Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 48/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 48/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, A, um greiðslur atvinnuleysistrygginga var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 12. maí 2015 en hann var ekki talinn eiga rétt á afturvirkum greiðslum. Kærandi vildi ekki una ákvörðun stofnunarinnar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 20. maí 2015. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur í tímann. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 22. apríl 2015. Með bréfi, dags. 30. apríl 2015, frá fulltrúa Vinnumálastofnunar f.h. kæranda var óskað eftir því að hann fengi greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir dagsetningu á umsókn hans. Umsókn kæranda var samþykkt frá umsóknardegi, þ.e. frá 22. apríl 2015, á fundi stofnunarinnar þann 12. maí 2015.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi farið tímabundið í starf til B sem C þann 7. janúar 2015. Það verkefni hafi ekki gengið upp og hann hafi komið til baka til Íslands þann 15. febrúar. Hann hafi þurft að byrja á því að skrá sig aftur í íslenska kerfið og hafi svo haft samband við Vinnumálastofnun símleiðis til þess að kanna rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Hann hafi fengið þær skýringar að hann þyrfti að bíða í sex til átta vikur áður en hann gæti skráð sig. Hann hafi beðið samviskusamlega í þessar átta vikur og síðan komið á skrifstofu Vinnumálastofnunar á D til að skrá sig inn. Þar hafi honum verið tjáð að hann hefði átt að skrá sig inn strax og það tæki síðan u.þ.b. sex vikur að fá greitt. Honum hafi fundist þetta stangast á við þær upplýsingar sem hann hafi fengið frá þjónustuveri Vinnumálastofnunar og óskað eftir því að fá skráningu afturvirkt, eða frá þeim degi sem hann hafi haft samband fyrst. Niðurstaða Greiðslustofu sé sú að beiðni hans um opnun lotu afturvirkt hafi verið hafnað og þær skýringar sem hann hafi sent inn ekki metnar gildar.

Hann sé mjög ósáttur við þessa niðurstöðu og telji að hann ætti að njóta vafans þar sem ekki sé hægt að hlusta á símtalið.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. júlí 2015, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir dagsetningu umsóknar hans um atvinnuleysisbætur. Kærandi geri kröfu um að fá greiddar atvinnuleysisbætur afturvirkt en ekki sé sérstaklega tilgreint í kæru frá hvaða degi skuli miða greiðslur til hans.

Þá segir að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það meginregla varðandi greiðslu atvinnuleysistrygginga að umsækjandi um atvinnuleysisbætur fái ekki greitt fyrr en frá umsóknardegi. Hinn tryggði geti fyrst átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá þeim degi sem Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ekki einungis fjallað um umsókn um atvinnuleysistryggingar. Í ákvæðinu segi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Einnig segi að umsókn skuli vera skrifleg og að nauðsynleg gögn skuli fylgja með umsókn.

Það sé grundvallarskilyrði til þess að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Stofnuninni sé ómögulegt að greiða atvinnuleysisbætur til einstaklinga sem ekki séu skráðir atvinnulausir hjá stofnuninni. Stofnunin hafi ekki forsendur til að greiða bætur til atvinnuleitanda nema fyrir liggi samþykkt umsókn. Vinnumálastofnun vísi til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í viðlíkum málum eins og t.d. nr. 29/2009, 136/2011 og 154/2013.

Í kæru til úrskurðarnefndar beri kærandi fyrir sig að rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun hafi orsakað tafir á því að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Kærandi segi að hann hafi hringt í þjónustuver Vinnumálastofnunar rétt eftir að hann hafi snúið aftur til Íslands þann 15. febrúar 2015. Í símtali við ótilgreindan starfsmann Vinnumálastofnunar hafi honum verið tjáð að kærandi þyrfti að bíða í 6-8 vikur áður en hann gæti sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun fallist ekki á rökstuðning kæranda fyrir kæru sinni. Ekki séu fyrir hendi nein gögn sem styðji fullyrðingar kæranda um að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi tjáð honum að bíða í sex til átta vikur áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Það verði einnig að teljast afar ótrúverðugt að fulltrúi stofnunarinnar hafi svarað kæranda með þessum hætti. Ómögulegt sé að finna rök fyrir því að atvinnuleitandi bíði í óráðinn tíma eftir því að sækja um hjá stofnuninni. Starfsfólk stofnunarinnar sé þar að auki vel meðvitað um að atvinnuleysistryggingar séu aðeins greiddar frá umsóknardegi. Fyrirspurnir um umsóknarferlið séu algengar og umsækjendum sé alltaf leiðbeint að þeir geti í fyrsta lagi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem þeir staðfesti og sendi umsókn sína. Þessar upplýsingar megi einnig finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun bendi einnig á að kærandi hafi þrisvar áður sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni og honum ætti því að vera ljóst að greiðslur atvinnuleysistrygginga miði við umsóknardag.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júlí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þann 28. júlí 2015 bárust athugasemdir frá kæranda. Í þeim kemur fram að starfsfólk Vinnumálastofnunar sé ekki hafið yfir gagnrýni. Það mætti fara í tvígang yfir hluti í símanum og spyrja hvort þeir hafi komist til skila. Þeir sem leiti til stofnunarinnar séu oft ekki í góðu jafnvægi. Þá segir kærandi að þrátt fyrir að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur áður þá sé þetta í fyrsta skiptið sem hann komi að utan og skrái sig. Honum hafi ekki verið bent á að koma með U-1 eyðublað að utan.

2. Niðurstaða

Í máli þessu var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur samþykkt og honum greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi. Kærandi óskar hins vegar eftir að fá greiddar bætur lengra aftur í tímann og ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt til þess.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt framangreindu á atvinnuleitandi einungis rétt á bótum frá þeim tíma sem Vinnumálastofnun móttekur umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kærandi byggir hins vegar á því að hann hafi beðið í átta vikur með að sækja um atvinnuleysisbætur eftir að hann flutti til baka til Íslands þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar frá Vinnumálastofnun að hann þyrfti að bíða í sex til átta vikur með að skrá sig. Engin gögn liggja fyrir um umrædd samskipti kæranda við Vinnumálastofnun. Í ljósi þess er erfitt að segja til um hvað fór nákvæmlega fram á milli kæranda og starfsmann Vinnumálastofnunar þegar hann spurðist fyrir um bótarétt sinn. Þar sem það liggur ekki skýrt fyrir að kærandi fékk rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun verður ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda ekki hnekkt á þeim grundvelli.

Að framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar um upphafstíma greiðslu atvinnuleysisbóta til A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum