Hoppa yfir valmynd

636/2016. Úrskurður frá 12. ágúst 2016

Úrskurður

Hinn 12. ágúst 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 636/2016 í máli ÚNU 15040010.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 30. apríl 2015 kærði A hrl. fyrir hönd Brit Insurance Ltd., QBE Insurance (Europe) Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Allianz Global Corporate & Specialty AG, Novae Syndicate 2007, Dan Re Syndicate 1400 og QBE Syndicate 1886 („kærendur“) ákvörðun Fjármálaeftirlitsins („FME“) dags. 31. mars 2015 um aðgang að gögnum í tveimur liðum.

Upphafleg gagnabeiðni kærenda, dags. 5. apríl 2013, var í 27 liðum. FME synjaði um aðgang að gögnum í liðum nr. 12, 13, 14, 16, 20, 23, 26 og 27, en leyst var úr kæru vegna synjunarinnar í úrskurði nefndarinnar nr. A-524/2014. Um rétt kærenda til aðgangs að gögnum undir liðum nr. 15, 17, 18, 19, 24 og 25 var fjallað í úrskurði nefndarinnar nr. 592/2015. Í úrskurði nr. 551/2014 var ákvörðun FME um að vísa frá beiðni um aðgang að gögnum í liðum nr. 1-11 felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar afgreiðslu stofnunarinnar. Með bréfi dags. 31. mars 2015 var að nýju tekin afstaða til hluta af liðum nr. 7 og 9 og er sú ákvörðun kærð í máli þessu. Undir lið nr. 7 var óskað eftir afritum af öllum kærum, stjórnvaldssektum, ákvörðunum FME og sáttum sem varða Landsbanka Íslands hf. Undir lið nr. 9 var óskað eftir afritum af öllum gögnum varðandi rannsóknir FME á bankanum, þar með talið vinnuskjölum, minnisblöðum og niðurstöðum eftirlitsins. Um báða töluliðina gildir að óskað var eftir gögnum á tímabilinu júlí 2007 til og með mars 2008.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að við nýja meðferð beiðni kærenda hafi FME flokkað hana eftir atriðum sem fram komu stafliðum a) til zz) í afmörkun kærenda dags. 27. maí 2013. Eftirfarandi afmörkun gæti átt við um 7. og 9. tl. beiðninnar:

c) Athuganir FME á hugsanlegum brotum í starfsemi og rekstri Landsbanka Íslands hf.

n) Markaðsmisnotkun og/eða möguleg markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands hf.

p) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum hlutafélagalaga

q) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki

r) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti

s) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um ársreikninga

t) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn lögum um bókhald

u) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði

y) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn reglum sem varðað geta hvers konar stjórnvaldssektum og/eða refsingum

ee) Brot og/eða meint brot Landsbanka Íslands hf. gegn reglum um stórar áhættur (stórar áhættuskuldbindingar) sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki

Í ákvörðun FME segir að stofnunin telji sig þegar hafa tekið afstöðu til töluliða 7 og 9 í beiðni kærenda að svo miklu leyti sem þeir varða mögulegar kærur til embættis sérstaks saksóknara. FME vísar í þessu sambandi til ákvörðunar sinnar, dags. 6. október 2014, um aðgang kærenda að gögnum undir 11. tölulið beiðninnar. Mögulegt sé að FME hafi ekki afgreitt þann þátt beiðninnar sem lýtur að vinnugögnum og minnisblöðum í 9. tl. og mögulegar kærur til annarra lögregluyfirvalda en sérstaks saksóknara í 7. tl. Því sé tekin afstaða til þeirra þátta í hinni kærðu ákvörðun. FME telur sér óheimilt að veita upplýsingar um hvaða mál séu eða hafi verið til rannsóknar hjá stofnuninni og hvaða mál hafi verið kærð eða vísað til lögregluyfirvalda með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. Ef stofnunin tæki afstöðu til beiðni um aðgang að slíkum gögnum væri um leið verið að upplýsa um hvort tiltekinn aðili hafi verið grunaður um eða kærður fyrir refsiverðan verknað. Í þessu samhengi vísar FME til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-524/2014.

Kærendur segjast vera ósammála niðurstöðu FME í hinni kærðu ákvörðun. Undir tölulið 7 hafi einnig verið óskað eftir afritum af öllum stjórnvaldssektum, ákvörðunum FME og sáttum sem varði Landsbanka. Ekki virðist tekin afstaða til þessara þátta í ákvörðun eftirlitsins. Þá benda kærendur á að með orðinu „rannsóknir“ í 9. tl. hafi verið átt við hvers konar rannsóknir sem FME framkvæmdi í tengslum við Landsbanka en stofnunin hafi kosið að líta svo á að einungis hafi verið óskað eftir gögnum um sakamálarannsóknir. Kærendur vísa til afmörkunar sinnar á lið 9, dags. 27. maí 2013, þar sem fram kemur að við eftirlit FME með starfsemi Landsbanka Íslands hf. hafi orðið til gögn hjá stofnuninni í formi vinnuskjala, minnisblaða o.fl. Að því marki sem kærendum hafi ekki þegar verið veittur aðgangur að slíkum gögnum sé óskað aðgangs að þeim.

Kærendur telja undantekningar frá upplýsingarétti sem fram koma í 6.-10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ekki eiga við í málinu og benda á að túlka ber þær þröngt og með hliðsjón af meginreglu laganna um aukinn aðgang almennings að gögnum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Sönnunarbyrðin um að ákvæðin eigi við hvíli á FME. Kærendur mótmæla þeim skilningi FME á beiðninni að hún falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Kærendur telja ljóst að gögnin varði ekki saksókn og heyri ekki undir rannsókn sakamáls, enda fari slík rannsókn fram hjá sérstökum saksóknara eða öðrum ákæruembættum. Kærendur eru ósammála því að ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 standi því í vegi að FME sé heimilt að veita upplýsingar um hvaða mál séu eða hafi verið til rannsóknar hjá stofnuninni og hvaða mál hafi verið kærð eða vísað til lögregluyfirvalda. Í fyrsta lagi sé ákvæðið almennt ákvæði um þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga en jafnvel þó svo væri ekki kveði 5. mgr. 13. gr. á um að þagnarskyldan gildi ekki um eftirlitsskylda aðila í slitameðferð. Skilyrði ákvæðisins um að upplýsingar séu veittar við rekstur einkamála sé uppfyllt í tilfelli kærenda þar sem óumdeilt sé að mál séu rekin á hendur þeim fyrir dómstólum. Kærendur hafna því að 9. gr. upplýsingalaga geti komið í veg fyrir aðgang þeirra að umbeðnum gögnum þar sem Landsbanki hafi enga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni af því að þau fari leynt. Loks byggja kærendur á því að umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis og fjölmiðla um gögnin leiði til þess að þau séu þegar opinber. Hafi yfirleitt ríkt þagnarskylda um einhver þeirra geri hún það augljóslega ekki lengur, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. janúar 2014 í máli nr. 809/2013.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 4. maí 2015 var FME kynnt kæran og veittur kostur á að senda úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að í trúnaði. Umsögn FME barst þann 19. maí 2015. Þar segir í upphafi að afgreiðsla stofnunarinnar, dags. 31. mars 2015, hafi eingöngu lotið að mögulegum kærum til annarra lögregluyfirvalda en sérstaks saksóknara í 7. tl. og að vinnugögnum og minnisblöðum í 9. tl. að svo miklu leyti sem þau gögn varði mögulegar kærur til lögregluyfirvalda. Ekki fylgdu afrit þeirra gagna sem kæra lýtur að en í umsögn kemur fram að þar sem FME hafi ekki tekið afstöðu til gagnabeiðni kærenda séu engin gögn undir í málinu sem hægt sé að afhenda.

FME krefst þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísi kærunni frá þar sem upplýsingalög gildi ekki um rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 140/2012. Kærur FME til lögregluyfirvalda og gögn sem tengist þeim falli undir ákvæðið í þeim tilfellum þar sem FME sé með lögum falin rannsókn sakamála. Um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga nr. 88/2008 um rannsókn sakamála. Í 52. gr. laganna komi fram að rannsókn sakamála sé í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Það eigi til dæmis við um brot á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. mgr. 112. gr. c. Kæra FME geti borist til lögregluyfirvalda á hvaða stigi rannsóknar sem er. Gert sé ráð fyrir að FME fari með frumrannsókn sakamála og sé lögð sú skylda á stofnunina að vísa málum til lögregluyfirvalda ef meint brot sé meiri háttar, skv. 112. gr. d. laga nr. 161/2002, sbr. einnig 12. gr. laga nr. 87/1998. Að öðrum kosti sé því lokið með stjórnvaldsákvörðun FME. Í 3. mgr. 112. gr. c. laga nr. 161/2002 sé kveðið á um að með kæru FME skuli fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Þá gildi ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um ákvörðun FME að kæra brot til lögreglu. Upplýsingaréttur almennings geti vart falið í sér víðtækari rétt til aðgangs að gögnum en felst í upplýsingarétti aðila máls, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga.

Umsögn FME var kynnt kærendum með bréfi dags. 19. maí 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar. Í athugasemdum kærenda, dags. 2. júní 2015, er lögð áhersla á þá afmörkun gagnabeiðninnar sem fram kom í kæru. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að beiðnin geti beinst að þeim gögnum sem talist geta til málsgagna við rannsókn sakamála. Hins vegar hafi verið átt við hvers konar rannsóknir sem FME framkvæmdi á Landsbankanum á tímabilinu. Kærendur telja ályktun FME ekki rétta og beri því að vísa ákvörðun varðandi tölulið 9 aftur til stofnunarinnar til nýrrar ákvörðunar og heimila kærendum aðgang að umræddum gögnum. Að öðru leyti er vísað til röksemda í kæru.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Þá hefur meðferð málsins tafist vegna anna í störfum úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kærenda til aðgangs að gögnum í vörslum FME í tveimur liðum sem voru orðaðir með eftirfarandi hætti í upphaflegri gagnabeiðni kærenda dags. 5. apríl 2013:

7. Afrit af öllum kærum, stjórnvaldssektum, ákvörðunum FME og sáttum sem varða Landsbanka.

9. Afrit af öllum gögnum varðandi rannsóknir FME á Landsbanka, þar með talið vinnuskjölum, minnisblöðum og niðurstöðum FME.

Af hálfu FME hefur komið fram að með hinni kærðu ákvörðun hafi beiðni kærenda um framangreind gögn verið afgreidd að hluta, þ.e. að svo miklu leyti sem 7. tl. nær til mögulegra kæra til annarra lögregluyfirvalda en sérstaks saksóknara og 9. tl. til vinnugagna og minnisblaða sem varða mögulegar kærur til lögregluyfirvalda. Þá hafi beiðni kærenda eftir töluliðunum verið afgreidd í samræmi við nánari afmörkun kærenda, dags. 27. maí 2013, þannig að þeir nái til eftirfarandi stafliða:

c) Athuganir FME á hugsanlegum brotum í starfsemi og rekstri Landsbanka Íslands hf.

n) Markaðsmisnotkun og/eða möguleg markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands hf.

p) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum hlutafélagalaga

q) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki

r) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti

s) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn ákvæðum laga um ársreikninga

t) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn lögum um bókhald

u) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði

y) Hugsanleg brot Landsbanka Íslands hf. gegn reglum sem varðað geta hvers konar stjórnvaldssektum og/eða refsingum

ee) Brot og/eða meint brot Landsbanka Íslands hf. gegn reglum um stórar áhættur (stórar áhættuskuldbindingar) sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki

Þessi afmörkun FME hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærenda, utan að þeir telja FME ekki hafa sinnt beiðni sinni um afrit af öllum gögnum um rannsóknir stofnunarinnar á Landsbankanum á tímabilinu júlí 2007 til og með mars 2008. Með orðinu „rannsóknir“ í 9. tölulið beiðninnar hafi ekki eingöngu verið átt við rannsóknir sakamála heldur hvers konar rannsóknir sem stofnunin framkvæmdi á tímabilinu.  

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014.

Fjármálaeftirlitið er stjórnvald sem fylgist með starfsemi eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1998, og athugar rekstur þeirra svo oft sem þurfa þykir, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt fara dag hvern fram ýmsar athuganir og kannanir af hálfu FME á starfsemi eftirlitsskyldra aðila, þar á meðal á Landsbankanum á tímabilinu júlí 2007 til mars 2008, án þess að þær geti beinlínis talist til rannsókna sakamála. Ekki er að finna skilgreiningu á hugtakinu „rannsókn“ í löggjöf sem unnt er að styðjast við og af gagnabeiðni kærenda, sbr. einnig afmörkun hennar dags. 27. maí 2013, verður ráðið að hugtakið sé notað í afar víðtækri merkingu. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kærenda um afrit allra gagna varðandi aðrar rannsóknir FME á Landsbanka en sakamálarannsóknir á tilteknu tímabili, sbr. 9. tl. beiðni þeirra, ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að FME sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Verður kæru vísað frá að því er þennan hlut málsins varðar.

2.

Eftir stendur að skera úr um rétt kærenda til aðgangs að gögnum undir töluliðum 7 og 9 að því leyti sem þeir varða mögulegar kærur FME til lögregluyfirvalda.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“


Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, segir:


„Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.“


Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar í fyrri úrskurðum að ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 teljist sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þá hefur orðasambandið „óviðkomandi aðilum“ verið skýrt með þeim hætti að átt sé við aðila sem ekki er gert ráð fyrir í lögum að FME miðli upplýsingum til. Ljóst er að kærendur teljast til óviðkomandi aðila í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, en hins vegar er deilt um hvort ákvæði 5. mgr. 13. gr. laganna eigi við í málinu.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um samkvæmt 1. mgr., þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram. Það er skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 að upplýst sé um atriði, sem þagnarskylda 1. mgr. gildir um, við rekstur einkamála. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að skýra þennan áskilnað svo að átt sé við gagnaöflun sem fram fer fyrir dómi innan ramma laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beiðni um afhendingu gagna, sem beint er til stjórnvalds á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum, verður ekki jafnað til reksturs einkamáls í þessum skilningi. Ákvæði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 ber að skýra með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga og getur í þessu samhengi engu breytt þó kærendur hyggist leggja gögnin fyrir dóm í einkamálum sem þeir eru aðilar að. Öndverð skýring myndi leiða til þess að réttarvernd 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 væri fyrir borð borin, þar sem almenningi væri í lófa lagið að krefjast aðgangs að gögnum sem þagnarskylda ákvæðisins ríkir um í þeim yfirlýsta tilgangi að leggja þau fyrir dóm í einkamáli. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að eins og á stendur þurfi að meta hvort umbeðin gögn séu háð þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, án tillits til þeirrar heimildar sem 5. mgr. ákvæðisins mælir fyrir um.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun um beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir nefndina. Af ákvæðum 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. laganna leiðir að upplýsingaréttur tekur til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum tiltekinna mála. Þá geta upplýsingar um hvort tiltekið mál, er snertir ákveðna einstaklinga, sé eða hafi verið til meðferðar hjá stjórnvaldi fallið undir 9. gr. upplýsingalaga, til að mynda þegar málið varðar viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra. Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður eða ákærður fyrir refsiverðan verknað teljast tvímælalaust til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. t.d. b.-lið 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. 

Af efnisreglu 9. gr. upplýsingalaga og þeim sjónarmiðum sem ákvæðið byggir á leiðir samkvæmt framangreindu að FME er ekki heimilt að veita almenningi upplýsingar um hvort tiltekin háttsemi hafi veitt stofnuninni tilefni til að kæra eða vísa máli til lögregluyfirvalda. Sama niðurstaða leiðir af þagnarskylduákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. Verður því staðfest ákvörðun FME um að taka ekki afstöðu til beiðni kærenda um aðgang að gögnum undir töluliðum 7 og 9 í beiðni þeirra að því leyti sem þeir varða mögulegar kærur til lögregluyfirvalda. Er þessum hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál og málinu því í heild sinni, sbr. niðurstöðu í lok 1. tl. hér að framan.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að ekki hafi verið sýnt fram á að með umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu nefndarinnar, sem virðist að einhverju leyti byggð á umbeðnum gögnum, eða eftirfarandi fréttaflutningi fjölmiðla, hafi þeir hagsmunir sem búa að baki þagnarskyldu FME á grundvelli laga nr. 87/1998 eða 9. gr. upplýsingalaga fallið niður.

Það athugast að umsögn FME fylgdi ekki afrit umbeðinna gagna sem nefndin óskaði eftir á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í skýringum stofnunarinnar segir að þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til beiðni kærenda um aðgang að gögnum séu engin gögn undir í málinu sem hægt sé að afhenda. Í þessu samhengi áréttast að skylda stjórnvalda til að afhenda úrskurðarnefndinni afrit er óháð mati þeirra á efni gagnanna. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tekin afstaða til beiðninnar á þeirri forsendu að stofnuninni væri óheimilt að veita upplýsingar um hvort umbeðin gögn væru til eða ekki. Sömu sjónarmið gilda ekki um afhendingu afrita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, heldur ber að láta nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæra lýtur að og eru fyrirliggjandi. Með hliðsjón af úrslitum málsins að öðru leyti þótti hins vegar ekki tilefni til að ítreka ósk úrskurðarnefndarinnar um afrit umbeðinna gagna.

Úrskurðarorð:

Kæru Brit Insurance Ltd., QBE Insurance (Europe) Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Allianz Global Corporate & Specialty AG, Novae Syndicate 2007, Dan Re Syndicate 1400 og QBE Syndicate 1886, dags. 30. apríl 2015, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum