Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 110/2014

Mál nr. 110/2014

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 17. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. október 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. nóvember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. nóvember 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd árið 1962. Hún býr ásamt X uppkomnum dætrum sínum í eigin húsnæði að B.

Kærandi starfar sem [...]. Mánaðarlegar tekjur hennar eftir greiðslu skatta og annarra gjalda eru 118.755 krónur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 24. september 2012, eru 20.760.194 krónur, auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð 1.048.010 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2005.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til atvinnuleysis, tekjulækkunar og efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. mars 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. október 2014 var tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og 1. mgr. 16. gr. lge. Í bréfinu var vísað til þess að kærandi hefði safnað skuldum að fjárhæð 2.340.103 krónur á tímabili greiðsluskjóls, en stærsti hluti þeirra væri vegna útgjalda sem þegar væri gert ráð fyrir í útreikningum á framfærslukostnaði kæranda.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 9. október 2014 var henni kynnt fram komin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði ekki bréfi umboðsmanns skuldara.

Með ákvörðun 31. október 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og að umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa kæranda að finna lausn á sínum skuldamálum í samræmi við lge. Kröfur kæranda verður að skilja þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til hinnar kærðu ákvörðunar um að hún hafi látið undir höfuð leggjast að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld, staðgreiðslu tryggingargjalds, fasteignagjöld, vatns- og orkureikninga, reikninga frá landeigendum C og skyldutryggingar bifreiðar, samtals að fjárhæð 2.261.607 krónur.

Kærandi telur að hún hafi ekki stofnað til nýrra skulda heldur hafi verið um gjöld og skuldir að ræða sem þörfnuðust ekki aðkomu hennar. Reyndar hafi það verið kæranda ómögulegt, eðli málsins samkvæmt, að stofna ekki til nýrra skulda af þessu tagi. Það sé því rangt hjá umboðsmanni skuldara að halda því fram að kærandi hafi verið að stofna til nýrra skuldbindinga í gríð og erg. Hitt sé annað mál að kærandi hefði vel mátt vera búin að greiða umræddar skuldir.

Kærandi kveður samskipti hennar við umboðsmann skuldara hafa gengið nokkuð erfiðlega fyrir sig og embættið virtðst ekki hafa farið eftir grunnreglum stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt o.fl.

Kærandi krefst þess að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, standi yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að greiða eftirfarandi gjöld á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Þing- og sveitarsjóðsgjöld 476.809
Staðgreiðslu tryggingargjalds 679.731
Fasteignagjöld 460.325
Vatns- og orkureikninga 113.377
Reikninga frá landeigendum C 140.911
Skyldutryggingar ökutækis 390.454
Samtals 2.261.607

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi framfærslukostnað, svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað, fasteignagjöld og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun um samþykki greiðsluaðlögunar kæranda hafi verið að finna greiðsluáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir ofangreindum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði hennar. Á meðan frestun annarra greiðslna standi yfir sé skuldara þannig ætlað að standa skil á gjöldum og kostnaði vegna framfærslu, sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmiðið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu skuldara.

Umboðsmaður skuldara telji kæranda hafa brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að hafa stofnað til nýrra skulda á tímabili frestunar greiðslna, samtals að fjárhæð 2.261.607 krónur, þrátt fyrir að eiga fjármuni aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum í mánuði hverjum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar hennar.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. voru áréttaðar. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. jafnframt fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 24. september 2012 sem hafi borist kæranda í ábyrgðarpósti. Kæranda hafi því mátt vera ljóst að hún ætti að greiða tilfallandi reikninga og opinber gjöld á tímabili frestunar greiðslna og að henni væri óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Í kæru er því haldið fram að umboðsmaður skuldara virðist ekki hafa farið eftir grunnreglum stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt o.fl. Kærandi hefur engin rök fært fyrir þessari fullyrðingu eða vísað til atvika sem gætu bent til þess að málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið gætt. Þessari málsástæðu kæranda verður því hafnað.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lge. hófst tímabundin frestun greiðslna kæranda strax við móttöku umsóknar hennar um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara 10. mars 2011. Samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis eiga skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæðið.

Eins og fram hefur komið stofnaði kærandi til vanskila á opinberum gjöldum, tryggingum o.fl. eftir að umsókn hennar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var móttekin, samtals að fjárhæð 2.261.607 krónur. Þegar hafði verið gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að kostnaður vegna skyldutryggingar bifreiðar, fasteignagjöld og gjöld vegna vatns- og hita væru á meðal mánaðarlegra útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stæði yfir. Þá bar kæranda að greiða opinber gjöld sem féllu til á tímabilinu, enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi með þessu athæfi stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin fellst því á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara þess efnis að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lagaákvæðinu.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að farið sé fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem komið hefur fram fyrir hana gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þar segir að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðslu­aðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Kröfu um málskostnað er hafnað.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum