Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 31/2014

Mál nr. 31/2014

Fimmtudaginn 2. júní 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 2. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. maí 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. maí 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 6. júní 2014.

Með bréfi 26. júní 2014 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd X og X. Þau búa ásamt X börnum sínum í X fermetra eigin húsnæði að C. Kærandi A rekur [...] ásamt eiginmanni sínum en kærandi B rekur [...]. Mánaðarlegar tekjur þeirra eru 296.016 krónur og eru vegna launa, barnabóta og örorkustyrks.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 26.546.565 krónur Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2002 til 2008.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar, veikinda og minnkandi umsvifa í rekstri þeirra eftir efnahagshrunið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júní 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. ágúst 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við meðaltekjur kærenda hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra umfram framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara verið 233.724 krónur í þá 13 mánuði sem kærendur hafi verið í greiðsluskjóli. Einnig kom fram í bréfi umsjónarmanns að kærendur hefðu greitt 600.000 krónur til 700.000 krónur af veðkröfu fyrirtækisins síns, D á meðan frestun greiðslna hafi varað. Með því að greiða af kröfu þriðja aðila telji umsjónarmaður að kærendur hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og því hefðu kærendur brugðist skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 29. janúar 2014 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust bréflega.

Með ákvörðun 28. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a– og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði endurskoðuð og felld úr gildi.

Að mati kærenda beri umboðsmanni skuldara að taka þá ákvörðun í hverju máli sem best henti hag hvers aðila með tilliti til allra aðstæðna. Kærendur telja að umboðsmaður hafi ekki tekið tillit til allra aðstæðna þeirra í málinu. Ómálefnalegt sé að taka ekki tillit til þess að tekjur kærenda hafi aukist umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir þegar sótt var um greiðsluaðlögun. Hafi umboðsmaður frekar litið til hagsmuna kröfuhafa heldur en kærenda. Telja þau að í stað þess að reikna út hvað þau hafi hlutfallslega lagt til hliðar miðað við það sem þau hafi upphaflega átt að gera hefði umboðsmaður skuldara frekar átt að reikna út hlutfallslega hversu framfærsla fjölskyldunnar hefði verið meiri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um.

Kærendur telja að greiðsla opinberra gjalda, sem þau inntu af hendi í greiðsluskjóli, hafi verið þeim heimil. Þá líta kærendur svo á að þeim hafi borið að greiða skuld vegna fyrirtækis þeirra D. þar sem skuldin hafi verið tryggð með veði í íbúð þeirra. Einnig hafi þau endurgreitt lán, sem þau hafi fengið frá vinum og vandamönnum, eftir að tekjur þeirra hækkuðu.

Kærendur eru ósátt við umsjónarmann, en hann hafi aðeins einu sinni eftir árið 2012 haft samband við þau. Þegar hann hafi mælt með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitanna, þá hafi hann aðeins byggt þá ákvörðun á þessum eina fundi sem hann átti með kærendum. Ekki hafi verið litið til þess sem hafi gerst hjá kærendum í millitíðinni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 14. júní 2012 og hafi frestun greiðslna hafist þá samkvæmt 11. gr. lge., auk þess sem skyldur kærenda hefðu tekið í gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til að geta greitt af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 18 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2012 til 31. desember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. júlí 2012 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 6.831.209
Barna- og vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og ofgreidd gjöld 2012 1.275.869
Barnabætur og ofgreidd gjöld 2013 270.989
Samtals 10.971.736
Mánaðarlegar meðaltekjur 609.541
Framfærslukostnaður á mánuði 354.333
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 255.208
Samtals greiðslugeta í 18 mánuði 4.593.744

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 609.541 krónu í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 18 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 354.333 krónur á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum janúarmánaðar 2014 fyrir hjón með X börn. Gengið sé út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa getu til að leggja fyrir um 4.593.744 krónur miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 255.208 krónur á mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður vísar til þess að kærendur hafi lagt fram gögn þess efnis að þau hafi á tímabili greiðsluskjóls þurft að greiða 515.041 krónu vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda. Jafnframt hafi þau lagt fram greiðsluseðla frá Arion banka vegna félagsins D. fyrir samtals 1.454.189 krónur sem þau hafi talið sig hafa þurft að greiða. Að sögn umsjónarmannsins hafi kærendur enn fremur haldið því fram að þeim hafi tekist að leggja til hliðar 720.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þótt tekið væri tillit til útskýringa kærenda sé ljóst að sú fjárhæð, sem þau hafi annars vegar greitt og hins vegar tekist að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls, skýri aðeins að hluta til það sem vantar upp  á sparnað kærenda.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara einnig á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að sögn kærenda hafi þau upplýst að þau hafi greitt að minnsta kosti 1.454.189 krónur vegna félagsins D á meðan frestun greiðslna hefði varað. Jafnframt hafi kærendur upplýst að þau hefðu á sama tímabili endurgreitt ótilgreinda fjármunni til vina sinna og fjölskyldu vegna fjárhagsaðstoðar frá þeim. Við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum verði ekki komist hjá því að telja að með hátterni sínu hefðu þau brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hefðu látið af hendi verðmæti sem gætu gagnast lánardrottnum sem greiðsla ásamt því sem þau hefðu skaðað hagsmuni lánardrottna og mismunað kröfuhöfum.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari á meðan leitað er greiðsluaðlögunar leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var umsókn kærenda samþykkt af hálfu Embættis umboðsmanns skuldara 14. júní 2012 og hófst þá frestun greiðslna og tóku skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. jafnframt gildi á þeim degi. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 4.593.744krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt. Kærendur kváðust hafa greitt 515.041 krónur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda á tímabilinu. Þau hafi einnig greitt 1.454.189 krónur vegna félagsins D og lagt til hliðar 720.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. desember 2012: Sex mánuðir
Nettótekjur A 1.758.046
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 293.008
Nettótekjur B 2.030.274
Nettó mánaðartekjur Bað meðaltali 338.379
Nettótekjur alls 3.788.320
Mánaðartekjur alls að meðaltali 631.387
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.981.492
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 165.124
Nettótekjur B 4.137.024
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 344.752
Nettótekjur alls 6.118.516
Mánaðartekjur alls að meðaltali 509.876
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. janúar 2014: Einn mánuður
Nettótekjur A 0
Nettótekjur B 351.458
Nettótekjur alls 351.458
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.258.294
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 539.910

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, opinberar upplýsingar um tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. janúar 2014: 19 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.258.294
Barnabætur, vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og ofgreidd gjöld. 1.289.283
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.547.577
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 607.767
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 354.333
Greiðslugeta kærenda á mánuði 253.434
Alls sparnaður í 19 mánuði í greiðsluskjóli x 253.434 4.815.250

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur hafa lagt fram gögn þess efnis að þau hafi þurft að greiða 515.041 krónu vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda. Kemur sú fjárhæð því til frádráttar því sem kærendum bar að leggja til hliðar í greiðsluskjólinu.

Kærendur kveðast hafa lagt til hliðar 720.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafa ekki lagt fram gögn er sýna fram á umræddan sparnað og er því ekki unnt að taka tillit til þessa við útreikninga á þeirri fjárhæð er kærendum bar að leggja til hliðar á tímabilinu. Kærendum bar því að leggja til hliðar 4.300.209 krónur á tímabili greiðsluskjóls. (4.815.250 – 515.041)

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt framansögðu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins og að sögn kærenda hafa þau greitt 1.454.189 krónur vegna félagsins D á meðan frestun greiðslna hefur varað. Kærendur hafa jafnframt upplýst að þau hafi á sama tímabili endurgreitt vinum sínum og fjölskyldu ótilgreinda fjármuni vegna fjárhagsaðstoðar Með því að greiða kröfu vegna félagsins og með greiðslum til vina og fjölskyldu, án samráðs og samþykkis umsjónarmanns, hafa kærendur látið af hendi fjármuni sem hefðu ella getað gagnast kröfuhöfum sem greiðsla. Það er því mat kærunefndarinnar að kærendur hafi með þeim hætti ráðstafað fjármunum sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c- liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og c- liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingavarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum