Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 113/2014

Mál nr. 113/2014

Fimmtudaginn 17. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 24. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. október 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 12. desember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. janúar 2015.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 12. febrúar 2015 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 26. maí 2015. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 1. júní 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvubréfi 5. júní 2015 tilkynnti umboðsmaður skuldara að embættið teldi ekki ástæðu til að bregðast við athugasemdum kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1980. Hann býr í leiguhúsnæði að B sem er 45 fermetrar að stærð.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 15. maí 2014, eru 11.283.221 króna. Þar af falla kröfur að fjárhæð 2.924.658 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003 til 2013.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til framfærslukostnaðar frá því að hann var í námi í C og innflutnings á bifreið til C og erfiðleika við að selja hana.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 10. apríl 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. maí 2014 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns greinir frá því að í ljós hafi komið að kærandi hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli og því brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sé miðað við þá fjárhæð sem kærandi hefði átt að eiga aflögu mánaðarlega til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, framlagðra reikninga að fjárhæð 27.480 krónur og sparnaðar að fjárhæð 50.000 krónur, hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 421.157 krónur á tíma greiðsluskjóls.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 14. október 2014 var kæranda kynnt fram komin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns skuldara með tölvubréfi 21. október 2014.

Með ákvörðun 24. október 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og umsókn hans verði samþykkt.

Kærandi greinir í kæru og í greinargerð sinni frá aðstæðum sínum og aðdraganda fjárhagserfiðleika. Þar kemur fram að fjárhagsvanda kæranda megi rekja til framfærslukostnaðar vegna náms í C en einnig að stórum hluta vegna óhagstæðra lána þar sem afborganir fóru sífellt hækkandi eftir hrunið. Þá kveðst hann hafa gert þau mistök að halda að hann hefði einungis átt að leggja til hliðar 50.000 krónur þangað til mál hans yrði afgreitt. Hann óskar þess að mál hans verði endurskoðað með tilliti til þessa misskilnings.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara, sbr. bréf embættisins til kæranda 14. október 2014, hafi greiðsluskjól kæranda staðið yfir í rúmlega fjóra mánuði en í útreikningum umboðsmanns skuldara sé miðað við tímabilið frá júní til október.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. júní 2014 til 30. september 2014 að frádregnum skatti 1.735.110
Mánaðarlegar meðaltekjur 433.778
Framfærslukostnaður á mánuði 279.924
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 153.854
Samtals greiðslugeta í fjóra mánuði 615.414

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 433.778 krónur í meðaltekjur á mánuði á fjögurra mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Umsjónarmaður hafi tekið tillit til framlagðra reikninga samtals að fjárhæð 27.480 krónur og kærandi hafi auk þess lagt 50.000 krónur til hliðar á framangreindu tímabili. Skýringar kæranda veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. eða því sem nemi 77.480 krónum. Samkvæmt framansögðu skortir því 537.934 krónur á sparnað kæranda á tímabili frestunar greiðslna. Að mati umboðsmanns skuldara verði því að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem til féllu umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

Kærandi kveðst hafa misskilið skyldur sínar og talið að hann hafi einungis þurft að leggja fyrir 50.000 krónur í eitt skipti á greiðsluaðlögunartímabilinu. Þrátt fyrir þetta sé ekki fært að líta fram hjá broti kæranda á skyldum hans samkvæmt 12. gr. lge., enda beri kærandi sjálfur ábyrgð á því að hann uppfylli allar skyldur sínar á meðan á frestun greiðslna stendur.

Umboðsmaður skuldara bendir á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hafi verið aðgengilegar upplýsingar um skyldur þeirra í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Að auki séu skyldur skuldara ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 22. maí 2014 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Kæranda hafi því mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem skyldur skuldara við greiðsluaðlögun eru tilgreindar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með hinni kærðu ákvörðun 24. október 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 10. apríl 2014 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hans með ákvörðun 22. maí sama ár. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna um leið og umsókn hans var samþykkt og frestun greiðslna hófst.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi átt að leggja til hliðar 615.414 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var fallist á að kærandi hefði þurft að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum að fjárhæð 27.480 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júní 2014 til 30. september 2014: Fjórir mánuðir
Nettótekjur 1.735.110
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 433.778

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kæranda var greiðslugeta hans þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júní 2014 til 30. september 2014: Fjórir mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 1.735.110
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 433.778
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 279.924
Greiðslugeta kæranda á mánuði 153.854
Alls sparnaður í fjóra mánuði í greiðsluskjóli x 153.854 615.414

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda ber að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Umboðsmaður skuldara hefur tekið tillit til kostnaðar kæranda að fjárhæð 27.480 krónur, sem telst vera óvæntur kostnaður í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., og verður hann því dreginn frá þeirri fjárhæð sem kærandi átti að leggja fyrir á tímabilinu.

Að þessu virtu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 587.934 krónur (615.414-27.480) á tímabili greiðsluskjóls en kærandi hefur einungis sýnt fram á sparnað að fjárhæð 50.000 krónur. Samkvæmt þessu vantar 537.934 krónur upp á þá fjárhæð sem kærandi átti að geta lagt til hliðar á tímabilinu.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna.

Með vísan til þess er að framan greinir er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum