var greidd 548.501 króna inn á skuldina.

Samkvæmt útreikningi úrskurðarnefndarinnar var greiðslugeta kæranda B jákvæð frá 1. mars 2011 til 31. desember 2013 og aftur árið 2016. Kærandi B hefði því átt að geta haldið öllum skuldum sínum í skilum á þeim tíma en það gerði hann ekki. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur hann með því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar kæranda A verður hér skoðað tímabilið eftir 22. október 2015 og fram til 31. desember 2016, sbr. það sem framan er rakið.

Málsgögn er staðfesta eftirfarandi skuldir eru fyrirliggjandi: Í febrúar 2016 stóð kærandi í skuld við Íslandsbanka hf. vegna skuldabréfs og kreditkorts, samtals að fjárhæð 6.955.103 krónur. Voru skuldir þessar í vanskilum. Bankinn samdi við kæranda A um að fella skuldirnar niður gegn greiðslu á 1.800.000 krónum. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá bankanum greiddi kærandi A bankanum umsamda fjárhæð og eftirstöðvar voru afskrifaðar. Kærandi greiddi skuld við Tollstjóra að fjárhæð 826.057 krónur 8. desember 2015. Einnig var dregið af launum hennar í þrígang vegna skuldarinnar á árinu 2016, alls 26.864 krónur. Ekki liggur fyrir hvort kærandi A stendur enn í skuld við Tollstjóra. Þá greiddi hún af bílasamningi hjá Landsbankanum hf. að fjárhæð 1.651.586 krónur sem var í skilum er kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar. Í upphafi árs 2017 stóð kærandi A í skuld að fjárhæð 462.819 krónur vegna fasteignagjalda. Einnig stóð hún í skuld vegna veitureikninga o.fl. að fjárhæð 110.004 krónur en gjalddagar reikninganna voru í október, nóvember og desember 2016.

Samkvæmt útreikningi úrskurðarnefndarinnar var greiðslugeta kæranda A jákvæð á tímabilinu frá 22. október 2015 til 31. desember 2016. Kærandi A hefði því átt að geta haldið öllum skuldum sínum í skilum allt frá því er fyrra greiðsluaðlögunarmáli hennar lauk en það gerði hún ekki. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur hún með því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að fjárhagur kærenda hafi verið óglöggur samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og einnig að þau hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Bar því að synja þeim um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Hin kærða ákvörðun er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum