Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. júlí 2015

í máli nr. 13/2015:

EFLA hf.

gegn

Landsvirkjun og

Verkís hf.

Með kæru 24. júní 2015 kærir EFLA hf. útboð varnaraðila Landsvirkjunar nr. 20188 auðkennt „Stækkun Búrfellsvirkjunar“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila Landsvirkjunar um að ganga til samninga við varnaraðila Verkís hf. Til vara er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila Landsvirkjunar gagnvart kæranda. Þá er krafist málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu beggja varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði varnaraðila Landsvirkjunar um kaup á ráðgjafaþjónustu vegna fyrirhugaðra framkvæmda við stækkun Búrfellsvirkjunar. Í útboðgögnum kemur fram að helstu verkefni samkvæmt útboðinu séu útboðshönnun, gerð útboðsgagna, aðstoð á útboðstíma, lokahönnun mannvirkja ásamt hönnunarrýni, aðstoð á byggingartíma, gerð tíma- og kostnaðaráætlana og gerð reyndarteikninga og skilagreina. Samkvæmt útboðsgögnum skyldi taka lægsta tilboði þess bjóðanda sem uppfyllti að öðru leyti kröfur útboðsgagna. Fjórir aðilar skiluðu tilboðum í verkið, þar á meðal kærandi og varnaraðili Verkís hf. Við opnun tilboða hinn 1. júní sl. kom í ljós að tilboð Verkíss hf. var lægst, en tilboð kæranda næst lægst. Hinn 23. júní sl. var kæranda tilkynnt að Landsvirkjun hefði ákveðið að taka tilboði Verkíss hf.

Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að með því að Landsvirkjun hafi ákveðið að taka tilboði Verkíss hf. í útboðinu hafi Landsvirkjun brotið gegn meginreglunni um jafnræði bjóðenda við val á tilboði. Verkís hf. hafi, vegna fyrri aðkomu sinnar sem hönnuður verkhönnunar við stækkun Búrfellsvirkjunar, notið verulegs forkots gagnvart kæranda og öðrum bjóðendum við gerð tilboðs sem skipt hafi sköpum um að tilboð Verkíss hf. var lægra en tilboð kæranda.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn rétti sínum. Í máli þessu liggur fyrir að tilboð voru lögð fram í tvennu lagi, annars vegar um hæfi bjóðenda og hins vegar um verð. Var mælt svo fyrir í útboðsgögnum að verðtilboð skyldi því aðeins opnað að bjóðandi uppfyllti hæfiskröfur. Fyrri opnunarfundur var haldinn 28. apríl sl. og kom þá skýrlega fram að tilboð hefði meðal annars borist frá varnaraðilanum Verkís hf. Niðurstaða um hæfi bjóðenda var tilkynnt 27. maí sl. Svo sem áður greinir var síðari opnunarfundur haldinn 1. júní sl. og var þá meðal annars opnað verðtilboð frá fyrrnefndum varnaraðila.

Samkvæmt framangreindu hlaut kæranda að vera ljóst eigi síðar en við síðari opnunarfundinn 1. júní sl. að varnaraðili Landsvirkjun hafði ákveðið að Verkís hf. væri hæfur aðili til að taka þátt í útboðinu og hugðist leggja mat á verðtilboð fyrirtækisins á þeim grundvelli. Var því eigi síðar en á þessu tímamarki tilefni fyrir kæranda að bera ákvörðun varnaraðilans undir kærunefnd útboðsmála. Kæra barst kærunefnd 24. júní sl. Var þá liðinn fyrrgreindur frestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup til að bera umrædda ákvörðun Landsvirkjunar undir nefndina. Að þessu virtu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar á grundvelli kæru EFLU hf. vegna útboðs varnaraðila, Landsvirkjunar, nr. 20188 auðkennt „Stækkun Búrfellsvirkjunar“, er aflétt.

                                                                                    Reykjavík, 10. júlí 2015

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum