Hoppa yfir valmynd

Kópavogsbær - Lóðaúthlutun, jafnræðisregla, rökstuðningur, rekjanleiki stjórnsýsluákvarðana

Böðvar Stefánsson og Karólína D. Þorsteinsdóttir
3. ágúst 2006
FEL06030053

Löngubrekku 19
200 Kópavogi

Hinn 3. ágúst 2006 er í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dagsett 16. mars 2006, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Karólínu D. Þorsteinsdóttur og

Böðvars Stefánssonar á hendur bæjarstjórn Kópavogsbæjar. Kröfugerð kærenda er í fjórum liðum. Í fyrsta

lagi að félagsmálaráðuneytið kanni hvort fyrir hendi sé skjalfestur samanburður á umsóknum sem leitt

hafi til niðurstöðu bæjarráðs. Í öðru lagi að ráðuneytið úrskurði um lögmæti rökstuðnings Kópavogsbæjar

og sjái til þess að eðlilegur rökstuðningur komi fram ef hann er fyrir hendi. Í þriðja lagi að ráðuneytið

úrskurði um lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar vegna úthlutunar á byggingarrétti á Kópavogstúni þann

8. desember 2005. Í fjórða og síðasta lagi að ráðuneytið hlutist til um að reglur Kópavogsbæjar um

lóðaúthlutanir verði með þeim hætti að þegnarnir geti átt sömu möguleika til úthlutunar að uppfylltum

ákveðnum skilyrðum og að möguleg frávik frá slíku verði að rökstyðja sérstaklega.

Erindi kærenda var kynnt Kópavogsbæ með bréfi, dagsettu 20. mars sl., og var bæjarstjórn þar gefinn

kostur á að veita umsögn um kæruna. Í bréfinu var sérstaklega óskað eftir því að í umsögninni yrði tekin

afstaða til þess hvort efni rökstuðnings til kærenda hefði verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr.

stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig var þess óskað að gerð yrði nákvæm grein fyrir því hvaða viðmið lögð

voru til grundvallar við mat á gildum umsóknum, þ.e. hvernig skilið var á milli þeirra umsækjenda sem

uppfylltu auglýstar úthlutunarreglur. Jafnframt var óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir því hvort það

hafi skipt máli við mat á hæfi umsækjenda um lóðir hvort sótt hafi verið um lóð annars vegar sem fyrsta

valkost eða hins vegar til vara. Að lokum var þess óskað að fram kæmi í umsögninni hvaða aðilar innan

stjórnkerfis Kópavogsbæjar önnuðust flokkun og mat umsókna og hvort þeim hafi verið settar

vinnureglur, svo og hvort skrifleg vinnugögn hafi verið lögð til grundvallar í því ferli.

Umsögn Kópavogsbæjar er dagsett 6. apríl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. maí 2006, var kærendum

gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum í málinu teldu þeir þess þörf. Kærendur sendu

ráðuneytinu athugasemdir við umsögn Kópavogsbæjar með bréfi, dags. 24. maí 2006. Athugasemdir

kærenda voru kynntar Kópavogsbæ með bréfi, dags. 27. maí sama ár, og var þar jafnframt óskað eftir því

að ráðuneytinu yrðu send afrit umsókna þeirra umsækjenda sem fengu úthlutað þeim lóðum sem

kærendur sóttu um ásamt umsóknum annarra umsækjenda sem tóku þátt í útdrætti um sömu lóðir, ef við

ætti. Athugasemdir Kópavogsbæjar bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 7. júní 2006, ásamt umbeðnum

fylgigögnum. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um það bréf og bárust athugasemdir þeirra með

bréfi dags. 1. ágúst 2006.

I. Málavextir

 

Með vísan til þess sem fram kemur í gögnum málsins sóttu kærendur um einbýlishúsalóð við C-götu

(Kópavogsbakka) nr. 2. Til vara sóttu kærendur um lóðir nr. 4 og nr. 1 við sömu götu. Umsókn kærenda

var útfyllt á þar til gert eyðublað Kópavogsbæjar.

Á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar þann 8. desember 2005 voru umsóknir um lóðir á Kópavogstúni teknar

fyrir og þeim úthlutað, en áður hafði farið fram úrvinnsla á umsóknum af bæjarráðsfulltrúum. Tillögur

bæjarráðs að úthlutun voru samþykktar af bæjarstjórn Kópavogsbæjar þann 23. janúar 2006. Í gögnum

málsins kemur fram að 36 umsóknir hafi borist um þá lóð sem kærendur sóttu um sem fyrsta val, þ.e. Cgötu

nr. 2, en 8 umsóknir um C-götu nr. 4 og 9 umsóknir um C-götu nr. 1. Niðurstaða úthlutunar var sú að

dregið var á milli 9 umsókna um þá lóð sem kærendur sóttu um sem fyrsta val, án þess að umsókn

kærenda kæmi til álita við þann útdrátt. Lóðunum sem kærendur sóttu um til vara var úthlutað án þess að

kæmi til útdráttar.

Eftir fund bæjarráðs fengu kærendur upplýsingar um niðurstöðu þess varðandi úthlutun þeirra lóða sem

þeir sóttu um. Óskuðu kærendur eftir því við bæjarráð Kópavogsbæjar með bréfi, dags. 3. febrúar sl., að

það rökstyddi úthlutun sína á byggingarrétti á Kópavogstúni frá 8. desember 2005. Í bréfi kærenda var

þess krafist að bæjarráð rökstyddi ítarlega á hvaða forsendum umsókn þeirra var ekki metin jöfn eða

fremri þeim umsóknum sem úthlutað var lóðum og þá sérstaklega við hvað bæjarráð miðaði þegar

sérstakar aðstæður umsækjenda voru metnar og hvar hallaði á umsókn kærenda. Auk þess óskuðu

kærendur eftir upplýsingum um fjölda umsókna um hverja einstaka lóð sem þau sóttu um og fjölda

umsókna um hverja einstaka einbýlishúsalóð sem í boði var á Kópavogstúni.

Með bréfi bæjarlögmanns, dags. 13. febrúar 2006, var kærendum veittur umbeðinn rökstuðningur. Kemur

fram í bréfinu að umsóknir hafi verið metnar með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylltu almenn

skilyrði og reglur um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði þann 8. desember 2005. Hafi

umsóknir verið metnar með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylltu almenn skilyrði varðandi

möguleika á fjármögnun framkvæmda og tók bæjarlögmaður fram að umsókn kærenda hafi uppfyllt þau

lágmarksviðmið sem sett voru af bæjarráði og tilgreind hafi verið í auglýsingu um lóðarúthlutunina.

Jafnframt kom fram í bréfinu að skv. 10. gr. reglna um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði væri

skylt að taka tillit til aðstæðna umsækjenda, svo sem fjölskylduaðstæðna, núverandi húsnæðisaðstöðu,

hvort viðkomandi hafi áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið eða annarra fjölskylduaðstæðna er

máli kynnu að skipta þegar einstaklingar ættu í hlut. Í niðurlagi bréfs bæjarlögmanns kemur fram að

umsókn kærenda hafi ekki verið meðal þeirra umsókna er komu til mats, eftir að búið var að kanna hvort

umsóknir uppfylltu lágmarksviðmiðin og að ekki hafi komið til þess að dregið væri um lóðirnar sem

kærendur sóttu um til vara.

Um frekari málavexti verður fjallað síðar í tengslum við umfjöllun um málsrök aðila og í niðurstöðukafla

úrskurðarins.

II. Málsrök kærenda.

 

Kærendur byggja á því að Kópavogsbæ hafi verið óheimilt að ganga framhjá umsókn þeirra. Þau benda á

að þau hafi uppfyllt skilyrði 4. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar um fjárhagslegt og framkvæmdalegt

bolmagn auk annarra formskilyrða bæjarins til að geta komið til álita við úthlutun áðurnefndra lóða.

Einnig telja kærendur að aðrar ályktanir verði ekki dregnar af svari bæjarlögmanns Kópavogsbæjar en að

eingöngu sé verið að uppfylla að forminu til lagaskilyrði, þar sem efnislega sé ekki um neinn rökstuðning

að ræða. Því til rökstuðnings benda þau á að bæjarlögmaður svari í engu hvað í umsókn kærenda hafi

valdið því að þau fengu synjun og komu þar af leiðandi ekki til álita við úthlutunina. Þar sem bæjarráðið

og bæjarlögmaðurinn beiti einungis almennum reglum til útskýringa á því hvað réði niðurstöðunni að

lóðaúthlutuninni, sé rétturinn til að fá fram rökstuðning fyrir ákvörðun fyrir borð borinn.

Kærendur benda á að 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði

kveði á um að gæta skuli jafnræðis og að umsækjendum skuli ekki mismunað á grundvelli sjónarmiða

byggðum á kynferði, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu,

ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þannig sitji allir við sama borð með tilliti til áðurnefndrar

reglu, sbr. 11. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef brugðið er frá þeirri meginreglu verði að liggja fyrir

óyggjandi rökstuðningur fyrir slíkri ákvörðun.

Þar sem enginn rökstuðningur fylgdi synjun bæjarráðs á umsókn kærenda, auk þess sem í svari bæjarins

við rökstuðningskröfu kærenda var heldur ekki að finna rökstuðning, telja kærendur að Kópavogsbær hafi

brotið gegn áðurnefndri 11. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar við úthlutun á byggingarrétti, sbr. 11. gr.

stjórnsýslulaga. Telja kærendur að skjalfestur samanburður á umsóknum, sem leitt hafi til ákveðinnar

niðurstöðu, verði að liggja fyrir svo að hægt sé að rökstyðja úthlutunina og að farið hafi verið eftir reglum

bæjarráðs um úthlutun og jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Þá benda kærendur á að í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga komi fram að að því marki sem ákvörðun byggi á

mati skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. sömu

greinar kemur jafnframt fram að þar sem ástæða er til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli

málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Telja kærendur ljóst að svar bæjarlögmanns

uppfylli ekki kröfur 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki sé gerð nákvæm grein fyrir því

hvaða viðmið hafi verið lögð til grundvallar við mat á gildum umsóknum, þ.e. hvernig hafi verið skilið á

milli þeirra umsækjenda sem uppfylltu auglýstar úthlutunarreglur.

Einnig benda kærendur á að við lóðaúthlutanir verði að vera hafið yfir nokkurn vafa að farið sé að

leikreglum og að einstaklingum sé ekki mismunað. Með hliðsjón af úthlutuninni frá 8. desember 2005

telja kærendur að menn sitji hreinlega ekki við sama borð.

Þá gera kærendur athugasemdir við orðalag í umsögn bæjarlögmanns Kópavogsbæjar vegna kæru

kærenda. Þau telja orðalagið „kann að þurfa að verða veginn á ný á móti varakosti annars umsækjanda,

sem ekki hefur fengið aðalvalkosti sínum framgengt”, sé engan veginn nægilega skýrt. Þannig telja þau að

ef um sé að ræða algilda reglu við úthlutun lóða að varakostir þeirra sem fá ekki aðalvali framgengt séu

bornir saman við þá sem verða ofan á við mat á aðalkosti, þá liggi það nokkuð í augum uppi að slíkt sé

óframkvæmanlegt án nokkurrar skjalfestingar.

Loks telja kærendur Kópavogsbæ ekki geta borið fyrir sig 17. gr. stjórnsýslulaga og á grundvelli hennar

ekki veitt neinar efnislegar upplýsingar um umræddar úthlutanir. Þau telja að 17. gr. laganna eigi aðeins

við um aðila máls, þ.e. kærendur, en ekki æðra sett stjórnvald og því hvíli á Kópavogsbæ skylda til að

afhenda ráðuneytinu öll gögn sem varði málið.

III. Málsrök kærða

 

Í umsögn Kópavogsbæjar, dags. 6. apríl 2006, er upplýst að úrvinnsla umsókna hafi farið þannig fram að

umsóknir hafi verið kynntar í bæjarráði og að bæjarráð hafi farið yfir þær með tilliti til þess hvort

umsækjendur uppfylltu almenn skilyrði varðandi möguleika á fjármögnun framkvæmda. Umsóknirnar

voru síðan til umfjöllunar á vinnufundum og einstakir bæjarráðsmenn hafi farið yfir umsóknirnar ásamt

fylgigögnum á nokkrum slíkum fundum. Voru flokkaðar frá þær umsóknir sem ekki uppfylltu

lágmarksviðmiðið eða væri ábótavant af einhverjum öðrum ástæðum. Að þessari flokkun lokinni skiptust

bæjarráðsmenn á skoðunum um hæfi og röð umsækjenda. Við mat bæjarráðs á þeim hafi verið litið til

þess hvort einhverjar sérstakar aðstæður væru fyrir hendi, sbr. 10. gr. úthlutunarreglna fyrir

íbúðarhúsnæði, en samkvæmt henni skal bæjarráð líta til sérstakra aðstæðna umsækjenda, svo sem

fjölskylduaðstæðna, núverandi húsnæðisaðstöðu, hvort viðkomandi hafi áður sótt um lóð í bæjarfélaginu

og möguleika umsækjanda til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma.

Þá er bent á að í 2. mgr. 4.gr. úthlutunarreglnanna segir að þrátt fyrir lágmarksviðmiðið áskilji bæjarráð

sér rétt til þess að meta með hliðsjón af fjárhagsstöðu umsækjenda að öðru leyti hvort ætla megi að aðilar

geti lokið framkvæmdum á tilsettum tíma. Þá er upplýst að ekki hafi verið settar sérstakar vinnureglur

umfram það sem greinir í úthlutunarreglum settum af bæjarráði og að ekki liggi fyrir skrifleg vinnugögn

frá úthlutunarferlinu.

Vegna fyrirspurnar ráðuneytisins varðandi umsóknir um lóðir sem fyrsta valkost og varakosti er tekið

fram af hálfu Kópavogsbæjar að aðalkostir séu fyrst skoðaðir og vegnir á móti umsóknum annarra

umsækjenda. Sá sem verði ofan á í því vali kunni að þurfa að verða veginn á ný á móti varakosti annars

umsækjanda sem ekki hafi fengið aðalvalkosti sínum framgengt. Þá kemur fram að þegar sótt hafi verið

um fleiri en tvo varakosti, þ.e. fleiri en úthlutunarreglur heimiluðu, hafi varakostir þess umsækjenda ekki

komið til álita.

Þá er áréttað að úthlutunin hafi farið fram á grundvelli reglna Kópavogsbæjar um úthlutun á

byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði samþykktum í bæjarráði 8. september 2005 og staðfestum í bæjarstjórn

13. september 2005. Sé bæjarstjórn Kópavogsbæjar kjörin til að taka ákvarðanir um málefni bæjarins og

réttur sveitarfélaga til að ráða eigin málefnum í samræmi við ákvæði laga er staðfestur í 78. gr.

stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Er tekið fram að gerðir hafi verið lóðarleigusamningar við alla umsækjendur sem fengu úthlutað lóðum í

greint sinn. Við tilkynningu Kópavogsbæjar til umsækjenda um að þeir hafi fengið úthlutun skapast

sjálfstæður réttur þeim til handa um þær lóðir og hlýtur sá réttur staðfestingu með lóðarleigusamningi sem

hefur verið þinglýst. Þannig leiði af almennum reglum að Kópavogsbær sé orðinn skuldbundinn þessum

aðilum.

Þá kemur fram í umsögn Kópavogsbæjar að ekki liggi fyrir skráðar athugasemdir um það hvaða ástæður

leiddu til niðurstöðu varðandi úthlutun þeirra lóða sem kærendur sóttu um. Niðurstaðan hafi þannig byggt

á mati bæjarráðs á þessum gögnum og þeim sjónarmiðum sem fram komi í úthlutunarreglum bæjarins.

Það rýri rökstuðning að ekki sé hægt að fara í samanburð á einstökum umsóknum þar sem í þeim komi

fram upplýsingar sem aðgangur er takmarkaður að á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum er ítrekað að úthlutunin á byggingarrétti á Kópavogstúni í greint sinn hafi verið í samræmi við

reglur Kópavogsbæjar um úthlutun á byggingarrétti á íbúðarhúsalóðum og ákvæði stjórnsýslulaga.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

A. Um kröfugerð kærenda.

 

Í kröfugerð sinni fara kærendur fram á að félagsmálaráðuneytið kanni hvort fyrir hendi sé skjalfestur

samanburður á umsóknum sem leitt hafi til niðurstöðu bæjarráðs. Þá gera kærendur kröfur um að

ráðuneytið úrskurði um lögmæti rökstuðnings og lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar um úthlutun þeirra

lóða sem kærendur sóttu um. Þá er gerð krafa um að ráðuneytið hlutist til um að reglur Kópavogsbæjar

um lóðaúthlutanir verði með þeim hætti að þegnarnir geti átt jafna möguleika til úthlutunar.

Ráðuneytið lítur svo á, með hliðsjón af málsrökum kærenda í stjórnsýslukæru, að þess sé krafist að

ákvörðun Kópavogsbæjar um úthlutun þeirra lóða sem kærendur sóttu um verði úrskurðuð ólögmæt. Við

athugun ráðuneytisins á lögmæti ákvörðunarinnar kemur til skoðunar málsmeðferð Kópavogsbæjar, svo

sem um það hvort skrifleg gögn séu til frá ákvörðunarferlinu, og jafnframt hvort rökstuðningur fyrir

ákvörðuninni sé í samræmi við lög.

Varðandi kröfugerð kærenda um að ráðuneytið hlutist til um efni reglna Kópavogsbæjar varðandi

lóðaúthlutanir, bendir ráðuneytið á að kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga felur ráðuneytinu vald til

að úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Í ákvæðinu

felst ekki vald til að breyta reglum sem sveitarstjórn hefur sett um málsmeðferð. Verður því ekki tekin

afstaða til framangreindrar kröfu kærenda í úrskurði þessum.

B. Um rökstuðning Kópavogsbæjar

 

Ráðuneytið bendir á að málsmeðferð Kópavogsbæjar við lóðaúthlutun á Kópavogstúni þann 8. desember

2006 hefur áður komið til umfjöllunar í ráðuneytinu, samanber úrskurð ráðuneytisins frá 26. maí sl.

Málsatvik og sjónarmið málsaðila í því máli eru að verulegu leyti sambærileg því máli sem hér er til

úrskurðar og verður vísað til niðurstöðu í áðurnefndum úrskurði eftir því sem við getur átt í þessum

úrskurði.

Kærendur byggja á því að rökstuðningur Kópavogsbæjar fyrir ákvörðun um þær lóðir sem þeir sóttu um

fari í bága við ákvæði stjórnsýslulaga. Efni rökstuðnings fyrir ákvörðun Kópavogsbæjar við úthlutun lóða

til kærenda er efnislega samhljóða rökstuðningi sem fjallað var um í úrskurði ráðuneytisins frá 26. maí sl.

og tekinn er þar upp í heild sinni. Í framangreindu máli var einnig fjallað um heimildir Kópavogsbæjar til

að takmarka efni rökstuðnings vegana ákvæða um takmörkun á aðgangi að upplýsingum skv. 17. gr.

stjórnsýslulaga. Niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu er efnislega samhljóða niðurstöðu þess í fyrri

úrskurðinum.

Um efni rökstuðnings ber að gæta ákvæða 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Greinin er svohljóðandi:

„Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem

ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við

matið.

Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem

höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Takmarka má efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til gagna sem aðila máls er ekki heimill

aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr.

Hafi stjórnsýslunefnd ekki samþykkt rökstuðning með ákvörðun sinni skal formaður færa rök fyrir henni í

samræmi við 1.–3. mgr.”

 

Í rökstuðningi Kópavogsbæjar kemur fram að umsókn kærenda hafi uppfyllt almenn skilyrði

úthlutunarreglnanna um fjármögnun framkvæmda og hafi umsóknin því verið metin með tilliti til

sérstakra aðstæðna umsækjenda ásamt fleiri umsóknum, sbr. 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar um

mat á tilteknum sérstökum aðstæðum umsækjenda. Niðurstaða úthlutunarinnar byggðist á því mati. Í

rökstuðningnum er hins vegar í engu greint frá því hvaða málsatvik höfðu verulega þýðingu við úrlausn

málsins og leiddu til þess að níu umsóknir voru teknar fram yfir umsókn kærenda. Var að mati

ráðuneytisins full ástæða til þess að taka þau málsatvik upp í rökstuðninginn í samræmi við áskilnað 2.

mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Kópavogsbæjar er byggt á því að heimilt hafi verið að takmarka efni rökstuðnings að því leyti

sem vísa þurfti til gagna sem aðila máls er ekki heimill aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr. og 3. mgr. 22. gr.

stjórnsýslulaga. Samkvæmt stjórnsýslulögum er meginreglan sú að aðili máls eigi aðgang að öllum

gögnum stjórnsýslumáls enda er það mikilvægur réttur aðila að stjórnsýslumáli að geta gert sér grein fyrir

forsendum ákvörðunar sem varðar hann sjálfan. Í 17. gr. stjórnsýslulaga er þó undantekningarregla sem

felur í sér að stjórnvaldi er heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að

notfæra sér vitneskju úr þeim eigi að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum, þar á meðal ef lög um

skráningu og meðferð persónuupplýsinga standa í vegi fyrir aðgangi að gögnunum.

Í ljósi þess að takmörkun á upplýsingarétti er undantekningarregla og að mun ríkari hagsmunir þess sem

einkamálefni varðar þurfa að vera til staðar svo víkja megi frá rétti aðila til aðgangs að upplýsingum er

það mat ráðuneytisins að skortur á tilgreiningu á málsatvikum sem leiddu til þess að umsókn níu

umsækjanda var tekin fram yfir umsókn kærenda samræmist ekki heimild til takmörkunar efnis

rökstuðnings skv. 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þannig er þess í engu getið í rökstuðningnum hvaða

sérstöku aðstæður, svo sem fjölskylduaðstæður eða húsnæðisaðstæður, réðu því að umsóknir níu

umsækjenda voru teknar fram yfir umsókn kærenda. Með vísan til síðari málsliðar 1. mgr. 22. gr.

stjórnsýslulaga og þess að röðun umsókna réðst af mati bæjarráðs á þeim er það einnig niðurstaða

ráðuneytisins að sá annmarki sé á rökstuðningi Kópavogsbæjar að þar er ekki greint frá þeim

meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

Það er því niðurstaða ráðuneytisins að efni rökstuðnings Kópavogsbæjar fyrir úthlutun byggingarréttar

þeirra lóða sem kærendur sóttu um fari í bága við ákvæði 1.–3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Einnig skal bent á að í 4. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga segir að hafi stjórnsýslunefnd ekki fært rök fyrir

ákvörðun skuli formaður færa rök fyrir henni, sbr. 1.–3. mgr. sömu greinar. Rökstuðningur

Kópavogsbæjar ber það ekki með sér að hann komi frá formanni bæjarráðs, en ráðið gegndi

meginhlutverki við úthlutun byggingarréttar í samræmi við úthlutunarreglur Kópavogsbæjar. Þá hefur

komið fram af hálfu Kópavogsbæjar að engin skrifleg minnisblöð eða vinnugögn séu til um úthlutunina. Í

ljósi þess gerir ráðuneytið athugasemd við að rökstuðningurinn kemur ekki frá formanni bæjarráðs heldur

frá bæjarlögmanni.

C. Málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutun byggingarréttar.

 

Með vísan til þess að kærendur sóttu um eina lóð sem aðalkost og tvo til vara verður fyrst tekin til

skoðunar málsmeðferð vegna úthlutunar byggingarréttar á lóðinni C-götu nr. 2, en síðar C-götu nr. 1 og 4.

Úthlutun C-götu nr. 2.

 

Í gögnum málsins kemur fram að kærendur uppfylltu almenn skilyrði úthlutunarreglna Kópavogsbæjar.

Alls bárust 36 umsóknir um C-götu nr. 2, en ekki kemur fram hve margir uppfylltu hin almennu skilyrði.

Samkvæmt upplýsingum Kópavogsbæjar byggðist niðurstaðan um úthlutun byggingarréttar á lóðinni á

mati á þeim umsóknum sem uppfylltu hin almennu skilyrði, þ. á m. á umsókn kærenda, samkvæmt

úthlutunarreglum Kópavogsbæjar. Eftir það mat stóðu níu umsóknir jafnar sem dregið var um og var

umsókn kærenda ekki þar á meðal.

Í máli þessu er deilt um hvernig framkvæmd mats samkvæmt úthlutunarreglum Kópavogsbæjar á

byggingarrétti á íbúðarhúsum var háttað og skort á rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu sem af því leiddi.

Um úthlutun byggingarréttar á lóðum á Kópavogstúni giltu úthlutunarreglur Kópavogsbæjar sem settar

voru af bæjarráði 8. september 2005. Umsækjendur áttu því réttmætar væntingar til þess að fjallað yrði

um umsóknir þeirra í samræmi við umræddar reglur og að öðru leyti í samræmi við reglur

stjórnsýsluréttar, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Í úthlutunarreglum Kópavogsbæjar er bæjarráði heimilað að leggja mat á umsóknir, sbr. 10. gr. reglnanna,

og hljómar hún þannig:

„Við mat á umsóknum skal taka tillit til eftirfarandi þátta:

Fjölskylduaðstæðna

Núverandi húsnæðisaðstöðu

Hvort viðkomandi hefur áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið

Möguleika umsækjanda til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma“

 

Ákvæðið felur í sér að bæjarráði er veitt víðtæk heimild til mats á umsóknum. Þrátt fyrir slíka heimild

verður viðkomandi stjórnvald, þ.e. bæjarráð Kópavogsbæjar, að gæta almennra reglna stjórnsýsluréttarins

við töku matskenndra ákvarðana, þá einkum og sér í lagi jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og

ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttarins um að matskenndar ákvarðanir stjórnvalds skuli byggðar á

málefnalegum sjónarmiðum sem beitt sé á forsvaranlegan hátt. Við skoðun á því hvað teljast málefnaleg

sjónarmið í þessu máli verður einkum litið til ákvæða stjórnsýslulaga og sjónarmiða sem byggja á

úthlutunarreglum Kópavogsbæjar.

Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að stjórnsýsla þeirra sé málefnaleg og í samræmi við lög.

Jafnframt er það óskráð meginregla stjórnsýsluréttarins að stjórnsýsla skuli vera rekjanleg og gegnsæ

þannig að stjórnvald geti síðar gert grein fyrir því á hvaða grundvelli ákvörðun var tekin. Er sú regla

grundvöllur þess að kæruheimildir stjórnsýsluákvarðana hafi þýðingu, þannig að stjórnvald á kærustigi

geti tekið ákvörðun annars stjórnvalds til endurskoðunar. Þegar sveitarfélag ákveður að úthluta lóðum á

grundvelli mats á högum umsækjenda, í stað þess til dæmis að varpa hlutkesti milli gildra umsókna, verða

aðferðir við slíkt mat að vera gegnsæjar og niðurstöður einstakra ákvarðana rekjanlegar. Með hliðsjón af

því að 36 umsóknir bárust um þá lóð sem kærendur höfðu sem aðalvalkost verður varla komist hjá því að

málsmeðferð sveitarfélags verði studd skriflegum gögnum, s.s. vinnureglum eða minnisblöðum, eigi

sveitarfélag að geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnvalda við töku

stjórnvaldsákvarðana. Þetta á meðal annars við um rétt umsækjenda til rökstuðnings og hugsanlega

endurskoðun ákvörðunar af eftirlitsstjórnvöldum eða dómstólum, eftir atvikum.

Að mati ráðuneytisins skortir verulega á að Kópavogsbær hafi í máli þessu upplýst, bæði í rökstuðningi til

kærenda og í umsögn til ráðuneytisins, á hvaða grundvelli samanburður á hæfni og aðstæðum

umsækjenda við úthlutun á byggingarrétti á lóðinni C-götu nr. 2 hafi farið fram. Þannig hefur

Kópavogsbær í engu gert grein fyrir því hvort eða hvernig mat á grundvelli sjónarmiða 10. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar fór fram. Bendir ráðuneytið á að skv. 10. gr. úthlutunarreglnanna var

bæjarráði skylt að láta slíkt mat fara fram á umsóknum. Með vísan til þessa og fyrri umfjöllunar um

meginreglur um rekjanleika stjórnsýsluákvarðana telur ráðuneytið óhjákvæmilegt að leggja sönnunarbyrði

á Kópavogsbæ um að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu úthlutunarinnar, sbr. rannsóknarreglu

10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem Kópavogsbær hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið

því að aðrir umsækjendur voru teknir fram yfir kærendur í útdrætti um lóðina C-götu nr. 2, er það

niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð kærða hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við

jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins um málefnalega stjórnsýslu.

Þessi atriði ásamt heildstæðu mati á málsmeðferð Kópavogsbæjar leiða til þeirrar niðurstöðu

ráðuneytisins að úthlutun á byggingarrétti á lóðinni C-götu nr. 2 hafi verið ólögmæt og ekki í samræmi

við góða stjórnsýsluhætti.

Úthlutun C-götu nr. 1.

 

Í umsókn sinni sóttu kærendur einnig um lóðir nr. 1 og 4 við C-götu.

Af hálfu kærenda er á því byggt að við mat á umsóknum hafi einungis verið teknar til skoðunar í

bæjarráði umsóknir frá þeim sem sóttu um viðkomandi lóðir sem aðalkost. Ráðuneytið óskaði sérstaklega

eftir því með bréfi, dags. 20. mars 2006, að gerð yrði grein fyrir því í umsögn Kópavogsbæjar hvort það

hafi skipt máli við mat á hæfi umsækjenda um lóðir hvort sótt var um lóð sem fyrsta valkost eða til vara. Í

umsögn Kópavogsbæjar er þessari fyrirspurn ráðuneytisins ekki svarað. Þá er sjónarmiðum kærenda

varðandi þetta atriði í engu svarað eða almennt gerð gangskör að því að skýra hvaða þýðingu varakostir

höfðu við mat á umsóknum gagnvart umsækjendum sem sóttu um lóð sem aðalkost. Með hliðsjón af

skorti á skýringum af hálfu Kópavogsbæjar, sbr. einnig orðalag í umsögn Kópavogsbæjar um að

varakostir kunni að verða vegnir á móti þeim aðalkosti sem hæfastur þykir, verður að álíta að umsókn

kærenda hafi ekki komið til sérstaks mats við úthlutun umræddra lóða.

Í úthlutunarreglum Kópavogsbæjar er ekki kveðið sérstaklega á um að umsóknir um lóðir sem varakost

umsækjenda skuli háðar annars konar mati en umsókn um sömu lóð sem fyrsta valkost. Í stjórnsýslurétti

gilda engar almennar reglur sem fela í sér að þýðing þess að sótt sé um ákveðinn kost til vara leiði til þess

að umsókn skuli talin síðri en umsókn þeirra sem sækja um sömu lóð sem fyrsta valkost. Málsmeðferð

Kópavogsbæjar við úthlutunina er því ekki byggð á almennum reglum eða venju. Með því að veita því

aukið vægi að sótt er um lóð sem fyrsta valkost felst í raun að sá möguleiki að sækja um lóðir til vara

verður þýðingarlaus eða að minnsta kosti þýðingarlítill ef margar umsóknir eru um hverja lóð.

Að því marki sem mat kann að hafa farið fram á umsókn kærenda vegna lóðarinnar C-götu nr. 1 vísar

ráðuneytið til umfjöllunar um úthlutun byggingarréttar á lóðinni C-götu nr. 2 eftir því sem við á. Þannig

er það niðurstaða ráðuneytisins að sama eigi við um málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutun C-götu nr.

1, þ.e. að ekki hafi verið upplýst á hvaða grundvelli mat á hæfni umsækjenda við úthlutun byggingarréttar

á lóðunum fór fram. Þannig hafi ekki verið gerð grein fyrir því á hverju mat á fjölskylduaðstæðum og

núverandi húsnæðisaðstöðu umsækjenda hafi grundvallast enda telur ráðuneytið ekkert fram komið í

málinu sem bendi til þess að kærendur hafi verið síðri umsækjendur en þeir umsækjendur sem fengu

lóðirnar.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð Kópsvogsbæjar við

úthlutun byggingarréttar vegna lóðarinnar C-götu nr. 1 hafi verið ólögmæt og ekki í samræmi við góða

stjórnsýsluhætti.

Úthlutun C-götu nr. 4.

 

Eins og áður segir hefur kærði ekki skýrt nánar en að framan er rakið hvaða sjónarmið voru lögð til

grundvallar þegar ákvarðanir voru teknar um úthlutun lóðanna C-götu nr. 1, 2 og 4. Hins vegar er til

meðferðar hjá ráðuneytinu önnur stjórnsýslukæra er varðar einnig úthlutun á lóðinni C-götu nr. 4. Í

umsögn Kópavogsbæjar í því máli er nánar upplýst um það hvaða sjónarmið stuðst var við þegar tekin var

ákvörðun um úthlutun lóðarinnar. Þar segir að við ákvörðunina hafi m.a. verið byggt á því að heimili

umsækjenda væri mannmargt og einnig að þeir hefðu sterka fjárhagsstöðu. Ráðuneytið hefur farið yfir

umsókn lóðarhafa og borið aðstæður þeirra saman við aðstæður kærenda á grundvelli þeirra sjónarmiða

sem fram koma í 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar.

Fallist er á það sjónarmið kærða að fjölskylduaðstæður þeirra sem úthlutað var lóð við C-götu nr. 4 hafi

verið lóðarhöfum í hag. Fjöldi einstaklinga á heimili lóðarhafa eru fimm en á heimili kærenda búa fjórir

einstaklingar.

Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins sem bendir til þess að lóðarhafar hafi staðið framar kærendum á

grundvelli sjónarmiðsins um núverandi húsnæðisaðstæður. Hið sama má segja varðandi sjónarmið um

fyrri lóðarumsóknir því kærendur höfðu ekki sótt áður um lóð í Kópavogsbæ en lóðarhafar höfðu áður

sótt um og fengið úthlutað lóð.

Eins og kærði tekur fram í umsögn sinni var sterk fjárhagsstaða eitt af þeim sjónarmiðum sem réði því að

lóðarhafar fengu umrædda lóð. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að líta til 2. mgr. 4. gr. úthlutunarreglna

Kópavogsbæjar en þar segir:

„Þrátt fyrir lágmarksviðmið skv. ofansögðu áskilur bæjarráð sér rétt til þess að meta með hliðsjón af

fjárhagsstöðu umsækjenda að öðru leyti hvort ætla megi að aðilar geti lokið framkvæmdum á tilsettum

tíma.”

 

Í upphafi ákvæðisins er vísað til þeirra lágmarksviðmiða sem fram koma í 1. mgr. ákvæðisins. Óumdeilt

er að bæði kærendur og lóðarhafar uppfylltu lágmarksviðmið 1. mgr. Af þessum sökum verður að skilja

afstöðu kærða svo að lóðarhafar hafi þótt líklegri til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma vegna

sterkrar fjárhagsstöðu. Tilgangur umrædds ákvæðis reglnanna er augljóslega að veita bæjarráði heimild til

þess að meta, með hliðsjón af fjárhagsstöðu umsækjenda, hvort þeir geti lokið framkvæmdum á tilsettum

tíma. Frekara mat eða röðun umsækjenda á grundvelli fjárhagsstöðu og það að byggja á henni sem

sjónarmiði við töku stjórnvaldsákvörðunar, umfram það sem að ofan greinir, verður að teljast

ómálefnalegt og ekki í samræmi við úthlutunarreglurnar. Ráðuneytið hefur farið yfir þær upplýsingar sem

fram koma í umsóknum aðila um fjárhagsstöðu þeirra. Af þessum upplýsingum að dæma verður ekki

annað séð en að kærendur hafi ekki einungis uppfyllt lágmarksviðmið 1. mgr. 4. gr. úthlutunarreglna

Kópavogsbæjar heldur hafi fjárhagslegt bolmagn þeirra verið slíkt að engin ástæða hafi verið til að ætla

að þeir gætu ekki lokið framkvæmdum á tilsettum tíma. Verður því að telja það ómálefnalegt sjónarmið af

hálfu kærða og því í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að láta sterkari fjárhagsstöðu

annarra umsækjenda ráða niðurstöðu.

Ljóst er af gögnum málsins að greiðslumat þeirra aðila sem fengu lóðina var af hálfu viðkomandi banka

gefið út með fyrirvara um að undirritaður yrði samningur milli aðila. Jafnframt var yfirlýsing

viðskiptabanka kærenda í máli þessu veitt með fyrirvara um að í henni fælist ekki ábyrgðaryfirlýsing af

neinu tagi af hálfu bankans.

Vart verður séð að slíkir fyrirvarar í greiðslumati umsækjenda séu í samræmi við 1. mgr. 4. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar en þar segir:

„Einstaklingar, sem sækja um byggingarrétt, skulu leggja fram skriflega staðfestingu án fyrirvara frá

banka eða lánastofnun um greiðsluhæfi og mögulega lánafyrirgreiðslu umsækjanda vegna fyrirhugaðrar

húsbyggingar.”

 

Af þessum sökum var sú ákvörðun að veita umræddum umsækjendum lóðina, án þess að þeir legðu fram

fullnægjandi greiðslumat, ekki í samræmi við úthlutunarreglur bæjarins. Í þessu sambandi er rétt að vekja

athygli á úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 29. júní 2006, sem einnig varðaði lóðaúthlutun í

Kópavogsbæ, en þar var m.a. fjallað um fyrirvara á greiðslumati umsækjenda. Í umræddu máli hafði

Kópavogsbær synjað kærendum um úthlutun á lóð vegna þess að fyrirvari var á greiðslumati þeirra, en

niðurstaða ráðuneytisins var sú að í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr.

stjórnsýslulaga, hefði Kópavogsbæ borið að vekja athygli umsækjenda á umræddum galla á greiðslumati

þeirra og gefa þeim kost á að bæta úr honum. Er það jafnframt skoðun ráðuneytisins að rétt hefði verið að

standa sambærilega að málsmeðferð í því máli sem hér er til úrlausnar og hefði kærða því borið að hafna

umsókn þeirra sem fengu lóðina C-götu nr. 4 ef fullnægjandi og fyrirvaralaust greiðslumat hefði ekki

borist eftir að gefinn hefði verið kostur á að bætt yrði úr umræddum galla.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð Kópavogsbæjar

við töku ákvörðunar um úthlutun á lóðinni C-götu nr. 4 hafi ekki verið í samræmi við 4. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, auk þess

sem ákvörðunin var að hluta til byggð á ómálefnalegu sjónarmiði um sterka fjárhagsstöðu umsækjenda og

verður því að telja umrædda ákvörðun ólögmæta.

D. Niðurstaða og réttaráhrif.

 

Í úrskurði ráðuneytisins frá 26. maí 2006 var tekið til skoðunar, að kröfu kærenda þess máls, hvort

ógilding á kærðum lóðarúthlutunum Kópavogsbæjar á Kópavogstúni þann 8. desember 2005 kæmi til

greina. Með vísan til þess rökstuðnings sem fram kemur í fyrrnefndum úrskurði verður úthlutun

byggingarréttar á lóðum sem kærendur í þessu máli sóttu um ekki ógilt. Niðurstaða ráðuneytisins er samt

sem áður sú að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutun

byggingarréttar á þeim lóðum sem kærendur sóttu um, sem feli í sér að úthlutunin teljist ólögmæt.

Ráðuneytið bendir á að við töku matskenndra ákvarðana getur vægi sjónarmiða sem stjórnvaldi er heimilt

að byggja á verið mismunandi. Kópavogsbær hefur ekki gert almenna grein fyrir innbyrðis vægi þeirra

sjónarmiða sem 10. gr. úthlutunarreglnanna kveður á um. Við töku matskenndra ákvarðana verður

stjórnvald að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um vægi sjónarmiða í sambærilegum málum, sbr.

jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið hefur haft til umfjöllunar mál varðandi úthlutun

Kópavogsbæjar á byggingarrétti á nokkrum lóðum á Kópavogstúni. Með vísan til sjónarmiða

Kópavogsbæjar sem komið hafa fram í þeim málum hefur ekki verið upplýst að fjölskylduaðstæður hafi

almennt haft aukið vægi þegar lagt var mat á umsóknir skv. 10. gr. úthlutunarreglnanna. Með hliðsjón af

gögnum í þeim málum sem ráðuneytið hefur fengið til umfjöllunar við málsmeðferð vegna lóðaúthlutana

á Kópavogstúni, er óljóst hvort Kópavogsbær hafi gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðun um vægi

sjónarmiða við úthlutun einstakra lóða. Ráðuneytið vísar til þess að þegar hefur verið komist að þeirri

niðurstöðu að úthlutun byggingarréttar á lóðunum nr. 2, 4 og 1 við C-götu á Kópavogstúni hafi verið

ólögmæt, en skoðun á innbyrðis samræmi á vægi sjónarmiða við úthlutun einstakra lóða kallar á

heildstæðari yfirferð á umsóknargögnum en farið hefur fram hjá ráðuneytinu við úrlausn einstakra

kærumála. Ráðuneytið mun því vekja athygli bæjarstjórnar Kópavogsbæjar á framangreindum

sjónarmiðum og beina því til sveitarfélagsins að hafa þau framvegis í huga við lóðaúthlutanir.

Meðferð málsins hefur tekið lengri tíma en kveðið er á um í 2. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr.

45/1998 og skýrist sá dráttur bæði af annríki í ráðuneytinu og frestum sem veittir voru málsaðilum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Úthlutun byggingarréttar vegna lóða nr. 2, 4 og 1 við C-götu á Kópavogstúni, sem fram fór samkvæmt

tillögum bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 8. desember 2005 og staðfest var af bæjarstjórn þann 23. janúar

2006, er ólögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

3. ágúst 2006 - Kópavogsbær - Lóðaúthlutun, jafnræðisregla, rökstuðningur, rekjanleiki stjórnsýsluákvarðana (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum