Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 394/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 394/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 319/2015; kæra A og B, dags. 18. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 31. ágúst 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 18. mars 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur óski eftir að útreikningar á ákvörðun leiðréttingarinnar verði endurskoðaðir í ljósi þess að kærendur telji að ekki hafi verið stuðst við önnur lán en fasteignalán hjá þeim við útreikninga leiðréttingarinnar. Önnur lán sem séu á nafni kærenda hafi verið tekin til endurbóta og viðhalds á núverandi húsnæði, m.a endurnýjunar á gluggum og baðherbergi. Eins telji kærendur að of mikið hafi verið horft í samning vegna skuldaleiðréttingar sem kærendur hafi gert við banka X og renni út í lok þessa árs, þar sem ekki sé komið til lækkunar af þeim samningi með þessari skuldaleiðréttingu. Kærendur telja að það sé ekki hægt að miða við núverandi stöðu þar sem þau hafi gert samning við banka X til 3 ára í formi sértækrar skuldaleiðréttingar. Ekki hafi komið til lækkunar höfuðstóls þar sem sá samningur sé ekki liðinn og því sé ekki hægt að miða við það sem hugsanlega verði að samningstíma liðnum. Nú þegar reiknist ríkisskattstjóra að kærendur eigi að fá 1.254.467 kr. til lækkunar höfuðstóls lána en að ekkert af því komi til innborgunar á íbúðarlán kærenda, þar sem ríkisskattstjóri telji að banki X hafi nú þegar lækkað lán kærenda sem þeirri upphæð nemi. Kærendur geti ekki samþykkt neina lækkun þar sem ákvörðun leiðréttingarinnar sé 0 kr. Þau sjái ekkert koma inn á lán sitt né að banki X fái þessa upphæð til lækkunar á þeim samningi sem gerður hafi verið við bankann á sínum tíma. Sú upphæð sem kærendur greiði til banka X haldist því samkvæmt þessu óbreytt. Því óski kærendur eftir útskýringum á því hvernig þessi leiðrétting eigi að koma til kærenda eða bankans. Með erindi þessu leggi þau fram formlega kæru á þessum útreikningum og óski eftir fresti til samþykktar á þessum rökum.

Í tilefni af kæru kærenda óskaði úrskurðarnefndin þann 12. júní 2015 eftir umsögn banka X um kæru, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Umsögn bankans barst 15. sama mánaðar. Í umsögninni kom fram að í maí 2011 hafi banki X tilkynnt opinberlega að lán með veði í íbúðarhúsnæði yrðu færð niður í 110% veðsetningarhlutfall miðað við fasteignamat í ákveðnum tilvikum, án þess að sótt væri um það. Lán kærenda nr. 1 hafi fallið undir úrræðið. Meðfylgjandi umsögn var afrit af bréfi til kærenda, dags. 30. desember 2011, þar sem lækkun á láni var tilkynnt og kærendum boðið að gera athugasemdir við ráðstöfunina. Einnig var meðfylgjandi yfirlit sem sýndi ráðstöfun á lækkun á láni nr. 1. Lækkunin hafi numið á viðmiðunardegi 1.843.721 kr. Það sé því niðurstaða banka X að kærendur hafi notið 110% niðurfærslu að fjárhæð 1.843.721 kr. Í umsögninni kom einnig fram að þann 21. nóvember 2012 hafi kærendur undirritað  samning um sértæka skuldaaðlögun. Samningurinn skildi gilda í 3 ár og sé nú virkur. Í kafla 5.6 í samningi um sértæka skuldaaðlögun komi fram að bankinn muni færa til afskriftar á fasteignaveðláni nr. 1 kr. 5.192.377. að þremur árum liðnum frá undirritun samnings. Sú fjárhæð sé því skráð sem niðurfærsla. Samtals nemi niðurfærslur því 7.036.098 kr. Umsögn banka X var send kærendum þann 15. júní 2015 og þeim gefinn kostur á að að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í sem þau teldu ástæðu til innan 7 daga. Tekið var fram að kærendur mættu að þeim tíma liðnum búast við að úrskurðarnefndin tæki mál þeirra til meðferðar eins og það lægi fyrir. Kærendur svöruðu ekki erindinu.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, er samtals 2.508.934 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samtals 7.166.498 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 8. og 9. gr. sömu laga. Þar af eru 1.843.721 kr. vegna lækkunar skuldar samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011 (110% leið), 5.192.377 kr. sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun skv. 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sbr. samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010 og 130.398 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Frádráttaliðir vegna 110% leiðar og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu hafa ekki sætt andmælum af hálfu kærenda.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í c-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda. Í d-lið 1. mgr. segir hið sama um niðurfellingu fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun skv. 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sbr. samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010.  Hið sama á að lokum við um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að kærendur hafi notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu eða að samið hafi verið um þau. Af  hálfu kærenda hefur frádráttarliðum vegna 110% leiðar og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu ekki verið mótmælt og koma þeir til frádráttar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. og c- og f-lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því að þar sem lækkun samkvæmt sértækri skuldaaðlögun sé ekki komin til framkvæmda og geri það ekki fyrr en í árslok 2015 skuli hún ekki koma til frádráttar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014. Ljóst er af d-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 að til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kemur niðurfelling fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun. Ekki er þar gert að skilyrði að hún sé komin til framkvæmda. Hið sama kemur fram í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem samkomulag hafi verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur hafa ekki mótmælt þeirri staðhæfingu banka X að samið hafi verið um hina umdeildu niðurfellingu með samningnum frá árinu 2012. Verður niðurfelling samkvæmt honum því lögð til grundvallar útreikningi á leiðréttingarfjárhæð. Komi til þess að niðurfellingin komi ekki til framkvæmda eða aðrar forsendur hinnar kærðu ákvörðunar breytist geta kærendur farið fram á endurupptöku málsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 35/2014. Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna lækkunar lána kærenda hjá banka X, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, samningi um sértæka skuldaaðlögun og vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ekki hafa af hálfu kærenda verið gerðar athugasemdir við einstaka liði útreiknings ríkisskattstjóra. Hvað varðar málsástæður kærenda um að ekki hafa verið tekið tillit til lána er tekin hafa verið til endurbóta á húsnæði þeirra eru þær með öllu órökstuddar. Jafnframt er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda er hærri en sem nemur hámarksleiðréttingu 6. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Koma þær málsástæður því ekki til frekari skoðunar. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum