Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Grei%C3%B0slua%C3%B0l%C3%B6gunarm%C3%A1l

Nr. 139/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 139/2019

Föstudaginn 12. apríl 2019

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 2. apríl 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 25. mars 2019, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með umsókn 7. janúar 2019 leitaði kærandi greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. mars 2019 var umsókn kæranda synjað með vísan til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um heimild umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Með bréfi 1. apríl 2019 krafðist kærandi endurupptöku málsins hjá umboðsmanni skuldara með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi 2. apríl 2019 var ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun greiðsluaðlögunar frá 25. mars 2019 kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í kæru kom fram að krafa um endurupptöku málsins hefði verið send til umboðsmanns skuldara.

Með tölvupósti 8. apríl 2019 óskaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá umboðsmanni skuldara um hvort embættinu hefði borist beiðni um endurupptöku málsins. Í svari umboðsmanns skuldara sem barst úrskurðarnefndinni samdægurs kom fram að endurupptökubeiðni kæranda væri til meðferðar hjá embættinu.

II.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um synjun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. mars 2019 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað með vísan til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins krafðist kærandi endurupptöku ákvörðunarinnar með bréfi 1. apríl 2019 áður en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 2. apríl 2019.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ljóst að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá umboðsmanni skuldara, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að erindið sé til meðferðar hjá embættinu.

Þegar aðili máls sættir sig ekki við stjórnvaldsákvörðun er hægt að óska eftir endurupptöku málsins hjá stjórnvaldinu eða kæra hana til æðra stjórnvalds. Aðili máls getur ekki valið báðar þessar leiðir samtímis. Í ljósi þess að óskað var eftir endurupptöku málsins hjá umboðsmanni skuldara áður en kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála ber að mati nefndarinnar að vísa kærunni frá.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga þá rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan frestsins. Fallist stjórnvald á að endurupptaka málið hefst nýr kærufrestur þegar ákvörðun hefur verið birt kæranda. Ef beiðni kæranda verður vísað frá, til dæmis ef skilyrði fyrir endurupptöku eru ekki til staðar, heldur kærufresturinn áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar synjun um endurupptöku hefur verið tilkynnt kæranda.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir                                                                       Þórhildur Líndal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum