Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. febrúar 1999

(45. gr. vegalaga nr. 45/1994, malarnám, vegarlagning, ræktað land, ræktanlegt land, óræktað land, ræktunarkostnaður, gunnverð lands, landi skilað, stjórnarskráin, IX kafli vegalaga nr. 45/1994)

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 18/1998

Vegagerðin

gegn

Baldvin Björnssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta.

Mestnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Dr. Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 30. nóvember 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 11. desember 1998, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna vegarlagningar um land Skorholts í Leirár- og Melahreppi. Andlag eignarnámsins er landspilda sem fer undir hinn nýja veg á u.þ.b. 1.300 m. kafla í landi Skorholts. Hið nýja vegsvæði er alls 5,5763 ha. að flatarmáli, en samkvæmt mælingum voru 2,05085 ha. af hinu nýja vegarstæði ræktað land, en 3,52545 óræktað land. Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus með aðilum. Með hinum nýja vegi leggst af eldri vegur um land Skorholts sem eignarnemi skilar til eignarnámsþola. Samtals er sá vegur 1,26 ha. að stærð. Auk framangreinds er krafist mats á 808 m³ malarefnis sem tekið hefur verið úr námu í landi Skorholts.

Eignarnámsþoli er eigandi Skorholts, Baldvin Björnsson, kt. 291065-5819, Skorholti, Leirár- og Melahreppi.

Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta föstudaginn 11. desember 1998. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 17. desember 1998.

Föstudaginn 17. desember 1998 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Sættir reyndar en án árangurs. Málinu var því frestað til framlagningar greinargerða til 11. janúar 1999.

Mánudaginn 11. janúar 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu aðila voru lagðar fram greinargerðir ásamt fylgigögnum, og var málinu að því búnu frestað til framlagningar viðbótargreinargerða af hálfu aðila til 29. janúar 1999.

Föstudaginn 29. janúar 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu aðila voru lagðar fram viðbótargreinargerðir auk fleiri gagna. Af hálfu matsnefndarinnar var ekki talin þörf á að flytja málið munnlega og var það því að framlagningunni lokinni tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er þess krafist að bætur fyrir hina eignarnumdu landspildu og malarefnið skuli meta í samræmi við orðsendingu eignarnema nr. 26/1988 um landbætur o.fl. sem lögð hefur verið fram í málinu. Eignarnemi bendir sérstaklega á að Bændasamtökin hafi fallist á orðsendinguna sem heildartilboð um bætur fyrir landbúnaðarland undir veg, með þeim fyrirvara að landverð og ræktunarkostnaður kunni að vera meiri í einhverjum tilvikum. Eignarnemi bendir á að orðsendingin tryggi bændum bætur, án þess að þeir hafi þurft að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir samsvarandi tjóni.

Samkvæmt orðsendingunni eru bætur fyrir ræktað land kr. 157.200- pr. ha. og kr. 14.500- pr. ha. fyrir óræktað en ræktunarhæft land. Fyrir malarefni býður eignarnemi kr. 9,00 pr. m³. Framboðnar bætur eignarnema sundurliðast því þannig:

Tún 2,05085 ha. kr. 322.394-

Ræktunarhæft land 3,52545 ha. kr. 51.119-

Malarefni 808 m³kr. 7.272-

Samtalskr. 380.785-

Þá krefst eignarnemi þess að frá bótunum dragist verðmæti 1,26 ha. spildu sem eignarnemi skilar eignarnámsþola aftur með því að eldri vegur verður niður lagður.

Eignarnemi telur að orðsending hans eigi við í þessu máli þar sem landið sé í meðallagi verðmætt og ekki liggi fyrir að ræktun landsins sé óvenju kostnaðarsöm. Eignarnemi hafnar alfarið þeirri kröfu eignarnámsþola að honum verði ákvarðaðar sérstakar bætur fyrir framræslukostnað landsins, eins og krafa var gerð um í bréfi dags. 28. ágúst 1998. Eignarnemi telur að ekki liggi fyrir að eignarnámsþoli hafi orðið fyrir tjóni á framræslu í landi sínu vegna framkvæmdanna. Þá liggi heldur ekki fyrir að eignarnámsþoli hafi þurft að kosta framræslu landsins gagngert vegna framkvæmdanna.

Eignarnemi hafnar alfarið að hægt sé að miða bætur í máli þessu við samninga sem gerðir voru við bændur í Skilmannahreppi og Innri-Akraneshreppi vegna vegtenginga við Hvalfjarðargöng. Eignarnemi bendir á að þeir samningar hafi verið gerðir með hliðsjón af úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 28. september 1995 vegna eignarnáms á landspildum úr jörðunum Kirkjubóli og Innra-Hólmi, Innri-Akraneshreppi, vegna byggingar jarðganga, gjaldtökumannvirkja og lagningar vega og hringtorgs. Eignarnemi telur að umfang þeirra framkvæmda og afleiðingar fyrir landeigendur á svæðinu hafi verið með þeim hætti að allur samanburður við mál þetta sé óviðeigandi. Þá bendir eignarnemi á að mikilvægt hafi verið í samningaviðræðum við bændur í Skilmannahreppi og Innri-Akraneshreppi að gæta samræmis við greiðslu bóta fyrir hið eignarnumda land, þar sem önnur leið hefði getað flækt samningaviðræður og valdið óánægju. Þá hafi gerð Hvalfjarðarganga verið umdeild á og því hafi verið lögð áhersla á að ná sáttum við landeigendur. Þá bendir eignarnemi á að landrými sé víða lítið á aðliggjandi jörðum að Hvalfjarðargöngum og því hafi eignarnámið verið bagalegra fyrir landeigendur en ella.

Varðandi hið eignarnumda malarefni kveður eignarnemi efnið nýtast sér sem burðarlagsefni, en það sé ekki nýtilegt sem steypuefni. Eignarnemi telur námuna vera utan markaðssvæða og því séu raunhæfar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni kr. 9,00 pr. m³.

Varðandi eignarnámið í heild telur eignarnemi þær framkvæmdir sem hann hefur framkvæmt á jörðinni í heild vera mjög jákvæðar fyrir jörðina Skorholt. Eignarnemi kefst þess að þetta hagræði verði metið og dregið frá væntanlegum bótum. Eignarnemi bendir í þessu sambandi í fyrsta lagi á að með því að færa veginn, opnist möguleiki fyrir eignarnámsþola að nýta frekar malarnámu sem staðsett er rétt við gamla veginn, en vegna nálægðar námunnar við veginn voru nýtingarmöguleikar námunnar takmarkaðir áður. Eignarnemi telur að nú megi hugsanlega nýta tugi þúsunda rúmmetra efnis úr námunni. Þá telur eignarnemi að steypuefni geti fundist í námunni undir hinum gamla vegi. Í annan stað bendir eignarnemi á að með færslu vegarins sé aðkoman að bæjarhúsunum í Skorholti mun betri en en áður var, en gamla aðkeyrslan var brött og gat verið erfið yfirferðar að vetrarlagi vegna hálku og snjóa. Eignarnemi telur þessa breytingu gera jörðina ákjósanlegri til búsetu og þannig eftirsóknarverðari eign.

Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. Stórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 til stuðnings sjónarmiðum sínum í málinu.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er krafist kr. 1.089.315- í bætur vegna veglagningarinnar um land Skorholts. Þá er þess krafist að bætur vegna hins eignarnumda malarefnis verði metnar á kr. 35,00 pr. m³. Að auki er þess krafist að eignarnemi greiði allan kostnað vegna málsins.

Bótakrafa eignarnámsþola vegna veglagningarinnar sundurliðast þannig:

Tún, grunnverð (134.000 x 2.05085) kr. 247.814-

Tún, framræslukostnaður (40.799 x 2.05085) kr. 83.673-

Tún, ræktunarkostnaður (106.700 x 2.05085) kr. 218.826-

Tún, afurðatap (63.074 x 2.05085) kr. 129.355-

Ræktunarhæft land, grunnverð (134.000 x 3.52545) kr. 472.410-

Ræktunarhæft land, framræslukostn.(40.799 x 2,6) kr. 106.077-

- Gamalt vegstæði til frádráttar (134.000 x 1,26)( kr. 168.840- )

Samtalskr. 1.089.315-

Eignarnámsþoli telur að grunnverð það sem eignarnemi býður fram, kr. 14.500- pr. ha. sé allt of lágt með vísan til þess að sannanlega hafi verið greitt umtalsvert hærra verð fyrir land á svæðinu sem farið hafi undir vegi eða notað til annarra opinberra þarfa undanfarið. Með hliðsjón af þessu gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að grunnverð lands í Skorholti verði metið á sama grundvelli og það land sem tekið hefur verið til opinberra nota í Skilmannahreppi, Hvalfjarðarstrandarhreppi og Innri-Akraneshreppi vegna veglagningar, rafstrengjalagningar og til iðnaðarnota.

Eignarnámsþoli hefur lagt fram afrit átta samninga sem eignarnemi eða aðrir opinberir aðilar hafa gert við landeigendur á svæðinu vegna ýmissa framkvæmda. Samkvæmt fimm samningum sem eignarnemi hefur gert vegna lagningar vega á svæðinu, hefur grunnverð það sem greitt hefur verið numið kr. 100.000- pr ha. Andakílsárvirkjun hefur gert tvo samninga þar sem grunnverð var annars vegar kr. 133.333- pr. ha. og hins vegar kr. 133.692- pr. ha. Þá hefur verið lagður fram einn samningur ríkisins við landeigendur vegna kaupa á 122 ha. spildu úr landi Vestra-Kataness, Hvalfjarðarstrandarhreppi til iðnaðarnota, þar sem grunnverð lands var kr. 120.000- pr. ha., verð á túnum kr. 150.000- pr. ha. og strandsvæði kr. 200.000- pr. ha.

Eignarnámsþoli bendir á að í sumum tilfellum þar sem eignarnemi hafi greitt eignarnámsþolum kr. 100.000- í grunnverð fyrir land, hafi einnig verið greiddar bætur fyrir "óhagræði" af ýmsum orsökum og telur eignarnámsþoli líklegt að það sé gert til að ekki þurfi að hækka grunnverðið til að ná samningum.

Í þeim tilvikum þar sem Andakílsárvirkjun hefur keypt land af bændum vegna lagningar raflínu um svæðið, halda eignarnámsþolar öllum venjulegum afnotarétti sínum að landinu s.s. til beitarrétti, en fá allt að einu framangreindar fjárhæðir í bætur.

Eignarnámsþoli bendir á að Skorholt sé einungis steinsnar frá þeim jörðum sem samningar hafa verið gerðir um og því eigi öll sömu sjónarmið við varðandi mat á grunnverði þar. Að auki telur eignarnámsþoli að greiða eigi sérstaklega fyrir framræslu landsins sem tekið hefur verið eignarnámi, þar sem eignarnemi hafi ekki tekið tillit til þess kostnaðar að neinu leyti. Eignarnámsþoli hefur lagt fram reikning yfir kostnað hans við framræslu lands, en hann nemur kr. 40.799- pr. ha.

Hvað varðar kröfu eignarnámsþola um annan ræktunarkostnað er stuðst við lágmarksfjárhæðir sem fram koma í Handbók bænda 1998, en ljósrit úr henni hefur verið lagt fram í málinu. Þar kemur fram að lágmarksviðmiðun Bændasamtaka Íslands vegna meðaltalsræktunarkostnaðar er kr. 106.700- pr. ha, og er þá miðað við nýrækt á mýrlendi eða landi sem þarf mikla jöfnun með jarðýtu, eins og reyndin hefur verið í Skorholti. Um tjón vegna uppskerutaps vísar eignarnámsþoli til orðsendingar eignarnema sem lögð hefur verið fram.

Til stuðnings kröfu sinni um kr. 35,00 pr. m³ fyrir hið eignarnumda malarefni, hefur eignarnámsþoli lagt fram afrit tveggja samninga þar sem eignarnemi hefur keypt efni á svæðinu á kr. 30,00 pr. m³ auk þessa hafa verið lögð fram ljósrit af reikningum þar sem eignarnámsþoli sjálfur hefur selt efni úr námu sinni, annars vegar fyrir kr. 30,00 pr. m³ og hins vegar kr. 40,00 pr. m³. Eignarnámsþoli bendir á að efnið sé örstutt frá framkvæmdastað og því ódýrt að flytja það. Telur hann kr. 9,00 pr. m³ allt of lágt verð með hliðsjón af þessu.

Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega því að bætur til hans eigi að lækka sökum þess að nýtingarmöguleikar malarnámu í landi Skorholts stóraukist við færslu vegarins, enda sé öll nýting námunnar háð samþykki fyrirtækisins Þorgreirs og Helga hf. samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við það félag. Þá sé steypumöl að finna víðar á jörðinni og því sé færsla vegarins nú engin forsenda fyrir sölu eignarnámsþola á slíku efni. Þá mótmælir eignarnámsþoli því einnig að færsla heimkeyrslu að bænum hafi þau úrslitaáhrif á nýtingu jarðarinnar til búskapar að það geti orsakað það að bæturnar eigi að lækka.

VI. Álit matsnefndar.

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Nefndinni þykir ljóst að hið nýja vegarstæði geri aðkomu að íbúðarhúsinu í Skorholti að mörgu leyti heppilegri en áður var. Engu að síður verður ekki séð að þessi breyting feli í sér breytingu á verðmæti jarðarinnar, þannig að bætur vegna eignarnámsins eigi að lækka vegna þessa. Ekki verður heldur séð að markaðsvirði malarnámunnar næst gamla veginum aukist svo mikið að efni séu til að lækka eignarnámsbæturnar vegna þessa.

Af hálfu eignarnámsþola hafa verið lagðir fram samningar sem gerðir hafa verið við bændur í Skilmannahreppi og Innri-Akraneshreppi vegna eignarnáms á spildum úr jörðum þar, m.a. vegna lagningar nýs vegar um svæðið. Grunnverð lands samkvæmt þeim samningum er töluvert hærra en það sem orðsending eignarnema gerir ráð fyrir og eignarnemi hefur boðið fram sem sem bætur í máli þessu. Fallist er á það með eignarnema að aðstæður á jörðunum næst Hvalfjarðargöngum sé nokkuð önnur en í Skorholti, einkum þar sem undirlendi jarða undir Akrafjalli er mun takmarkaðra en í Skorholti. Engu að síður telur matsnefndin að ekki verði hjá því komist að líta til þeirra samninga að einhverju leyti auk þess sem tilkoma Hvalfjarðarganga hefur haft í för með sér verðhækkun á landi á svæðinu vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Þá er einnig á það að líta að Skorholt er ekki fjarri þéttbýlisstöðunum Akranesi og Borgarnesi. Með vísan til þessa þykir matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir hinn óræktaða, en ræktanlega hluta hins eignarnumda lands vera kr. 110.000- og hefur þá verið tekið tillit til 1,26 ha. sem eignarnemi skilar eignarnámsþola með því að leggja gamla veginn niður.

Að áliti matsnefndarinnar eru tún þau sem fóru undir hinn nýja veg gömul tún og ber að taka tillit til þess við mat á þeim. Á hitt er hins vegar einnig að líta að verð það sem eignarnemi setur á ræktað land í orðsendingu sinni er nokkuð lágt miðað við raunkostnað við ræktun lands í dag. Með hliðsjón af þessu þykir matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir ræktaða hluta hins eignarnumda lands vera kr. 450.000-. Ekki þykja efni til að greiða sérstaklega fyrir framræslu landsins eða uppskerutap, enda er tekið tillit til þeirra þátta í framangreindi fjárhæð.

Þrátt fyrir að Skorholt sé nærri þéttbýlisstöðum er fallist á það með eignarnema að malarnáman þar sé utan markaðssvæða. Þau verð sem eignarnámsþoli hefur selt efni úr námunni á þykja ekki gefa raunhæfa mynd af markaðsvirði efnisins, enda er þar um að ræða tiltölulega lítið efnismagn og ekki liggur fyrir að almenn eftirspurn sé eftir efninu. Við mat á verðmæti malarefnisins þykir því eins og á stendur rétt að líta til orðsendingar eignarnema, en taka ber þó tillit til þess að efnið er sérstaklega aðgengilegt og stutt frá notkunarstað. Með hliðsjón af þessu þykja hæfilegar bætur fyrir efnistökuna vera kr. 12,00 pr. m³, eða samtals kr. 9.696-.

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 195.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.

Heildarbætur til eignarnámsþola sundurliðast því þannig:

Bætur fyrir 3,52545 ha. óræktaðs lands að teknu

tilliti til 1,26 ha. sem skilað er kr. 110.000-

Bætur fyrir 2,05085 ha. ræktaðs lands kr. 450.000-

Bætur fyrir 808 m³ malarefnis kr. 9.696-

Málskostnaður kr. 195.000-

Virðisaukaskatturkr. 47.775-

Samtalskr. 812.471-

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Baldvin Björnssyni, kt. 291065-4819, Skorholti, Leirár- og Melahreppi, kr. 569.696- í eignarnámsbætur og kr. 195.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 329.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

__________________________________

Helgi Jóhannesson

Kristinn G. Jónsson                             Ragnar Ingimarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum